Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Leikskólaráð

Ár 2009, 20. nóvember kl. 13:30 var haldinn 68. fundur leikskólaráðs, aukafundur um starfs- og fjárhagsáætlun 2010, í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Ragnar Sær Ragnarsson formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Þórey Vilhjálmsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Oddný Sturludóttir og Hermann Valsson. Auk þeirra sátu fundinn Halldóra Guðmundsdóttir fulltrúi starfsmanna í leikskólum og Ólöf Kristjánsdóttir áheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Hildur Skarphéðinsdóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundargerð ritaði Guðrún Hjartardóttir.

Þetta gerðist:

1. Drög að starfs- og fjárhagsáætlun Leikskólasviðs fyrir árið 2010, til umfjöllunar.
Bókun frá áheyrnarfulltrúa samtakanna Börnin okkar.
Foreldrar eru mjög ósáttir við 5,57 #PR hagræðingarkröfu sem er gerð til Leikskólasviðs árið 2010. Það er krafa foreldra að Leikskólasviði verði með öllu hlíft við hagræðingaraðgerðum Reykjavíkurborgar á komandi ári. Börnin eiga að vera fremst í forgangsröð borgarinnar og þess er krafist að leitað verði allra leiða til að ná fram fyrirhuguðum niðurskurði með hagræðingu á öðrum sviðum. Leikskólar borgarinnar eru nú þegar reknir við afar þröngan kost og boðaðar niðurskurðartillögur eru ógn við rekstur leikskólanna. Tal um allt annað er blekkingarleikur. Foreldrar krefjast þess að leikskólaráð veiti foreldraráðum ítarlega upplýsingar um fyrirhugaðan niðurskurð með vísan í lög um leikskóla, en skv. þeim hafa foreldraráð umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi. Krafist er ítarlegrar sundurliðunar á þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um niðurskurð á hverjum rekstrarlið leikskólasviðs. Á fundi foreldraráða og foreldrafélaga 19. nóvember 2009 var það sameiginleg niðurstaða fundarins að fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir muni skerða þjónustu til leikskólabarna. Það er skilyrðislaus krafa foreldra að Reykjavíkurborg forgangsraði í þágu barna.

Kl. 14:00 kom Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir á fundinn.

Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins:
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010 og vinnu með hagræðingartillögur sem unnið hefur verið að var eftirfarandi haft að leiðarljósi:
• Óbreytt þjónusta við viðskiptavini
• Ekki breytingar á launakjörum hjá fastráðnu starfsfólki
• Leitað eftir ábendingum og sjónarmiðum frá fulltrúum foreldra og starfsfólks
Tillögurnar eru í samræmi við samhljóða samþykkt borgarstjórnar frá október 2008 um heildstæða aðgerðaráætlun vegna breytinga á fjármála – og atvinnuumhverfi. Ljóst er að tekjur borgarinnar eru að lækka umtalsvert og nauðsynlegt að bregðast við því. Meirihluti leikskólaráðs hefur haldið nokkra vinnufundi, haldnir voru vinnufundir meiri- og minnihluta auk þess sem tölur og tillögur hafa verið ræddar á þremur fundum leikskólaráðs í aðdraganda fjárhagsáætlunar. Fundað hefur verið með starfsfólki og boðað til opins fundar með foreldrum um starfs- og fjárhagsáætlun ráðsins. Settur var á laggirnar rýnihópur þeirra leikskóla sem hafa náð góðum árangri í rekstri. Þá var fundað með sjálfstætt starfandi leikskólum og þeim kynntar áhrif breytinga á fjárhagsramma sviðsins. Leikskólaráð vill þakka sviðsstjóra, fjármálastjóra og öðru starfsfólki leikskólasviðs fyrir ítarlega og góða vinnu við gerð fjárhagsáætlunar. Ábendingar og athugasemdir hafa komið frá fulltrúum foreldra, starfsfólks og leikskólastjóra sem í flestu hefur verið horft til. Þá vill meirihluti ráðsins þakka minnihlutanum fyrir gott samstarf og jákvæðni við úrlausn viðfangsefna. Er það von ráðsins að við úrvinnslu þeirra tillagna sem nú liggja fyrir verði unnið af kostgæfni og ábyrgð þannig að foreldrar finni áfram hversu góð þjónusta er veitt af starfsfólki Leikskólasviðs. Rétt er að ítreka að þjónusta við foreldra og börn verður með óbreyttum hætti, engin breyting er á gjaldskrám leikskóla, launakjör verða óbreytt og störf fastráðinna starfsmanna tryggð.

Bókun frá fulltrúa Samfylkingarinnar:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í Leikskólaráði þakka sviðsstjóra, fjármálastjóra og öðru starfsfólki sviðsins fyrir mikla vinnu við mótun starfs- og fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Ljóst er að Leikskólasviði er gert að hagræða um 547 milljónir króna á árinu 2010. Í áætlunardrögum liggur fyrir að þeim niðurskurði verði mætt að stórum hluta með hagræðingarkröfu upp á 3,3#PR á leikskóla borgarinnar, þjónustutrygging verði lækkuð verulega, leikskólar verði sameinaðir eða samreknir, hægt verður á innritun nýrra barna og gert ráð fyrir fækkun barna hjá dagforeldrum. Til viðbótar við 547 milljónir þarf Leikskólasvið að hagræða fyrir hækkun verðlags og eru þær áætlaðar fyrir sviðið um 123 milljónir. Alls er því gert ráð fyrir niðurskurði á Leikskólasviði að upphæð 675 milljónir króna á næsta ári. Það er gagnrýnisvert að ekki sé unnið með þann raunniðurskurð í áætluninni. Brýnast er að forgangsraða fjármunum í þágu barna og mikilvægu starfi leikskólanna verður að hlífa sem kostur er. Samfylkingin fagnar því að staðinn verður vörður um greiðslu neysluhlés til leikskólastarfsfólks sem komið var á í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar. Samfylkingin hefur verulegar áhyggjur af raunhæfni 3,3#PR hagræðingarkröfu á leikskóla (sem í raun er hærri vegna hækkunar verðlags), enda hefur á yfirstandandi ári þegar verið hagrætt verulega. Hafa má verulegar áhyggjur af breytingum á undirbúningstíma fagfólks sem er undirstaða faglegs leikskólastarfs. Óskað er eftir því að leikskólaráð verði upplýst reglulega hvernig hagræðing á leikskóla borgarinnar verður útfærð. Fulltrúar Samfylkingar hafna með öllu flatri hagræðingu. Sé ætlunin að hægja á innritun leikskólabarna er einsýnt að biðlistar munu lengjast, taka verður mið af því í áætlun að börn dveljist þá lengur hjá dagforeldrum sem afleiðing af því. Samfylkingin átelur að meirihlutinn virðist ætla að heykjast á því að endurskoða þá tilraun sem fór af stað með heimgreiðslukerfi til foreldra, en um þá endurskoðun hefði ríkt þverpólitísk sátt í leikskólaráði. Samfylkingin hafði frá upphafi ekki mikla trú á þeirri leið enda hefur reynsla nágrannalandanna af slíku kerfi verið slæm. Upphaflega áttu heimgreiðslur að létta af miklum þrýstingi sem var á dagforeldrakerfið og leikskóla vegna manneklu. Nú er staðan gjörbreytt og það er ámælisvert að meirihluti Leikskólaráðs skuli kjósa að halda úti þremur mismunandi þjónustukerfum við þessar erfiðu aðstæður. Samfylkingin tekur undir gagnrýni leikskólastjóra um að heimgreiðslur til foreldra eru ekki í verkahring sveitarfélaga. Það er afar mikilvægt að starfsfólk leikskóla, sem gert er að hagræða án þess að bitni á frábæru starfi skólanna, fái þau skilaboð að allt sé gert til að hlífa þeim. Á það skal bent að það fjármagn sem fer til heimgreiðslna slagar hátt upp í boðaðan niðurskurð til leikskóla, eða rúmlega ¾. Þakkað er fyrir ágætt samráð við minnihluta leikskólaráðs. Í fjárhagsáætlunarferlinu öllu hefur þó skort á yfirsýn. Forgangsröðun milli sviða er gríðarlega mikilvæg við slíkar aðstæður í efnahagsmálum. Eins má átelja ábyrgðarlaus loforð borgarstjóra, t.a.m. munu loforð hans um að launalækkanir starfsmanna á aðalskrifstofu gangi til baka næstu áramót, ekki standast. Brýnt er að áður en fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg verður samþykkt í borgarstjórn hafi kjörnir fulltrúar kynnt sér leiðbeinandi viðmið um forgangsröðun í atvinnumálum sem Atvinnumálahópur borgarinnar hefur unnið, sérstaklega það sem snertir starfsfólk með tímabundna ráðningu. Leikskólasvið hefur gegnt mikilvægu hlutverki sem starfsstöð fyrir ungt fólk í sumarvinnu. Með breytingum á innritunarkerfinu verður ekki ráðið sumarafleysingafólk og til stendur að skera verulega niður sumarstörf á öðrum sviðum. Reykjavíkurborg verður að sýna ábyrgð sem atvinnurekandi að þessu leyti og horfa til allra sviða borgarinnar. Fulltrúar Samfylkingarinnar geta ekki stutt framlagða starfs- og fjárhagsáætlun en binda þó vonir við að sátt náist um að hlífa leikskólum borgarinnar með því að endurskoða tilraunakenndar aðgerðir á borð við heimgreiðslur sem aldrei var pólitísk sátt um.

Kl. 14:45 vék Þórey Vilhjálmsdóttir af fundi.

Bókun frá fulltrúa Vinstri grænna:
Fulltrúi Vinstri grænna í Leikskólaráði getur ekki fallist á þær forsendur sem gefnar hafa verið við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Ber þar hæst óbreytt útsvarsprósenta þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað og minni tekjur borgarinnar. Tilgangur útsvars er að fjármagna sameiginlegan rekstur borgarbúa og því eðlilegt að þegar harðnar í ári dreifist kostnaðurinn með sanngjörnum hætti á borgarbúa. Fullnýtt útsvarsprósenta gæti skapað borginni 630 miljónir króna í tekjur árið 2010. Niðurskurðurinn er því enn meiri en nauðsyn krefur að mati Vinstri grænna. Úthlutun ramma ber lítil merki um nýjar áherslur í forgangsröðun. Skorið er niður með tiltölulega flötum hætti, þó krafan sé meiri á svið sem varða skipulag og framkvæmdir en hin sem varða menntun og velferð. Fulltrúi Vinstri grænna hefði viljað sjá skýrari áherslumun en þann sem hér birtist. Ljóst er að útgjöld á Velferðarsviði þurfa að aukast á árinu 2010 á meðan hægt væri að draga enn frekar saman á sviði framkvæmda eða skipulags. Niðurskurður á kostnað barna eða velferðar mun reynast kostnaðarsamur til framtíðar og er með öllu óásættanlegur. Sú áætlun sem hér er lögð fram hefur ekki verið unnin af fulltrúum allra flokka. Þó einstaka fundir hafi verið haldnir um áherslur í málaflokknum hefur ekki gefist svigrúm til að ráðið reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Án slíks svigrúms er ekki hægt að segja að um samráð hafi verið að ræða. Fulltrúi Vinstri grænna leggur því fram eftirfarandi tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun Leikskólaráðs.
Að þjónustutryggingin verði að fullu aflögð.
Frekari uppbyggingu sjálfstætt rekinna leikskóla verði frestað.
Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009 og áskilja fulltrúar flokksins sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun leikskólaráðs á seinni stigum fjárhagsáætlunarvinnunnar.

Bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, svar við bókun fulltrúa Samfylkingarinnar:
Vert er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir að fækka börnum hjá dagforeldrum í Reykjavík. Í dag hefur börnum fækkað frá áætlun fyrir árið 2009 en áætlanir Leikskólasviðs ganga alls ekki út frá því að fækka börnum frá því sem nú er. Eins og fram hefur komið á að horfa til þeirra góðu reynslu sem margir og ólíkir leikskólar hafa náð í rekstri og eðlilegt í núverandi árferði að nýta góðar leiðir og hugmyndir frá skólum sem náð hafa góðum árangri. Með því að hægja á innritun nýrra leikskólabarna er rétt að vekja athygli á að um eins mánaðar breytingu gæti orðið að ræða. Eins og ákveðið var strax og þjónustutryggingin var tekin upp er nú verið að vinna mat á framkvæmd hennar. Því er eðlilegt að frekari breytingar verða ekki gerðar á þjónustutryggingunni fyrr en niðurstöður liggja fyrir.

Bókun leikskólaráðs og áheyrnarfulltrúa F-lista, áheyrnarfulltrúa foreldra og áheyrnarfulltrúa starfsfólks leikskóla.
Starfsáætlun Leikskólasviðs lýsir sem endranær miklum metnaði hjá starfsfólki sviðsins í leikskólamálum. Ánægjulegt er að sjá hvað tekið var ríkt tillit til sjónarmiða foreldra, starfsfólks og barna við gerð starfsáætlunar. Faglegt starf leikskóla borgarinnar er flaggskip Reykjavíkurborgar og metnaður starfsfólks eftirtektarverður. Ástæða er til að fagna sérstaklega þeim fjölmörgu skrefum sem kveða á um enn meira foreldrasamstarf, vilja til að hlusta á raddir barna, útinám og fjölbreytta hugmyndafræði. Starfsfólki sviðsins er þakkað fyrir vel unnin störf við gerð starfsáætlunar.

Bókun frá áheyrnarfulltrúa starfsmanna:
Áheyrnarfulltrúi starfsmanna leikskóla lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum sparnaðarráðum borgarinnar hvað varðar afleysingu vegna veikinda og kjarasamningsbundins undirbúnings fagfólks. Fulltrúinn hefur áhyggjur af auknu álagi sem fylgir því.

Fundi slitið kl. 14.55

Ragnar Sær Ragnarsson
Hermann Valsson Fanný Gunnarsdóttir
Oddný Sturludóttir Ingvar Mar Jónsson