Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2012, 19. september, var haldinn 25. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í frístundamiðstöðinni Kringlumýri í Reykjavík og hófst kl. 10.10. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Óttarr Ólafur Proppé, Rúna Malmquist og Sóley Tómasdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsmenn í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Börkur Vígþórsson, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum.

Jafnframt sátu fundinn Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Kristín Egilsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

Formaður bauð Sóleyju Tómasdóttur velkomna á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði, en borgarstjórn samþykkti á fundi sínum 18. september sl. að hún taki sæti Lífar Magneudóttur í ráðinu. 

1.    Lögð fram skýrsla starfshóps um samstarf um rekstur og þjónustu almenningsbókasafna og skólasafna í Reykjavík, dags. í september 2012. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs og Erla Kristín Jónasdóttir, safnstjóri aðalsafns Borgarbókasafns Reykjavíkur, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2011090305

Bókun skóla- og frístundaráðs:

Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir vinnu starfshóps um samstarf um rekstur og þjónustu almenningsbókasafna og skólasafna í Reykjavík. Ráðið óskar eftir því að tillaga 1 um tilraunaverkefni í Norðlingaholti verði rýnd betur með tilliti til kostnaðar en lítur jákvætt á að slíkt tilraunaverkefni fari af stað í Reykjavík. Ráðið lítur jákvætt á og hvetur til formlegs samstarfs Skólasafnamiðstöðvar og Borgarbókasafns og tekur jákvætt í að tillögu um bókasafnsþjónustu við íbúa í Grafarholti og Úlfarsárdal verði vísað inn í undirbúningshóp um skólabyggingu í því hverfi.

Skóla- og frístundaráð óskar eftir því við starfshópinn að nánari greining á kostnaði við rekstur almenningsbókasafna, sem og fjárhagsleg tækifæri sem í því geta falist að nýta skólahúsnæði borgarinnar betur verði unnin. Þá er óskað eftir yfirliti um rekstur bókasafna Reykjavíkurborgar, almenningsbókasafna annars vegar og skólabókasafna hins vegar. M.a. er óskað eftir upplýsingum um starfsmannafjölda hvers safns/útibús og leigukostnað. Einnig lýsir ráðið þeim vilja sínum að í framtíðinni verði skólabyggingar hannaðar með tilliti til þess að þar sómi sér almenningsbókasafn hverfisins einnig.

-    Kl. 10.50 tók Helgi Eiríksson sæti á fundinum. 

2.    Lagðir fram samningar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 5. september 2012, við 17 tónlistarskóla. Kristín Egilsdóttir fjármálastjóri og Sigfríður Björnsdóttir, deildarstjóri listfræðslu á skóla- og frístundasviði, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. 

Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs: 

Lagt er til að þjónustusamningar skóla- og frístundasviðs við 17 tónlistarskóla verði samþykktir. 

Greinargerð fylgdi. SFS2012090144

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

3.    Lagt fram árshlutauppgjör skóla- og frístundasviðs vegna fyrstu sex mánaða ársins 2012. Kristín Egilsdóttir, fjármálastjóri skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012060143 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir samanburði á fjölda stöðugilda og samsetningu starfsfólks í leikskólum með tilliti til  menntunar miðað við 1. október 2011 og 2012. 

 

4.    Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. september 2012, um stöðu starfsmannamála leikskóla og grunnskóla Reykjavíkurborgar. Ragnheiður E. Stefánsdóttir mannauðsráðgjafi, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012080213

-    Kl. 11.20 vék Kristín Egilsdóttir af fundi. 

Bókun skóla- og frístundaráðs:

Skóla- og frístundaráð óskar eftir að sett verði í forgang vinna við að samræma og samhæfa störf og launakjör á sviðinu þvert á leikskóla, grunnskóla og frístund.

Jafnframt beinir ráðið því til mannauðs- og upplýsingaskrifstofu Reykjavíkurborgar að bregðast sem allra fyrst við að bæta framsetningu á auglýsingum á lausum störfum sem tengjast sviðinu. Störf í skólum og frístund eru skemmtileg, spennandi og fjölbreytt og þau þarf að kynna á slíkan hátt. Jafnframt bendir ráðið á nauðsyn þess að virkja nútíma samskiptamiðla við auglýsingar á þeim störfum sem í boði eru á sviðinu. 

5.    Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september sl., um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur skóla- og frístundaráði, eitt mál. SFS2011100054

6.    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Skóla- og frístundaráð óskar eftir því við skipulagsráð og umhverfis- og samgönguráð að skoðaðir verði möguleikar á breyttri staðsetningu benzínstöðvar við Kirkjustétt 2-6 í Grafarholti í samráði við eiganda hennar. Umrædd benzínstöð, sem reist var árið 2005, er skammt frá félagsmiðstöðinni Fókusi, frístundaheimilinu Stjörnulandi og Ingunnarskóla. Árum saman hafa foreldrar barna í Ingunnarskóla gert athugasemdir við staðsetningu stöðvarinnar svo nærri fjölmennasta skóla hverfisins og m.a. kvartað yfir því að í ákveðnum vindáttum berist benzínfnykur inn í skólahúsnæðið.

Jafnframt óskar ráðið eftir lögfræðilegu áliti á því hvort staðsetning benzínstöðvarinnar samræmist reglum ríkis og borgar um benzínstöðvar, t.d. reglum Brunamálastofnunar ríkisins um brunavarnir benzínstöðva en þar segir m.a. að fjarlægð milli mannvirkja benzínstöðvar og byggingar, þar sem fólk vistast eða dvelur um lengri tíma, t.d. skóla, skuli að lágmarki vera tólf metrar. Einnig segir að benzínstöðvar beri að skipuleggja þannig að ekki skapist óþarfa umferð um afgreiðslusvæði þeirra en töluverð umferð skólabarna er um stöðina vegna nálægðar við nærliggjandi skóla- og frístundastarf.

Samþykkt. SFS2012090192

 

7.    Lagt fram minnisblað, ódags., frá Mörtu Guðjónsdóttur, formanni starfshóps um íslenskuverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur. Samþykkt að verðlaunin fái heitið Íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík. SFS2012090167 

-    Kl. 12.05 tóku sæti á fundinum Eygló Rúnarsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Steingerður Kristjánsdóttir, verkefnisstjórar á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs. Einnig Atli Steinn Árnason forstöðumaður Gufunesbæjar, Guðrún Kaldal forstöðumaður Frostaskjóls,  Haraldur Sigurðsson forstöðumaður Kringlumýrar,  Elísabet Albertsdóttir deildarstjóri barnadeildar Ársels, Selma Árnadóttir forstöðumaður Kamps og Iðunn Antonsdóttir forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur. 

8.    Stefnumótun í málefnum ungs fólks, 16 ára og eldri. Eva Einarsdóttir, formaður stefnumótunarhópsins og Gísli Árni Eggertsson, verkefnisstjóri stefnumótunarhópsins, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2011100190

-    Kl. 12.45 vék Iðunn Antonsdóttir af fundi.

-    Kl. 12.55 viku Þórunn Gyða Björnsdóttir og Gísli Árni Eggertsson af fundi.

9.    Lögð fram skýrslan hlutverk og þjónustustig félagsmiðstöðva, dags. í febrúar 2011, endurskoðuð í júlí 2011. Auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. september 2012 og minnisblað skrifstofu tómstundamála ÍTR, dags. 14. júlí 2011. Eygló Rúnarsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012090099

-    Kl. 13.25 vék Eygló Rúnarsdóttir af fundi. 

-    Kl. 13.35 vék Börkur Vígþórsson af fundi.

-    Kl. 13.50 viku Anna Helga Sigfúsdóttir og Rúna Malmquist af fundi.

Bókun skóla- og frístundaráðs:

Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir vandaða vinnu starfshóps um hlutverk og þjónustustig félagsmiðstöðva og frístundastarfs fyrir börn og unglinga 10-16 ára. Það er afar mikilvægt að borgin staðfesti ramma utan um jafn þýðingarmikla starfsemi og félagsmiðstöðvar barna og unglinga eru. Skýrslunni er vísað til frekari vinnslu á skóla- og frístundasviði, tillögur verði kostnaðarmetnar og áætlun unnin um innleiðingu þeirra. Í framhaldinu komi skýrslan aftur inn í ráðið til staðfestingar og ráðið muni óska eftir skýrri samþykkt til að styrkja grundvöll fyrir starf félagsmiðstöðva. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela skrifstofustjóra frístundamála í samráði við ÍTR og Hitt húsið að hefja vinnu við þarfagreiningu fyrir frístundastarf ungmenna yfir 16 ára aldri og skila skýrslu með tillögum um mögulegt hlutverk borgarinnar og þjónustustig til ráðsins. Sú vinna sem hér um ræðir er það sértæk að hún þarf að fara fram alveg óháð þeirri heildarstefnumörkun sem nú er í gangi varðandi málefni ungs fólks í Reykjavík.

Samþykkt.

10.    Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. september 2012, um starfsáætlanir frístundamiðstöðva Reykjavíkur 2012 - 2013. Atli Steinn Árnason forstöðumaður Gufunesbæjar, Guðrún Kaldal forstöðumaður Frostaskjóls,  Haraldur Sigurðsson forstöðumaður Kringlumýrar,  Helgi Eiríksson forstöðumaður Miðbergs, Elísabet Albertsdóttir deildarstjóri barnasviðs Ársels og Selma Árnadóttir forstöðumaður Kamps, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2012050308

-    Kl. 14.05 vék Rósa Ingvarsdóttir af fundi.

-    Kl. 14.25 vék Bryndís Jónsdóttir af fundi. 

11.    Dagskrárliðum 8, 9 og 10 í útsendri dagskrá frestað.

Fundi slitið kl. 14.45

Oddný Sturludóttir

Eva Einarsdóttir        Hilmar Sigurðsson 

Kjartan Magnússon     Óttarr Ólafur Proppé 

Sóley Tómasdóttir