Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 24. maí, var haldinn 119. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík, kl. 11.02. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður,  Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (B). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Þórhildur Ágústsdóttir (P); Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Jón Pétur Zimsen, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.  Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. maí 2017, varðandi niðurstöður stærðfræðiskimunar í 3. bekk 2016 auk skýrslu varðandi stærðfræðiskimun í 3. bekk í nóvember 2016, dags. í mars 2017. SFS2016100099

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurstöður nýlegrar stærðfræðiskimunar í 3. bekk sýna ágætan árangur nemenda í grunnskólum borgarinnar sem birtist í því að tæp 95% nemenda þurfi að líkindum ekki á sérstökum stuðningi að halda í stærðfræði.  Einungis 5% þriðju bekkinga þurfa á sérstökum stuðningi að halda og er það hlutfall hið lægsta síðan 2012 og þriðja lægsta frá því stærðfræðiskimunin hófst fyrir fjórtán árum.  Þetta eru ánægjulegar niðurstöður fyrir borgina í heild en jafnframt er mikilvægt að tryggja þeim nemendum og skólum markvissan stuðning sem mest þurfa á honum að halda. 

Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur á skrifstofu sviðsstjóra, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Lagt fram yfirlit yfir stöðu markmiða í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2016, dags. 3. maí 2017. SFS2015020035

3. Lögð fram stefna og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2017. SFS2017040175

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Í stefnu og starfsáætlun SFS 2017 segir m.a.: “Beina athygli að möguleikum þess að nýta tölvuleiki, forritun og fjölbreytt verkfæri upplýsingatækninnar í skóla- og frístundastarfi…” Á alþjóðlegri ráðstefnu félagsins um áhrif skjátíma og þráðlausrar örbylgjugeislunar á börn og unglinga var það samróma álit sérfræðinga að notkun rafrænna skjátækja við kennslu væri varhugaverð og þyrfti að gæta hófs. Gríðarleg aukning varð á notkun snjalltækja hjá börnum og unglingum áður en gögn lágu fyrir um afleiðingarnar. Nú hlaðast upp gögn sem gefa vísbendingar um að skjánotkun trufli eðlilegan heilaþroska, tengist athyglisbresti, frávikum í taugaþroska, skerðingu á vitrænni færni og félagsfærni. Bæði hefðbundnir tölvuleikir sem og rafrænir námsleikir eru hannaðir til að ýta undir ávanabindingu og þar með skjáfíkn barna og unglinga sem er grafalvarlegt mál.

Sérfræðiteymi IARC undir WHO flokkaði alla örbylgjugeislun, þar með þráðlausar internettengingar sem mögulega krabbameinsvaldandi árið 2011. Nýjustu rannsóknir styðja nú frekari hækkun á þeirri krabbameinsáhættuflokkun að mati sérfræðinga.

Það er skýlaus krafa foreldra að velferð barna sé tryggð í skólaumhverfinu og að sett verði fagleg viðmið um notkun skjátækja og þráðlausra tenginga.  Það er trú okkar og von að sú verði raunin en við höfum átt nokkra fundi þar að lútandi með sviðsstjóra og formanni SFR.

4. Lögð fram bréf Waldorfskólans Sólstafa, dags. 16. mars og 15. maí 2017, með umsókn um framlag vegna reksturs frístundaheimilis skólans. Jafnframt lögð fram minnisblöð sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. maí 2017 og 26. apríl, varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila. SFS2016100093

Synjað með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra, dags. 18 maí 2017.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðsluna þar sem við teljum mikilvægt út frá jafnræðissjónarmiðum að fjármagn fylgi barni. Þá teljum við einsýnt að ekki hafi verið gætt að meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Meirihlutinn hefur ekki geta fært fyrir því sannfærandi rök að okkar mati að rétt sé að hafna framlagi til þessara grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem vísað var til skóla- og frístundaráðs, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 4. apríl 2017, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. maí 2017, varðandi niðurgreiðslur til dagforeldra:

Lagt er til að niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum verði hækkaðar um 25%.

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Lagt er til að tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um auknar niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum verði vísað inn í starfshóp um þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu borgarinnar. Starfshópurinn mun vinna í samstarfi við félög dagforeldra með það að markmiði að auka enn frekar gæði starfsins og öryggi barna í daggæslu.

Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna. SFS2017030198

- Kl. 12.06 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikill skortur er nú á plássum hjá dagforeldrum í Reykjavík. Öllum, nema meirihlutanum í borgarstjórn, er augljós sá mikli vandi, sem fjölskyldur barna sem ekki eru komin á leikskóla, er í.  Afar, ömmur, frænkur og frændur eru að hlaupa í skarðið með foreldrum með tilheyrandi aukaálagi.  Dagforeldrar sinna mikilvægu hlutverki í uppeldi og ummönun ungbarna áður en þau fara á leikskóla.  Í dag er nánast ekkert pláss laust í Reykjavík, þrátt fyrir að það komi fram á heimasíðu borgarinnar um laus pláss.  Með því að samþykkja ekki tillögu okkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina um að hækka niðurgreiðslur vegna dagvistunar, heldur samþykkja málsmeðferðartillögu, staðfestir algert skilningsleysi þessa meirihluta á því ástandi sem uppi er í dagvistunarmálum borgarinnar og í raun vilja til að “gera ekki neitt”, heldur aðeins þykjast gera með endalausum málsmeðferðartillögum. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Niðurgreiðslur til dagforeldra hafa hækkað um 16% á þessu ári og samanburður síðustu ára leiðir í ljós að það er mesta hækkun á niðurgreiðslunum allar götur frá árinu 2007.  Frá árinu 2014 hafa niðurgreiðslurnar hækkað samtals um 25% eða talsvert umfram verðlagshækkanir á tímabilinu.  Það endurspeglar skýran vilja meirihlutans til að þjónusta dagforeldra verði áfram skýr valkostur fyrir foreldra ungra barna í Reykjavík og það er verkefni sérstaks starfshóps með aðkomu félaga dagforeldra að efla gæði og öryggi þjónustunnar.  Gjaldskrármálin verða tekin til sérstakrar meðferðar í þeim starfshópi.

6. Lögð fram tillaga um stefnumótun um kynfræðslu í skóla- og frístundastarfi skóla- og frístundasviðs, auk greinargerðar, dags. í desember 2016. Jafnframt lagt fram ódags. erindisbréf starfshóps um stefnumótun um kynfræðslu í skóla- og frístundastarfi skóla- og frístundasviðs. SFS2016080030

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að kostnaðarmeta tillögur starfshóps um stefnumótun um kynfræðslu í skóla- og frístundastarfi SFS auk þess sem tillögum verði forgangsraðað. Niðurstaðan verði kynnt skóla- og frístundaráði eigi síðar en í ágúst 2017.

Samþykkt.

Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra jafnréttismála á fagskrifstofu grunnskóla á skóla- og frístundasviði, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

7. Lagt fram bréf nafnanefndar sameinaðs leikskóla Hamra og Bakka, dags. 4. maí 2017, þar sem lagt er til að sameinaður leikskóli Hamra og Bakka fái nafnið Nes. SFS2016010132

Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til við skóla- og frístundaráð að stofnaður verði starfshópur um leikskólastarf í norðanverðum Grafarvogi. Starfshópurinn hafi það verkefni að leggja fram tillögu um framtíðarskipan leikskólastarfs í leikskólunum Engjaborg, Hulduheimum og Laufskálum með það að markmiði að tryggja sterkar faglegar og rekstrarlegar leikskólaeiningar. Í vinnu hópsins verði horft til samþættingar og samstarfs leikskólanna þriggja, áætlana um stækkun leikskóla og fjölgun ungbarnadeilda. Hópurinn skoði hvar helst lægju möguleikar í samrekstri eða sameiningu tveggja þessara eininga og jafnframt hver þessara starfseininga hentaði best sem ungbarnaleikskóli. Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum starfsfólks, stjórnenda og foreldra allra þriggja leikskólanna ásamt fulltrúum skóla- og frístundasviðs, hverfisráðs Grafarvogs og íbúasamtaka. Starfshópurinn skuli leggja fram tillögur ásamt kostnaðarmati fyrir skóla- og frístundaráð eigi seinna en 6. september 2017. Einnig er lagt til að leitað verði til Hildar Lilju Jónsdóttur leikskólastjóra Laufsskála um að stýra leikskólanum Engjaborg frá 1. júlí 2017, þangað til ákvörðun um framtíðarskipan leikskólanna liggur fyrir. SFS2017050160

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við afgreiðslu málsins.

9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. maí 2017, varðandi aðbúnað nemenda í Melaskóla. SFS2016120002

- Kl. 13.32 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Undanfarna mánuði hefur verið leitað ýmissa leiða til að bregðast við húsnæðisþrengslum í Melaskóla.  Metnir hafa verið ýmsir kostir við að nýta húsnæði í nágrenni skólans fyrir tiltekna starfsemi en niðurstaða vinnunnar er að ráðast í tilteknar endurbætur og viðhald á núverandi húsnæði að beiðni stjórnenda skólans.   Skóla- og frístundasvið telur að til framtíðar sé nauðsynlegt að byggja við skólann til að bæta aðstöðu nemenda og starfsfólks og hefur lagt fram tillögu um það í fjárfestingaráætlun til næstu ára.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Sem fyrr vekja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins athygli á óviðunandi stöðu húsnæðismála við Melaskóla og árétta þá skoðun sína að brýnt sé að ráðist verði í úrbætur sem fyrst. Á fundi ráðsins 8. febrúar sl. var lagt fram erindi frá Foreldrafélagi Melaskóla um málið ásamt úttekt sem sýnir að ófremdarástand ríkir í húsnæðismálum skólans. Á fundinum var sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs falið að koma með tillögur um úrbætur fyrir 15. mars. Fyrst nú kemur minnisblað frá sviðsstjóranum um málið og vekur það óneitanlega vonbrigði að þar er ekki að finna neinar tillögur sem fela í sér alvöru úrbætur á húsnæðismálum skólans í fyrirsjáanlegri framtíð. Annars vegar er lagt til að farið verði í tilteknar endurbóta- og viðhaldsframkvæmdir í eldra húsnæði skólans, t.d. málun veggja og gólfbón, sem ættu að vera sjálfsagðar en hafa engu að síður verið vanræktar árum saman. Hins vegar er nefnt að stækka megi viðbyggingu. Engin leið er að segja til um hvort eða hvenær slíkar framkvæmdir verða að veruleika en ljóst er að undirbúningur þeirra mun a.m.k. taka nokkur ár. Þá kemur fram í minnisblaðinu að endurbótum á skólalóðinni verði frestað þar til hönnun viðbótarhúsnæðis verði lokið. Við hörmum að í minnisblaðinu skuli ekkert vera gert með ýmsar hugmyndir um úrbætur til að leysa bráðavandann, sem komið hafa frá foreldrum og starfsmönnum skólans, t.d. nýtingu á lausu húsnæði í Vesturgarði eða skátaheimilinu í íþróttahúsi Hagaskóla. Umræddar úrbætur væri hægt að ráðast í strax og taka umrætt viðbótarhúsnæði í notkun við skólabyrjun í haust. Á fundi ráðsins í febrúar lagði Sjálfstæðisflokkurinn til að við skoðun málsins yrði náið samráð og samstarf haft við stjórn Foreldrafélags Melaskóla sem hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á málinu við fulltrúa Reykjavíkurborgar og komið með tillögur til úrbóta. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna felldi hins vegar tillöguna sem gaf ákveðna vísbendingu um að ekki væri ætlunin að skoða í alvöru úrbætur á húsnæðismálum skólans sem hefðu getað komið til framkvæmda í haust. Þess í stað vísar meirihlutinn málinu til áframhaldandi skoðunar sem óvíst er hvort eða hvenær ber árangur.

10. Lagðar fram upplýsingar varðandi viðhorf foreldra barna í frístundaheimilum, dags. í apríl 2017. SFS2017050175

Ásgeir Björgvinsson, sérfræðingur á skrifstofu sviðsstjóra, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

11. Lagt fram ársfjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2016. SFS2016060115

12. Fram fer kynning á fyrirhuguðu sumarstarfi skóla- og frístundasviðs.

13. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. maí 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi forfallakennslu á unglingastigi, sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. mars 2017. SFS2017030154

14. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2017, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum varðandi gerð verkferla um meðferð eineltismála sbr. 14. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 5. apríl 2017. SFS2017040051

15. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. maí 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina varðandi matsviðmið í verk- og listgreinum, sbr. 13. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 22. mars 2017. SFS2017030153

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Ljóst er á þessu svari að margt er athugavert við matsviðmið í list- og verkgreinum í skólakerfinu. Enginn myndi sætta sig við að lokaeinkunn og námsmat t.d. í stærðfræði, íslensku, ensku og náttúrufræði væri miðað við lok 8. eða 9. bekkjar og ekki sé tekið tillit til framfara nemandans í námi í 10. bekk.  Þrátt fyrir það segir aðalnámskrá að gera skuli þessum greinum jafnhátt undir höfði sem og öðrum. Ljóst er að betur má ef duga skal ef skóla- og frístundasvið ætlar að geta sagt að öllum námsgreinum sé gert jafnhátt undir höfði.  Óskýr, ógagnsæ og tilviljanakennd matsviðmið í list- og verkgreinum eru látin ráða för við útskrift 10. bekkinga og því augljóst er að það eru allar námsgreinar jafnmikilvægar, bara sumar mikilvægari en aðrar.

16. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. maí 2017, varðandi yfirlit yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa frá janúar til mars 2017. SFS2016120052

17. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 10. maí 2017,varðandi yfirlit yfir fundi skóla- og frístundaráðs frá ágúst til desember 2017. Lagt fram með fyrirvara um breytingar. SFS2017050059

18. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. maí 2017, varðandi embættisafgreiðslu sviðsstjóra, eitt mál. Auk þess lagt fram bréf frá foreldrafélagi Húsaskóla, dags. 19. apríl 2017, og bréf sviðsstjóra, dags. 19. maí 2017. SFS2016080100

- Kl. 14.45 víkja Kristján Gunnarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir af fundinum.

- Kl. 14.49 víkur Birgitta  Bára Hassenstein af fundinum.

Fundi slitið kl. 14.55

Skúli Helgason

Hermann Valsson Eva Einarsdóttir

Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf