Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2017, 8. nóvember, var haldinn 128. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.03. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S), S. Björn Blöndal (Æ) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fram fer kynning á forvörnum og inngripum vegna eineltismála. SFS2017110040
Vanda Sigurgeirsdóttir, Auður Jónsdóttir, Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Nanna Kristín Christiansen og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 11.25 tekur Kristín Ólafsdóttir sæti á fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar góða kynningu um eineltismál á degi gegn einelti. Það er ekki ásættanlegt að tilkynnt mál virðast föst í kringum 5% en mikilvægt er að lækka þá tölu enn frekar. Þó að þessi tala sé lægri en í löndunum í kringum okkur er hún samt of há, fjöldi einstaklinga verður fyrir skaða og skýrt markmið að einelti á aldrei að þola. Baráttan gegn einelti þarf stöðugt að vera í gangi og mikilvægt að starfsmenn sviðsins, á hvaða starfsstöð sem þeir starfa, þekki til eineltisáætlana og bregðist við þegar til þeirra er leitað. Þær hugmyndir sem kynntar voru sem tæki til að vinna gegn eineltinu vekja athygli. Meirihlutinn tekur undir að forvarnir eru mikilvægur þáttur í þessari baráttu og mikilvægt að verja fé og tíma í þær. Þær skila bestum árangri.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina ítreka mikilvægi þess að komið verði á fót eineltisráði, sem yrði hlutlaus vettvangur sem foreldrar og skólar geti leitað til þegar ekki er unnt að greiða úr málum á vettvangi. Auk þess er mikilvægt að tryggja öruggar ábendingarleiðir ef grunur vaknar um eineltismál og sömuleiðis ef nemendur telja að þeir séu lagðir í einelti í skólanum.
Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Eitt brýnasta mál skólasamfélagsins auk uppfræðslu er að hlúa að persónulegri vellíðan nemenda í skóla án aðgreiningar og vinna stöðugt að því að uppræta einelti meðal nemenda. Eineltismál eru ekki einkamál þolenda og gerenda, heldur er um að ræða alvarlegt samfélagsmein sem nauðsynlegt er að fjalla um af hreinskilni. Segja má að allt það fé sem varið er í faglegt forvarnarstarf og inngrip vegna eineltis og skilar þeim árangri að draga úr því, skilar sér margfalt til baka síðar til samfélagsins. Aðeins verður unnið markvisst og með verulegum árangri gegn einelti með samstilltu átaki og mikilli samvinnu allra starfskrafta skólanna sem og samvinnu við foreldra. Ekki má gleyma samvinnu við einstaka bekki og allan nemendahópinn því nemendamenning skóla sem og einstakra bekkja er mikill áhrifaþáttur hvað varðar einelti og forvarnargildi.
2. Fram fer kynning á líðan nemenda, niðurstöðum reglubundinna kannana á högum og líðan barna á efri stigum grunnskólans. SFS2017110041
Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Nanna Kristín Christiansen og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- Kl. 13.20 víkur Magnús Þór Jónsson af fundi.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynningu á högum og líðan barna í efri stigum grunnskólans. Um er að ræða mjög mikilvæg og gagnleg gögn sem að frístundamiðstöðvar nýta í umbótavinnu ár hvert. Óskandi væri að niðurstöður gagnanna kæmu til vinnslu fyrr en tíðkast þannig að hægt væri að bregðast hraðar við þar sem þörf er á. Fulltrúi framkvæmdastjóra hefur áhyggjur af aldurshópnum 16-18 ára sem lögum samkvæmt er skilgreindur sem börn og hvar vinna með niðurstöður með frávikahóp varðandi þennan hóp fer fram. Frístundamiðstöðvar bjóða ekki lengur upp á neitt starf fyrir þennan aldurshóp. Fulltrúi framkvæmdastjóra bendir á að félagsmiðstöðvarstarf er einnig af mjög skornum skammti fyrir börn í 5. - 7.bekk. Eingöngu er boðið upp á starf í 2 klst. á viku. Á þessum árum eru börnin að mótast og breytast mikið og því er mjög mikilvægt að þau hafi tækifæri til að sækja öruggt og faglegt frístundastarf félagsmiðstöðva þar sem allt starf er í eðli sínu forvarnarstarf.
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2017, um starfshóp um leikskólastarf í norðanverðum Grafarvogi. Jafnframt lögð fram skýrsla starfshóps um leikskólastarf í norðanverðum Grafarvogi, dags. 19. október 2017. SFS2017050160
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að ekki verði að ráðist í sameiningar leikskóla í norðanverðum Grafarvogi við núverandi aðstæður. Mikilvægt er að öll stefnumótun í leikskólamálum um þessar mundir styðji við það forgangsverkefni að bæta starfsumhverfi í leikskólum borgarinnar, draga úr álagi á starfsfólk og efla starfsanda.
Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvæg vinna stendur nú yfir við að bæta vinnuumhverfi kennara og annars starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi borgarinnar. Verkefnið er í skýrum forgangi um þessar mundir og er brýnt að aðrar stefnumótandi ákvarðanir styðji við þau markmið að bæta aðbúnað starfsfólks og barna, draga úr álagi á starfsfólk og efla starfsanda. Áform um sameiningar leikskóla við núverandi aðstæður geta unnið gegn því markmiði til skemmri tíma litið með því að auka á álag og óvissu foreldra, barna og starfsfólks leikskóla. Meirihlutinn leggur því til að áformum um sameiningu leikskóla í borginni verði vikið til hliðar í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki verði ráðist í sameiningar nema fyrir liggi skýr stuðningur stjórnenda, starfsfólks og foreldra. Meirihlutinn þakkar þeim aðilum sem unnið hafa að mótun tillagna um leikskólastarf í norðanverðum Grafarvogi og sömuleiðis þeim fulltrúum foreldra og starfsfólks í Grafarvogi og Breiðholti sem viðrað hafa skoðanir sínar um hugsanleg sameiningaráform.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að horfið verði frá fyrirliggjandi tillögum um sameiningu leikskóla í Reykjavík. Þess í stað verði reynslan metin af hinum víðtæku leikskólasameiningum sem átt hafa sér stað í borginni frá árinu 2011. Lagt er til að úttekt verði gerð um málið og metið hvaða áhrif umræddar sameiningar hafa haft á faglegt starf og starfsmannamál í þeim skólum sem þær náðu til. Í þessari vinnu komi eftirfarandi atriði meðal annars til skoðunar: Hafði sameining í för með sér aukið álag á stjórnendur og starfsmenn viðkomandi skóla? Hefur veikindadögum fjölgað sem og töku veikindaleyfa? Hvernig hefur viðkomandi leikskólum haldist á stjórnendum, leikskólakennurum og öðru starfsfólki eftir sameiningu? Hafa þeir t.d. bætt við sig faglærðu fólki eða misst það í kjölfar sameiningar? Hver hefur þróunin orðið í hugmyndafræði og aðferðafræði viðkomandi skóla í þeim tilvikum þegar hún hefur verið ólík fyrir sameiningu. Höfðu breytingarnar áhrif á ánægju nemenda og foreldra í viðkomandi leikskólum? Lagt er til að við gerð úttektarskýrslunnar verði haft gott samráð við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi leikskóla og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Einnig foreldraráðum og foreldrafélögum viðkomandi leikskóla ásamt Félagi leikskólakennara, Félagi starfsfólks í leikskólum og Sambandi foreldra leikskólabarna í Reykjavík.
Frestað.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Gerð er alvarleg athugasemd vegna fundarstjórnar formanns þar sem hann varð ekki við ósk um að tillaga Sjálfstæðisflokksins, um að horfið verði frá fyrirliggjandi tillögum meirihlutans um frekari sameiningu leikskóla í borginni, kæmi til afgreiðslu á fundinum. Gekk tillaga Sjálfstæðisflokksins þó mun lengra en tillaga meirihlutans, sem kveður einungis á um að ekki verði ráðist í sameiningar leikskóla í norðanverðum Grafarvogi við núverandi aðstæður. Greinilegt er að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna lítur svo á að umræddum sameiningartillögum hafi nú verið frestað þar sem hann treystir sér ekki til þess að knýja umræddar sameiningar í gegn á yfirstandandi vetri eins og upphaflega stóð til vegna mikillar andstöðu foreldra og starfsmanna leikskóla. Flest bendir þó til að þessir flokkar muni taka til óspilltra málanna við sameiningar umræddra leikskóla að loknum borgarstjórnarkosningum, fái þeir til þess fylgi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er almenna reglan þegar tillögur eru fyrst kynntar á ráðsfundinum að fresta afgreiðslu þeirra svo ráðsliðar og starfsfólk sviðsins geti kynnt sér efni þeirra vandlega. Það er ástæða fyrir frestun á afgreiðslu umræddrar tillögu, sem aukinheldur er viðamikil og tekur á mörgum þáttum sem mikilvægt er að rýna vandlega. Mikilvægt er að árétta að ákvörðun meirihlutans snýst um forgangsröðun og skýra stefnumótun sem er að leggja megináherslu á bætt starfsumhverfi og leiðir til að minnka álag og efla starfsanda. Veigamiklar skipulagsbreytingar eins og sameiningar leikskóla geta unnið gegn því markmiði til skemmri tíma litið. Það er því mikilvægt að staldra við og leggja sameiningaráform til hliðar við þessar aðstæður eins og nú hefur verið gert. Það er líka góð stjórnsýsla að taka mark á ábendingum sem koma fram í samráði við foreldra og starfsfólk.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að metið yrði í sérstakri úttekt hvaða áhrif sameiningar leikskóla á undanförnum árum hafa haft á starfsemi leikskóla með sérstakri áherslu á faglegt starf og starfsmannamál í þeim skólum sem þær náðu til. Tillagan er efnislega svipuð þeirri sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram undir þessu máli. Á síðasta fundi kusu fulltrúar meirihlutans að vísa tillögunni frá án nokkurrar skoðunar en nú neita þeir að taka sambærilega tillögu til afgreiðslu undir því yfirskini að skoða þurfi hana betur. Þessi málsmeðferð er mjög ótrúverðug og sýnir að þrátt fyrir margra ára sameiningarbrölt virðist meirihlutinn ekki vita í hvorn fótinn hann eigi að stíga í þessum efnum.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. október 2017, bréfi leikskólans Skerjagarðs, dags. 31. ágúst 2017, þar sem óskað er eftir breytingu á framlagi til leikskólans; samningi um framlag skóla- og frístundasviðs til Skerjagarðs fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára, gildistaka 1. ágúst 2015; rekstrar- og húsnæðisframlagi til sjálfstætt starfandi leikskóla með samningi við skóla- og frístundasvið, börn frá 18 mánaða til 6 ára, í gildi frá 1. júní 2017 og rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn 6/9 mánaða til 36 mánaða, í gildi frá 1. júní 2017:
Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til leikskólans Skerjagarðs verði óbreytt þ.e. að heimilt verði að greiða framlag vegna 50 reykvískra barna eins og kveðið er á í samningi aðila, sem tók gildi 1. ágúst 2015. Synjað er beiðni um að heimilt verði að greiða framlag vegna barna frá 12 mánaða aldri.
Greinargerð fylgir. SFS2017090004
Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
- Kl. 13.50 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundi.
5. Fram fer umræða um húsnæði leik- og grunnskóla og frístundamiðstöðva með tilliti til viðhalds og nýframkvæmda. SFS2017110045
Guðlaug S. Sigurðardóttir og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir góða kynningu á húsnæði leik- og grunnskóla og frístundamiðstöðva. Þeir benda á aukin hlutverk frístundamiðstöðva eftir að samþykkt var stefna í frístundamálum og á bága stöðu margra frístundamiðstöðva, félagsmiðstöðva og frístundaheimila sem ekki var ávarpað í kynningunni. Mikilvægt er að fara í þarfagreiningu á aðstöðu frístundastarfs í Reykjavík sem er því miður á mörgum stöðum ábótavant. Eigi frístundamiðstöðvar að geta starfað eftir nýsamþykktri stefnu er mikilvægt að skoða aðstöðu frístundamiðstöðva og setja í gang framtíðaráform um að bæta aðstöðu og auka viðhald.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2017, ásamt drögum að þjónustusamningi skóla- og frístundasviðs við sjálfstætt rekna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila, bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. ágúst 2017 um áhrif breytinga á grunnskólalögum nr. 76/2016 á kostnað sveitarfélaga, bréfi Landakotsskóla, dags. 2. október 2017, um framlag vegna reksturs frístundastarfs við grunnskóla, bréfi Hjallastefnunnar ehf., dags. 5. september 2017, um framlag vegna reksturs frístundastarfs við grunnskóla og bréfi Samtaka sjálfstæðra skóla, dags. 17. október 2017, um greiðslu til sjálfstætt starfandi grunnskóla vegna frístundar:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ganga til samninga við sjálfstætt rekna grunnskóla í Reykjavík með yngri árganga vegna reksturs frístundaheimila skólaárið 2017 – 2018 og þeir byggi á sama grunni og samningur sem gerður var vegna vorannar skólaársins 2016 – 2017. Samningar við skólana verði lagðir fyrir skóla- og frístundaráð og borgarráð þegar drög að þeim liggja fyrir.
Greinargerð fylgir. SFS2017100036
Samþykkt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Skóla og frístundasvið óskaði eftir áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga á því hvort breytingar á grunnskólalögum og nýtt ákvæði um frístundastarf kalli á breytingar á fjárveitingum sveitarfélaga til sjálfstætt rekinna skóla sem reka frístundaþjónustu. Niðurstaða Sambandsins er sú að lagabreytingin kalli ekki á endurskoðun á því fyrirkomulagi sem verið hefur milli borgarinnar og sjálfstætt starfandi skóla hvað varðar greiðslur fyrir frístundaþjónustu. Mikilvægt í þessu sambandi er að leggja mat á gæði þjónustunnar og hvort sú þjónustuna sem sjálfstætt starfandi skólar bjóða standist samanburð við frístundastarf sem borgin rekur. Eðlilegt er að Sambandið hafi forgöngu fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu um viðræður við mennta- og menningarmálaráðuneytið til að fá úr því skorið hvort ríkið sé tilbúið til að fylgja eftir nýju lagaákvæði með auknum framlögum til sveitarfélaganna til að fjármagna frístundaþjónustuna, hvort sem hún er rekin á vegum þeirra eða sjálfstætt starfandi skóla.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja eðlilegt að framlög Reykjavíkurborgar til frístundastarfsemi sjálfstætt rekinna skóla endurspegli þann kostnað sem í þessari starfsemi felst enda er dvöl reykvískra barna á frístundaheimilum eðlilegt framhald af skóladvöl þeirra og þannig hluti af grunnþjónustu skóla við þá nemendur. Ljóst er að þær upphæðir sem miðað er við í fyrirliggjandi samningsdrögum duga ekki til að standa straum af kostnaði sjálfstætt rekinna skóla við frístundastarfsemi þeirra með sambærilegum hætti og gert er í tengslum við rekstur borgarrekinna skóla og er það óviðunandi að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
7. Lögð fram drög að viðauka við samstarfssamning skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, þar sem samningurinn er framlengdur til 1. september 2018. Jafnframt lagður fram samstarfssamningur skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, dags. 6. júní 2013 og framlenging á samstarfssamningi, dags. 22. september 2016. SFS2017110042
Samþykkt.
8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2017, um áherslur þróunarstyrkja skóla- og frístundaráðs fyrir starfsárið 2018-2019. Lagt er til að eftirfarandi áhersluþættir verði áherslur þróunarstyrkja skóla- og frístundaráðs fyrir starfsárið 2018-2019: félagsfærni, sjálfsefling, læsi, sköpun og heilbrigði. SFS2017110043
Samþykkt.
9. Lagt fram á minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. nóvember 2017, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi 6. nóvember 2017. SFS2017020191
10. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir uppfærðum upplýsingum um fjölda þeirra leikskóla, sem orðið hafa að skerða þjónustu vegna manneklu í haust. Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um einstaka skóla og um hversu mikla skerðingu hefur verið að ræða í hverjum þeirra.
SFS2017110056
- Kl. 14.50 víkur Kristján Gunnarsson af fundi.
- Kl. 15.10 víkja S. Björn Blöndal, Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Kristín Ólafsdóttir, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Guðrún Kaldal og Birgitta Bára Hassenstein af fundinum.
Fundi slitið kl. 15.30
Skúli Helgason
Hermann Valsson Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Þórlaug Ágústsdóttir