Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2018, miðvikudaginn 11. apríl, var haldinn 136. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 12.09. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar leikskóla; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1.    Lagt fram minnisblað mannauðsdeildar Reykjavíkurborgar, dags. 9. apríl 2018, varðandi viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2018. SFS2018040021

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar eru jákvæðar og er sérstaklega athyglisvert að framfarir hafa orðið á öllum yfirþáttum könnunarinnar meðal starfsmanna skóla- og frístundasviðs.  Það er sérstaklega mikilvægt að starfsánægja hefur aukist meðal starfsmanna í leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum og er talsvert yfir meðaltali borgarinnar í heild. Almennt eru niðurstöðutölur hærri meðal starfsmanna skóla- og frístundasviðs en að meðaltali hjá borginni í heild. Þeir þættir sem helst þarf að bæta lúta að vinnuálagi starfsfólks, starfsmannastöðugleika og vinnuaðstöðu en allir þeir þættir eru mjög í forgrunni þeirrar vinnu sem staðið hefur yfir við að bæta starfsumhverfi kennara og annars starfsfólks grunnskóla, leikskóla og frístundamiðstöðva.

Harpa Hrund Berndsen og Guðný Reynisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

-    Kl. 12.25 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum. 

2.    Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, sbr. 9. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. mars 2018, með áorðnum breytingum:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að setja í gang vinnu við að endurmeta gildi og gagnsemi samræmdra prófa í grunnskólum Reykjavíkur. Skoðað verði hvernig niðurstöður samræmdra prófa hafa verið nýttar á undanförnum árum, hvaða breytingar þyrfti að gera á framkvæmdinni en jafnframt hvort tilefni er til að óska eftir því við mennta- og menningarmálaráðuneytið að samræmd próf í grunnskólum verði lögð af en önnur próf og skimanir notuð til að þjóna sambærilegum markmiðum.  Leitað verði eftir viðhorfum nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda í þeirri vinnu.

Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018030117

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Mikil umræða hefur verið um samræmd próf að undanförnu og er augljóst að fullt tilefni er til að skoða gaumgæfilega gagnsemi og hagnýtingu þeirra fyrir nemendur og skólasamfélagið í heild.  Það er tilgangurinn með tillögunni að bjóða til víðtækrar samræðu við nemendur, foreldra, kennara og skólastjórnendur um kosti og galla samræmdra prófa, hvernig niðurstöðurnar hafa verið nýttar og hvort tilefni sé til að leggja þau af en notast við önnur mælitæki til að veita nemendum og skólum endurgjöf um námslega stöðu.  Þar er eðlilegt að horft verði til reynslu annarra þjóða, s.s. nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndunum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Gagnsemi og framkvæmd samræmdra prófa á að vera í stöðugri skoðun og ætti ekki að þurfa sérstaka tillögu til þess. Sjálfsagt er að stöðugt sé unnið að þróun samræmdra prófa og betrumbótum á fyrirkomulagi, ekki síst eftir hina miklu erfiðleika sem komu upp við framlagningu prófanna nú í vetur. Svo virðist sem tilgangur þessara tillögu sé jafnvel sá að nýta þann misbrest, sem varð við framlagningu prófanna í vetur, sem efnivið í baráttu fyrir því að samræmd próf í grunnskólum verði lögð niður. Fremur ætti að verja kröftunum í umræður um hvernig unnt sé að bæta samræmd próf í því skyni að þau þjóni sem best þeim markmiðum að gefa vísbendingar um stöðu einstakra nemenda, hópa, skóla sem og skólakerfisins í heild á milli ára og jafnvel áratuga. Ef vel er að verki staðið geta niðurstöður samræmdra prófa til dæmis verið afar dýrmætar í því skyni að veita möguleika á margvíslegum samanburði milli einstaklinga og hópa, t.d. bekkjardeilda, kynja, skóla, sveitarfélaga o.s.frv.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. apríl 2018, varðandi notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi auk fylgiskjals með kostnaðargreiningu, skýrslu starfshóps um notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi, dags. í desember 2017, skýrslu starfshóps um upplýsingatækni í leikskólastarfi, dags. í júní 2017 og skýrslu og tillögum starfshóps varðandi símenntun í upplýsingatækni, dags. í júní 2017:

Skóla- og frístundaráð samþykkir stefnu um notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi og vísar henni til borgarráðs. Kostnaðaráætlun er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar vegna ársins 2019. 

Samþykkt. SFS2017120059

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir og Erla Stefánsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

4.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2018, um staðfestingu starfsáætlana leikskóla 2017-2018. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir eftirfarandi leikskóla: Austurborg, Álftaborg, Árborg, Bakkaborg, Bjartahlíð, Blásalir, Borg, Brákarborg, Brekkuborg, Drafnarsteinn, Engjaborg, Fífuborg, Furuskógur, Garðaborg, Geislabaugur, Grandaborg, Grænaborg, Gullborg, Hagaborg, Hálsaskógur, Heiðarborg, Holt, Hlíð, Hof, Hólaborg, Hraunborg, Hulduheimar, Jöklaborg, Jörfi, Klambrar, Klettaborg. Kvistaborg, Langholt, Laufskálar, Laugasól, Lyngheimar, Maríuborg,  Miðborg, Múlaborg, Nes, Nóaborg, Rauðaborg, Rauðhóll, Reynisholt, Rofaborg, Seljaborg, Seljakot, Sjónarhóll, Sólborg, Stakkaborg, Steinahlíð, Suðurborg, Sunnuás, Sunnufold, Sæborg,  Tjörn, Vesturborg, Vinagerði, Ægisborg og Ösp, Dalskóli, Ártúnsskóli, Klébergsskóli og Leikskólinn Berg, Askja, Ársól, Barnaheimilið Ós, Fossakot, Korpukot, Laufásborg, Leikgarður, Lundur, Mánagarður, Regnboginn, Skerjagarður, Sólgarður og Sælukot, Vinagarður, Vinaminni, Waldorfleikskólinn Sólstafir og Waldorfleikskólinn Höfn. SFS2017030180

Samþykkt. 

Gerður er fyrirvari hvað varðar leikskólana Sunnuás, Vesturborg og Langholt um að umsagnir foreldraráða leikskólanna berist.

5.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. apríl 2018, varðandi ráðgerða endurskoðun á reglum um leikskólaþjónustu. SFS2014110004

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs auk reglna skóla- og frístundasviðs um leikskólaþjónustu með breytingum: 

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að gerð verði svohljóðandi breyting á reglum skóla- og frístundasviðs um leikskólaþjónustu: Í 3. mgr. í gr. 1.1.a  bætist nýr málsliður sem verður 2. málsliður og verði hann svohljóðandi:Í leikskólum þar sem starfræktar eru  skilgreindar ungbarnadeildir er heimilt að innrita yngri börn en almennt er heimilt að innrita á leikskóla. Heimildin er háð viðmiðum skóla- og frístundasviðs á hverjum tíma og ræðst af því sem pláss og fjármagn leyfir. Í 6. mgr. í gr. 1.1.a. reglnanna bætist ný málsgrein og verði hún  svohljóðandi: Á tilteknum leikskólum starfrækir Reykjavíkurborg sérstakar ungbarnadeildir. Börn, sem hefja dvöl á ungbarnadeildum, geta hafið leikskóladvöl allt frá 12-24 mánaða aldri og er miðað við að þau flytjist á  deild fyrir eldri börn innan sama leikskóla um þriggja ára aldur.  Börn innritast á ungbarnadeildir eftir kennitölu, þau elstu fyrst, enda uppfylli þau aldursviðmið deildarinnar.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt 

Vísað til borgarráðs. SFS2014110004

7.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. apríl 2017, varðandi skil skýrslu starfshóps um aukið vægi starfs- list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur og skýrsla starfshóps um sama efni auk upplýsinga um niðurstöður könnunar varðandi aukið vægi starfs- list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur, vorið 2015.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu: 

Sviðsstjóra er falið að vinna áætlun um innleiðingu tillagna sem koma fram í minnisblaði sviðsstjóra, dags. 9. apríl 2018, og byggja á skýrslu starfshóps um aukið vægi starfs- list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur. Áætlunin feli í sér kostnaðarmat og áfangaskiptingu og verði lögð fram á fundi skóla- og frístundaráðs 23. maí 2018. 

Samþykkt. SFS2015020048

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakka starfshópnum og þeim fjölmörgu aðilum sem komu að gerð tillagna til að auka vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur fyrir vandaða og skapandi vinnu. Ljóst er að framúrskarandi og fjölbreytt starf er nú þegar í boði á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs. Mikill metnaður er hjá starfsfólkinu og tillögurnar eru til þess fallnar að stækka hlut list- og verknáms, m.a. með auknu kennslumagni í list- og verkgreinum, auknum stuðningi við list- og verkgreinakennara og bættri aðstöðu þar sem með þarf. Fulltrúar meirihlutans  leggja mikla áherslu á að auka jafnræði varðandi aðgang barna í borginni að starfs-, list- og verknámi svo öll börn njóti sín til fulls.

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

Fulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynning um aukið vægi starfs- list- og verknáms í grunnskólum í Reykjavík. Innihaldsríkt frístundastarf er háð því að hafa aðgengi að aðstöðu fyrir starfið. Mikilvægt er að samnýta þá aðstöðu sem að skóla- og frístundastarf hefur í borginni og tryggja aðgengi frístundaheimila og félagsmiðstöðva inn í sérhannaðar verk- og listgreinaaðstöðu og jafnframt skólum að aðstöðu frístundamiðstöðva, með skýrum notkunarsamningum. Framkvæmdastjórar fagna því að innleiða eigi tillögur hópsins á sviðinu. Skapandi frístundastarf styður við gott skólastarf.

Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

8.    Lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs við Myndlistaskólann í Reykjavík. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 6. apríl 2018, varðandi samning við Myndlistaskólann í Reykjavík og bréf borgarstjóra, dags. 1. mars 2018, varðandi breyttan samstarfssamning milli Reykjavíkurborgar og Myndlistaskólans í Reykjavík.

-    Kl. 14:35 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum. 

Samþykkt. SFS2017060025

Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

9.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 4. apríl 2018, varðandi gerð gæðaviðmiða í tónlistarskólum og skólahljómsveitum 2017 -2019. SFS2018040022

Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

10.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. apríl 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um jafnræði varðandi tónlistarnám barna, sbr. 11. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. mars 2018. SFS2018030114

Sigfríður Björnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

11.    Lagt fram yfirlit yfir innkaup yfir 1 m.kr. október-desember 2017. SFS2017090094

12.    Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs október-desember 2017. SFS2016120052

13.    Lögð fram skýrsla um stærðfræðiskimun 3. bekkjar í nóvember 2017, auk minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. apríl 2018. SFS2017100080

Ásgeir Björgvinsson og Guðrún Edda Bentsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

14.    Lagt fram yfirlit yfir stöðu markmiða í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs, dags. í desember 2017. SFS2017040175

15.    Lagðar fram reglur Reykjavíkurborgar um starfs- og stýrihópa, dags. 2. febrúar 2018. SFS2018030130

16.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. apríl 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um biðlista í leikskólum, fjölda stöðugilda og fjölda leikskólaplássa, sbr. 10. lið fundargerðar fundar skóla- og frístundaráðs frá 14. mars 2018. SFS2018030113

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Það er áhyggjuefni að enn hefur ekki tekist að fullmanna leikskólana og að ekki sé hægt að nýta laus leikskólarými vegna manneklunnar. Ef tekið er mið af þeim 179 lausu rýmum sem eru til staðar  á leikskólunum vantar að ráða í 39 stöðugildi. Ljóst er að ráðast þarf í enn frekari aðgerðir til að leysa vandann og stytta biðlistana.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Vel hefur gengið að ráða í laus störf á leikskólum í vetur og hafa 110 nýjir starfsmenn verið ráðnir á sl. 7 mánuðum í 9 af hverjum 10 störfum sem voru ómönnuð í haust.  Mönnunarmál verða áfram forgangsverkefni á næstu mánuðum og nýtast þær fjölmörgu aðgerðir og samþykktir sem gerðar hafa verið á undanförnum mánuðum vel í því efni.  Á sama tíma þarf að fylgja fast eftir mikilvægum tillögum starfshóps um nýliðun og bætt vinnuumhverfi leikskólakennara sem hafa verið samþykktar í borgarráði um að minnka álag á starfsfólk leikskóla og börn, t.d. með auknu rými barna á deildum.  Sjónarmið fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fylla í allar lausar stöður á leikskólum ganga gegn því mikilvægi markmiði.

17.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. apríl 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi starfsmannamál í leikskólum, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. mars 2108. SFS2018030116

18.    Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. apríl 2018, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS2016080100

19.    Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Óskað er eftir upplýsingum um aðstöðumál frístundaheimilisins Neðstalands við Fossvogsskóla. Verður húsnæðisaðstaða frístundaheimilisins bætt fyrir haustið eins og þörf er á og þá með hvaða hætti? Er rétt að forstöðumaður og aðstoðarforstöðumaður Neðstalands séu að hætta störfum vegna bágrar húsnæðisaðstöðu frístundaheimilisins ? 

SFS2018040047

-    Kl. 15:59 víkja Helgi Grímsson og Birgitta Bára Hassenstein af fundinum.

20.    Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundarráði leggja það til að sviðinu verði falið að skoða hvort hægt sé að koma í veg fyrir tvíverknað við túlkaþjónustu hvað varðar efni sem er almennt og á við alla grunnskóla í Reykjavík. Þannig væri hægt að koma upp öflugri þýðingarbanka en nú er, með almennu efni, sem allir grunnskólar Reykjavíkur hefðu aðgang að.

SFS2018040048

-    Kl. 16:10 víkja Guðrún Gunnarsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Vagnsdóttir af fundinum.

Fundi slitið kl. 16:15

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir    Hermann Valsson

Kjartan Magnússon    Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf    Þórlaug Ágústsdóttir