Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, miðvikudaginn 25. október, var haldinn 127. fundur skóla- og frístundaráðs í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík og hófst hann kl. 12.08. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Ragnar Hansson (Æ), Sabine Leskopf (S), Sigríður Pétursdóttir (V) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B), Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Ólafsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2017, um sameiningu leikskólanna Seljaborgar og Seljakots, auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2017, varðandi umsagnir um tillöguna; umsögn foreldraráðs Seljakots, ódags; umsögn foreldrafélags Seljaborgar, dags. 8. október 2017; umsögn starfsfólks Seljakots, ódags; umsögn leikskólastjóra Seljakots, ódags; umsögn starfsfólks Seljaborgar, ódags: 

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til sameiningu leikskólanna Seljaborgar og Seljakots, í Breiðholti, undir eina stjórn. Sameining komi til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2018. Sviðsstjóra er falið að undirbúa breytinguna í nánu samstarfi við foreldra og starfsfólk. Lagt er til að leikskólastjóri Seljakots stýri hinum sameinaða leikskóla. Skipaður verði starfshópur sem vinni með leikskólastjóra að því að gera áætlun um ferli sameiningarinnar og vinni að innleiðingu hennar. Starfshópurinn verði skipaður leikskólastjóra sameinaðs leikskóla, tveimur fulltrúum starfsmanna frá hvorum leikskóla og einum fulltrúa foreldra hvors leikskóla ásamt fulltrúum skrifstofu skóla- og frístundasviðs. Starfstími hópsins sé frá 1. nóvember 2017 til 1. október 2018 eða lengur ef þörf krefur.

Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2017090096

-    Kl. 12.30 tekur Birgitta Bára Hassenstein sæti á fundinum.

Sigríður Kristín Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að ekki verði ráðist í frekari sameiningu leikskóla í Breiðholti fyrr en reynslan hefur verið metin af þeirri víðtæku sameiningu leikskóla sem átt hefur sér stað í borginni frá árinu 2011. Lagt er til að úttekt verði gerð um málið og metið hvaða áhrif umræddar sameiningar hafa haft á faglegt starf og starfsmannamál í þeim skólum sem þær náðu til. Í þessari vinnu komi eftirfarandi atriði meðal annars til skoðunar: Hafði sameining í för með sér aukið álag á stjórnendur og starfsmenn viðkomandi skóla? Hefur veikindadögum fjölgað sem og töku veikindaleyfa? Hvernig hefur viðkomandi leikskólum haldist á stjórnendum, leikskólakennurum og öðru starfsfólki eftir sameiningu? Hafa þeir t.d. bætt við sig faglærðu fólki eða misst það í kjölfar sameiningar? Hver hefur þróunin orðið í hugmyndafræði og aðferðafræði viðkomandi skóla í þeim tilvikum þegar hún hefur verið ólík fyrir sameiningu. Höfðu breytingarnar áhrif á ánægju nemenda og foreldra í viðkomandi leikskólum? Lagt er til að við gerð úttektarskýrslunnar verði haft gott samráð við stjórnendur og starfsfólk viðkomandi leikskóla og þeim gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Einnig foreldraráðum og foreldrafélögum viðkomandi leikskóla ásamt Félagi leikskólakennara, Félagi starfsfólks í leikskólum og Sambandi foreldra leikskólabarna í Reykjavík.

Tillögunni vísað frá með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja til að sviðsstjóra verði falið að leggja mat á þau sjónarmið sem koma fram í umsögnum foreldra og starfsfólks leikskólanna Seljaborgar og Seljakots um tillögu sviðsstjóra um sameiningu leikskólanna. Jafnframt verði sviðsstjóra falið að leggja fram ábendingar um hvernig megi bregðast við þeim ábendingum sem koma fram í umsögnunum til að tryggja farsælt leikskólastarf í framtíðinni á þessum starfsstöðvum í góðu samstarfi við starfsfólk og foreldra. Mikilvægt er að sameiningar sem þessar séu unnar í góðri sátt með hagsmuni barnanna að leiðarljósi og læra af þeirri reynslu sem liggur fyrir í sambærilegum verkefnum.

Samþykkt.

-    Kl. 13:00 tekur Helena Sif Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

-    Kl. 13.05 víkur Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja áherslu á að allar tillögur um sameiningar leikskóla þarf að vega og meta í vönduðu samráði við starfsfólk og foreldra viðkomandi leikskóla. Þess vegna leggur meirihlutinn til að sviðsstjóra verði falið að leggja mat á þau sjónarmið sem koma fram í umsögnum foreldra og starfsfólks leikskólanna Seljaborgar og Seljakots um tillögu sviðsstjóra um sameiningu leikskólanna. Jafnframt verði sviðsstjóra falið að leggja fram tillögur um hvernig megi bregðast við þeim ábendingum sem koma fram í umsögnunum til að tryggja farsælt leikskólastarf í framtíðinni á þessum starfsstöðvum í góðu samstarfi við starfsfólk og foreldra. Mikilvægt er að sameiningar sem þessar séu unnar í góðri sátt með hagsmuni barnanna að leiðarljósi og læra þarf af þeirri reynslu sem liggur fyrir í sambærilegum verkefnum.

2.    Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. október 2017, um niðurstöður lesskimunar 2017. Jafnframt lögð fram skýrslan Lesskimun 2017: Niðurstöður úr lesskimun í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2017, dags. í október 2017. SFS2017030186

Ásgeir Björgvinsson, Dröfn Rafnsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir og Hanna Guðbjörg Birgisdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur felur skólastjórum að kynna niðurstöður lesskimunarkönnunar fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Rétt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.

Frestað.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurstöður lesskimunar eru vonbrigði og gefa tilefni til að greina skýringar á þeirri breytingu sem orðið hefur milli ára. Sérstaklega vekur athygli að hlutfall drengja sem nær viðmiðum lesskimunar lækkar talsvert milli ára eða um 6%. Skoða þarf vandlega hvaða skýringar geta verið á þessari þróun. Ánægjulegt er að hlutfall þeirra sem ná afburða árangri hækkar á milli ára. Þá er ánægjulegt að sjá að allmargir skólar í borginni bæta verulega stöðu sína milli ára. Mikilvægt er að rýna niðurstöðurnar með fulltrúum skólastjórnenda, kennara og foreldra með það í huga að fjölga verulega þeim nemendum sem geta lesið sér til gagns. Þar gegnir hin nýja Miðja máls og læsis lykilhlutverki en komið hefur í ljós að mikil þörf og eftirspurn er eftir þjónustu þeirra frá leikskólum og grunnskólum í borginni.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir áhyggjum sínum af niðurstöðum lesskimunar í 2. bekk árið 2017 en niðurstöðurnar benda til þess að 63% barna við lok 2. bekkjar geti lesið sér til gagns, sem er 4,5% lægra en árið 2016. Slík staða er óviðunandi og brýnt er að sem fyrst verði gripið til úrbóta í þeim skólum sem verst standa. Mikilvægt er að skoðað verði vel með skólunum hvaða orsakir gætu legið hér að baki og tiltækar leiðir til úrbóta. Eins og gefur að skilja er staða einstakra skóla mismunandi. Athygli vekur að 85% nemenda geta lesið sér til gagns í þeim skóla sem best stendur, samkvæmt fimm ára meðaltali 2013-2017, samanborið við 40% nemenda í þeim skóla sem verst stendur. 

3.    Lagt fram samkomulag skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Reykjavik International School ses., dags. 12. október 2017, um riftun þjónustusamnings, dags. 20. október 2015 og viðauka skv. honum, dags. 31. mars 2017, auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. október 2017; þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs og Reykjavik International School ses., dags. 20. október 2015 og viðauki við þjónustusamning, dags. 31. mars 2017.

Samþykkt og vísað til borgarráðs. 

    

4.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. október 2017, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, sbr. 13. lið fundargerðar 125. fundar skóla- og frístundaráðs, varðandi fjármagn til stuðningskennslu barna með sértækan vanda. SFS2017090340

5.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 15. lið fundargerðar 126. fundar skóla- og frístundaráðs, varðandi lokun leikskóladeilda vegna manneklu. Jafnframt lagður fram verkferill skóla- og frístundasviðs um fáliðun í leikskólum. SFS2017100051

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir framlagðar upplýsingar um lokun leikskóladeilda vegna manneklu. Það er þó spurning hvort vandinn sé víðtækari en þessar tölur gefa til kynna því kunnugt er um a.m.k. þrjá leikskóla þar sem þjónusta við börn hefur verið skert þótt það komi ekki fram í framlögðu yfirliti. Því er ljóst er að mannekla hefur leitt til allmikillar skerðingar og bitnað á þjónustu við mörg hundruð leikskólabörn. Ljóst er að þær aðgerðir, sem gripið hefur verið til að fjölga starfsfólki og bæta starfsumhverfi, hafa ekki skilað sér og er því brýnt að settur verði enn meiri kraftur í að leysa vandann. 

6.    Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. október 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 16. lið fundargerðar 126. fundar skóla- og frístundaráðs, varðandi hugmyndir um leikskólavist barna foreldra í fæðingarorlofi. SFS2017100052

7.    Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 23. október 2017, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS2016080100

-    Kl. 14.10 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi og Örn Þórðarson þar sæti.

-    Kl. 14.15 víkja Helena Sif Gunnarsdóttir, Magnús Þór Jónsson, Kristín Ólafsdóttir og Guðrún Kaldal af fundinum.

8.    Eftir fundarslit verður haldið í Bíó Paradís, Hverfisgötu 54. Bíósýning og fræðslufundur, 15 ár á Íslandi eftir Jón Karl Helgason. SFS2017100106 

Fundi slitið kl. 14.23

Skúli Helgason

Kjartan Magnússon    Ragnar Hansson

Sabine Leskopf    Sigríður Pétursdóttir Þórlaug Ágústsdóttir    Örn Þórðarson