Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2018, 23. maí, var haldinn 139. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.10. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Arnaldur Sigurðarson (Þ), Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum, Kristín Lára Torfadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Jóhanna Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1.    Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 15. maí 2018, varðandi innleiðingu á frístundastefnu Reykjavíkurborgar og bætt starfsumhverfi frístundaþjónustu, auk minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. maí 2018 auk yfirlits yfir aðgerðir í frístundamálum, dags. 14. maí 2018. SFS2016070070

2.    

-    Kl. 11:21 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum. 

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva fagna því að búið sé að samþykkja innleiðingaráætlun frístundstefnu Reykjavíkurborgar. Árið 2018 verður fyrsti áfangi stefnunnar innleiddur ásamt því að komið verður til móts við tillögur fagumhverfishóps um bætt starfsumhverfi í frístundastarfi. Innleiðing á stefnunni felur í sér aukið starf fyrir 10-12 ára börn en mikil þörf er á starfi fyrir þennan aldurshóp sem hingað til hefur verið nánast án þjónustu. Einnig mun aukinn stuðningur í félagsmiðstöðvarstarfi leiða til þess að við getum loks boðið upp á félagsmiðstöðvarstarf fyrir alla. Við endurvekjum stórfundi ungmennaráða og unglinga í takt við áherslu á lýðræði og mannréttindi, það verður áhersla á samstarf við listafólk og áhersla verður á að auka þátttöku barna og unglinga með annað móðumál en íslensku. Þar sem stefnan og bæting á starfsumhverfi frístundastarfs renna að nokkru leyti saman þá er mikilvægt að nefna líka að fjölgun fagmenntaðra starfsmanna mun leiða til aukinnar festu í starfinu og bæta heilsársstarfssemi börnunum til góða. Væntingar eru til markvissara samstarfs við grunnskólana og stórbætingar á aðstöðu og húsnæði frístundastarfs í Reykjavík. Mikilvægt er að styðja vel við frístundamiðstöðvar við innleiðingu stefnunnar og að stefnan verði lifandi skjal sem horft verður til næstu árin.

3.    Lagðar fram tillögur fagumhverfishópa leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs, innleiðing og kostnaðarmat, dags. 17. maí 2018, auk skýrslu starfshóps um bætt starfsumhverfi fagfólks á vettvangi frístundamiðstöðva/frístundastarfs í Reykjavík, dags. í apríl 2018, skýrsla starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara, dags. í desember 2017 og skýrsla starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík, dags. í febrúar 2018.

Samþykkt að vísa tillögum um innleiðingu og kostnaðarmat til fjárhagsáætlunargerðar.

4.    Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. maí 2018, um viðmið um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem greitt er framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur, varðandi Waldforfskólann Lækjarbotnum, International School of Iceland, Barnaskóla Hjallastefnunnar og Grunnskólann Nú, Framsýn fyrir skólaárið 2018-2019. Greinargerð fylgir tillögunni. Auk þess lagt fram bréf Waldorfskólans Lækjarbotna, dags. 4. apríl 2018. SFS2016040020

Samþykkt og vísað til borgarráðs með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

Ákvörðun um viðmið er tímabundin til 1. júlí 2019, fyrir þann tíma verður tekin ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu.

5.    Lögð fram drög að samstarfs- og styrktarsamningi skóla- og frístundasviðs við Ríkisútvarpið auk minnisblaðs sviðsstóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2018. SFS2018050161

-    Kl. 11:52 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum. 

Samþykkt og vísað til borgarráðs með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Óskað er eftir áliti borgarlögmanns á því hvort umræddur samningur við Ríkisútvarpið er í samræmi við innkaupareglur Reykjavíkurborgar. Fjárhæð samningsins nemur 14.169.000 krónum. Samkvæmt innkaupareglunum er skylt að viðhafa fyrirspurn þegar keypt er þjónusta ef áætluð samningsfjárhæð er á bilinu 7-14 milljónir króna. Þá er skylt að viðhafa útboð þegar áætluð samningsfjárhæð er yfir 14 milljónum króna. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Pírata, Samfylkingarinnar og VG fagna nýjum samstarfs- og styrktarsamningi UngRúv og Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Markmið samningsins er að styðja við unglingalýðræði og skapa vettvang fyrir raddir unglinga í íslensku samfélagi. Samningurinn er einnig í takt við helstu markmið nýrrar menntastefnu borgarinnar sem nú er í umsagnarferli. Samstarfið mun meðal annars fela í sér þróun á vefsjónvarpi fyrir ungt fólk í samstarfi við skóla- og frístundasvið, unglingum mun gefast frekari tækifæri á að koma á framfæri eigin framleiðslu, ungu tæknifólki gefast ný tækifæri og verkfæri til að læra og framleiða og einnig munu valdir aðilar í samstarfi við UngRúv setja á laggirnar teymi sem mótar dagskrárstefnu í samráði við dagskrárstjóra RÚV. Raddir ungs fólks eru ekki síður mikilvægar í allri samfélagsumræðu og þessi samningur því einn liður til að láta þær heyrast og eins að ungt fólk geti frætt annað ungt fólk sem og aðra.

Áheyrnarfulltrúi ungmennaráðs Reykjavíkur leggur fram svohljóðandi bókun: 

Áheyrnarfulltrúi ungmenna lýsir yfir ánægju sinni með samstarf rúv og sfs. Frábært og spennandi verkefni sem gefur innsögn á nútímatækni og einnig tækifæri til að fylgjast með þróun samfélagsmiðla. Virkilega áhugavert og eflandi starf sem ungmenni eru þakklát fyrir að fá tækifæri til að nýta. Okkar áhugi liggur mikið í tækni og þróun, og það að fá þjálfun í að fylgjast með örbreytingum er magnað og erum við verulega þakklát fyrir það.

6.    Lögð fram drög að samkomulagi skóla- og frístundasviðs við Unicef um samstarf um framkvæmd verkefnisins Réttindaskóla Unicef á Íslandi, viðauki við samkomulag Unicef á Íslandi og skóla- og frístundasviðs um innleiðingu hugmyndafræði Réttindaskóla og frístund auk minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2018, varðandi samning skóla- og frístundasviðs við Unicef um réttindaskóla og réttindafrístund. SFS2018050160

-    Kl. 12:19 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum. 

Samþykkt og vísað til borgarráðs með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

7.    Lögð fram drög að verklagi um stuðning við verkefni fyrir ungmenni í Reykjavík, minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2018, varðandi stuðning við verkefni ungmenna í Reykjavík auk bréfs borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. mars 2017, varðandi tillögu um árlegan styrk til ungmennaráða. SFS2017030073

Verklag um stuðning við verkefni ungmenna í Reykjavík samþykkt með þeim fyrirvara að það verði endurskoðað að ári liðnu. 

-    Kl. 12:39 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum og Harpa Rut Hilmarsdóttir tekur þar sæti. 

-    Kl. 12:39 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum. 

8.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. maí 2018, varðandi umsögn um drög að framtíðarsýn hverfisráða til 2021, bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 20. apríl 2018, varðandi framtíðarsýn hverfisráða til 2021 og bréf stjórnkerfis og lýðræðisráðs, dags. 27. mars 2018 varðandi framtíðarsýn hverfisráða 2021. SFS2018040116

Umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja rétt að framvegis verði fulltrúar í hverfisráð borgarinnar kjörnir beint af íbúum viðkomandi hverfa með sérstakri kosningu.

9.    Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs 2017. SFS2017090093

10.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2018, varðandi viðhorfskönnun foreldra barna í grunnskólum auk yfirlits yfir niðurstöður viðhorfskönnunar. SFS2018050159

-    Kl. 13:42 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundinum og Örn Þórðarson tekur þar sæti. 

Áheyrnarfulltrúi foreldar barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: 

Áheyrnarfulltrúi þakkar fyrir kynningu á nýju forriti Qlick sense til að mæla viðhorf foreldra og starfsmanna til skólastarfsins og væntir að forritið muni nýtast skólastjórnendum og sviðinu til umbóta í skólastarfi. Áheyrnarfulltrúi foreldra hvetur til þess að foreldra- og viðhorfskannanir verði notaðar markvisst, t.d. annað hvert ár sem hluti af reglulegu starfi sviðsins til hliðar við ytra matið. Það verði ekki val skólastjóra, hvort þeir leggi fyrir kannanir sem þessar eða ekki.

Guðrún Mjöll Sigurðardóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

11.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. maí 2018, varðandi námsferð skólastjóra, formanns skóla- og frístundaráðs og starfsmanna skrifstofu skóla- og frístundasviðs til Kanada í apríl 2018. SFS2018050017

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Í reglum um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar á vegum Reykjavíkurborgar kemur skýrt fram að ákvarðanir um ferðir nefndafulltrúa á vegum hlutaðeigandi nefndar skuli kynntar á fundi hennar. Nú hafa þau svör fengist að ekki var farið eftir reglunum að þessu leyti þegar ákvörðun var tekin um för formanns skóla- og frístundaráðs til Kanada í apríl sl. Slíkt kemur á óvart því reglurnar eru skýrar og hafa verið rækilega kynntar og ræddar á vettvangi borgarstjórnar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Kennarasamtökin í Albertafylki í Kanada (Alberta Teachers´ Association) standa árlega fyrir alþjóðlegu ráðstefnunni uLead um menntamál, með sérstaka áherslu á forystu og stjórnun menntamála. Skóla- og frístundaráð sótti ráðstefnuna árið 2015 og komust forystumenn ráðsins og sviðsins þar í tengsl við viðurkennda fræðimenn á borð við Pasi Sahlberg og fleiri. Þau tengsl lögðu grunninn að samstarfi Reykjavíkurborgar og Pasi Sahlberg varðandi mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar sem staðið hefur yfir frá haustmánuðum 2016. Í upphafi árs 2018 óskuðu aðstandendur uLead ráðstefnunnar eftir þátttöku formanns skóla- og frístundaráðs í málstofu um menntamál í Reykjavík með sérstakri áherslu á að formaður myndi þar kynna vinnuna við mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar. Umrædd málstofa var undirbúin í samstarfi aðstandenda ráðstefnunnar og fulltrúar Félags grunnskólakennara í Reykjavík. Það var ástæðan fyrir þátttöku formanns í þessari ráðstefnu en þess má geta að flestir skólastjórar í grunnskólum borgarinnar ásamt starfsmönnum skrifstofu skóla- og frístundasviðs sóttu ráðstefnuna. Skóla- og frístundasvið mun svara öðrum atriðum í fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á næsta fundi ráðsins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Reglur um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar á vegum Reykjavíkurborgar eru skýrar og þeim ber að fylgja óháð því með hvaða hætti viðkomandi ferð bar að höndum. Kjörnir fulltrúar hafa ekki val um hvenær þeir fara eftir umræddum reglum og hvenær ekki.

12.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. apríl 2018, varðandi Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2018. SFS2018050085

13.    Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 137. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi menntastefnu í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar. SFS2018040144

14.    Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina: 

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir upplýsingum um dreifingu auglýsingabæklings Tjarnarskóla sem nýlega var sendur í markpósti á heimili barna sem hafa aldur til að hefja nám í unglingadeild grunnskóla haustið 2018. Óskað er eftir upplýsingum um hvort auglýsingabæklingurinn var sendur í markpósti á heimili allra reykvískra skólabarna sem nú stunda nám í 7. bekk og ef svo er ekki, þá er óskað eftir upplýsingum um hvernig viðtakendur voru valdir. Enn fremur er óskað eftir upplýsingum um hvort auglýsingabæklingurinn var einnig sendur í markpósti til reykvískra nemenda sem nú stunda nám í 8. og 9. bekk í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Óskað er eftir að svar við þessari fyrirspurn verði lagt fram á næsta fundi í skóla og frístundaráði. SFS2018050197

-    Kl. 14:35 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum. 

-    Kl. 14:45 víkja Helgi Grímsson og Kristín Lára Torfadóttir af fundinum. 

15.    Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

Í svari á 117. fundi skóla- og frístundaráðs, til áheyrnarfulltrúa foreldra í grunnskólum, kom fram að úttekt óháðs aðila á verkferlum skóla- og frístundasviðs vegna eineltis og samskiptavanda barna muni hefjast í maí 2017 og henni ljúka í september sama ár. Er úttektinni lokið? Hvenær má vænta að niðurstöður verði kynntar ráðinu? SFS2018050195

Fundi slitið kl. 14.49

Skúli Helgason

Arnaldur Sigurðarson     Eva Einarsdóttir

Hermann Valsson     Kjartan Magnússon

Sabine Leskopf    Örn Þórðarson