Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 13. desember, var haldinn 130. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.02. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Sabine Leskopf (S), Þórlaug Ágústsdóttir (Þ) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Lára Torfadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórhildur Löve, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

Kristín Lára Torfadóttir er boðin velkomin á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

1. Börn úr leikskólanum Miðborg syngja jólalög undir stjórn Andra Eyvindarsonar.

- kl. 11.17 tekur Birgitta Bára Hassenstein sæti á fundinum.

2. Lögð fram skýrslan Nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara, dags. í desember 2017. Jafnframt lögð fram skýrsla til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara í Reykjavík, könnun meðal útskriftarárganga úr kennaranámi HÍ/KHÍ og HA árin 2000-2012, dags. í október 2017. SFS2016100041

G. Eygló Friðriksdóttir og Svandís Ingimundardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Félag skólastjórnenda í Reykjavík fagnar framkomnum tillögum um bætt vinnuumhverfi kennara borgarinnar. Félagið skorar á Reykjavíkurborg að tillögurnar verði þegar rýndar nánar og teknar til framkvæmda sem fyrst. Horfa verður til þess að kostnaður sem fellur til við framkvæmd þeirra verði jafnóðum færður inn á gildandi fjárhagsáætlanir. Jafnframt skorar félagið á skóla- og frístundasvið að kanna vinnuumhverfi skólastjórnenda borgarinnar í framhaldi á sama hátt og gert hefur verið til að bæta vinnuumhverfi kennara. Stjórn félagsins býðst að sjálfsögðu til þess að koma að þeirri vinnu.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Eitt mikilvægasta verkefnið í skóla- og frístundastarfi borgarinnar er að bæta vinnuumhverfi starfsfólks samhliða því að bregðast við fyrirsjáanlegum kennaraskorti sem stefnir í að verða alvarlegur ef ekkert verður að gert. Aðsókn að kennaranámi hefur hríðfallið undanfarinn áratug og er nú svo komið að fjöldi útskriftarnema úr kennaranámi við Háskóla Íslands er einungis fjórðungur þess sem var á árunum 2009-2010. Starfshópur á vegum skóla- og frístundaráðs hefur nú kynnt tillögur að aðgerðum til að auka nýliðun og bæta starfsumhverfi grunnskólakennara í Reykjavík. Tillögurnar tengjast fjórum meginflokkum: bættu starfsumhverfi, breytingum á inntaki og skipulagi kennaranáms, aukinni nýliðun kennara samhliða fjölgun kennaranema og loks öflugri starfsþróun. Mikilvægt er að þegar hefur verið samþykkt að verja rúmlega 600 milljónum króna til að hrinda fyrstu tillögunum í framkvæmd og er mikilvægt að tillögurnar fái nú vandaða umfjöllun í skólasamfélaginu áður en tekin verða næstu skref í innleiðingu þeirra.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ýmsar þarfar tillögur er að finna í niðurstöðuskýrslu starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi í grunnskólum. Því verður þó ekki neitað að flestar þessar tillögur eru endurunnar þar sem þær hafa komið fram áður með ýmsum hætti án þess þó að hafa komist til framkvæmda og jafnvel verið til umræðu árum saman á vettvangi skóla- og frístundaráðs og/eða skóla- og frístundasviðs. Vonandi hlýtur skýrslan ekki sömu örlög og ýmsar aðrar skýrslur sem skrifaðar hafa verið á undanförnum árum en síðan rykfallið í kerfinu án sýnilegs framgangs og þannig orðið minnisvarðar um þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í skólamálum borgarinnar undir stjórn Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn í borgarstjórn hefur sýnt forgangsröðun sína í verki með því að sækja sérstaklega fram í skólamálum eftir að hagur borgarsjóðs fór að vænka á síðasta ári. Tölurnar tala sínu máli, þrír milljarðar hafa bæst við málaflokkinn auk viðlíka fjármagns í hærri launagreiðslur. Allt tal um kyrrstöðu í málaflokknum og rykfallnar skýrslur sem skili engu dæmir sig sjálft í þessu ljósi og vekjum við athygli á að þegar hefur verið samþykkt að verja rúmlega 600 milljónum í að hrinda í framkvæmd fyrstu tillögum starfshópsins um nýliðun og bætt vinnuumhverfi grunnskólakennara.

3. Lögð fram stefna um notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi, dags. í desember 2017. SFS2017120059

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð þakkar starfshópnum fyrir ítarlega vinnu að stefnu um upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi. Skýrslan dregur fram þau fjölmörgu sóknarfæri sem eru fólgin í notkun upplýsingatækni og dregur fram í leiðinni það sem þarf að bæta svo tæknin nýtist enn betur í starfi starfsstöðvanna. Nokkuð af því sem fram kemur i stefnunni er þegar komið í framkvæmd og að öðru er verið að leggja drög að og kemur til framkvæmda innan tíðar. Skóla- og frístundaráð fagnar því að stefna er komin fram í notkun upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi borgarinnar með auknum stuðningi fyrir kennara og nemendur.

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, Erla Stefánsdóttir og Kristín Hildur Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

4. Lögð fram skýrslan Upplýsingatækni í leikskólastarfi, dags. í júní 2017. SFS2017120061

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að vinna kostnaðargreinda forgangs- og innleiðingaráætlun á tillögum sem fram koma í skýrslu starfshóps um upplýsingatækni í leikskólastarfi sem kynnt verði skóla- og frístundaráði.

Samþykkt.

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, Erla Stefánsdóttir og Kristín Hildur Ólafsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að skipaður verði starfshópur um aðgerðaáætlun varðandi læsi, með fulltrúum leikskóla, grunnskóla, frístundastarfs, skólaþjónustu, háskólasamfélagsins og Miðju máls og læsis. Hlutverk hópsins er að koma með tillögu að nánari útfærslu tillagna fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings barna og ungmenna í skólum og frístundastarfi í Reykjavík með hliðsjón af áherslum menntastefnu Reykjavíkurborgar. Sérstök áhersla verði lögð á að útfæra nánar tillögur fagráðsins um hvernig megi stuðla að auknum framförum nemenda og hækka hlutfall þeirra sem getur lesið sér til skilnings. Jafnframt verði greindar nánar niðurstöður lestrarskimana og eftir atvikum annarra fyrirliggjandi prófa m.a. út frá fylgni við lýðfræðilegar breytur, samsetningu nemendahópa og kennsluaðferðir. Hópurinn skili niðurstöðum með tímasettri áætlun í skilgreindum áföngum eigi síðar en 30. apríl 2018.

Greinargerð fylgir.

Samþykkt. SFS2017120057

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil vinna hefur verið lögð í að móta öfluga læsisstefnu borgarinnar og tilkoma Miðju máls og læsis styrkir til muna kennslufræðilega ráðgjöf og stuðning við vettvanginn. Næstu skref eru að móta tímasetta áætlun um hvernig megi ná metnaðarfullum markmiðum um að allur þorri nemenda geti lesið sér til gagns. Áætlunin á að liggja fyrir á vormánuðum og verður grundvöllur markvissrar vinnu við að bæta árangur í læsi á komandi misserum.

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2017, um staðfestingu starfsáætlana grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2017-2018. SFS2016040073

Samþykkt.

7. Lögð fram drög að nýju rekstrarleyfi fyrir Waldorfleikskólann Sólstafi. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2017, um nýtt rekstrarleyfi og flutning Waldorfleikskólans Sólstafa, bréf Waldorfleikskólans Sólstafa, ódags, þar sem óskað er eftir rekstrarleyfi í nýju húsnæði að Sóltúni 6 og staðfesting foreldraráðs Waldorfleikskólans Sólstafa, dags. 2. júní 2016, á að hafa fengið til umsagnar fyrirhugaðan flutning leikskólans í Sóltún 6. SFS2017120027

Samþykkt. Frá sama tíma falli úr gildi rekstrarleyfi vegna reksturs Waldorfleikskólans Sólstafa að Grundarstíg 19 í Reykjavík.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2017, um umsókn um aukið framlag vegna 6 barna við Waldorfleikskóla Sólstafa að Sóltúni 6, bréf Waldorfleikskólans Sólstafa, dags. 28. nóvember 2017, ósk um breytt rekstrarleyfi og aukið framlag, samningur um framlag leikskólasviðs Reykjavíkurborgar við Waldorfleikskólann Sólstafi, dags. 19. maí 2010, ásamt viðauka, dags. 21. nóvember 2014:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Waldorfleikskólans Sólstafa að Sóltúni 6, Reykjavík, verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 35 í stað 29 frá 1. janúar 2018. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila frá 19. maí 2010, og viðauka skv. honum þar sem kveðið er á um fjölgun barna þegar skilyrði um útgáfu rekstrarleyfis hefur verið fullnægt og að því gefnu að Waldorfleikskólinn Sólstafir undirriti viðauka sem framlengir gildistíma samnings aðila frá 19. maí 2010 og viðauka skv. honum til 1. mars 2018.

Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2017120027

9. Lögð fram drög að erindisbréfi starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík. SFS2017010035

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkti í janúar sl. að stofna starfshóp í samstarfi við félög dagforeldra um þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu borgarinnar. Sætir furðu að erindisbréf hópsins hafi ekki verið lagt fram fyrr. Að mati Sjálfstæðisflokksins þyrfti erindisbréfið að endurspegla með skýrum hætti vilja borgaryfirvalda til að styrkja rekstur dagforeldra í Reykjavík og efla þannig dagforeldrakerfið í öllum hverfum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja því til að í textann bætist við ákvæði um að hlutverk starfshópsins sé jafnframt að koma með tillögur um hvernig unnt sé að bæta starfsaðstæður og rekstrarumhverfi dagforeldra.

10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2017, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði, 6. desember 2017. Jafnframt lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. desember 2017, um stöðu ráðninga í sjálfstætt reknum leikskólum í Reykjavík. SFS2017020191

11. Lögð fram fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2018. Einnig lagt fram bréf borgarstjóra til borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2017, um breytingatillögur við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018. SFS2017030190

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

Fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2018 gerir ekki ráð fyrir að innleiða eigi nýja frístundastefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var 3. október 2017. Síðustu ár hefur óskum varðandi bætt frístundastarf verið vísað inn í stefnumótunarhópinn og því eru vonbrigðin mikil að sjá svo til engar tillögur úr stefnunni inni í fjárhagsáætlun 2018. Varðandi óskir og ábendingar framkvæmdastjóra síðustu ár í tengslum við fjárhagsáætlunarvinnu þá harma framkvæmdastjórar að ekki sé gert ráð fyrir bætingu til að auka gæði frístundastarfsins og bæta starfsumhverfið. Viðbragðsteymi við bráðavanda frístundaheimila kynnti 17 tillögur í skóla – og frístundaráði og borgarráði í október, sem ekki hefur verið brugðist við nema að litlu leyti. Framkvæmdastjórar sendu í júní til formanns og sviðsstjóra ályktun þar sem þeir lýstu yfir miklum áhyggjum yfir mönnunarvanda frístundaheimila á komandi hausti. Ályktuninni fylgdi tillaga um að hækka laun frístundaleiðbeinenda í takt við breytta ábyrgð sem ekki náði inn í fjárhagsáætlun fyrir 2018 en fagna því að búið er að afgreiða starfsmannaafslátt starfsmanna í frístundaheimilum. Húsakostur frístundastarfs er víða bágborinn og ekki er hægt að sjá í fjárfestingaráætlun að brugðist sé við því með viðeigandi hætti. Hópur sem skoðar húsnæði frístundastarfs sem skila átti af sér 8. nóvember er enn að störfum þannig að staða húsnæðis frístundastarfs er í óvissu fyrir næsta starfsár. Grunnbúnaður og endurnýjun tækja hefur ekki komið inn. Vísað er til bókunar frá skóla- og frístundaráðsfundi 13.september 2017.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fjárhagsáætlun skóla – og frístundasviðs 2018 endurspeglar áframhaldandi uppbyggingu í skóla- og frístundastarfi borgarinnar með áherslu á aðgerðir til að bæta starfsumhverfi og innra starf leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva. Nýtt fjármagn til málaflokksins á árinu nemur um 1 milljarði króna til viðbótar þeim 2 milljörðum sem bættust við ramma sviðsins á árinu sem nú er að líða. Stoðþjónusta við kennara í daglegu starfi eykst með fjölgun hegðunarráðgjafa, talmeinafræðinga, fjármagn til að þjónusta börn af erlendum uppruna eykst, námsgögn verða gjaldfrjáls í grunnskólum, átak verður gert í upplýsingatæknimálum með bættum tölvubúnaði, nýrri stefnu í upplýsingatæknimálum og aukinni kennsluráðgjöf í upplýsingatækni. Fjármagn er aukið til sértækrar sérkennslu í leikskólum, fjölgun starfsmannafunda á leikskólum, auknu fjármagni til leikskóla á þremur starfsstöðvum o.s.frv. Aukið fjármagn kemur í félagsmiðstöðvastarf, styrki til verkefna ungmenna, námsleyfi starfsmanna frístundar og heilsársrekstur frístundaheimila. Helstu verkefnin framundan verða að tryggja frekara fjármagn til innleiðingar frístundastefnu, nýrrar menntastefnu borgarinnar og forgangsaðgerða úr starfshópum um bætt vinnuumhverfi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs.

Lagðar fram bókanir sem settar voru í trúnaðarbók skóla- og frístundaráðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun sem skráð var í trúnaðarbók 13. september 2017:

Fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir 2018 einkennist af sóknarhug og metnaði. Fjárveitingar hækka verulega til innra starfs leikskóla og grunnskóla. Í grunnskólum vega þyngst aukin framlög til almennrar kennslu, næðisstundar, stuðnings hegðunarráðgjafa og talmeinafræðinga, nýrra úrræða til að mæta börnum með fjölþættan vanda, sérkennslu og stjórnunar og er þar m.a. byggt á tillögum kennara í tengslum við rýnihópavinnu um bætt vinnuumhverfi grunnskólakennara. Í leikskólum eru aukin framlög til að mæta orlofi starfsmanna, aldursuppfærslu barna, bæta þjónustu við börn af erlendum uppruna, sértækrar sérkennslu og viðbótarstjórnunar. Hér er m.a. byggt á tillögum stjórnenda í tengslum við víðtæka greiningu á starfsemi og rekstri skóla- og frístundasviðs. Alls hækka framlög til skóla- og frístundamála í borginni um meira en 1000 milljónir króna á næsta ári og hafa þá hækkað um ríflega 3 milljarða á undanförnum 2 árum fyrir utan launahækkanir.

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva lagði fram svohljóðandi bókun sem skráð var í trúnaðarbók 13. september 2017:

Niðurstaða fjármála frístundamiðstöðva hefur síðustu ár verið jákvæð og skýrist það af þeirri miklu manneklu sem að við höfum verið að kljást við. Einnig hefur gengið verr að ráða menntaða starfsmenn til starfa. Það hefur skapað ójafnvægi í rekstrinum í þá átt að hægt hefur verið að færa fjármagn launaliða yfir í annan rekstur. Síðustu ár hefur liðurinn annar kostnaður alls ekki náð að standa undir grunnaðbúnaði sem til starfsins þarf. Fjárhagsáætlun undir liðnum öðrum kostnaði hefur ekki dugað og margar starfseiningar hafa ekki aðbúnað eða húsakost sem er starfinu samboðið. Einnig hefur fjármagn til námsleyfa ekki komið inn aftur ásamt því að fjármagn fyrir fræðslu hefur ekki aukist en með fækkun menntaðra starfsmanna þá hefur þjálfunar- og fræðsluhlutverk frístundamiðstöðva aukist til muna. Framkvæmdastjórar hafa haldið vel utan um þær óskir sem þeir senda inn ár hvert til að efla og bæta frístundastarf í borginni bæði fyrir börn og starfsmenn. Kaffitími starfsmanna frístundaheimila var tekinn út úr starfshlutfalli, aukinn fjöldi barna var settur á hvern starfsmann, undirbúningstími starfsmanna var styttur, stuðningskerfinu hefur verið breytt og ábyrgð færð á fleiri hendur án þess að starfsmenn njóti þess í launasamsetningu svo dæmi séu tekin. Því harma framkvæmdastjórar að þriðja árið í röð sé ekki tekið tillit til óska þeirra varðandi bætt vinnuumhverfi í frístundastarfi.

Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum lagði fram svohljóðandi bókun sem skráð var í trúnaðarbók 13. september 2017:

Félag skólastjórnenda í Reykjavík lýsir yfir ánægju með aukin fjárframlög til grunnskóla sem kynnt eru í drögum að fjárhagsáætlun ársins 2018 og treystir því að þau séu skref á leið til enn aukinna framlaga til málaflokksins á næstu árum. Þó vill félagið árétta það að enn er rekstraliðurinn „annar rekstrarkostnaður“ langt frá því að vera verðbættur eins og verið hefur meira og minna frá árinu 2008. Þessi staða er algerlega óásættanleg og skapar mikinn vanda þegar kemur að því að halda uppi metnaðarfullu skólastarfi. Félagið skorar á skóla- og frístundasvið að beita sér fyrir því að sjálfsögð leiðrétting umrædds rekstrarliðs verði gerð tafarlaust.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina lagði fram svohljóðandi bókun sem skráð var í trúnaðarbók 27. september 2017:

Í yfirliti yfir mikilvægustu viðfangsefni og áherslur 2017-2021 eru mörg atriði reifuð. Þar er í lið 6 fjallað um heilsu, líðan og velferð. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina saknar þess að þar sé ekki harðar kveðið að orði varðandi brýna eflingu andlegrar vellíðunar með því að nefna að markvisst skuli unnið að því að draga úr og vinna bug á kvíða og þunglyndi barna og ungmenna. Í lið 8 er fjallað um jafnrétti, mannréttindi og lýðræði. Hér er um áríðandi málaflokk að ræða en til þess að þessir áhersluþættir raungerist er brýnt að bæta í enn betur hvað varðar aðstöðu, faglega ráðgjöf, aukið tímamagn til undirbúnings- og teymisvinnu sem og meira fjármagn til ráðstöfunar á starfsstöðunum. Í lið 10 er talað um almenna vitundarvakningu um vistvæna ferðamáta og innleiðingu endurskoðaðrar hjólreiðastefnu borgarinnar. Eigi þetta að verða meira en orðin tóm þarf að fjölga hjólreiðastöndum við skólana, útvega skápa fyrir hjálma nemenda og kennara og hugsanlega að koma upp aðstöðu fyrir starfsfólk skólanna til að hafa t.d. fataskipti eftir langa hjólaferð til vinnu. Hvað varðar notkun upplýsingatækni og innleiðingu nýrra vinnubragða sem fjallað er um í 11. lið þá er forgangsmál að bæta nú þegar bága aðstöðu margra starfsstaða hvað varðar tölvuaðgengi og nettengingar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata lögðu fram svohljóðandi bókun sem skráð var í trúnaðarbók 27. september 2017:

Drög að fjárhagsáætlun skóla og frístundasviðs fyrir 2018 endurspegla áframhaldandi uppbyggingu í skólamálum í takt við bætta fjárhagsstöðu borgarinnar. Framlög til skóla– og frístundasviðs hækka um nærri 2 milljarða króna milli ára og er m.a. aukið framlag til að bæta starfsumhverfi í grunnskólum og leikskólum, auka stuðning við kennara s.s. aðgengi þeirra að sérfræðingum, s.s. hegðunarráðgjafa og talmeinafræðinga, auknu fjármagni til sérkennslu og nýrra úrræða til að mæta hegðunarmálum í öllum borgarhlutum, stjórnunar og næðisstundar. Í leikskólaumhverfinu verður m.a. mætt óskum leikskólastjóra um að færa útreikning barngilda til 1. september, fjármagn er aukið til leikskóla með hátt hlutfall barna af erlendum uppruna og leikskóla með margar starfsstöðvar og sameinaðra leikskóla.

12. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar til september 2017. SFS2017090093

13. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. janúar til september 2017. SFS2017090094

14. Lagt fram yfirlit yfir ferðir starfsmanna skóla- og frístundasviðs og kjörinna fulltrúa frá júlí til september 2017, dags. 26. október 2017. SFS2016120052

15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 27. september 2017, varðandi yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og bókanir skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2017090341

16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. desember 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. nóvember 2017, varðandi þjónustuskerðingu í leikskólum vegna manneklu haustið 2017. SFS2017110056

17. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2017, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS2016080100

18. Skóla og frístundaráð þakkar Guðlaugu Sturlaugsdóttur skrifstofustjóra grunnskólaskrifstofu fyrir góð og farsæl störf í þágu grunnskólastarfs í borginni og óskar henni gæfu og gengis á nýjum vettvangi.

- kl. 15.00 víkja Jóhanna H. Marteinsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Rósa Ingvarsdóttir og Þórhildur Löve af fundinum.

Fundi slitið kl. 15.13

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir                                                             Hermann Valsson

Kjartan Magnússon                                                        Sabine Leskopf

Þórlaug Ágústsdóttir                                                      Örn Þórðarson