Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2010, 19. maí kl. 14.00 var haldinn 79. fundur leikskólaráðs í boði leikskólans Vinagarðs í húsnæði KFUM og K, Holtavegi 28. Fundinn sátu: Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Einar Örn Ævarsson, Oddný Sturludóttir, Helga Vala Helgadóttir og Hermann Valsson. Auk þeirra sat fundinn Þórunn Gyða Björnsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna Helga Sigfúsdóttir fulltrúi starfsmanna í leikskólum og Friðgeir Ásgeirsson fulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Auður Jónsdóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundargerð ritaði Guðrún Hjartardóttir.
Þetta gerðist:
Leikskólinn Vinagarður skoðaður.
Kynntar voru námsleiðir í menntun leikskólakennara við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Kristín Karlsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir kynntu.
Lagðar fram til samþykktar reglur um dagforeldra.Samþykkt einróma.
Fulltrúi dagforeldra, Helga Kristín Sigurðardóttir sat undir þessum lið.
Kynnt var staðan á verkefnum starfshóps um starfsumhverfi í leikskólum, Hildur Skarphéðinsdóttir kynnti.
Lögð fram til samþykktar tillaga um sérhæfða leikskóla sem lögð var fram til kynningar á 78. fundi.
Samþykkt einróma.
Lagt fram minnisblað um verkefnið Börnin í borginni.
Lagðar fram til samþykktar tillögur um verðlaunahafa hvatningarverðlauna leikskólaráðs. Tilnefningar voru samtals 22 og lagði nefnd um hvatningarverðlaun fram tillögu að 6 verðlaunahöfum. Allar tillögur samþykktar einróma. Verðlaunin verða afhent 26. maí.
Lagður fram úrskurður samgöngu- og sveita stjórnarráðuneytisins frá 11. maí 2010 í stjórnsýslumáli nr. 66/2009 Guðrún H. Björgvinsdóttir gegn Reykjavíkurborg.
Lagt fram bréf frá starfsfólki leikskólans Klambra ásamt svarbréfi frá sviðsstjóra Leikskólasviðs, til starfsfólks leikskólans.
Lagt fram minnisblað um stöðu starfshópa á vegum leikskólaráðs.
Lögð fram drög að ársskýrslu Leikskólasviðs 2009.
Lagt fram erindisbréf um foreldramálþing.
Minnt á Stóra leikskóladaginn 5. júní.
Lagðar fram tillögur leikskólaskrifstofu um ný rekstrarleyfi til sjálfstætt starfandi leikskóla. Samþykktar með 5 atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá.
Svar við fyrirspurn fulltrúa leikskólastjóra frá 78. fundi, um hvort leikskólaráð hafi áform um að leggja niður stöður aðstoðarleikskólastjóra.
Ekki er verið að leggja niður stöður aðstoðarleikskólastjóra. Starfshópur um starfsumhverfi er með það verkefni að skoða hugsanlegan samrekstur leikskóla og á meðan sú vinna er í gangi eru ekki ráðnir aðstoðarleikskólastjórar, heldur staðgenglar leikskólastjóra.
Kl. 16.10 vék Ragnar Sær Ragnarsson af fundi.
Kl. 16.20 vék Oddný Sturludóttir af fundi.
Kl. 16.25 vék Einar Örn Ævarsson af fundi.
Fulltrúi samtakanna Börnin okkar, lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir:
Er þetta í fyrsta sinn síðan að könnun Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins var birt í maí 2009 sem Reykjavíkurborg/Leikskólasvið hefur kannað þætti sem varðar eldvarnir á leikskólum?
Þýðir svar Leikskólasviðs við annarri fyrirspurn Barnanna okkar, sem lagðar voru fram í leikskólaráði 21. apríl 2010 að aðalskoðun skv. reglugerð 942/2002 og 607/2005 hafi aldrei farið fram? og ef svo er ekki Hvenær var síðasta aðalskoðun framkvæmd.
Börnin okkar óska eftir því að Leikskólasvið safni saman skráningum sem leikskólastjórar eiga að gera skv. lið 5.4 í reglugerð fyrir starfsleyfisskilyrði leikskóla og skóla varðandi skráningu á slysum og óhöppum hjá börnum á leikskólum. Börnin okkar óska eftir afrit af þessari samantekt.
Varðandi störf starfshóps um lágmarksfermetra á barn þá hefur þessi hópur verið starfandi í langan tíma. Um hann viljum við spyrja: Hvenær hóf hópur störf og hvenær er áætlað að þeim ljúki? hverjir eru í hópnum? hversu oft hittist hann (í heild)? Er einhver ástæða fyrir því að starf hópsins hefur dregist á langinn?
Einnig viljum við í sambandi við vinnu þessa starfshóps benda á að liður 2.4 í í reglugerð fyrir starfsleyfisskilyrði leikskóla og skóla kveður á um að „húsnæði leikskóla skal miðað við að leikrými sé a.m.k. 3 fm fyrir hvert barn#GL, og spyrja í kjölfarið: Gildir þessi reglugerð ekki þar til annað hefur verið ákveðið? Hefur Reykjavíkurborg leyfi til að reka leikskóla í trássi við þessa reglugerð?
Fulltrúi samtakanna Börnin okkar lagði fram eftirfarandi tillögu:
Samkvæmt reglugerð nr. 942/2002 og reglugerð nr. 607/2005 (síðari breytingar) mega þeir einir framkvæma aðalskoðun sem hlotið hafi faggildingu til þess. Í lagaumhverfi okkar á Íslandi þýðir faggildin eða fagilt skoðun að óháður aðili eigi að framkvæma úttekt. Því er ekki fullnægjandi að Reykjavíkurborg, sem rekur leikskólana, framkvæmi einnig úttekt á leikskólum. Við hjá Börnunum okkar leggjum til að Leikskólaráð feli borgarlögmanni að kanna lögmæti þess að Framkvæmdasvið sjái um aðalskoðun.
Tillagan var samþykkt.
Fulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi tillögu:
Borgarlögmaður hefur sent Leikskólaráði umsögn um réttmæti systkinaforgangs, að beiðni fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu. Í áliti borgarlögmanns má sjá að rökin fyrir ákvörðun um afnám systkinaforgangs í leikskólum hafi fyrst og fremst lotið að því að hún gengi í berhögg við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Er fjallað ítarlega um mikilvægi þess að jafnræði ríki meðal allra barna sem sækja um í leikskólum borgarinnar. Fulltrúar Samfylkingarinnar benda á mikilvægi þess að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sé einnig haldið til haga við ákvarðanir er lúta að hagsmunum barna í borginni. Meðalhófsreglan gengur út á að stjórnvald gæti meðalhófs við ákvarðanir og vegi og meti þá hagsmuni sem verið er að fást við, og taka ákvörðun um. Hagsmunir ungs barns sem byrjar á leikskóla af því að fá að vera í nánasta umhverfi við eldra systkini, í umhverfi sem það þekkir sökum tíðra heimsókna með eldra systkini, verður að telja meiri en hagsmunir barns sem ekki þekkir til leikskólans af því að komast inn á þann tiltekna leikskóla. Því leggja fulltrúar Samfylkingar til að reglan um systkinaforgang verði skoðuð að nýju með tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Tillögu frestað.
Fundi slitið kl. 16.40
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Fanný Gunnarsdóttir Helga Vala Helgadóttir
Hermann Valsson