Skóla- og frístundaráð
Menntaráð
Ár 2008, 11. feb. kl. 13:20 var haldinn 69. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins á Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Júlíus Vífill Ingvarsson formaður, Ásta Þorleifsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Bolli Thoroddsen, Oddný Sturludóttir, Helga Björg Ragnarsdóttir og Margrét K. Sverrisdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Lilja Dögg Alfreðsdóttir áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks, Sigrún Ólafsdóttir og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúar Kennarafélags Reykjavíkur, Jónína Emilsdóttir áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundargerð ritaði Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 25. janúar sl. um kosningu sjö manna í menntaráð til loka kjörtímabilsins og sjö til vara.
Formaður var kjörinn Júlíus Vífill Ingvarsson.
Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 5. febrúar sl. þar sem tilkynnt er að Ásta Þorleifsdóttir taki sæti í menntaráði í stað Egils Arnar Jóhannessonar.
Menntaráð skipa:
Júlíus Vífill Ingvarsson
Bolli Thoroddsen
Marta Guðjónsdóttir
Ásta Þorleifsdóttir
Oddný Sturludóttir
Helga Björg Ragnarsdóttir
Margrét Sverrisdóttir
Varamenn:
Áslaug Friðriksdóttir
Katrín Helga Hallgrímsdóttir
Ingunn B. Vilhjálmsdóttir
Kolbeinn Guðjónsson
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
Friðrik Dagur Arnarson
Felix Bergsson
2. Kosning varaformanns menntaráðs.
Formaður lagði til að Ásta Þorleifsdóttir yrði kjörinn varaformaður ráðsins.
Samþykkt.
3. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 25. janúar sl. þar sem tilkynnt er að Lilja Dögg Alfreðsdóttir sé tilnefnd áheyrnarfulltrúi Framsóknarflokks í menntaráð og Anna Margrét Ólafsdóttir til vara.
4. Lögð fram skýrsla Skólahald í Úlfarsárdal og minnisblað um framtíðarsýn fyrir grunnskóla í Úlfarsárdal. Verkefnastjóri á skrifstofu fræðslustjóra gerði nánari grein fyrir málinu.
Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Framtíðarsýn fyrir grunnskóla í Úlfarsárdal.
Grunnskólar í Úlfarsárdal verði hvattir til að móta sér sérstöðu innan áhersluþáttanna: Listir og lýðheilsa - Náttúra og umhverfi - Læsi, lesskilningur og bókmenntir.
Grunnskólarnir fjórir í Úlfarsárdal starfi í náinni samvinnu og rauður þráður í skólastarfinu verði listir og lýðheilsa. Þeir verði leiðandi í náttúruvísindum og sérstaklega umhverfismennt. Læsi, lesskilningur og bókmenntir verði þriðji áhersluþátturinn í skólastarfinu.
Mannréttindi, mannauður og virðing verði ríkjandi í starfi skólanna fjögurra. Lögð verði áhersla á að virða styrkleika nemenda, þroska þá og efla.
Skóladagur nemenda verði heildstæður, leitað verði leiða til að samþætta tómstunda- og íþróttastarf nemenda og tengja það skólastarfi og frístund. Einnig verði leitað leiða til að sama starfsfólk starfi í skólastarfi og frístund.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F–lista lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð felur fræðslustjóra í samstarfi við sviðsstjóra ÍTR og mannauðsstjóra Ráðhúss að stofna starfshóp sem hefur það að markmiði að finna leiðir til að samræma ráðningar starfsmanna í grunnskólum og á frístundaheimilum.
Greinagerð fylgir.
Samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Margrét Sverrisdóttir og áheyrnarfulltrúi Framsóknar óskuðu bókað:
Framtíðarsýn fyrir grunnskóla í Úlfarsárdal var unnin í meirihlutatíð Tjarnarkvartettsins og fulltrúar minnihlutans fagna því að ekki sé horfið frá henni.
Listir og lýðheilsa, umhverfismennt, læsi, lesskilningur og bókmenntir verða undirstöður skólastarfs í Úlfarsárdal.
Framtíðarsýnin boðar nýja og spennandi tíma hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar þar sem skapandi skólastarf, fjölbreytileiki og markmið um innihaldsríkan skóladag eru í hávegum höfð. 21. öldin er öld hinna skapandi atvinnugreina og því ákaflega spennandi tækifæri að byggja upp skólastarf í nýjum skólum með sköpun sem rauðan þráð. Skýr krafa foreldrasamfélagsins er um heildstæðan skóladag og því afar brýnt að borgaryfirvöld stígi stærri skref í átt til raunverulegrar samþættingar tómstunda og náms.
Framtíðarsýn fyrir grunnskóla í Úlfarsárdal táknar byltingu í þeim efnum og lýsir djörfung fræðsluyfirvalda hjá Reykjavíkurborg.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F-lista óskuðu bókað:
Í meirihlutatíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks var stofnaður starfshópur um væntanlegt skólahald í Úlfarsárdal skv. „Design down” ferli. Hópurinn lagði upp með að listir, lýðheilsa og náttúra yrðu höfuðáherslur í skólastarfi á námssvæðinu. Við meirihlutaskipti var bætt inn áherslu á læsi, lesskilning og bókmenntir. Fulltrúar meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks fagna þessum hugmyndum og telja að þær muni auðga og efla skólastarfið, auk þess að auka sveigjanleika, sjálfstæði og fjölbreytni í samræmi við áherslur meirihlutans.
5. Samþykkt breyting á skipan kjörinna fulltrúa í vinnuhóp um málefni barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur. Eftirtaldir kjörnir fulltrúar munu skipa hópinn: Marta Guðjónsdóttir, formaður, Ásta Þorleifsdóttir og Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
6. Samþykkt breyting á skipan kjörinna fulltrúa í aðgerðahóp PISA. Eftirtaldir kjörnir fulltrúar munu skipa hópinn: Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður, Ásta Þorleifsdóttir og Oddný Sturludóttir.
7. Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Margrét Sverrisdóttir og áheyrnarfulltrúi Framsóknar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
Á kjördæmisráðsþingi Sjálfstæðisflokks í Reykjavík í lok janúar sagði formaður menntaráðs, Júlíus Vífill Ingvarsson, að hann: „bindi vonir við að komandi kjarasamningar skili þeim árangri að betur takist að manna grunnskóla borgarinnar.” Jafnframt sagði hann: „Lág kennaralaun séu einn helsti vandi skólanna. Nú vanti kennara og annað starfsfólk í meira en helming grunnskólanna í borginni. Lág laun kennara væru vandamál í grunnskólunum og að fólk fengist ekki til starfa fyrir þau laun sem í boði séu nú.”
Á fundi í Valhöll þann 2. febrúar gaf menntamálaráðherra ótvírætt til kynna að laun kennara þyrftu að hækka.
Í ljósi þessara yfirlýsinga eru eftirfarandi fyrirspurnir lagðar fram:
1) Hvernig hyggst meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista beita sér til að efna þessar yfirlýsingar formanns menntaráðs?
2) Mun meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista í Reykjavíkurborg beita sér fyrir því að ríkisvaldið komi að kjarasamningum kennara?
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Margrét Sverrisdóttir og áheyrnarfulltrúi Framsóknar lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar minnihlutans í menntaráði óska eftir því að menntaráð fái kynningu á sameiginlegri stefnumótun Kennarasambandsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um „Framtíðarskólann”. Sú stefnumótun mun hafa áhrif næstu árin. Það er mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu meðvitaðir um þá hugsun sem Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandið hafa í sameiningu mótað.
Samþykkt.
8. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sveigjanleika skólaskila á milli leikskóla og grunnskóla sem vísað var til menntaráðs á fundi borgarstjórnar 6. nóvember sl.:
Borgarstjórn telur að auka beri sveigjanleika skólaskila á milli leikskóla og grunnskóla. Menntasviði er falið að hefja vinnu sem hefur það að markmiði að tryggja aukið val að þessu leyti strax næsta haust. Valdir verði fjórir grunnskólar, einn úr hverju skólahverfi, sem taki þátt í undirbúningi og framkvæmd fimm ára deilda. Við skipulag og námsfyrirkomulag verði stuðst við þá reynslu sem þegar hefur fengist af áratugastarfi sjálfstætt rekinna grunnskóla, tilraunaverkefni leikskólans Hamra og Víkurskóla, Varmárskóla í Mosfellsbæ, Hjallastefnunnar o.fl. Fimm ára bekkur sameini kosti elsta stigs leikskólans og yngsta stigs grunnskólans.
Greinargerð fylgir.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og F–lista leggja fram svohljóðandi tillögu:
Fræðslustjóra og sviðsstjóra Leikskólasviðs er falið að kanna möguleika á því að koma á fót fimm ára deildum næstkomandi haust samkvæmt tillögu Sjálfstæðisflokks þar um. Jafnframt verði metinn kostnaður við framkvæmdina.
Óskað er eftir því að niðurstöður liggi fyrir í apríl og verði þá verði lagðar fram í menntaráði og leikskólaráði.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna, Margrét Sverrisdóttir og áheyrnarfulltrúi Framsóknar óska bókað:
Á vettvangi fræðslu- og menntaráðs Reykjavíkur hefur umræðan um fimm ára deildir í grunnskólum borgarinnar margoft sprottið upp. Rökin sem hníga á móti þeim hafa m.a. verið þau að ánægja foreldra er gríðarlega mikil með leikskólana, sem gefur til kynna að þörfum barnanna er vel mætt að mati foreldranna. Á Íslandi og Evrópu hefur átt sér stað mikil umræða meðal fræðimanna sem í yfirgnæfandi meirihluta vara við því að hefðbundið bóknám færist neðar. Þar sem afar nauðsynlegt er að rödd leikskólasamfélagsins heyrist í þessari umræðu hafði fráfarandi meirihluti skipulagt opna umræðu á vettvangi Brúarinnar með þátttöku leikskólasamfélagsins, fræðasamfélagsins og annarra sem málið varðar, t.a.m. foreldra. Ekki varð af þeim fundi og ítreka fulltrúar minnihlutans að af honum verði sem fyrst.
9. Lagt fram minnisblað um umsagnir foreldraráða við starfsáætlun Menntasviðs 2008.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs óskaði bókað:
SAMFOK hefur frá upphafi skilað inn umsögn um drög að starfsáætlun fræðslumála fyrir komandi ár. Á þeim árum sem foreldraráðum grunnskólanna hafa verið send þessi drög hefur þeim jafnframt verið boðið á kynningarfundi um starfsáætlunina sem Menntasvið og SAMFOK hafa staðið sameiginlega að. Á þessum fundum hafa alltaf komið fram munnlegar, málefnalegar og vel ígrundaðar ábendingar og fyrirspurnir sem endurspeglað hafa áhuga foreldra á skólastarfi í borginni. SAMFOK hefur leitast við að endurspegla viðhorf foreldra grunnskólabarna og byggir sína umsögn m.a. á þeim ábendingum sem fram koma á áðurnefndum fundum.
Þrátt fyrir stuttan fyrirvara mættu rúmlega þrjátíu fulltrúar rúmlega tuttugu foreldraráða á kynningarfundi Menntasviðs og SAMFOK í nóvember sl. Að venju komu þar fram mikilvægar ábendingar sem endurspegla þá reynslu sem þessir fulltrúar hafa af skólastarfi og hvernig stefnu Reykjavíkurborgar í fræðslumálum er framfylgt í viðkomandi skólum.
10. Lagt fram að nýju yfirlit yfir stöðu verkefna í Starfsáætlun Menntasviðs 2007 sem frestað var á fundi ráðsins 14. janúar sl. Umræðu frestað til næsta fundar.
- Kl. 14.35 vék Lilja Dögg Alfreðsdóttir af fundi.
11. Lögð fram tillaga fræðslustjóra um upphaf skólastarfs, vetrarleyfi og umhverfisdaga hjá nemendum í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2008 – 2009:
Lagt er til að skólastarf hefjist hjá nemendum föstudaginn 22. ágúst.
Þeir skólar sem taka vetrarleyfi velji eftirtaldar dagsetningar:
Haustönn: 23., 24., og 27. október
Vorönn: 26. og 27. febrúar
Lagt er til að umhverfisdagar verði 12. september 2008 og 24. apríl 2009.
Samþykkt.
Menntaráð vísar tillögunni til leikskólaráðs til upplýsingar.
12. Lögð fram tilkynning frá menntamálaráðuneytinu dags. 23. janúar sl. um dagsetningar samræmdra prófa í 4. og 7. bekk haustið 2008.
13. Lögð fram skýrsla Tölfræði- og rannsóknaþjónustu Menntasviðs frá janúar 2008 Hvað segja foreldrar um skólastarf? Niðurstöður rýnihópa vor 2007. Deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu kynnti skýrsluna lítillega.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOKs óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi foreldra þakkar góða skýrslu tölfræði- og rannsóknaþjónustu um viðhorf rýnihópa foreldra til skólastarfs. Mikilvægt er að nýta þær ábendingar sem þar koma fram og þrýsta á um úrbætur í skólunum þar sem tilefni er til. Gildir þetta ekki síst um upplýsingastreymi og samskipti foreldra og skóla. Ítrekað er mikilvægi virkrar heimasíðu skólanna og góðra samskipta og upplýsingamiðlunar milli foreldra og skóla. Varðandi viðhorf foreldra til umsjónarkennara barnsins virðist ánægja foreldra ríkjandi og er það sérlega gleðilegt.
Menntaráð tekur undir bókun áheyrnarfulltrúa SAMFOKs.
14. Deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu kynnti niðurstöður grunnskóla Reykjavíkur í PISA 2006.
15. Samþykkt borgarráðs frá 7. feb. sl. um aðgerðir í starfsmannamálum lögð fram og kynnt.
Áheyrnarfulltrúar Kennarafélags Reykjavíkur, Skólastjórafélags Reykjavíkur og SAMFOKs óskuðu bókað:
Áheyrnarfulltrúarnir fagna mannauðsaðgerðum Reykjavíkurborgar sem komnar eru til vegna manneklu og aukins álags starfsmanna grunnskólans. Við þökkum fræðslustjóra, fráfarandi og núverandi borgarstjóra og öllum þeim sem komu að ákvörðunartöku varðandi þessa aukafjárveitingu og hvetjum aðila til að sjá til þess að hún skili sér sem allra fyrst til starfsmanna.
16. Kynningu á drögum að fjárhagsáætlun Menntasviðs 2009-2011 frestað til næsta fundar.
17. Bókun kjörinna fulltrúa og áheyrnarfulltrúa menntaráðs:
Öllum þeim er komu að skipulagningu og framkvæmd Öskudagsráðstefnunnar 2008 eru færðar þakkir. Umgjörð öll var til fyrirmyndar og innihaldið uppbyggilegt, hvetjandi og skemmtilegt og mun án efa skila sér inn í skólana í enn betra skólastarfi.
18. Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi ályktun frá fundi Skólastjórafélags Reykjavíkur sem haldinn var 8. febrúar sl.:
Skólastjórnendur í Reykjavík lýsa yfir þungum áhyggjum vegna stöðu starfsmannamála í skólum Reykjavíkur. Skólastjórnendur hvetja stjórnendur Reykjavíkurborgar, samninganefnd Kennarasambands Íslands og launanefnd sveitarfélaga til að vinna ötullega að gerð nýrra kjarasamninga fyrir starfsmenn skólanna og ljúka þeirri vinnu eigi síðar en 1. apríl. Þetta er mjög brýnt vegna þess að eyða þarf óvissu um launakjör áður en til uppsagna kemur í vor.
Fundi slitið kl. 15:35
Júlíus Vífill Ingvarsson
Ásta Þorleifsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Bolli Thoroddsen Oddný Sturludóttir
Helga Björg Ragnarsdóttir Margrét Sverrisdóttir