Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2018, 14. mars, var haldinn 135. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S), Þórlaug Ágústsdóttir (Þ) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Gréta Björg Egilsdóttir (B); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Kristín Ólafsdóttir, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

Gréta Björg Egilsdóttir er boðin velkomin á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

1.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. mars 2018, varðandi starfssemi skólahljómsveita starfsárið 2017-2018. Jafnframt lögð fram starfsáætlun Skólahljómsveitar Grafarvogs 2017-2018, dags. 21. júní 2017; starfsáætlun Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts skólaárið 2017-2018, ódags; starfsáætlun Skólahljómsveitar Austurbæjar 2017-2018, ódags. og starfsáætlun Skólahljómsveitar Vestur- og Miðbæjar 2017-2018, ódags. SFS2018030071

-    Kl. 11.15 taka Birgitta Bára Hassenstein, Guðrún Gunnarsdóttir og Soffía Pálsdóttir sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Skólahljómsveitir Reykjavíkur bjóða upp á gífurlega öflugt tónlistarstarf í grunnskólum borgarinnar og auðga menningarlíf borgarinnar með auknum sýnileika, eins og t.d. á Barnamenningarhátíðinni. Það var mikið fagnaðarefni að geta fjölgað plássum í skólahljómsveitum um 10 börn á hverjum stað og ná þar með kjörstærð sveitanna. Þar með hefur líka tekist að auka jafnræði varðandi aðgang barna í borginni að tónlistarnámi og starfsemi skólahljómsveita. Fulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja mikla áherslu á að auka stuðning við skólahljómsveitir hvað varðar aðstöðu, bætt starfsumhverfi og faglegt tónlistarstarf.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Langir biðlistar eru eftir að komast að í skólahljómsveit eða milli 50-70 börn í hverri sveit. Ljóst er að grípa þarf til ráðstafana til að koma fleiri börnum að í skólahljómsveitum. Auk þess stendur Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts frammi fyrir aðstöðuvanda sem þarf að bregðast við strax til að sveitin geti haldið úti daglegri starfsemi. Jafnframt þarf að huga að framtíðaraðstöðu skólahljómsveita í öllum hverfum til lengri tíma, þannig að starf þeirra geti dafnað í takti við vaxandi eftirspurn.

Sigfríður Björnsdóttir, Vilborg Jónsdóttir, Snorri Heimisson og Lárus Halldór Grímsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2.    Fram fer umræða um framkvæmdir og viðhald við starfseiningar skóla- og frístundasviðs á árinu 2018. SFS2018030118

Agnar Guðlaugsson, Jón Valgeir Björnsson og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

-    Kl. 12.02 tekur Helgi Grímsson sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil þörf er fyrir viðhald og endurbætur á húsnæði og aðstöðu skóla- og frístundastarfs í borginni og er því fagnaðarefni að fjárveitingar til almenns viðhalds eru nærri 1900 miljónir á árinu, hækka um nærri 700 milljónir króna milli ára og hafa rúmlega tvöfaldast frá árinu 2014 þegar þær voru 890 milljónir króna. Um 1300 milljónir fara í viðhald og endurbætur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila á þessu ári auk þess sem 2,3 milljarðar króna renna í nýbyggingar og annan stofnkostnað í grunnskólum. Þá er mikilvægt að í fjárfestingaráætlun til næstu 5 ára er áfram gert ráð fyrir auknu fjármagni í viðhaldsframkvæmdir.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina minna enn og aftur á að viðhaldi leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila er mjög ábótavant víða í borginni. Þær framkvæmdir, sem hér hafa verið kynntar, eiga allar rétt á sér en þó er ljóst að þær svara ekki hinni miklu uppsöfnuðu viðhaldsþörf, sem er fyrir hendi í skólahúsnæði og á skólalóðum borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun: 

Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva þakka fyrir ágæta kynningu á framkvæmda- og viðhaldsáætlun fyrir árið 2018 en telja óskýrt eftir kynninguna hvaða framkvæmdir eða viðhald sé á dagskrá fyrir frístundamiðstöðvar og starfsstaði þeirra á árinu. Mikil uppsöfnuð viðhaldsþörf er á húsnæði frístundamiðstöðva og starfsstaða þeirra og er það áhyggjuefni að ekki komi skýrt fram hvort og þá hvaða framkvæmdir á að ráðast í á árinu.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, auk þess lögð fram skýrsla starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík, dags. í febrúar 2018:

Sviðsstjóra er falið að vinna áætlun um innleiðingu tillagna úr skýrslu starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara. Áætlunin feli í sér kostnaðarmat og áfangaskiptingu og verði lögð fram á fundi skóla- og frístundaráðs 11. apríl 2018. SFS2017030038

Samþykkt. 

-    Kl. 12.52 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

-    Kl. 13.35 víkur Hermann Valsson af fundinum og Sigríður Pétursdóttir tekur þar sæti.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum fagnar tillögum og skýrslu starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík, sem samtökin áttu fulltrúa í. Við hvetjum til að þau atriði sem auðvelt er að breyta verði strax hrint í framkvæmd. Má þar nefna: 10. Heimild til niðurfellingar leikskólagjalda á milli jóla og nýárs auk páska- og sumarleyfis. 7. Breyta úthlutun vegna veikindaafleysinga í fjármagn í stað fastra stöðugilda. 12. Sértækar aðgerðir til að tryggja stöðugleika í starfsmannahópnum. 13. Móttaka nýliða efld. 14. Mentor og aukinn stuðningur við nýja leikskólakennara. 15. Handleiðsla fyrir leikskólakennara.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra þakkar starfshópnum fyrir vel unna skýrslu um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík þar sem 33 tillögur um aðgerðir koma fram. Leikskólastjórar ítreka enn og aftur hve grafalvarleg staðan er í leikskólum borgarinnar og ráðamenn þurfa raunverulega að gera upp hug sinn um hvernig leikskóla borgin ætlar að reka. Óbreytt ástand eða töf á aðgerðum getur haft óafturkræfar afleiðingar fyrir rekstur leikskólanna. Við erum að missa fólk núna og það koma nánast engir leikskólakennarar í staðinn. Aðgerðir þurfa að miðast við það, að leggja allt kapp á að halda þeim leikskólakennurum sem eru nú þegar í starfi og laða nýja til starfa. Því skorum við á skóla- og frístundaráð að bregðast hratt við þeim tillögum sem komið hafa fram, því málið þolir enga bið. Reykjavíkurborg verður að vera í fararbroddi og gera betur en önnur sveitarfélög, því það er hörð samkeppni um gott fagfólk. Í framhaldi mætti skoða bætt starfsumhverfi leikskólastjórnenda með sama hætti því staðan er jafnframt grafalvarleg þar. Nú þarf að láta verkin tala.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar starfshópi um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík fyrir vel unnin störf og mikilvægar tillögur. Í skýrslunni eru lagðar til margþættar aðgerðir sem snúa að bættu starfsumhverfi leikskólakennara, auknum stuðningi við leikskóla borgarinnar, fjölgun leikskólakennara og umbótum sem snúa að námi og umgjörð fagmenntunar leikskólakennara og annarra starfsmanna. Næsta skref er að forgangsraða og kostnaðarmeta tillögurnar og skipuleggja framkvæmd og innleiðingu tillagnanna. Fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja mikla áherslu á að þeirri vinnu ljúki eins fljótt og auðið er.

Guðlaug Gísladóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

4.    Fram fer umræða um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Sviðsstjóra er falið að vinna áætlun um innleiðingu tillagna úr skýrslu starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara. Áætlunin feli í sér kostnaðarmat og áfangaskiptingu og verði lögð fram á fundi skóla- og frístundaráðs 11. apríl 2018. SFS2016100041

Samþykkt. 

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Lagt er til að ráðið verði í sumarstörf á leikskólum Reykjavíkurborgar til að vekja áhuga ungs fólks á leikskólum sem eftirsóknarverðum starfsvettvangi. Annars vegar verði um að ræða störf fyrir ungt fólk sem hefur áhuga á að fara í háskólanám á uppeldis- og menntunarsviði að loknu stúdentsprófi t.d. kennaradeild, íþrótta,- tómstunda- og þroskaþjálfadeild og uppeldis- og menntunarfræðideild og hins vegar sumarstörf fyrir ungt fólk á 17. aldursári. Nánari útfærsla er falin sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs.

Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018030076

Samþykkt og vísað til borgarráðs. 

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga óháðs borgarfulltrúa, Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, sem samþykkt var að vísa til meðferðar skóla- og frístundaráðs á fundi borgarstjórnar þann 7. nóvember 2017. Auk þess lagt fram tölvubréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. nóvember 2017, og umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 13. nóvember 2017: 

Skóla- og frístundasviði er falið að taka saman þá þætti sem misfórust í uppbyggingu og innleiðingu Reykjavík International School RIS, þannig að lögð sé áhersla á hvað betur má fara, hvernig Reykjavíkurborg getur stutt við nýja skóla og veitt þeim leiðbeiningar svo að menntahagsmunir barna sem þangað sækja nám séu ætíð hafðir í hávegum. 

Tillögunni vísað frá. SFS2017110049

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Vegna tillögu óháðs borgarfulltrúa varðandi samantekt í tengslum við lokun Reykjavík International School vísar skóla- og frístundaráð til þess að nú þegar hefur ítarlega verið fjallað um málefni RIS í ráðinu og telur að nú þegar liggi fyrir nægileg og vel ígrunduð gögn til að afgreiða málið. Umræddur borgarfulltrúi fékk fullnægjandi upplýsingar um málið.

8.    Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. mars 2018, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS2016080100 

-    Kl. 14.05 víkur Kristín Ólafsdóttir af fundinum.

9.    Fram fer umræða um framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 9. bekk. SFS2018030117

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að setja í gang vinnu við að endurmeta gildi og gagnsemi samræmdra prófa í grunnskólum Reykjavíkur. Skoðað verði hvernig niðurstöður samræmdra prófa hafa verið nýttar á undanförnum árum, hvaða breytingar þyrfti að gera á framkvæmdinni en jafnframt hvort tilefni er til að leggja þau af og nýta önnur próf og skimanir til að þjóna sambærilegum markmiðum. Leitað verði eftir viðhorfum nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda í þessari vinnu. 

Frestað.

-    Kl. 15.08 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum.

-    Kl. 15.25 víkur Eva Einarsdóttir af fundinum.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Félag skólastjórnenda í Reykjavík lýsir yfir vonbrigðum með framkvæmd Menntamálastofnunar á samræmdum prófum í 9. bekk dagana 7.-9. mars 2018. Að baki prófunum liggur undirbúningsvinna hjá skólum borgarinnar sem talin er í tugum eða hundruðum klukkustunda. Sú vinna fór í vaskinn þar sem fyrirlögn tveggja prófanna mistókst. Verst kom þetta niður á nemendum sem áttu að taka prófin en urðu frá að hverfa. Tími nemenda er dýrmætur og slík sóun sem varð þessa daga má aldrei verða aftur. Það þarf að verða leiðarljós í þeirri rýnivinnu sem Menntamálastofnun hefur boðað í kjölfar þeirra mistaka sem urðu við framkvæmdina, sem og að horft verði til þess að réttur nemenda og líðan verði höfð til hliðsjónar í allri ákvarðanatöku um mögulega samræmda próftöku fyrir umræddan árgang. Félagið skorar á Menntamálastofnun að nýta boðaða rýnivinnu til að skoða alla þætti samræmdra prófa. Umræða um tilgang og framkvæmd prófanna hefur lengi verið uppi og nú þarf að fá inn í þá umræðu lykilaðila í skólastarfi. Vinna þarf að sátt um námsmat sem byggir á gildandi grunnskólalögum, Aðalnámskrá grunnskóla og nútímakennsluháttum. Mikilvægi þeirrar sáttar fyrir skólastarf í grunnskólum landsins er algert. Félagið lýsir sig reiðubúið til að senda fulltrúa í þá umræðu.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Framkvæmd tveggja samræmdra prófa í 9. bekk í síðustu viku mistókst hrapallega og verða menntamálayfirvöld og Menntamálastofnun að taka fulla ábyrgð á þeim mistökum. Ekki er verjandi að leggja á nemendur, kennara og skólastjórnendur það mikla álag sem prófunum fylgir þegar framkvæmdin er svo ófullnægjandi sem raun bar vitni. Mikilvægt er að taka heiðarlega umræðu um gildi og gagnsemi samræmdra prófa af þessu tilefni og leita eftir viðhorfum nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda í þeirri vinnu. Meirihlutinn leggur því fram tillögu um að slík skoðun fari strax af stað þar sem allir kostir verði á borðinu, þar með talið að leggja af samræmd próf í núverandi mynd en nýta önnur mælitæki til að þjóna markmiðum um að veita upplýsingar um stöðu nemenda. Ákvörðun um að leggja af samræmd próf myndi vissulega kalla á lagabreytingar en grunnskólalög eru til að þjóna nemendum og skólastarfi en ekki öfugt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks harma þau mistök sem áttu sér stað við framkvæmd samræmdu prófanna. Hér var einungis um að ræða mistök varðandi framkvæmdina en ekki próffræðilega nálgun og inntak samræmdra prófa. Tekið skal fram að framkvæmd rafrænna samræmdra prófa gekk vel í 4.-7. bekk í haust svo hér er um einstakt dæmi að ræða sem nýta þarf til að draga lærdóm af. Allir aðilar bæði ríki og Reykjavíkurborg þurfa að fara í naflaskoðun á fyrirlögn og framkvæmd rafrænna prófa og rétt að taka fram að tölvukostur grunnskóla í Reykjavík var ekki viðunandi þegar rafvæðing samræmdu prófanna hófst.

Sverrir Óskarsson, Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir og Guðrún Edda Bentsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

10.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er upplýsinga um biðlista eftir leikskólaplássum sundarliðað eftir leikskólum og aldri barnanna. Jafnframt er óskað upplýsinga um hversu mörg stöðugildi eru á leikskólunum og hversu mörg leikskólapláss eru til staðar á leikskólunum. SFS2018030113

11.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er upplýsinga um hvort að jafnræðis sé gætt varðandi tónlistarnám barna milli hverfa. SFS2018030114

12.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir að fá afhenta skýrslu um djúpgreiningu sem gerð var á starfsemi leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. SFS2018030115

13.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Hver er staða starfsmannamála í leikskólum borgarinnar miðað við að öll laus pláss væru nýtt? SFS2018030116

Fundi slitið kl. 15:54

Skúli Helgason

Marta Guðjónsdóttir    Sabine Leskopf    

Sigríður Pétursdóttir     Þórlaug Ágústsdóttir

Örn Þórðarson