Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 7. júní, var haldinn 120. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík, kl. 11.04. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Rakel Dögg Óskarsdóttir (B) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Þórhildur Ágústsdóttir (P); Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórhildur Löve, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Soffía Pálsdóttir, staðgengill sviðsstjóra, Elísabet Helga Pálmadóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir og Kristján Gunnarsson. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram tillögur um uppbyggingu útivistaraðstöðu við Rauðavatn í skýrslu starfshóps, dags. í desember 2016, auk minnisblaðs sviðsstjóra, dags. 28. maí 2017, varðandi skýrslu starfshóps um uppbyggingu við Rauðavatn. SFS2016040113

- Kl. 11.14 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar starfshópi um uppbyggingu útivistaraðstöðu við Rauðavatn fyrir vandaða skýrslu og tillögur um hvernig megi útfæra tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um betri aðbúnað og nýtingu þessarar perlu í borgarlandinu sem býður upp á fjölbreytta notkun til útivistar fyrir alla fjölskylduna. Svæðið hefur líka uppá að bjóða einstaka náttúru jarðfræði og gróður sem nýtist vel til útikennslu og útináms. Skýrslan kallar á samstarf skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs og er mikilvægt að tryggja markvissa eftirfylgni þessara aðila svo svæðið nýtist íbúunum sem skyldi í nánustu framtíð.

Jóhannes Guðlaugsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Ársels og Arna Hrönn Aradóttir frá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Lögð fram skýrsla um starfsumhverfi grunnskólakennara, dags. í maí 2017, trúnaðarmál. SFS2017060032

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil og góð vinna hefur farið fram í öllum grunnskólum borgarinnar við að rýna vinnuumhverfi grunnskólakennara og liggur fyrir skýrsla með helstu niðurstöðum hennar. Í skýrslunni kemur fram sterkt ákall um aukna áherslu á sérkennslu og stuðning við nemendur með ólíkar þarfir, með áherslu á að betra aðgengi kennara og skóla að stoðþjónustu og sérfræðingum með fagþekkingu, s.s. skólasálfræðinga, hegðunarráðgjafa, þroskaþjálfa og námsráðgjafa, sem verði kennurum til halds og trausts í daglegu starfi. Jafnframt er kallað eftir bættum aðbúnaði og vinnuaðstöðu kennara. Þessar tillögur og aðrar sem fram komu verða nýttar í forgangsröðun skóla- og frístundaráðs og sviðs við gerð fjárhagsáætlunar komandi árs og missera og innleiðingu nýrra úthlutunarlíkana.

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir greinargóða skýrslu um starfsaðstæður kennara í grunnskólum Reykjavíkur. Mörg þeirra atriða, sem þar eru nefnd, hafa brunnið á kennurum og fulltrúum þeirra árum saman og hafa þeir óspart komið slíkum athugasemdum á framfæri við embættismenn skóla- og frístundasviðs sem og kjörna fulltrúa í skóla- og frístundaráði en því miður án sýnilegs árangurs í mörgum tilvikum. Er gagnlegt að slíkar ábendingar liggi fyrir á einum stað og mikilvægt er að vinna að úrbótum hefjist sem fyrst á grundvelli skýrslunnar.

Áheyrnarfulltrúi kennara í skóla- og frístundaráði leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi kennara fagnar því að nú liggi fyrir skýrsla um vinnu við bókun 1 í kjarasamningi Félags grunnskólakennara úr öllum skólum borgarinnar. Vinnan hefur gengið vel í flestum skólum og mikill samhljómur er í niðurstöðum skólanna í borginni. Helstu niðurstöður sýna að í flestum skólum er mikil þörf á bættri stoðþjónustu s.s. sérkennslu og nýbúakennslu og mikilvægt er að fá fleiri fagmenntaða einstaklinga inn í skólana, auka sérfræðiþjónustu og úrræði fyrir nemendur í vanda. Þegar stefnan „skóli án aðgreiningar“ var innleidd fylgdu því ekki nægar bjargir inn í skólana til að hægt væri að veita öllum nemendum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Í niðurstöðum rýnihópanna er kallað eftir því að sett verði mörk varðandi hámarksfjölda nemenda í bekkjum og að tíminn sem kennarar hafa til undirbúnings verði aukinn svo hægt sé að sinna mjög svo fjölbreytilegum nemendahópi skólanna og þeim auknu kröfum sem aðalnámskrá og nýtt námsmat gerir á kennara.Vinnuaðstæður kennara í mjög mörgum skólum er óviðunandi og aðstöðumunur milli skóla er mikill. Mikilvægt er að borgin vinni að því hratt og örugglega að bæta þessa þætti sem komu fram í rýnihópum skólanna svo umhverfi skólanna verði bætt nemendum og kennurum til hagsbóta.

3. Lög fram fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun skóla- og frístundasviðs 2018 -2022.

- Kl. 12.00 tekur Jóna Björg Sætran sæti á fundi og Rakel Dögg Óskarsdóttir víkur af fundinum.

- Kl. 12.10 víkur Elísabet Helga Pálmadóttir af fundinum.

- Kl. 12.40 tekur Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sæti á fundinum

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata auk greinargerðar Landakotsskóla um framgang tilraunaverkefnisins alþjóðleg deild í Landakotsskóla, dags. í apríl 2017, minnisblaðs sviðsstjóra, dags. 30. maí 2017 varðandi rekstur alþjóðadeildar við Landakotsskóla, þjónustusamningur við Landakotsskóla, dags 20. október 2015 og viðauka við þjónustusamning, dags. 19. janúar 2016 og 17. febrúar 2017 og þjónustusamningur vegna 5 ára barna, dags. 29. júní 2016:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að veitt verði heimild fyrir stofnun og starfrækslu alþjóðadeildar við Landakotsskóla fyrir allt að 70 nemendur. Fyrirvari er gerður um að mennta- og menningarmálaráðuneyti veiti viðurkenningu til samræmis við 46. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008. Viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til Landakotsskóla verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 234 í stað 189 frá upphafi skólaárs 2017 - 2018. Framlag verði greitt óháð því hvort reykvískur nemandi sé í almenna hluta skólans eða í alþjóðadeild. Engu að síður verði skýrt í hvorum hluta skólans reykvískir nemendur eru. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila frá 20. október 2015 þar sem kveðið er á um fjölgun nemenda.

Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2016060089

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

5. Lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2017, um viðmið um hámarksfjölda reykvískra grunnskólanemenda sem greitt er framlag vegna til sjálfstætt rekinna grunnskóla utan Reykjavíkur varðandi Hjallastefnunna ehf, Waldorfskólann Lækjarbotnum, International School of Iceland og Grunnskólans Nú fyrir skólaárið 2017-2018, auk fylgiskjals. Greinargerð fylgir tillögunni. Auk þess eru lögð fram bréf International School of Iceland, dags. 7. apríl 2017, og Grunnskólans Nú, dags. 5. apríl 2017, bréf Hafnarfjarðarbæjar, dags. 17. maí 2017, varðandi Grunnskólann Nú, bréf Garðabæjar, dags. 24. maí 2017, varðandi Hjallastefnuna ehf og International School of Iceland og bréf Kópavogsbæjar, dags. 30. maí 2017, varðandi Waldorfskólann Lækjarbotnum. SFS2016040020

Samþykkt með fyrirvara og vísað til borgaráðs.

Ákvörðun um viðmið er tímabundin til 1. júlí 2018, fyrir þann tíma verður tekin ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu.

- Kl. 13.00 tekur Elísabet Helga Pálmadóttir sæti á fundi.

6. Lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs og samtakanna Móðurmáls um styrk vegna skráningar og hýsingar bóka í bókasafnskerfinu Gegni. Einnig eru lagðar fram reglur Reykjavíkurborgar um styrki, samþykktar í borgarráði 9. september 2004, sbr. breytingar samþykktar í borgarráði 3. júní 2010, auk minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. júní 2017, um samning við samtökin Móðurmál vegna styrks til skráningar og hýsingar bókasafns. SFS2015120024

Samþykkt.

7. Lögð fram drög að samstarfssamningi skóla- og frístundasviðs og samtakanna Móðurmáls auk reglna Reykjavíkurborgar um styrki, samþykktar í borgarráði 9. september 2004, sbr. breytingar samþykktar í borgarráði 3. júní 2010.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

8. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi fjölda nemenda í tónlistarskólum, sbr. 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 3. maí 2017. SFS2017060024

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er að Reykjavíkurborg greiðir með mun fleiri nemendum í tónlistarnámi sem búa vestan Elliðaáa en austan þeirra. Ljóst er því að ekki ríkir jafnræði milli borgarhluta hvað varðar stuðning við tónlistarkennslu og tónlistarnám barna. Brýnt er að bætt verði úr því og farið verði í átak að efla tónlistarkennslu í þeim hverfum þar sem fæstir nemendur eru. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn þakkar fyrir ítarleg svör við fyrirspurn um nemendur í tónlistarskólum. Svörin endurspegla að allmismunandi er eftir hverfum hversu hátt hlutfall barna tekur þátt í tónlistarnámi og er mikilvægt að auka aðgengi barna í austurhluta borgarinnar að tónlistarnámi. Það verður hluti af framtíðarsýn meirihlutans varðandi stefnu í tónlistarfræðslu.

9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi öryggisvistun í Rangárseli sbr. 18. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 3. maí 2017. SFS2017040051

10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi mat á lóð Vesturbæjarskóla, sbr. 4. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 8. febrúar 2017. SFS2017020045

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru ósammála því mati Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, að ekki sé ástæða til að meta skólalóð Vesturbæjarskóla þar sem búið sé að ákveða að lagfæra lóð skólans þegar viðbyggingu lýkur. Ekki er hægt að fallast á að þarna sé um haldbær rök að ræða enda er full ástæða til að meta ástand skólalóðarinnar út frá leikaðstæðum barna þrátt fyrir að framkvæmdir standi yfir á henni. Ekki er ljóst hvenær framkvæmdum vegna viðbyggingarinnar lýkur og þaðan af síður vegna skólalóðarinnar. Auk þess sem slíkt mat gæfi mikilvægar upplýsingar um núverandi ástand lóðarinnar í samanburði við aðrar skólalóðir í borginni, gæti það nýst við skoðun á því hvernig sé hægt að bæta aðstæður á lóðinni til bráðabirgða þar til endanlega verður gengið frá henni sem og til framtíðar.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Rétt er að árétta að ákveðið hefur verið að lóð Vesturbæjarskóla verði lagfærð þegar gerð viðbyggingar við skólann lýkur en áætlað er að það verði haustið 2018. Þegar viðbyggingin verður tilbúin verða miklar breytingar á lóðinni til hagsbóta fyrir nemendur því þá verða færanlegar stofur og hús fjarlægð af lóðinni. Í kjölfarið verða þau svæði lagfærð sem viðkomandi hús standa á og athafnarými nemenda þar með aukið og bætt.

11. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. – jan.-mar. 2017. SFS2016060116

12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 30. maí 2017, varðandi hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs 2017. SFS2016010025

13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. júní 2017, varðandi nemendaverðlaun skóla- og frístundaráðs 2017. SFS2016050244

14. Lögð fram greinargerð um Barnamenningarhátíð í Reykjavík 25. til 30. apríl 2017. SFS2015110176

- Kl. 13.30 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum

Fundi slitið kl. 13.47

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir Hermann Valsson

Jóna Björg Sætran Kjartan Magnússon

Marta Guðjónsdóttir  Sabine Leskopf