Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2018, 10. janúar, var haldinn 131. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.04. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Ólafsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Kristín Helga Ómarsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna og Lilja Eyþórsdóttir, skólastjórar í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

Kristín Helga Ómarsdóttir er boðin velkomin á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

1.    Lögð fram umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um tillögu að lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar, dags. 4. janúar 2018. Jafnframt lögð fram beiðni stjórnkerfis- og lýðræðisráðs, dags. 29. nóvember 2017, um umsögn um lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar ásamt drögum að stefnunni. SFS2017110194

Umsögn sviðsstjóra samþykkt með áorðnum breytingum.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

-    Kl. 11.18 tekur Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir sæti á fundinum.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Lýðræðisstefna Reykjavíkurborgar þarf að vera auðlesanleg og auðskiljanleg öllum þeim sem eiga að geta átt þess kost að nýta sér hana til aukinnar þátttöku til gagnrýnnar lýðræðislegrar þátttöku í ákvarðanatöku í málum borgarinnar. Hugsanlegir lesendur og þátttakendur eru mjög fjölbreyttur hópur með fjölbreyttan bakgrunn og mikla aldursdreifingu og eigi þátttaka almennings að ná að verða almenn væri vel að yrða skýrar hvernig er hægt að tryggja vel aðgengi t.d. barna og unglinga, eldri borgara, fatlaðra og ýmissa minnihlutahópa að lýðræðisstefnunni. Þó bæði tímasetningar og aðgerðaráætlanir verði að öllum líkindum unnar í framhaldsvinnu við lýðræðisstefnuna er æskilegt að þau atriði verði tilgreind að grunni til strax þegar lýðræðisstefnan er kynnt.

2.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. janúar 2018, varðandi kostnaðar- og forgangsáætlun fyrir tilraunaverkefni í kynfræðslu í Foldaskóla og Seljaskóla 2018-2021. Jafnframt lögð fram greinargerð og tillögur starfshóps um stefnumótun um kynfræðslu í skóla- og frístundastarfi skóla- og frístundasviðs, dags. í desember 2016. SFS2016080030

Þriggja ára tilraunaverkefni í kynfræðslu fyrir nemendur í Foldaskóla og Seljaskóla samþykkt.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. janúar 2018:

Lagt er til að stofnaður verði starfshópur um sameiginlega stefnu um skóla- og frístundastarf án aðgreiningar með áherslu á sérkennslu og stuðning í leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarfi. 

Verkefni hópsins verði m.a. að: 

1. Fara yfir áherslur varðandi sérkennslu og stuðning í núgildandi stefnum SFS; í leikskóla-, grunnskóla og frístundastarfi m.a. með hliðsjón af niðurstöðu skýrslu Evrópumiðstöðvar um menntun án aðgreiningar og þeirrar vinnu sem nú fer fram á vegum mennta- menningarmálaráðuneytis um menntun án aðgreiningar. 

2. Greina áherslur og þörf fyrir stuðning í frístundastarfi í Reykjavík. 

3. Móta sameiginlega stefnu um skóla- og frístundastarf án aðgreiningar með áherslu á sérkennslu og stuðning fyrir starfsstöðvar SFS í leikskóla, grunnskóla og frístundastarfi. 

4. Greina þörf fyrir símenntun og starfsþróun fyrir starfsfólk sem sinnir sérkennslu og stuðningi í skóla- og frístundastarfi. 

Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2017120062

Samþykkt.

4.    Lögð fram skýrsla starfshóps um skipulag úrræða vegna stuðnings við nemendur á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda, dags. í janúar 2018. SFS2017090263

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa skýrslu starfshóps um skipulag úrræða vegna stuðnings við nemendur á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda til umsagnar skólastjóra- og kennarafélaga í Reykjavík og skólaþjónustu velferðarsviðs. Jafnframt verði gerð innleiðingaráætlun með kostnaðarmati um tillögur skýrslunnar sem kynnt verði skóla- og frístundaráði.

Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata þakka starfshópnum um skipulag úrræða vegna stuðnings við nemendur á grunnskólaaldri með fjölþættan vanda fyrir öfluga vinnu og fagna tillögum þeirra um úrlausnir. Það er megintillaga hópsins að sett verði á fót farteymi sem vinni þétt með kennurum að því að þjónusta börnin í skólunum sjálfum. Það er í góðu samræmi við hugmyndafræði skóla án aðgreiningar auk þess að svara kalli grunnskólakennara um aukinn stuðning og samstarf kennara við annað fagfólk í daglegu bekkjarstarfi með börnum í þessari stöðu. Í þessari vinnu hefur komið fram að brýnt sé að byggja ofan á það góða starf sem til að mynda Brúarskóli, skólaþjónustan og skólarnir hafa unnið. Á sama tíma sé mikil þörf fyrir viðbótarúrræði í málaflokknum þar sem bæði fjöldi barna sem þurfa á þessum stuðningi að halda sem og alvarleiki málanna hafa aukist verulega. Fulltrúar meirihlutans taka undir að kjarni úrlausna þarf að felast í áherslu á snemmtæka íhlutun og þverfaglegan og samræmdan stuðning beint inn í skólanum frekar en að leita lausnar utan heimaskólanna, þó það kunni að vera réttlætanlegt í undantekningartilvikum eins og starfshópurinn leggur til.

Hrund Logadóttir og Helgi Viborg taka sæti á fundinum undir þessum lið.

5.    Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. mars 2017, um tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. desember 2017, varðandi tillöguna. SFS2017030077

Lögð fram svohljóðandi tillaga Sindra Smárasonar frá ungmennaráði Árbæjar og Holta:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að nýta hluta af fjárveitingum Reykjavíkurborgar til Strætó bs. til að niðurgreiða strætókort fyrir börn og bjóði upp á þann valmöguleika fyrir árið 2018.

Greinargerð fylgir. 

Frestað.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að eftirfarandi tillaga Sindra Smárasonar, fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta verði lögð fram til formlegrar afgreiðslu undir þessum lið.

,,Lagt er til að borgarstjórn samþykki að nýta hluta af fjárveitingum Reykjavíkurborgar til Strætó bs. til að niðurgreiða strætókort fyrir börn og bjóði upp á þann valmöguleika fyrir árið 2018.“

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Lagt er til að Reykjavíkurborg taki upp viðræður við forsvarsmenn Strætó bs. um leiðir til að auka enn frekar nýtingu barna og ungmenna á strætó. Þar verði m.a. horft til aukins samstarfs um frístundaakstur og sérstaklega skoðaðar leiðir til að draga úr kostnaði barna og ungmenna í borginni við að nota strætó. Fulltrúar íþrótta- og tómstundasviðs og skóla- og frístundasviðs taki þátt í viðræðunum við Strætó bs.

Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlega athugasemd við þau vinnubrögð að taka tillögu Sindra Smárasonar, fulltrúa ungmennaráðs Árbæjar og Holta, ekki til afgreiðslu á fundinum þrátt fyrir ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar um. Tillagan var flutt á fundi borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna 28. febrúar 2017. Er ótrúlegt, en segir ákveðna sögu, að fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli ekki treysta sér til að taka tillöguna til afgreiðslu með þeim rökstuðningi að ekki hafi gefist nægur tími til að rýna hana. Málsmeðferð meirihlutans í þessu máli lýsir miklu virðingarleysi við tillöguflytjanda og Reykjavíkurráð ungmenna. Minnir umrædd málsmeðferð á vinnubrögð meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar á síðasta kjörtímabili þegar árum saman var reynt að svæfa tillögur Sjálfstæðisflokksins um að Reykjavíkurráð ungmenna fengi að tilnefna fastan áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráð og íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að auka notkun barna og ungmenna á Strætó og þar skiptir miklu máli að halda gjaldtöku í lágmarki eins og tillöguflytjandi Reykjavíkurráðs ungmenna gengur út frá. Meirihlutinn telur mikilvægt að borgin afli upplýsinga og taki upp viðræður við Strætó bs. um heppilegar leiðir til að þjóna báðum þessum markmiðum og nýti tillögu Reykjavíkurráðsins í þeim viðræðum. Að þeim viðræðum loknum verði tillagan tekin til formlegrar afgreiðslu í ráðinu eftir atvikum með breytingum ef viðræðurnar gefa tilefni til þess.

6.    Lögð fram umsögn sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagningu battavalla, dags. 3. janúar 2018. Jafnframt lögð fram beiðni borgarráðs um umsögn um tillöguna, dags. 14. desember 2017. SFS2017120104 

Umsögn sviðsstjóra samþykkt með áorðnum breytingum.

7.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. janúar 2018, um framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila. Jafnframt lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2017, varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila; drög að þjónustusamningi skóla- og frístundasviðs og sjálfstætt rekins grunnskóla um framlag; bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. ágúst 2017, um áhrif breytinga á grunnskólalögum nr. 76/2016 á kostnað sveitarfélaga; bréf Landakotsskóla, dags. 2. október 2017, um framlag vegna reksturs frístundastarfs við grunnskóla; bréf Hjallastefnunnar, dags. 5. september 2017, um framlag vegna reksturs frístundastarfs við grunnskóla; bréf samtaka sjálfstæðra skóla, dags. 17. október 2017, um greiðslu til sjálfstætt starfandi grunnskóla vegna frístundar; bréf Hjallastefnunnar, dags. 23. nóvember 2017, svar við boði um þjónustusamning vegna frístundastarfs; tölvubréf Waldorfskólans Sólstafa, dags. 27. nóvember 2017, varðandi gerð þjónustusamnings um framlag vegna reksturs frístundaheimilis og bréf samtaka sjálfstæðra skóla, dags. 18. desember 2017, um samninga vegna reksturs frístundar. SFS2017100036

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja eðlilegt að framlög Reykjavíkurborgar til frístundastarfsemi sjálfstætt rekinna skóla endurspegli þann kostnað sem í þessari starfsemi felst enda er dvöl reykvískra barna á frístundaheimilum eðlilegt framhald af skóladvöl þeirra og þannig hluti af grunnþjónustu skóla við þá nemendur. Ljóst er að þær upphæðir sem miðað er við í fyrirliggjandi samningsdrögum duga ekki til að standa straum af kostnaði sjálfstætt rekinna skóla við frístundastarfsemi þeirra með sambærilegum hætti og gert er í tengslum við rekstur borgarrekinna skóla og er það óviðunandi að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

8.    Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 14. desember 2017, þar sem tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hækkun á niðurgreiðslu dagvistar hjá dagforeldrum er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS2017120124

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Lagt er til að greiðslur til dagforeldra hækki um 13,6% um áramót auk 2,7% hækkunar vegna verðbólgu. Niðurgreiðsla dagvistar hjá dagforeldrum (kostnaðarstaður D605 í frumvarpi að fjárhagsáætlun 2018) hækki um 118.105.000 kr. frá frumvarpsupphæð (410.236.000) og nemi því alls 528.341.000.

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Lagt er til að vísa tillögu um hækkun á niðurgreiðslu dagvistar hjá dagforeldrum til starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík.

Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Á borgarstjórnarfundi 4. apríl 2017 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum yrðu hækkaðar um 25%. Tillögunni var vísað til skóla- og frístundaráðs sem ákvað 24. maí með atkvæðum meirihlutans að vísa henni inn í starfshóp um þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu borgarinnar. Sá starfshópur hefur ekki enn tekið til starfa. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins endurfluttu tillöguna við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 5. desember sl. og aftur var tillögunni vísað til skóla- og frístundaráðs. Nú kýs meirihlutinn enn að fresta eðlilegri leiðréttingu á niðurgreiðslum til dagforeldra með því að taka ekki afstöðu til tillögunnar heldur vísar henni til starfshóps sem hefur ekki yfir neinum fjárveitingum að ráða. Meirihlutinn sýnir þannig mikla hugmyndaauðgi við að svæfa tillöguna og stefnir í að hún muni hrakhraufast frá einni nefnd til annarrar í hringekju borgarkerfisins í heilt ár án nokkurrar niðurstöðu. Þessi vinnubrögð eru í boði Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna og sýna þau ljóslega hug þessara flokka til starfsemi dagforeldra í Reykjavík.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti borgarstjórnar lagði fram tillögu um 10% hækkun á niðurgreiðslu dagvistar hjá dagforeldrum í fyrra og var hún samþykkt um mitt ár. Næsta skref er að taka dagforeldrakerfið í heild sinni til skoðunar og er starfshópur að hefja störf um hvernig megi styrkja þá þjónustu til framtíðar út frá faglegum og fjárhagslegum þáttum. Mjög eðlilegt er að sá starfshópur fjalli um niðurgreiðslurnar og gjaldtöku í þeirri vinnu og er því umræddri tillögu vísað til hans. Rétt er að minna á að starfshópurinn á að skila tillögum hratt og vel eða í mars næstkomandi.

9.    Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 14. desember 2017, þar sem tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sveigjanleg skólaskil er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS2017120125

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að hafin verði vinna að því að innleiða sveigjanleg skólaskil og auka samfellu milli skólastiga með það að markmiði að koma betur til móts við þarfir nemenda og einstaklingsmiðað nám. Ný ríkisstjórn hefur boðað stórsókn í menntamálum þar sem rík áhersla verður á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar að leiðarljósi. Sveigjanleg skólaskil eru hluti af þeirri sókn og því rétt að Reykjavíkurborg, stærsta sveitarfélagið, taki forystuna og hefji undirbúning að þeirri innleiðingu.

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Skóla- og frístundaráð leggur til að formanni ráðsins verði falið að ræða sveigjanleg skólaskil við nýjan mennta- og menningarmálaráðherra með það í huga að styrkja samstarf borgarinnar og ráðuneytisins varðandi samfellu náms á skilum skólastiga. 

Samþykkt.

10.    Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 14. desember 2017, þar sem tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi manneklu í leikskólum er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. SFS2017120128

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að leitað verði enn frekari leiða til að draga úr manneklu og þjónustuskerðingu á leikskólum með því að nýta sér þá starfskrafta frístundaheimila sem eru í 50% starfi og bjóða þeim upp á 100% stöðugildi þannig að starfskrafturinn nýtist fyrir hádegi í starfi á leikskólanum en eftir hádegi á frístundaheimilunum.

Samþykkt.

11.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. janúar 2018, um börn á grunnskólaaldri með lögheimili í Reykjavík skólaárið 2017-2018. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir skiptingu nemenda eftir árgöngum niður á einstaka skóla í Reykjavík, 1. október 2017. SFS2017080200

12.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. desember 2017, um úthlutun almennra styrkja og þróunarstyrkja árið 2016. SFS2018010018

13.    Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 14. nóvember 2017, varðandi eftirfylgni með úttekt á leikskólanum Reynisholti. SFS2013120031

-    Kl. 15.00 víkja Guðrún Edda Bentsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Kristján Gunnarsson, Birgitta Bára Hassenstein, Kristín Ólafsdóttir, Kristín Helga Ómarsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Guðrún Kaldal og Jóhanna Marteinsdóttir af fundi.

14.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Vegna ábendinga um óhöpp og slys sem orðið hafa að undanförnu vegna hálku á skólalóðum er óskað eftir upplýsingum um verklag við hálkueyðingu á skólalóðum í borginni. SFS2018010068

Fundi slitið kl. 15.20

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir    Hermann Valsson    

Kjartan Magnússon    Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf    Þórlaug Ágústsdóttir