Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 9. ágúst, var haldinn 122. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Brúarskóla kl. 11.00. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) ) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; og Þórhildur Löve, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer vettvangsferð í Brúarskóla. SFS2017080022

Björk Jónsdóttir, skólastjóri Brúarskóla og Jódís Lilja Jakobsdóttir, forstöðumaður frístundaklúbbsins Hallarinnar taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 12.20 er fundi fram haldið í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að það stefnir í  að Brúarskóli geti ekki  tekið við þeim nemendum sem eru á biðlista eftir plássi, á þessu skólaári. Undanfarin ár hefur biðlistinn verið að lengjast og er viðvarandi. Þessi staða er óásættanleg því um er að ræða nemendur í miklum vanda sem þurfa á  sérstökum stuðningi  og úrræðum að halda  sem ekki er í boði í almennum grunnskólum. Leita þarf allra  leiða til að stytta þennan biðlista sem fyrst.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina þakkar áhugaverða og upplýsandi kynningu á starfsemi Brúarskóla. Í kynningunni kom fram að í dag eru 25 nemendur á biðlista eftir skólavist, þar af eru 18 nemendur á unglingastigi. Nemendur Brúarskóla eru börn og unglingar sem eru með mjög alvarlegan hegðunar- og samskiptavanda, andfélagslega hegðun og jafnvel ofbeldishneigð auk þess sem stór hluti þeirra er með margvíslegar greiningar, m.a. greiningar á einhverfurófi, sumir einnig með geðrænan vanda. Hér er um að ræða nemendur sem eru taldir óhæfir til að vera í almennum bekkjum úti í skólunum þó skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skólanna hafi margir hverjir sýnt ótrúlega mikla þolinmæði, langlundargeð  og útsjónarsemi til að ráða við og þjónusta eftir bestu getu afar erfiða einstaklinga. Brýnt er að útrýma nú í haust biðlistanum sem er í Brúarskóla í dag og brýnt að skóla- og frístundasvið leiti leiða til að svo megi verða. Þarna er um að ræða mjög viðkvæman hóp sem þarf að sinna af sérhæfðum fagaðilum svo hægt sé að aðstoða nemendur til að ná tökum á eigin hegðun, hjálpa þeim til að blómstra í nýju og jákvæðara umhverfi þar sem áherslan er á allt sem hægt er að finna jákvætt hjá hverjum og einum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Brúarskóli heldur úti afar mikilvægri þjónustu við börn sem þurfa á sérstökum stuðningi og þjálfun að halda vegna alvarlegs geðræns, hegðunar- eða félagslegs vanda.  Í Brúarskóla starfar samhentur og góður hópur starfsfólks sem vinnur afbragðs starf oft við mjög krefjandi aðstæður.  Mikilvægt er að tryggja samfellu milli starfsemi leik-, grunnskóla og frístundar svo þarfir viðkomandi barns séu alltaf í fyrirrúmi óháð aldri þess.  Þar skiptir miklu máli að styrkja samstarf leik- og grunnskóla við skóla- og félagsþjónustu þjónustumiðstöðvanna, beita snemmtækri íhlutun þar með talið að auka hegðunarráðgjöf og úrræði fyrir börn á yngsta stigi grunnskóla en jafnframt þarf að bregðast við því að ásókn í Brúarskóla fer vaxandi ekki síst fyrir börn á unglingastigi.

2. Lagt fram bréf, dags. 28. júní 2017, um fjárhagsramma vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2018 og bréf fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2017, um forsendur fjárhagsáætlunar 2018 og fimm ára áætlunar 2018-2022. SFS2017030190

- Kl. 12:35 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júlí 2017, um breytt rekstrarleyfi fyrir leikskólann Öskju og drög að nýju rekstrarleyfi. SFS2017050105

Samþykkt.

4. Lagt fram á fundinum minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. ágúst 2017, varðandi stöðu starfsmannamála á skóla- og frístundasviði 4. ágúst 2017. SFS2017020191

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Það vekur furðu að fyrir fyrsta fund skóla- og frístundaráðs eftir sumarleyfi hafi ekki verið  á útsendri  dagskrá umræða um manneklu á leikskólum borgarinnar. Leikskólastjórar hafa  að undanförnu tjáð sig um það opinberlega að vegna mikillar manneklu gæti stefnt í að loka þurfi deildum og að ekki verði hægt að taka við öllum yngstu börnunum sem hefðu átt að fá pláss að loknu sumarleyfi. Þessi staða er alvarleg og kallar á að brugðist verði hratt við að leita lausna svo að ekki komi til að loka þurfi deildum og skerða þjónustu eða seinka inntöku nýrra barna.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil vinna hefur átt sér stað að undanförnu til þess að laða öflugt starfsfólk á leikskóla borgarinnar. Afráðið var að fá auglýsingastofu til liðs við skóla- og frístundasviðs til að hanna nýtt útlit og nýja nálgun í auglýsingum en þær eru þegar komnar í birtingu. Þessa dagana er verið að vinna stutt myndbönd sem verða einnig nýtt til þess að vekja athygli á okkar störfum.  Markmiðið með þessum auglýsingum er að vekja athygli á störfunum hjá skóla- og frístundasviði en ekki síður að hvetja fleiri til að fara í leikskólakennaranám og/eða að gera starf í leikskóla að framtíðarstarfi. Það er mikið kappsmál að styrkja ímynd leikskóla Reykjavíkur og vekja  jákvæða athygli á þeim og koma því á framfæri að þar er gott að vinna. Ýmis verkefni hafa verið í gangi sem hafa það að markmiði að bæta starfsumhverfið og þar með laða að fleira starfsfólk, má þar nefna heilsueflingu og samgöngustyrki. Í vetur var settur af stað starfshópur sem hefur verið að skoða starfsumhverfi leikskólakennara og mun sá hópur skila inn tillögum í haust. Loks má nefna að laun leikskólakennara hafa batnað á undanförnum árum, námsstyrkir verið hækkaðir og framlög til fagstarfs þar með talið undirbúningstíma svo nokkuð sé nefnt.

5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. júlí 2017, um samning við Myndlistaskólann í Reykjavík fyrir árið 2017. Jafnframt lagður fram þjónustusamningur við Myndlistaskólann í Reykjavík fyrir árið 2017, dags. 30. júní 2017. SFS2017060025

Samþykkt.

6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. júlí 2017, varðandi skólahljómsveitir:

Lagt er til að frá og með upphafi skólaársins 2017 – 2018 verði skólahljómsveitum Reykjavíkurborgar heimilt að taka inn 130 nemendur í hverja sveit í stað 120 nemenda eins og nú er. Samtals geti því verið 520 nemendur í skólahljómsveitum Reykjavíkurborgar.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fagna ber þeirri aukningu sem nú hefur verið samþykkt varðandi leyfi til að fjölga nemendum í skólahljómsveitum í grunnskólum borgarinnar. Í ljós kemur að biðlistar eftir þátttöku í skólahljómsveitum er hlutfallslega lengri í Breiðholtshverfi en öðrum hverfum borgarinnar. Vitað er að í Breiðholti eru einnig lengri biðlistar eftir greiningum ýmiss sértæks vanda en í flestum öðrum borgarhlutum. Auk þess er einnig stór hluti nemenda með annað fyrsta móðurmál en íslensku. Æskilegt er að finna leiðir til að setja hlutfallslega meira fjármagn til að starfa skólahljómsveitar í Breiðholti til að koma þannig til móts við aðstæður skólasamfélags Breiðholts. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil ánægja er með starfsemi skólahljómsveita og eftirspurn hefur verið mikil meðal foreldra að bjóða börnum sínum aðgang að starfseminni.  Það er því mikið fagnaðarefni að geta fjölgað í skólahljómsveitum borgarinnar þannig að 10 börn til viðbótar komist í hverja sveit eða 40 börn alls.  Hver skólahljómsveit getur þá tekið inn 130 nemendur í stað 120 nemenda í dag.  Með þessari breytingu er líka stigið stórt skref í að koma til móts við óskir stjórnenda sveitanna um að kjörstærð skólahljómsveitanna sé 130-140 börn. Með þessari breytingu er líka mikilvægt að aukið er fjárframlag vegna nemenda sem þurfa sérstakan stuðning í hljómsveitarstarfinu. SFS2017070028

7. Fram fer kynning á fjölmenningarteymi ungmenna í Tíunni og Árbæjarskóla.

Trausti Jónsson, verkefnastjóri þekkingarmiðstöðvar hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, Bjarni Þórðarson, félagsmiðstöðinni Tíunni, Guðrún Erna Þórhallsdóttir og Þórhildur Þorbergsdóttir aðstoðarskólastjórar Árbæjarskóla, taka sæti á fundinum undir þessum lið. SFS2017080025

Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir frábæra kynningu á fjölmenningarverkefni Tíunnar, Árbæjarskóla og þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts. Faglegt og vel útfært verkefni getur nýst öðrum skólum, þjónustumiðstöðvum og frístundamiðstöðvum. Lagt er til að skólastjórnendum, stjórnendum frístundastarfs og fulltrúum frá þjónustumiðstöðvum verði boðin kynning á starfinu og í kjölfarið haldinn samráðsfundur fyrir stjórnendur þar sem þeir fá tækifæri til að leggja drög að sambærilegri móttökuáætlun fyrir sínar starfseiningar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina hvetur skóla og frístundasvið til að sjá til þess að verkefnið “Mér finnst ég ekki lengur ein” sem fjallar um móttöku barna með annað móðurmál en íslensku og unnið hefur verið í samstarfi Árbæjarskóla, frístunda- og félagsmiðstöðvarinnar Tíunnar sem og þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, verði kynnt öllum skólastjórnendum borgarinnar með það í huga hvernig megi nýta verkefnið til fyrirmyndar fyrir sambærilega vinnu í öðrum skólum þar sem þess er óskað.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Við þökkum fjölmenningarteymi ungmenna í Tíunni, Árbæjarskóla og Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts fyrir afar áhugaverða kynningu á þróunarverkefni um móttöku barna af erlendum uppruna. Það er sérstaklega til fyrirmyndar að hér er um að ræða samstarfsverkefni  mismunandi fagaðila í hverfinu og unnið er með heildstæða nálgun.  Verkefnið gengur út að bjóða fjölskyldum ítarlega kynningu á skóla- og frístundastarfinu í hverfinu og eins eru gerðar einstaklingsmiðaðar lausnir og áætlanir. Þetta verkefni er algjörlega í samræmi við stefnu skóla- og frístundasviðs um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf „Heimurinn er hér“ og vonum við að þessi þekking og reynsla geti nýst bæði í öðrum skólum við móttöku nýrra nemenda og almennt í starfi með börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku og foreldrum þeirra.

8. Dagskrárlið 8 í útsendri dagskrá, kynning teymis um málefni kvótaflóttafólks er frestað.

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júlí 2017, umsókn Hjallastefnunnar um aukið framlag, dags. 1. júní 2017, samningur um rekstrar- og húsnæðisstyrk vegna vistunar reykvískra barna í leikskólanum Öskju, dags. 19. maí 2010, auk viðauka dags. 24. september 2012 og drög að viðauka dags. í maí 2013:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til leikskólans Öskju verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 137 í stað 101 frá 1. september 2017. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila frá 19. maí 2010, þar sem kveðið er á um fjölgun barna þegar skilyrði um útgáfu rekstrarleyfis hefur verið fullnægt.

Synjað er beiðni um að gerður verði samningur um greiðslu framlags vegna eins árs barna í leikskóla Hjallastefnunnar í Garðabæ.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt og vísað til borgarráðs með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá. SFS2017050105

10. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu í stöðu skólastjóra við Foldaskóla.

a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 3. júlí 2017, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Foldaskóla, trúnaðarmál.

b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra við Foldaskóla, trúnaðarmál

c) Auglýsingar um stöðu skólastjóra við Foldaskóla.

d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla í Reykjavík.

Sjö umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ráða Skúla Kristjánsson skólastjóra Foldaskóla frá og með 1. september 2017. SFS2017070042

Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra, Skúla Kristjánssyni, til hamingju með starfið og óskar honum velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi skólastjóra Ágústi Ólasyni fyrir vel unnin störf í þágu Foldaskóla.

11. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf starfshópa skóla- og frístundasviðs, mars til júlí 2017. Jafnframt lagt fram erindisbréf starfshóps um vefi grunnskóla Reykjavíkur. SFS2015100017

12. Lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs í júlí 2017. SFS2016020039

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. júlí 2017, varðandi embættisafgreiðslu sviðsstjóra, eitt mál. SFS2016080100

14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Ljóst er að viðhaldi á leikskólum hefur verið verulega ábótavant um árabil. Nauðsynlegu viðhaldi leikskólabygginga hefur ekki verið sinnt svo árum skiptir og þeir hafa verið að drabbast niður og sums staðar er staðan orðin svo alvarleg að húsnæðið er talið heilsuspillandi. Við þessu ástandi þarf að bregðast skjótt við og ekki er boðlegt að bjóða börnum og starfsfólki upp á heilsuspillandi húsnæði. Óskað er upplýsinga um hvernig meirihlutinn mun beita sér fyrir því að bæta úr þessu grafalvarlega ástandi. Þá er þess óskað að fá ítarlegar upplýsingar eftir leikskólum hvaða endurbóta er þörf og hvenær verði ráðist í þær. SFS2017080026

15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir upplýsingum um með hvaða hætti skóla og frístundasvið mun tryggja að nemendur greindir á einhverfurófi sem sitja í almennum bekkjardeildum fái þá aðstoð í kennslustundum sem forráðamenn þeirra og greiningaraðilar telja að þeim beri að fá nú strax á haustönn 2017? SFS2017080027

Fundi slitið kl. 14:45

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir  Hermann Valsson

Jóna Björg Sætran   Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf  Örn Þórðarson