Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 27. september, var haldinn 125. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.02. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), S. Björn Blöndal (Æ), Sabine Leskopf (S) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Arndís María Ólafsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Helgadóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Kristín Ólafsdóttir, foreldrar barna í leikskólum; Linda Ósk Sigurðardóttir, starfsfólk í leikskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

Arndís María Ólafsdóttir, Kristín Helgadóttir og Linda Ósk Sigurðardóttir eru boðnar velkomnar á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

1. Fram fer kynning á verkefninu Reykjavík, borgin okkar. SFS2017090339

Anna Gréta Guðmundsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri og listasmiðjustjóri í Sæborg, Arndís Gísladóttir, listasmiðjustjóri í Dalskóla og Rakel Snorradóttir, verkefnastjóri í Klömbrum taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð þakkar fulltrúum leikskólanna Dalskóla, Klömbrum og Sæborg kærlega fyrir skemmtilega kynningu á samstarfsverkefni þeirra Reykjavík, borgin okkar. Verkefnið er frábært dæmi um fjölbreytt og lifandi samstarf þar sem börnin kynnast umhverfi og aðstæðum jafnaldra sinna í framandi borgarhlutum og læra að þekkja borgina okkar í sínum margbreytilegu myndum, allt frá Hörpu til Hallgrímskirkju og holræsanna í borginni.

2. Lögð fram skýrslan Athugun á starfsemi Reykjavik International School 2017, sem fram fór í apríl 2017. Jafnframt lögð fram ensk þýðing skýrslunnar Review of activities Reykjavik International School, trúnaðarmál. SFS2015060190

Sigrún Harpa Magnúsdóttir og Kristinn Svavarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

- Kl. 12.45 taka Rósa Ingvarsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

3. Lögð fram drög að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs árið 2018, trúnaðarmál. SFS2017030190

Samþykkt að vísa drögum að starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2018 til borgarráðs.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

- Kl. 13.00 víkur Kristín Helgadóttir af fundi og Birgitta Bára Hassenstein tekur þar sæti.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs, 21. júní 2017, auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. ágúst 2017, um forgang við innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar:

Nú þegar foreldrar barna sem eiga að sækja grunnskóla í vesturhluta borgarinnar sækja um skólavist fyrir börn sín kemur í ljós að hluti þeirra barna sem búa í allra næsta nágrenni við Vesturbæjarskóla fá höfnun um skólavist þar en fá inngöngu í Grandaskóla. Fyrir þessu liggja ýmsar ástæður sem hafa verið kynntar foreldrum í hverfinu. Ákvörðun þessi kemur fjölskyldum misvel og geta ástæður þess og aðstæður barna verið margar og misflóknar. Brýnt er að skoða vel grunnskólaumsókn hvers og eins barns með vellíðan og sjálfsöryggi einstakra barna að leiðarljósi auk nálægðar heimilis við hvorn skóla. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur til að börn með greindan kvíða sem hafa verið undirbúin af leikskóla og fjölskyldu til sækja Vesturbæjarskóla vegna nálægðar, sem og vinatengsla við börn sem þar eru fyrir, fái forgang við innritun í Vesturbæjarskóla sé þess nokkur kostur.

Tillögunni vísað frá með 5 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2016120053

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Tildrög tillögunnar var eindregin ósk foreldra barns með greindan kvíða að fá barnið innritað í Vesturbæjarskóla sem er á móts við heimili þeirra við Hringbraut, frekar en að barnið yrði að ganga í Grandaskóla sem það á skólagöngu í samkvæmt skilgreiningu skólahverfis. Með tilliti til aðstæðna barnsins lagði fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fram tillögu um að barnið fengi forgang við innritun í Vesturbæjarskóla. Í ljósi þessa máls má spyrja hvort núverandi greining í skólahverfi sé raunhæf, þ.e. eins og í þessu tilviki að draga skólahverfamörk við skólalóð þannig að börn sem búi svo til við skólalóðina þurfi að sækja í annan skóla í stað þess að leyfa flæði yfir götuna sé þess óskað þrátt fyrir talsverðan umferðarþunga.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs, 6. apríl 2017, auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. september 2017, um stuðning við stjórnendur:

Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að starfsmanna- og foreldrakannanir verði lagðar fyrir árlega fyrstu fimm árin í skólum þar sem skólastjóraskipti eiga sér stað og sviðið styðji sérstaklega við skólasamfélög þar sem nýir skólastjórnendur hafa verið ráðnir.

Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að skrifstofa skóla- og frístundasviðs styðji sérstaklega við nýja stjórnendur í starfi, með fræðslu og stuðningi sem sniðinn er að þörfum hvers og eins með árlegum starfsþróunarsamtölum. Stjórnendur verði studdir til að nýta niðurstöður kannana og aðrar upplýsingar um innra starf starfseininganna sem þeir stýra til að meta stöðu sína og sem grundvöll umbóta.

Samþykkt. SFS2017040002

- Kl. 13.25 víkur S. Björn Blöndal af fundi og Ilmur Kristjánsdóttir tekur þar sæti.

6. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. september 2017, um aðgerðir til að mæta manneklu og efla mannauð á leikskólum. SFS2017090126

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Skóla og frístundaráð leggur til eftirfarandi málsmeðferð á tillögum aðgerðateymis vegna manneklu í leikskólum.

Eftirtöldum tillögum verði vísað til borgarráðs:

1. Fjármagn til heilsueflingar.     kr. 5.715.000

2. Fjármagn til að mæta auknu álagi og bæta liðsanda . kr. 14.287.500

3. Undirbúningur tekinn í yfirvinnu.    kr. 57.275.803

4. Fjölgun starfsmannafunda.     kr. 33.078.420

5. Eingreiðsla til stjórnenda.     kr. 11.960.000

6. Ímyndarvinna og kynningarstarf leikskóla í manneklu. kr. 5.000.000

7. Leita í raðir starfsmanna sem hafa látið af störfum.  án kostnaðarauka

8. Viðbragðsferill vegna leikskóla í mönnunarvanda.  án kostnaðarauka

Eftirtöldum tillögum verði vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara til frekari meðferðar og úrvinnslu:

1. Fjölgun undirbúningstíma.

2. Aðgerðir til að halda fólki sem annars mun láta af störfum á næstu árum.

3. Fækkun barna á deildum.

4. Styttri opnunartími leikskóla.

5. Breyta úthlutun vegna veikindaafleysingar í fjármagn í stað fastra stöðugilda.

6. Lokað á aðfangadag og gamlársdag.

7. Niðurfelling leikskólagjalda milli jóla og nýárs fyrir þá sem nýta ekki plássin.

8. Breyting á barngildum eða fallið frá þeim.

9. Skilgreina hámarks leikskóladvöl barna þeirra foreldra sem eru í fæðingarorlofi.

10. Handleiðsla við nýútskrifaða leikskólakennara.

11. Aukið svigrúm til náms á 5. ári í námi til leikskólakennara.

12. Fatapeningar.

Eftirtöldum tillögum er vísað til kjaradeildar og mannauðsdeildar borgarinnar til frekari meðferðar og úrvinnslu:

1. Miðlæg afleysingarþjónusta.

2. Gera störf aðstoðarleikskólastjóra og deildarstjóra eftirsóknarverðari.

3. Stytting vinnuviku.

Samþykkt að vísa til borgarráðs.

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina átelur að áríðandi gögn varðandi yfirgripsmiklar, mikilvægar og áríðandi tillögur sem meirihlutinn óskar eftir að séu samþykktar á fundinum og síðan vísað til borgarráðs, eru kynntar með ófullnægjandi hætti á sjálfum fundinum og án þess að minnihluti ráðsliða fái tækifæri til að skoða gögnin áður.

Áheyrnarfulltrúar starfsfólks og skólastjóra í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúar leikskólakennara og skólastjórnenda leikskóla, þakka fyrir þá vinnu sem teymið vegna manneklu í leikskólum hefur skilað af sér. Það er brýnt að unnið verði hratt úr niðurstöðum teymisins og við lítum á að þetta sé fyrsta skrefið í átt að bættu starfsumhverfi leikskóla. Við skorum á skóla- og frístundráð að vinna hratt að niðurstöðum að öllum 23 liðum teymisins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Aðgerðateymi í leikskólum er þakkað fyrir vandaða og góða vinnu við að móta tillögur um hvernig megi mæta manneklu og bæta aðbúnað starfsfólks á leikskólum. Meirihlutinn leggur áherslu á að hrinda strax í framkvæmd átta af þessum tillögum og til þess verði varið um 127 milljónum króna. Leikskólar fá nú aukið fjármagn til að styðja við starfsmannahópinn m.a. til að mæta auknu álagi, til heilsueflingar, til að fjölga starfsmannafundum og til að greiða undirbúningstíma í yfirvinnu á þeim leikskólum sem glíma við manneklu. Þá fá viðkomandi leikskólar fjármagn til að vinna kynningarefni til að laða að nýtt starfsfólk. Öðrum tillögum sem lúta að veigameiri breytingum er vísað til frekari meðferðar og úrvinnslu hjá annars vegar starfshópi um nýliðun og bætt vinnuumhverfi leikskólakennara og hins vegar til kjara- og mannauðsdeilda borgarinnar.

7. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. september 2017, um aðgerðir til að mæta manneklu og efla mannauð á frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum. SFS2017090127

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Skóla og frístundaráð leggur til eftirfarandi málsmeðferð á tillögum aðgerðateymis vegna manneklu í frístundastarfi.

Eftirtöldum tillögum verði vísað til borgarráðs:

1. Fjármagn til að efla liðsheild og umbun vegna álags. kr. 3.750.000

2. Fjármagn til að styrkja fagstarfið/starfsmannakostnaður. kr. 2.000.000

3. Eingreiðsla til stjórnenda.     kr. 4.000.000

4. Námsleyfi fyrir starfsmenn.     kr. 12.000.000

Eftirtöldum tillögum verði vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi starfsfólks frístundar:

1. Fækka börnum á hvern starfsmann.

2. Bæta við stöðugildi í forsendulíkan frístundaheimila til að sinna síðdegishressingu og móttöku barna.

3. Skapa fleiri 100% heilsársstörf og tryggja þannig m.a. tómstunda- og félagsfræðingum störf í skóla- og frístundastarfi.

4. Laga launasetningu aðstoðarforstöðumanna.

5. Unnið verði að betri aðbúnaði fyrir börn og starfsmenn þ.e. húsnæði og aðbúnaði.

6. Starfsþróun starfsmanna, auka ábyrgð með aukinni reynslu.

7. Aukið samstarf við HÍ og HR vegna vettvangsnáms og skoða möguleika á launuðu starfsnámi og að nemendur gætu fengið einingar fyrir launað starf á vettvangi.

8. Forgangur fyrir starfsmenn leikskóla og frístundamiðstöðva í vistun í leikskóla og frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum.

Eftirtöldum tillögum er vísað til kjaradeildar og mannauðsdeildar borgarinnar til frekari meðferðar og úrvinnslu:

1. Breyta hæfniskröfu í starfi frístundaleiðbeinanda í almennum frístundaheimilunum.

2. Tímavinnustarfsmenn verði skilgreindir sem mánaðarstarfsmenn.

3. Greiða kaffitíma í yfirvinnu.

4. Starfsmenn fái strætókort.

5. Starfsmenn fái umbun eftir 6 mánaða starf í frístundaheimili eða sértækri félagsmiðstöð.

Samþykkt að vísa til borgarráðs.

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

Framkvæmdastjórar fagna því að skóla- og frístundaráð hafi sett í gang viðbragðsteymi til að bregðast við manneklu, tekið til athugunar tillögur frá stjórnendum frístundamiðstöðva og leitað til starfsmanna til að fá viðbótarhugmyndir. Framkvæmdastjórar líta á mönnunarvanda í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum sem mikla áskorun sem skapað hefur flóknar vinnuaðstæður og vanda fyrir fjölskyldur. Framkvæmdastjórar fagna tillögum um viðbótarfjármagn og vonast eftir jákvæðri og skjótri úrvinnslu þannig að hægt sé að grípa til aðgerða sem fyrst.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Aðgerðateymi í frístundastarfi eru færðar þakkir fyrir vandaða og góða vinnu við að móta tillögur til að mæta manneklu og bæta vinnuaðstæður starfsfólks í frístund. Meirihlutinn leggur til að fjórum af tillögunum verði strax hrint í framkvæmd og til þess varið rúmum 22 milljónum króna. Frístundamiðstöðvar og sértækar félagsmiðstöðvar fá fjármagn til að efla liðsheild og umbun vegna álags, hærri efnis- og rekstrarframlög, eingreiðslu til stjórnenda vegna mikils álags og boðið verður upp á námsleyfi fyrir starfsmenn frá og með áramótum. Öðrum tillögum er vísað til frekari meðferðar og úrvinnslu hjá starfshópi um fagumhverfi starfsfólks frístundamiðstöðva annars vegar og hins vegar til kjara- og mannauðsdeilda borgarinnar.

8. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 27. september 2017, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi 25. september 2017. SFS2017020191

- Kl. 15.00 víkur Kristín Ólafsdóttir af fundi.

9. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu í stöðu leikskólastjóra við leikskólann Hálsaskóg.

a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september 2017, vegna ráðningar í stöðu leikskólastjóra við Hálsaskóg, trúnaðarmál.

b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu leikskólastjóra við Hálsaskóg, trúnaðarmál

c) Auglýsing um stöðu leikskólastjóra við Hálsaskóg.

d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla í Reykjavík.

Tvær umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ráða Ásgerði Guðnadóttur leikskólastjóra Hálsaskógs frá og með 1. nóvember 2017. SFS2017090275

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Ásgerði Guðnadóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Friðbjörgu Eyrúnu Sigvaldadóttur fyrir vel unnin störf.

- Kl. 15.15 víkur Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir af fundi.

10. Lagt fram og kynnt fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar-júní 2017. SFS2017090093

11. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., apríl-júní 2017. SFS2017090094

12. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs, apríl-júní 2017. SFS2016120052

- Kl. 15.20 víkja Arndís María Ólafsdóttir, Kristján Gunnarsson og Kjartan Magnússon af fundi.

13. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina:

Í ljós þess hve mikilvægt er að börn með ýmsan sértækan vanda fái þann stuðning sem greiningar fagaðila ætla að sé þeim nauðsynlegur, óskar áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina eftir upplýsingum um með hvaða hætti fé er áætlað til leik- og grunnskóla til stuðningskennslu barna með sértækan vanda. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvaða reglur gilda um hvernig því fé er ráðstafað.

SFS2017090340

14. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Óskað er eftir yfirliti yfir þær tillögur, fyrirspurnir og bókanir sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram í skóla- og frístundaráði á yfirstandandi kjörtímabili ásamt upplýsingum um hvort, hvenær og með hvaða hætti þær hafa verið afgreiddar.

SFS2017090341

15. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Óskað er upplýsinga um stöðu mála varðandi talþjálfun og hvort Reykjavíkurborg sé að uppfylla og starfa skv. samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Velferðarráðuneytisins hvað talþjálfun barna snertir.

SFS2017090342

Fundi slitið kl. 15:36

Skúli Helgason

Hermann Valsson Ilmur Kristjánsdóttir

Marta Guðjónsdóttir  Sabine Leskopf

Þórlaug Ágústsdóttir