Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Menntaráð

Ár 2008, 25. ágúst kl. 13:00 var haldinn 80. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Anna Margrét Ólafsdóttir, Oddný Sturludóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir og Helga Björg Ragnarsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Ásta Þorleifsdóttir, áheyrnarfulltrúi F-lista, Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur, Jónína Emilsdóttir, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundargerð ritaði Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 22. ágúst sl. um kosningu sjö manna í menntaráð til loka kjörtímabilsins og sjö til vara.
Formaður var kjörinn Kjartan Magnússon.
Menntaráð skipa: Til vara:
Kjartan Magnússon Elínbjörg Magnúsdóttir
Marta Guðjónsdóttir Ingunn B. Vilhjálmsdóttir
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Einar Örn Ævarsson
Anna Margrét Ólafsdóttir Stefán Þór Björnsson
Oddný Sturludóttir Felix Bergsson
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir Eva Kamilla Einarsdóttir
Helga Björg Ragnarsdóttir Friðrik Dagur Arnarsson
Áheyrnarfulltrúi var tilnefndur Ásta Þorleifsdóttir.

2. Kosning varaformanns menntaráðs.
Formaður lagði til að Lilja Dögg Alfreðsdóttir yrði kjörin varaformaður ráðsins.
Samþykkt.

3. Ákveðið að næsti fundur menntaráðs verði þriðjudaginn 9. september nk. kl. 10.00 – 13.00. Starfsdagur ráðsins verður haldinn miðvikudaginn 3. sept. nk. kl. 13.00 – 21.00.

4. Lagt fram bréf fræðslustjóra um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, eitt mál.

5. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að beina því til borgarráðs að byggð verði allt að 300 fermetra fjölnota viðbygging við Korpuskóla, sem verði tilbúin við upphaf skólaárs 2010 -2011.
Greinargerð fylgir.
Áheyrnarfulltrúar SAMFOKs og Kennarafélags Reykjavíkur óskuðu bókað:
Viðbygging við Korpuskóla er alger forsenda fyrir því að hægt sé að vinna faglegt skólastarf í anda þeirrar hugmyndafræði sem hönnun og faglegt innihald skólans byggja á. Færa má fyrir því gild rök að færanlegar kennslustofur Korpuskóla séu ekki aðeins úr sér gengnar heldur ónýtar og heilsuspillandi. Er þar vísað í skýrslur Sylgju Daggar Sigurjónsdóttur líffræðings sem gerði úttekt á húsnæðinu. Það er á ábyrgð menntaráðs að grunnskólastarf fari ekki fram í heilsuspillandi húsnæði. Því er ítrekuð ósk fulltrúa foreldra í menntaráði frá 65. fundi ráðsins um að óháður aðili verði fenginn til að meta ástand skólahúsnæðis í Reykjavík, með sérstakri áherslu á eldra húsnæði og færanlegar kennslustofur. Fulltrúar foreldra og kennara í menntaráði krefjast þess ennfremur að vinnuferlar heilbrigðiseftirlits borgarinnar, sem sjá um heilbrigðiseftirlit í grunnskólum borgarinnar, verði endurskoðaðir strax.
Áheyrnarfulltrúi F-lista óskaði bókað:
Korpuskóli er nýr skóli í borginni. Það sætir furðu að skólinn skuli ekki hafa verið hannaður með tilliti til nemendafjölda og þarfa kennslugreina. Viðbygging við skólann er því brýn nauðsyn fyrir skólastarfið. Í ljósi fyrirliggjandi hugmynda um unglingaskóla í norðanverðum Grafarvogi er ítrekað að safnskóli á unglingastigi kemur mun betur til móts við þarfir unglinga í Staðahverfi, hvort sem er menntun eða félagslegt umhverfi þar sem hægt væri að bjóða mun öflugri fagkennslu, fleiri valgreinar og stærri nemendahópa. F-listinn mælir því eindregið með því að jafnhliða því að hugað sé að stækkun skólans verði kostir safnskóla á unglingastigi kannaðir til hlítar fyrir unglinga í Staðahverfi.
Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð felur fræðslustjóra að skoða fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits í skólum, m.a. hvernig staðið er að eftirliti og verkferlum. Minnisblað með niðurstöðum fræðslustjóra verði lagt fyrir menntaráð.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna því að tillaga að lausn á húsnæðisvanda Korpuskóla liggi fyrir með því að byggt verði við skólann og húsnæðisþörf nemenda hafi verið leyst enda ljóst að skólahúsnæðið var of lítið frá upphafi.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Sú lausn að flytja Korpskælingja á unglingastigi í Víkurskóla er vel viðunandi enda brýnt að engin truflun verði á þeirra skólagöngu þrátt fyrir óviðunandi ástand í húsnæðismálum Korpuskóla. Endurskoða þarf þær forsendur sem beitt er við spár um íbúaþróun til að tryggja það að ákvarðanir menntaráðsfulltrúa og stefnumótandi aðila séu byggðar á réttum forsendum. Brýnt er að hönnun væntanlegrar viðbyggingar taki mið af því að hún geti nýst undir fjölþætta starfsemi ef nemendafjöldinn fer niður á við.

6. Lögð fram skýrslan Mat á verkefninu músíkalskt par, dags. júlí 2008, sem Ísmat vann fyrir Reykjavíkurborg. Sigríður Sigurðardóttir og Björk Ólafsdóttir matsfulltrúar frá Ísmati kynntu niðurstöður og svöruðu fyrirspurnum ásamt forstöðumanni tónlistarmála hjá Menntasviði.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar niðurstöðum matsins á verkefninu músíkalskt par. Þar kemur fram almenn ánægja með verkefnið. Matið staðfestir að þau markmið sem farið var af stað með hafa náðst í meginatriðum. Menntaráð hvetur til áframhaldandi samstarfs tónlistarskóla og grunnskóla um öflugt tónlistarstarf fyrir nemendur grunnskóla Reykjavíkur.

7. Lagt fram minnisblað um stöðu í starfsmannamálum 20. ágúst 2008.

8. Lögð fram skýrsla Viðhorf forráðamanna nemenda til skólastarfs 2008. Deildarstjóri tölfræði og rannsóknaþjónustu kynnti helstu niðurstöður og svaraði fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar framkvæmd könnunar sem framkvæmd var af Menntasviði og fjallar um viðhorf foreldra til skólastarfs í grunnskólum. Meginniðurstöður eru ánægjulegar, þ.e. 78#PR forráðamanna eru mjög eða frekar ánægðir með grunnskóla Reykjavíkurborgar. Gott og náið samstarf milli heimilis og skóla leggur grunn að farsælli skólagöngu barna. Menntaráð telur brýnt að haldið verði áfram að framkvæma slíkar kannarnir og nota ber niðurstöðurnar í framtíðarstefnumótun menntamála hjá Reykjavíkurborg.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra í menntaráði þakkar vel unna skýrslu á viðhorfum forráðamanna nemenda til skólastarfs 2008. Ánægjulegt er að sjá jákvæða þróun á ýmsum sviðum skólastarfsins og mikilvægt að niðurstöður könnunarinnar verði áfram nýttar á uppbyggilegan hátt.

9. Bókun menntaráðs, áheyrnarfulltrúa F-lista, Kennarafélags Reykjavíkur, Skólastjórafélags Reykjavíkur og SAMFOKs:
Fulltrúarnir þakka þeim borgarbúum og öðrum gestum sem heimsóttu Miðbæjarskólann á menningarnótt laugardaginn 23. ágúst sl. Fullt hús var í Miðbæjarskólanum á menningarnótt og greinilegt að skólinn á sér djúpar rætur í menningu Reykjavíkurborgar. Margir sem lögðu leið sína til okkar nutu sjálfir menntunar í þessari byggingu. Sögurnar sem gestir sögðu af eigin skólavist sendu okkur afdráttarlaust þau skilaboð að skólinn er ein af meginstoðum samfélagsins.
Það er ótrúlegt en satt að með samstilltu átaki starfsmanna Mennta- og Leikskólasviðs og ÍTR tókst að breyta skrifstofubyggingu Reykjavíkurborgar í lifandi skóla á fáeinum klukkutímum. Þetta sýnir í hnotskurn mikla nálægð starfsfólksins við grunn– og leikskóla borgarinnar. Það er ekki amalegt að Menntasvið og Leikskólasvið Reykjavíkur fái notið þess að vinna í þessari byggingu sem minnir stöðugt á til hvers og fyrir hvern skóli er. Byggingin minnir okkur öll líka á hversu mikið forfeður okkar lögðu á sig til að barnaskólalærdómur yrði fyrir alla Reykvíkinga, óháð stétt eða stöðu.

10. Kynntir fyrirhugaðir fundir formanns menntaráðs og fræðslustjóra með foreldrum grunnskólabarna um skólamál í hverfum borgarinnar í september og október nk.

Fundi slitið kl. 16:15

Kjartan Magnússon
Lilja Dögg Alfreðsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Oddný Sturludóttir
Bryndís Í. Hlöðversdóttir Helga Björg Ragnarsdóttir