Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2017, 13. september, var haldinn 124. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík, kl. 11.04. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Þórlaug Ágústsdóttir (Þ). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Jóna Björg Sætran (B); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Kristín Ólafsdóttir, foreldrar barna í leikskólum og Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. september 2017, þar sem greint er frá því að á fundi borgarstjórnar 5. september 2017 hafi eftirtaldir aðilar verið kosnir í skóla- og frístundaráð: Skúli Helgason sem jafnframt var kosinn formaður ráðsins, Hermann Valsson, Sabine Leskopf, Eva Einarsdóttir, Þórlaug Ágústsdóttir, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. Varamenn voru kosnir: Þorkell Heiðarsson, Sigríður Pétursdóttir, Jódís Bjarnadóttir, Ragnar Hansson, Arnaldur Sigurðarson, Örn Þórðarson, Björn Jón Bragason
Einnig var tilkynnt að Jóna Björg Sætran yrði áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina og Rakel Dögg Óskarsdóttir áheyrnarfulltrúi til vara. SFS2016060184
2. Lögð fram og skýrslan Fyrstu niðurstöður lesfimiprófa – vor 2017. SFS2017090095
Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstöður Lesfimiprófa Menntamálastofnunar frá síðasta skólaári leiða í ljós að nemendur á yngsta stigi grunnskólans standa að mörgu leyti vel varðandi það að uppfylla lesfimiviðmið viðkomandi árgangs. Nemendur á miðstigi taka hins vegar litlum framförum og nemendur á unglingastigi eru líka nokkuð frá því að ná viðmiðum og er þörf á sérstökum aðgerðum til að auka lestrarþjálfun og lesfimi á unglinga- og sérstaklega miðstigi. Meirihlutinn leggur áherslu á að skóla- og frístundasvið kalli eftir gögnum frá öllum grunnskólum í Reykjavík til að hafa heildarsýn á stöðu nemenda í grunnskólum Reykjavíkur. Þá er nauðsynlegt að sviðið undir forystu Miðju máls og læsis setji í sérstakan forgang að auka stuðning og handleiðslu við íslenskukennara á mið- og unglingastigi til að bæta þessa stöðu og nýti til þess vandaðar tillögur Fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt niðurstöðum lesfimiprófa ná nemendur á miðstigi grunnskóla ekki þeim framförum og árangri sem búast mætti við af þeim aldurshópi. Þeim fer sáralítið fram og jafnvel aftur í lestri. Augljóst er að efla þarf lestrarkennslu enn frekar og leggja ríkari áherslu á hana í skólastarfinu svo allir nemendur geti lesið sér til gagns. Rýna þarf sérstaklega hvaða kennsluaðferðir skila bestum árangri sem bæta lesfimi nemenda. Lestrarfærni er ein meginforsenda frekara náms og því mikilvægt að nemendur nái þeim viðmiðum sem sett eru í hverjum aldurshópi fyrir sig. Mikilvægt er að kallað verði eftir gögnum og upplýsingum frá skólunum svo hægt sé að meta árangur þeirra og styðja þá skóla þar sem þörf er á. Mikilvægt er að kennarar, skólastjórnendur og foreldrar nýti niðurstöður lesfimiprófa til framþróunar í skólastarfi með það að markmiði að hækka verulega hlutfall nemenda sem geta lesið sér til gagns. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að niðurstöður lesfimiprófa verði kynntar með skýrum hætti fyrir nemendum og foreldrum í því skyni að sem gleggstar upplýsingar um stöðu nemenda séu aðgengilegar á hverjum tíma. Mikilvægt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. Að auki er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.
Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina vill leggja áherslu á mikilvægi lesfimiprófa Menntamálastofnunar sem gegnir afar mikilvægu hlutverki í að kanna lestrargetu, lesskilning og lestrartækni grunnskólabarna. Upplýsingar lesfimiprófanna, ásamt vinnu „Miðju máls og læsis“, geta eflt færni nemenda í að ná betri tökum á lestrinum, að nemendur lesi sér til gagns og eigi sífellt auðveldara með að ná betri tökum á námsefninu almennt. Lesfimiprófin gefa all skýra mynd af stöðu barnsins á prófdegi, hver sem staða þeirra er, slök eða afar góð og mikilvægt er að þau fái í framhaldinu aðstoð, þjálfun og áhugaverð verkefni við hæfi. Oft verður hugtakanotkun flóknari í 5. bekk en á yngsta stigi og þá skiptir máli að barnið eigi auðvelt með bæði hljóðúrvinnslu og almennan lesskilning. Þar sem notkun lesfimiprófanna er valkvæð er það skólans að ákveða hvort og í hvaða umfangi lesfimiprófin eru nýtt. Hver skóli þarf síðan að ákveða eigin aðgerðaáætlun til að efla lestrarfimi barnanna og getur sú vinna einnig nýst til að efla lestaráhuga nemenda almennt. Brýnt er að auka aðgengi fjölskyldna og frístundaheimilanna að skólabókasöfnun sem og að styðja við góðan bókakost safnanna þannig að þar geti börn á öllum skólastigum auðveldlega fengið afnot af áhugavekjandi lestrarefni við hæfi.
Auðun Valborgarson, Menntamálastofnun; Dröfn Rafnsdóttir, Miðju máls og læsis og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, skrifstofu sviðsstjóra taka sæti á fundinum undir þessum lið.
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. september 2017, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi í september 2017. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 6. september 2017, með bókunum frá fundi borgarstjórnar þann 5. september 2017 um manneklu í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. SFS2017020191
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að staðan í ráðningarmálum leikskólanna er farin að hafa alvarlegar afleiðingar og farin að bitna á starfinu og þjónustu við börnin. Skólar hafa því miður neyðst til að bregðast við með því að skerða opnunartíma og/eða biðja foreldra um að senda ekki börnin í skólana einhverja daga. Þá hefur jafnframt ekki verið hægt að opna deild í einum skóla og í öðrum hefur þurft að loka hálfri deild. Brýnt er að bregðast við þessari stöðu með öllum tiltækum ráðum sem allra fyrst svo hægt verði að nýta þau 103 lausu pláss sem eru á leikskólunum og að börnin sem þegar voru búin að fá loforð um pláss komist inn sem fyrst.
Áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn er því miður all langt í land með að manna öll stöðugildi í leikskólum, grunnskólum og á frístundaheimilum. Fullmenntaðir leikskóla- og grunnskólakennarar leita í önnur störf og fjöldi leiðbeinanda í störfum þeirra virðist hafa vaxið hlutfallslega á síðustu árum. Vandinn er ekki nýr og leitt að ekki hafi verið brugðist sterkar við fyrr á öflugan lausnamiðaðan hátt. Leita þarf allra tiltækra leiða til að ráða nú þegar bug á þessum alvarlega vanda. Í dag hefur staðan í leikskólunum áhrif á inntöku 105 barna í 16 leikskólum, börn sem hafa fengið boð um leikskólapláss en aðlögun þeirra verið seinkað. Af þessum fjölda eru 46 börn alveg án vistunar í dag. Auk þessa eru 103 pláss laus í leikskólunum sem skóla- og frístundasvið hefur því miður ekki talið mögulegt að bjóða foreldrum að nýta fyrir börn sín. Þar sem afar illa hefur gengið að ráða í stöðugildi leikskóla í marga mánuði má gera ráð fyrir að nú hafi safnast nokkuð digur sjóður fjár sem borgin hefur áætlað til að greiða starfskröftum leikskólanna laun. Vel væri að þessi uppsafnaði sjóður væri nýttur í þágu leikskólanna t.d. til að hækka laun starfsmanna tímabundið eða sem álagsgreiðslur til starfsfólks.
4. Lagt fram á fundinum svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, sbr. 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. ágúst 2017, varðandi stöðu starfsmannamála á skóla- og frístundasviði. SFS2017020191
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:
Lagt er til að sett verði af stað teymi til að bregðast við manneklu í leikskólum. Hlutverk teymisins verði að móta tillögur um aðgerðir til að bæta stöðu ráðningarmála og mannauðsmála á leikskólum borgarinnar. Verkefni teymisins verði m.a. að greina tillögur frá leikskólastjórum í Reykjavík um aðgerðir vegna stöðu ráðningarmála og margvíslegar tillögur og ábendingar sem liggja fyrir eftir greiningarvinnu sviðsins og samtöl við leikskólastjóra að undanförnu. Hópurinn greini umfang og kostnað vegna þessara gagna og leggi fram tillögur um viðbrögð og aðgerðir sem hægt verði að ráðast í á næstu vikum með það að markmiði að styðja við starfsmannahald í leikskólum. Teymið verði skipað fulltrúum fagskrifstofu leikskólamála, mannauðsdeildar, fjármáladeildar og tveimur leikskólastjórum. Teymið skili tillögum til sviðsstjóra eigi síðar en 25. september nk.
Samþykkt.
SFS2017090126
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Staða mannaráðninga í leikskóla og frístund gefur tilefni til að grípa til nýrra aðgerða til að bæta stöðuna og styrkja vinnuumhverfi þess starfsfólks sem ber hita og þunga af daglegu starfi þessara mikilvægu menntastofnana. Margar hugmyndir og tillögur hafa komið fram sem mikilvægt er að rýna, kostnaðarmeta og taka afstöðu til hið fyrsta. Það verður verkefni þeirra aðgerðateyma sem nú taka til starfa með aðkomu stjórnenda leikskóla og frístundastarfs og eiga að skila tillögum sínum innan tveggja vikna.
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi skólastjórnenda leikskóla, fagnar því að Reykjavíkurborg ætlar að fara af stað með teymi til að bregðast við manneklu í leikskólum. Leikskólastjórar í Reykjavík fara fram á að leitað verði allra leiða til að leysa mönnunarvanda leikskóla í Reykjavík. Enn vantar um 100 starfsmenn til starfa. Samskonar vandi kom upp í fyrra og því brýnt að gera úrbætur strax til að vandinn verði ekki viðvarandi. Leikskólastjórar í Reykjavík hafa bent á leiðir sem væri hægt að hrinda í framkvæmd strax. Þetta eru úrbætur til að laga starfsumhverfi leikskólanna og gera þá í leiðinni samkeppnishæfa við aðra vinnustaði í samfélaginu. Við höfum nú þegar kynnt þessar úrbætur fyrir yfirmönnum skóla og frístundarsviðs. Þær eru: að stytta opnunartíma leikskólanna í 7:45-16:30, að vinnuskylda starfsmanna verði 36 stundir á viku, að börnum á deildum verði fækkað án þess að draga úr stöðugildum starfsmanna, að fjármagn verði tryggt til að bæta laun starfsmanna.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:
Lagt er til að sett verði af stað teymi til að bregðast við manneklu í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum. Hlutverk teymisins verði að móta tillögur um aðgerðir til að bæta stöðu ráðningarmála og mannauðsmála í frístundastarfi borgarinnar. Hlutverk teymisins verði að greina og koma með tillögur að lausnum vegna stöðu ráðningarmála í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum. Teymið greini umfang og kostnað við mismunandi leiðir og leggi fram tillögur um viðbrögð og aðgerðir sem hægt verði að ráðast í á næstu vikum með það að markmiði að styðja við starfsmannahald í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum. Teymið verði skipað fulltrúum fagskrifstofu frístundamála, mannauðsdeildar, fjármáladeildar og frístundamiðstöðva. Teymið skili tillögum til skóla- og frístundaráðs eigi síðar en 25. september nk.
Samþykkt.
SFS2017090127
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva fagna öllum aðgerðum í þá átt að rýna mönnunarvanda í frístundaheimilum þannig að öll börn í Reykjavík sem þess óska komist inn á frístundaheimili eða sértæka félagsmiðstöð. Framkvæmdastjórar hafa lagt fram tillögur sem þeir telja að gætu stutt við þær aðgerðir sem nú hefur verið farið í og eru þær í vinnslu á sviðinu. Framkvæmdastjórar munu leggja sitt að mörkum við enn frekari vinnu við að manna allar stöður og taka glaðir þátt í fyrirhugaðri teymisvinnu.
7. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 6. september 2017, þar sem stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025 er vísað til kynningar í fagráðum Reykjavíkurborgar. Jafnframt lögð fram tillaga að stefnu um frístundaþjónustu í Reykjavík til 2025. SFS2016070070
- Kl. 12.58 víkur Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:
Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva í Reykjavík fagna því að stefna í frístundamálum í Reykjavík til 2025 sé tilbúin og hlakka mikið til að innleiða hana. Ein af kröfum nútímans er að byggja upp skipulagða þjónustu fyrir börn og ungmenni í frítímanum. Þar á að vera vettvangur tómstunda, menntunar, menningar og uppeldis undir handleiðslu hæfs starfsfólks. Framkvæmdastjórar telja að stefnan muni styrkja enn frekar það góða frístundastarf sem Reykjavík hefur upp á að bjóða. Frístundmiðstöðvarnar fagna auknu hlutverki sínu varðandi að leiðbeina borgarbúum hvernig nýta megi frítímann á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Spennandi tækifæri koma fram í stefnunni sem snúa að bættu frístundastarfi til dæmis aukin samnýting á mannvirkjum, aukin starfsmannafesta með samstarfi við Vinnuskólann í Reykjavík, auknu starfi fyrir börn 10-12 ára, auknu starfi fyrir ungmenni 16-18 ára, auknum stuðningi fyrir börn með fötlun, auknu aðgengi að frístundastarfi fyrir fjölskyldur og fleiri áhugaverðum tækifærum. Framkvæmdastjórar fagna því að nú sé búið að móta reglur um starfssemi frístundamiðstöðvanna. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar fá skýrari ramma utan um sitt starf sitt og samhliða hefur verið unnið að skýrum reglum um hlutverk og gæðakröfur í starfseminni. Spennandi tímar framundan.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það eru mikil tímamót að nú liggi fyrir heildstæð stefna um frístundaþjónustu fyrir borgarbúa allt frá leikskólabörnum til eldri borgara. Stefnan er fjölbreytt og metnaðarfull og leggur áherslu á nokkur meginatriði: virka þátttöku, jafnt aðgengi, forvarnir og lýðheilsu og loks fagmennsku sem rauðan þráð í frístundastarfinu. Leiðarljós Reykjavíkurborgar er að bjóða upp á fjölbreytta og heilsueflandi frístundaþjónustu sem hvetur til virkrar þátttöku, sköpunar og betra samfélags. Meirihlutinn leggur áherslu á að um leið og stefnan hefur verið samþykkt í borgarstjórn verði hafin vinna við að móta innleiðingaráætlun með kostnaðarmati þar sem einstökum tillögum verði forgangsraðað og þeim brýnustu hrint í framkvæmd strax á næsta ári.
Sigrún Sveinbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
8. Lögð fram og drög að reglum um þjónustu frístundaheimila Reykjavíkurborgar, dags. 11. september 2017. SFS2017090128
Sigrún Sveinbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
9. Lögð fram og drög að reglum um þjónustu félagsmiðstöðva Reykjavíkurborgar, dags. 11. september 2017. SFS2017090129
Sigrún Sveinbjörnsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
10. Fram fer umræða um fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2018. SFS2017030190
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.
Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.
11. Lagt fram bréf borgarstjóra til borgarráðs, dags. 4. september 2017, um viðauka við fjárhagsáætlun 2017. SFS2016020033
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjárhagsstaða borgarinnar hefur vænkast mjög og hefur tekist að snúa við þröngri stöðu í stöðugleika og ágætan afgang sem kemur málaflokkunum nú til góða. Það er sérstaklega mikilvægt að skólamálin skuli njóta sérstaklega hins aukna svigrúms borgarsjóðs og borgarráð hefur nú samþykkt tillögur skóla- og frístundasviðs um fjármagn til að greiða kennurum og öðrum starfsmönnum grunnskóla fyrir næðisstund með börnum í hádegi og til að ráða hegðunarráðgjafa sem þjóni grunnskólum í öllum borgarhlutum og viðbótarfjármagn til leikskóla m.a. til að mæta aldursuppfærslu barna, í samræmi við óskir stjórnenda.
12. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. september 2017:
Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til sameiningu leikskólanna Seljaborgar og Seljakots, í Breiðholti, undir eina stjórn. Sameining komi til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2018. Sviðsstjóra er falið að undirbúa breytinguna í nánu samstarfi við foreldra og starfsfólk. Lagt er til að leikskólastjóri Seljakots stýri hinum sameinaða leikskóla. Skipaður verði starfshópur sem vinni með leikskólastjóra að því að gera áætlun um ferli sameiningarinnar og vinni að innleiðingu hennar. Starfshópurinn verði skipaður leikskólastjóra sameinaðs leikskóla, tveimur fulltrúum starfsmanna frá hvorum leikskóla og einum fulltrúa foreldra hvors leikskóla ásamt fulltrúum skrifstofu skóla- og frístundasviðs. Starfstími hópsins sé frá 1. nóvember 2017 til 1. október 2018 eða lengur ef þörf krefur.
Greinargerð fylgir. SFS2017090096
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu sviðsstjóra um sameiningu Seljaborgar og Seljakots til umsagnar foreldraráða og foreldrafélaga leikskólanna. Tillagan verði jafnframt kynnt fyrir starfsmönnum beggja leikskóla og þeim gefinn kostur á að leggja fram umsagnir um hana. Jafnframt verði farið yfir faglegar forsendur beggja leikskóla vegna fyrirhugaðrar sameiningar
Samþykkt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að styrkja grundvöll leikskólanna í borginni með því að stækka einingar og auka þannig stöðugleika í starfsmannahaldi, fjölbreytni innra starfs og sveigjanleika stjórnenda til að mæta óvæntum aðstæðum s.s. veikindum starfsmanna og fleira. Tillaga um sameiningu yfirstjórna Seljaborgar og Seljakots er liður í þessari viðleitni, þar sem laus staða leikskólastjóra skapar tækifæri til að skoða breytingar án þess að nokkrum verði sagt upp störfum.
13. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að veita árlega viðurkenningar fyrir meistaraverkefni í leikskólakennara-, grunnskólakennara- og tómstundafræðum sem eru unnin á vettvangi skóla- og frístundastarfs Reykjavíkurborgar og/eða hafa hagnýtt gildi fyrir þróun formlegrar og óformlegrar menntunar í borginni.
Greinargerð fylgir. SFS2017090085
Samþykkt.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Eitt brýnasta viðfangsefni skólamálanna er að fjölga þeim sem leggja stund á kennaranám með það í huga að hasla sér völl í leikskólum, grunnskólum eða frístundastarfi borgarinnar. Mikilvægur liður í því er að efla kennaramenntunina og styrkja samstarf borgarinnar við háskólasamfélagið. Þessi tillaga er liður í því en hún felur í sér að veittar verði árlega viðurkenningar fyrir meistaraverkefni í leikskólakennara-, grunnskólakennara- og tómstundafræðum sem hafi hagnýtt gildi fyrir skóla- og frístundastarf í Reykjavík. Stefnan er sú að þessar viðurkenningar verði meistaranemum hvatning til að nema, stunda sínar rannsóknir og starfa í Reykjavík.
14. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. september 2017, um breytingu á úthlutun þróunarstyrkja skóla- og frístundaráðs. Jafnframt lagðar fram reglur um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur til þróunarverkefna á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, með tillögum að breytingum. Enn fremur lögð fram umsögn fjármálaskrifstofu, dags. 11. september 2017, um breytingar á reglum um þróunarstyrki skóla- og frístundaráðs og reglur Reykjavíkurborgar um styrki, samþykktar í borgarráði 9. september 2004, sbr. breytingar samþykktar í borgarráði 3. júní 2010. SFS2017080170
Samþykkt og vísað til borgarráðs að breyta reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur til þróunarverkefna á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar á þá leið að umsóknarfrestur verði til 1. febrúar ár hvert og að styrkir skuli afgreiddir fyrir lok apríl ár hvert.
- Kl. 13.52 víkur Jóna Björg Sætran af fundinum vegna vanhæfis.
- Kl. 13.52 víkur Eygló Traustadóttir af fundinum.
15. Fram fer umræða um málefni Breiðholtsskóla, trúnaðarmál. Lögð fram og kynnt skýrslan Ytra mat á Breiðholtsskóla, dags. í maí 2017. SFS2017040020
- Kl. 14:08 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.
Áheyrnarfulltrúi foreldra nemenda í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun.
Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum lýsir yfir þungum áhyggjum vegna Breiðholtsskóla. Það eru vonbrigði hversu rýr skýrslan um ytra mat Breiðholtsskóla er. Það er slæmt að ekki hafi verið lagt mat á verklag einstakra þátta skólastarfsins með skýrari hætti, eins og gert er í sambærilegum skýrslum um niðurstöður ytra mats grunnskóla í Reykjavík, þar sem lagt er mat á hvort verklag sé mjög gott, gott, að úrbóta sé þörf, eða verklagið metið óviðunandi. Í ljósi þungrar undiröldu í skólanum um alllangt skeið og alvarlegra ásakana sem hafa verið bornar á stjórnendur, hefði einnig verið rík ástæða til að fara í fullt mat. Áheyrnarfulltrúi foreldra hvetur til þess að sviðið ásamt stjórnendum skólans kynni sérstaklega fyrir skólaráði Breiðholtsskóla ítarlegri greinagerð eða upplýsingar um niðurstöður ytra mats, til að varpa betra ljósi á stöðuna og þær aðgerðir sem þörf verður á að fara í til þess að bæta skólastarf í Breiðholtsskóla, styrkja stjórnunina, bæta skólabraginn og samskiptin.
- Kl. 14.30 taka Jóna Björg Sætran og Eygló Traustadóttir sæti á fundinum.
- Kl. 14.45 víkur Kjartan Magnússon af fundinum.
16. Fram fer umræða um málefni Reykjavik International School, trúnaðarmál.
17. Fram fer kynning á fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs, janúar – júní 2017.
Frestað. SFS2017090093
18. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr., apríl – júní 2017.
Frestað. SFS2017090094
19. Lagt fram yfirlit yfir ferðir skóla- og frístundasviðs, apríl – júní 2017.
Frestað. SFS2016120052
20. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi kostnað vegna námsgagna, dags. 28. ágúst 2017, sbr. 16 lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. ágúst 2017. SFS2017080143
21. Lagt fram sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. september 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi aðstoð í kennslustundum fyrir nemendur á einhverfurófi, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 9. ágúst 2017. SFS2017080027
- Kl. 14:51 víkur Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum.
22. Lagt fram sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. september 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi flutning nemenda úr Korpu í Vík og sundkennslu í Kelduskóla, sbr. 15. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. ágúst 2017. SFS2017080142
- Kl. 14.55 víkja Kristín Ólafsdóttir og Kristján Gunnarsson af fundinum.
23. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir upplýsingum um tillögur, sem lagðar hafa verið fram á vettvangi skóla- og frístundaráðs frá stofnun ráðsins árið 2011 fram til dagsins í dag, í því skyni að ráða bót á manneklu í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum og fjölga fagfólki þar. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um afdrif þessara tillagna, hvaða aðgerðir var ráðist í á grundvelli þeirra og hvaða árangri þær aðgerðir skiluðu. SFS2016100083
Fundi slitið kl. 15.15
Skúli Helgason
Eva Einarsdóttir Hermann Valsson
Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf
Þórlaug Ágústsdóttir