Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 21. júní, var haldinn 121. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík, kl. 11.04. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Jóna Björg Sætran (B), Sabine Leskopf (S) og Sigríður Pétursdóttir (V). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Þórhildur Ágústsdóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á starfsemi Miðju máls og læsis. SFS2016090217

- Kl. 11.15 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Miðja máls og læsis er ný þjónusta við kennara og annað starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila varðandi eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings sem nú er að ljúka sínu fyrsta starfsári. Mikil eftirspurn er eftir þjónustunni sem felur í sér markvissa kennsluráðgjöf, námskeiðahald, fræðslu og annars konar stuðning við starfsstöðvarnar. Athyglisvert er að foreldrar sækja í auknum mæli eftir fræðslu Miðju máls og læsis á öllum stigum grunnskólans og er það fagnaðarefni.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Miklar annir og bókanir þjónustu verkefnisins Miðja máls og læsis mánuði fram í tímann sýna hve þörfin er brýn fyrir þessa ráðgjöf. Fram kemur að stór hluti verkbeiðna síðastliðið ár tengist þjónustu og aðstoð vegna barna með annað móðurmál en íslensku. Raunin er að þann hóp grunnskólabarna í Reykjavík skortir oft dýpri orða-, hugtaka- og málskilning sem er grunnur sem annað nám byggir á. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina vill leggja áherslu á að brýnt er að huga að enn auknum stuðningi við lestrarkennslu, fjölbreyttar lestraraðferðir og lestur, ekki aðeins á yngsta stigi heldur einnig á miðstigi og unglingastigi auk starfsins sem tengist stuðningi við leikskóla og frístundamiðstöðvar og vonar að sú verði raunin í þeirri vinnu sem nú stendur yfir varðandi nýjar áherslur í menntastefnu borgarinnar.

Dröfn Rafnsdóttir, Arnheiður Helgadóttir og Ingibjörg Elísabet Jónsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. júní 2017, um staðfestingu skóladagatala grunnskóla Reykjavíkur skólaárið 2017-2018. Jafnframt lagður fram útdráttur úr skóladagatölum grunnskóla í Reykjavík fyrir skólaárið 2017-2018 og form fyrir skóladagatal skólaárið 2017-2018. SFS2016040073

Samþykkt.

3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. júní 2017, varðandi úrræði fyrir grunnskólanemendur sem sýna verulegan hegðunar- og atferlisvanda. SFS2017030182

- Kl. 11.50 tekur Atli Steinn Árnason sæti á fundinum.

- Kl. 12.15 taka Kristín Ólafsdóttir og Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. júní 2017, um beiðni um breytingu á fyrri samþykkt skóla- og frístundaráðs varðandi rekstrarframlag til Félagsstofnunar stúdenta vegna leikskólans Mánagarðs. Jafnframt lagt fram bréf Félagsstofnunar stúdenta, dags. 19. júní 2017, með ósk um breytt rekstrarleyfi og aukið framlag:

Lagt er til að gerð verði breyting á samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 5. apríl 2017 og borgarráðs frá 27. apríl 2017 varðandi viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Félagsstofnunar stúdenta vegna Mánagarðs. Miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 128 í stað 68 frá 1. desember 2017 eða síðar ef rekstrarleyfi leikskóla vegna stækkunarinnar liggur ekki fyrir á þeim tíma. Ekki taki gildi heimild til greiðslu framlags vegna 98 barna í stað 68 barna þann 1. september 2017 vegna aðstæðna er varða Félagsstofnun stúdenta. Gerður er fyrirvari um að Félagsstofnun stúdenta fái útgefið rekstrarleyfi leikskóla vegna stækkunar leikskólans. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila frá 19. maí 2010, þar sem kveðið er á um fjölgun barna þegar framangreindu skilyrði um útgáfu rekstrarleyfis hefur verið fullnægt.

Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2015030161

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúa Pírata. Einnig lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júní 2017, varðandi umsókn Waldorfskólans Sólstafa um aukið framlag Reykjavíkurborgar frá hausti 2017, bréf Waldorfskólans Sólstafa, dags. 9. maí 2017, þar sem óskað er eftir fjölgun nemenda sem greitt er framlag vegna og tölvubréf Waldorfskólans Sólstafa, dags. 26. maí 2017, með nánari upplýsingum. Jafnframt lagður fram þjónustusamningur við Waldorfskólann Sólstafi, dags. 20. október 2015 ásamt viðauka við þjónustusamning, dags. 24. febrúar 2017:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til Waldorfskólans Sólstafa verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna vegna geti orðið 67 í stað 57 frá upphafi skólaárs 2017 – 2018. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila, dags. 20. október 2015, þar sem kveðið er á um fjölgun reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna um 10 reykvíska nemendur. Breyting taki gildi frá og með skólaárinu 2017 – 2018.

Greinargerð fylgir. SFS2016040185

Samþykkt og vísað til borgarráðs með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar , Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina og Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

6. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði ásamt umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 3. apríl 2017 og umsögn stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkur, dags. 5. apríl 2017, um tillöguna:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum leggur til að árlegar niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna skoðunar á grunnskólum í Reykjavík verði gerðar opnar og aðgengilegar á vefsvæði Reykjavíkurborgar í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar, á sama hátt og m.a. starfsáætlanir skóla og mat á starfi skóla - og frístundastarfs.

Samþykkt. SFS2017030024

- Kl. 12.35 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

7. Fram fer kynning á mati á notkun upplýsingatækni í grunnskólum Reykjavíkurborgar. SFS2017060164

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Kynning á mati á notkun upplýsingatækni í grunnskólum borgarinnar sýnir all glögglega að aðstaða nemenda til að byggja upp og efla færni sína í upplýsinga- og nettækni, sem er gríðarlega mikilvægur þáttur í framtíð barna borgarinnar, er með all ólíkum hætti. Jafnræði barna í grunnskólum borgarinnar er því miður alls ekki virt sem skyldi á meðan aðstæður skólanna eru þannig að börnin hafa ekki jafnt aðgengi að þjálfun og færni til að þjálfa og nýta lykilhæfni í vinnubrögðum í tölvu og nettækni, þ.e. upplýsingatækni, samfléttaða við hinar ýmsu námsgreinar. Brýnt er að byggja upp og styrkja miðlægt utanumhald á vegum skóla- og frístundasviðs til að byggja upp þekkingu og bjóða upp á aðstoð og þjálfun kennara og eflingu nútíma tækjakosts sem eru hvorutveggja forsenda þess að notkun upplýsingatækni nemenda og kennara í grunnskólum borgarinnar verði með raunhæfum og skilvirkum hætti.

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs og Erla Stefánsdóttir, forstöðumaður Mixtúru, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 12.55 víkur Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.

8. Lagðar fram og kynntar tillögur starfshóps um símenntun í upplýsingatækni í skýrslunni Símenntun í upplýsingatækni, dags. í júní 2017. SFS2015030083

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að vinna áætlun um kostnaðarmat og innleiðingu á tillögum starfshóps um aukið aðgengi kennara að símenntun í upplýsingatækni. Jafnframt er sviðsstjóra falið að setja á fót starfshóp um heildstæða stefnumótun á sviði upplýsingatækni og notkun hennar í grunnskólum, leikskólum og frístundastarfi.

Samþykkt.

Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs og Erla Stefánsdóttir, forstöðumaður Mixtúru, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

9. Lögð fram og kynnt skýrslan Viðhorf foreldra til leikskólans, heildarniðurstöður Reykjavíkur, dags. í maí 2017. SFS2017060136

- Kl. 13.25 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Ný viðhorfskönnun meðal foreldra leikskólabarna sýnir að 96% foreldra leikskólabarna í borginni eru ánægðir með leikskólann sem barnið þeirra er í. 98% foreldra telja að barninu sínu líði vel í leikskólastarfinu og sé þar öruggt. 87% foreldra finnst aðbúnaður barna í leikskólanum góður og 94% foreldra telja sig fá góðar upplýsingar um leikskólastarfið. Um 76% foreldra telja að barnið sé ánægt með matinn og 72% eru sjálf ánægð með þann mat sem barnið þeirra fær í leikskólanum. Niðurstöðurnar eru afar ánægjulegar og undirstrika að í reykvískum leikskólum fer fram metnaðarfullt fagstarf sem stenst kröfur og væntingar foreldra. Fram kemur að foreldrum þyki stjórnendur sýnilegri og eins þekki foreldrar betur til stefnu leikskólans en í fyrri könnunum. Jafnframt koma fram í könnuninni áhugaverðar upplýsingar um þau atriði sem betur mega fara og verða þær nýttar til að styðja enn frekar við afburðagott starf í framtíðinni.

Auður Ævarsdóttir, Ásgeir Björgvinsson og Guðrún Mjöll Sigurðardóttir, verkefnastjórar á skrifstofu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, taka sæti á fundinum undir þessum lið.

10. Lögð fram og kynnt Handbók um skólaráð – fyrir skólaráð. SFS2016060164

Nanna Kristín Christiansen, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

11. Lögð fram og kynnt Viðmið um samskipti foreldra og kennara, dags. 2017. SFS2017060137

- Kl. 13.58 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Rík ástæða er til að þakka kærlega fyrir vandaða vinnu fulltrúa skólastjóra, kennara, foreldra og sviðsins við að móta viðmið um samskipti foreldra og kennara í grunnskólum. Í umfangsmikilli rýni á vinnuumhverfi grunnskólakennara kemur fram að samskipti við foreldra valda mörgum kennurum álagi sem fer vaxandi og geta viðmiðin nýst skólum við að móta reglur í samvinnu við foreldra um farsæl samskipti kennara og foreldra sem eru órjúfanlegur og mikilvægur þáttur skólastarfsins.

Nanna Kristín Christiansen, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

12. Fram fer kynning á starfsumhverfi grunnskólakennara.

13. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu í stöðu skólastjóra við Fossvogsskóla.

a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 16. júní 2017, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Fossvogsskóla, trúnaðarmál.

b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra við Fossvogsskóla, trúnaðarmál

c) Auglýsing um stöðu skólastjóra við Fossvogsskóla.

d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla.

Ellefu umsóknir bárust um stöðuna og er ákvörðun sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að ráða Aðalbjörgu Ingadóttur skólastjóra Fossvogsskóla frá og með 1. ágúst 2017. SFS2017060141

14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina um viðbrögð við niðurstöðum samræmdra prófa sbr. 2. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. mars 2017. SFS2017020069.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina þakkar ítarlegt svar við fyrirspurn varðandi nýtingu niðurstaða samræmdra prófa í 9. bekk en vill leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnendur framhaldsskóla nýti þær alls ekki til að hafa hliðsjón af þeim við val á nemendum í framhaldsskólanum.

15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi tillögu:

Nú þegar foreldrar barna sem eiga að sækja grunnskóla í vesturhluta borgarinnar sækja um skólavist fyrir börn sín kemur í ljós að hluti þeirra barna sem búa í allra næsta nágrenni við Vesturbæjarskóla fá höfnun um skólavist þar en fá inngöngu í Grandaskóla. Fyrir þessu liggja ýmsar ástæður sem hafa verið kynntar foreldrum í hverfinu. Ákvörðun þessi kemur fjölskyldum misvel og geta ástæður þess og aðstæður barna verið margar og misflóknar. Brýnt er að skoða vel grunnskólaumsókn hvers og eins barns með vellíðan og sjálfsöryggi einstakra barna að leiðarljósi auk nálægðar heimilis við hvorn skóla. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur til að börn með greindan kvíða sem hafa verið undirbúin af leikskóla og fjölskyldu til sækja Vesturbæjarskóla vegna nálægðar, sem og vinatengsla við börn sem þar eru fyrir, fái forgang við innritun í Vesturbæjarskóla sé þess nokkur kostur.

Frestað. SFS2016120053

16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljoðandi tillögu:

Lagt er til að þegar í stað verði gripið til úrbóta vegna bráðavanda í húsnæðismálum Melaskóla. Ráðast þarf í aðkallandi viðhaldsframkvæmdir í skólanum í sumar, t.d. málun innanhúss og gólfviðgerðir. Þá þarf að leita allra leiða til að tryggja skólanum viðbótarhúsnæði fyrir skólabyrjun í haust, t.d. með því að bæta tveimur færanlegum kennslustofum við á skólalóðina og/eða skoða leigu á rýmum í nágrenni skólans sem nefnd hafa verið í þessu sambandi. Umrætt viðbótarhúsnæði yrði tímabundin bráðabirgðalausn þar til viðbygging leysir vandann til framtíðar.

Frestað. SFS2017060163

Fundi slitið kl. 15.03

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir  Jóna Björg Sætran Kjartan Magnússon   Marta Guðjónsdóttir Sabine Leskopf  Sigríður Pétursdóttir