Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 3. maí, var haldinn 118. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík, kl. 11.00. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður,  Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon ( D), Marta Guðjónsdóttir (D), Ragnar Hansson (Æ) og Sabine Leskopf (S). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Þórhildur Ágústsdóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; Sindri Smárason, Reykjavíkurráð ungmenna og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elísabet Helga Pálmadóttir, Hrund Logadóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.  Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Fram fer kynning á viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar.SFS2017040184

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar sýnir bæði jákvæða þróun fyrir sviðið í heild en bendir jafnframt á þætti þar sem þörf er á úrbótum.  Starfsánægja hefur aukist milli ára þegar allir starfsstaðir skóla og frístundasviðs eru skoðaðir en ákveðnir þættir lækka milli ára, s.s. hæfilegt vinnuálag, starfsmannastöðugleiki og fleira.  Sviðið hefur einsett sér að aðstoða starfsstöðvarnar við að fylgja niðurstöðunum eftir með markvissari hætti, aðstoða skóla sem skora lágt í könnuninni eða eru að lækka milli ára við að móta umbótaáætlanir en jafnframt að miðla árangursríkum aðferðum starfsstaða sem skora hátt og eru að bæta sig milli ára skv. könnuninni. Mikilvægt er að sviðið og skólarnir taki höndum saman um að bregðast uppbyggilega við niðurstöðunum og bæti úr þeim þáttum sem betur mega fara.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu á niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar. Af niðurstöðum er ljóst er að styðja þarf sérstaklega við starfsfólk og stjórnendur í grunnskólum. Það er fagnaðarefni að nú standi til að gera þessar kannanir árlega og unnið verði markvisst með niðurstöður með stjórnendum í skóla- og frístundastarfi. Starfsmannakannanir eru sérstaklega mikilvæg verkfæri til að styðja við skólasamfélög þegar nýjir stjórnendur taka við. 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fagnar notkun mannauðsdeildar sfs á  nýrri og öflugri tækni, Qlik Sense, sem auðveldar m.a. rýni til gagns á starfi hinna ýmsu starfstöðva sfs og hvaða breytingar eiga sér þar stað. Viðhorfskönnun sú meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar sem kynnt var á fundinum er mjög yfirgripsmikið verkefni og æskilegt er að senda svo umfangsmiklar niðurstöður til ráðsliða skóla- og frístundasráðs fyrir fund til að hægt sé að rýna vel glærur og innihald.

- Kl. 11.50 víkur Kristján Gunnarsson af fundinum.

Harpa Hrund Berndsen mannauðssérfræðingur á mannauðsdeild Reykjavíkurborgar og Ragnheiður E. Stefánsdóttir mannauðsstjóri skóla- og frístundasviðs, kynna og svara fyrirspurnum.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, varðandi nemendur sem reglulega ógna öryggi og/eða trufla verulega skólastarfið vegna hegðunar- og atferlisvanda í skólastarfinu auk samantektar varðandi málið, dags 21. mars 2017. SFS2017030182

- KL. 12.15 tekur Atli Steinn Árnason sæti á fundinum.

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingar-innar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir vandaða skýrslu um grunnskólanemendur sem sýna verulegan hegðunar- og atferlisvanda. Sviðsstjóra er falið að vinna kostnaðargreinda forgangs- og innleiðingaráætlun á tillögum sem fram koma í skýrslunni sem kynnt verði skóla- og frístundaráði eigi síðar en 21. júní 2017.

Samþykkt.

Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjórnenda og grunnskólakennara í Reykjavík lýsa yfir ánægju með þá ákvörðun skóla- og frístundasviðs að leggja í greiningu á stöðu þeirra nemenda í grunnskólum borgarinnar sem reglulega ógna öryggi og/eða trufla skólastarf vegna hegðunar- og atferlisvanda.  Fulltrúarnir telja verklag greiningarinnar hafa verið vel heppnað og styðja þær tillögur til úrbóta sem koma fram í samantekt Auðar Árnýjar Stefánsdóttur heilshugar.  Ánægjulegt er að skóla- og frístundaráð hafi falið sviðsstjóra að kostnaðargreina úrbæturnar en mjög mikilvægt er að hefja strax í framhaldinu vinnu við að koma úrbótunum í framkvæmd.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihluti ráðsins þakkar Auði Árnýju Stefánsdóttur fyrir greinargóða skýrslu og tillögur um málefni nemenda með fjölþættan vanda í grunnskólum borgarinnar sem ógna öryggi og/eða trufla skólastarf vegna hegðunarvanda.   Niðurstöðurnar eru allrar athygli verðar og draga fram brýna þörf á aðgerðum til að auka úrræði skólanna til að sinna umræddum nemendahópi. Niðurstöðurnar munu nýtast í samhengi við þá vinnu sem nú stendur yfir við endurskoðun úthlutunarlíkans á fjárveitingum til grunnskóla, greiningar á starfsumhverfi grunnskólakennara og djúpgreiningar á starfsemi sviðsins.  Skóla- og frístundaráð stendur saman að því að óska eftir því við sviðsstjóra að raða tillögunum í forgang, kostnaðarmeta og vinna áætlun um innleiðingu þeirra sem skilað verði til ráðsins í næsta mánuði.  Samhliða er nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag skólaþjónustunnar sem rekin er á þjónustumiðstöðvum borgarinnar með það fyrir augum að styrkja samstarf skóla- og frístundasviðs og skólaþjónustunnar og færa þjónustuveitinguna meira beint inn í skólana.  Mikilvægt er að endurskoða fyrirkomulag þjónustunnar til að hún nýtist sem best skólunum, starfsfólki þeirra og umfram allt nemendum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir þakka greinargóða kynningu á málefnum nemenda sem reglulega ógna öryggi og/eða trufla skólastarf vegna hegðunar og atferlisvanda. Í ljósi þess sem þar kemur fram er ljóst að endurskoða þarf samstarf og vinnubrögð skóla- og frístundasviðs og velferðasviðs, þjónustuhlutverk þjónustumiðstöðva, stefnumótun og úrræði og ekki síst samstarf við sálfræðinga, félagsráðgjafa og annarra sérfræðinga sem koma að skipulagningu, greiningum og markvissri þjónustu við nemendur, foreldra og skólastarfið í heild. Brýnt er að leggja aukna áherslu á markvisst forvarnarstarf og ekki síður á markvissa eftirfylgni að loknum greiningum og meðferðarvinnu.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir mikilvæga samantekt varðandi málefni barna sem reglulega ógna öryggi og eða trufla skólastarf vegna hegðunar og atferlisvanda og væntir þess tími aðgerða sé komin,  að kerfin fari að vinna betur saman í þágu barna í borginni. Að sérfræðiþjónustan, skólaþjónusta grunnskólanna sem staðsett er á þjónustumiðstöðvunum þjóni grunnskólum sem allra best í þágu nemenda.  Barn á aðeins eina æsku, og þann tíma sem barn er án þjónustu er erfitt að bæta upp síðar. Skortur á þjónustu við eitt barn getur gert skólagöngu þess óbærilega og á sama tíma haft neikvæð áhrif á skólagöngu barna í sömu bekkjardeild eða skóla.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka Auði Árnýju Stefánsdóttur fyrir vandaða úttekt og upplýsandi umfjöllun um málefni nemenda sem eiga við hegðunar- og atferlisvanda að stríða. Niðurstöðurnar eru sláandi og sýna að þörf er á úrbótum sem fyrst í því skyni að komið verði betur til móts við þennan hóp en nú er gert. Ljóst er að meðal annars þarf af endurskoða hlutverk þjónustumiðstöðva varðandi beina þjónustu við skóla. Til að bæta umrædda skólaþjónustu er rétt að hún verði færð til skóla- og frístundasviðs og verði veitt úti í viðkomandi skólum eftir því sem unnt er. Eðlilegt er að stjórnun og skipulagning slíkrar þjónustu sé sem næst vettvangi.

Auður Árný Stefánsdóttir, kynnir og svarar fyrirspurnum.

3. Lögð fram tvö bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. apríl 2017, tillögur um stofnun  nýrra sérdeilda fyrir einhverfa nemendur á grunnskólastigi, greinargerð fylgir. Jafnframt lögð fram umsögn stjórnar foreldrafélags og fulltrúa foreldra og grenndarsamfélags í skólaráði  Hamraskóla, dags. 12. apríl 2017, umsagnir tveggja fulltrúa í skólaráði Hamraskóla, dags. 3. maí 2017 og umsögn stjórnar foreldrafélags Fellaskóla, dags. 27. apríl 2017 og skólaráðs Fellaskóla, dags. 27. apríl 2017. SFS2017040127

- Kl. 13.00 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum.

- Kl. 13.08 víkur Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur fram svohljóðandi tillögu:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að stofnuð verði ný sérdeild fyrir einhverfa nemendur á yngsta- og miðstigi grunnskóla. Deildin verði staðsett í Hamraskóla og taki til starfa 1. ágúst 2017. Í deildinni hefji þrír nemendur á yngsta og/eða miðstigi nám skólaárið 2017-2018 en nemendum fjölgi í 9 á næstu þremur til fjórum árum. Nemendur einhverfudeildar í Hamraskóla eigi forgang í einhverfudeild í Foldaskóla sem þjóni í framtíðinni einhverfum nemendum á unglingastigi.

Greinargerð fylgir.

Samþykkt og vísað til borgarráðs með fyrirvara um að upplýsingar um viðbótarfjárþörf liggi fyrir við afgreiðslu borgarráðs.

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur fram svohljóðandi tillögu:

Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að sérdeild fyrir einhverfa nemendur í Fellaskóla verði tvískipt í yngra stig fyrir 9 nemendur í 1. – 7. bekk og í unglingastig fyrir 6 nemendur í 8.–10. bekk samtals 15 nemendur frá og með skólaárinu 2017-2018. Á skólaárinu 2017-2018 verði 11 nemendur í deildinni, 13 nemendur skólaárið 2018-2019 og 15 nemendur skólaárið 2019-2020.

Greinargerð fylgir.

Samþykkt og vísað til borgarráðs með fyrirvara um að upplýsingar um viðbótarfjárþörf liggi fyrir við afgreiðslu borgarráðs.

Hrund Logadóttir, verkefnastjóri sérkennslu á skóla- og frístundasviði, kynnir og svarar fyrirspurnum.

4. Lagðar fram til kynningar upplýsingar varðandi ráðningu leikskólastjóra við Langholt.

a) Greinargerð skóla- og frístundasviðs, dags. 2. maí 2017, vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við Langholt, trúnaðarmál.

b) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra við Langholt, trúnaðarmál.

c) Auglýsing um stöðu skólastjóra við Langholt.

d) Viðmið vegna ráðninga skólastjóra leikskóla og grunnskóla.

Fjórar umsóknir bárust um stöðuna og var Valborg Hlín Guðlaugsdóttir ráðin leikskólastjóri Langholts frá og með 1. júní 2017. 

Bókun skóla- og frístundaráðs:

Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra, Valborgu Hlín Guðlaugsdóttur, til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Hrefnu Sigurðardóttur fyrir vel unnin störf í þágu Langholts.

5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundum skóla- og frístundaráðs þann 8. febrúar og 22. mars 2017 ásamt umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 7. mars 2017 varðandi eftirlitsmyndavélar og ályktun skólaráðs Langholtsskóla vegna öryggismyndavéla, dags. 6. apríl 2017:

Lagt er til að gerð verði áætlun og átak í uppsetningu öryggismyndavéla utanhúss við leik- og grunnskóla borgarinnar í öryggisskyni og til að koma í veg fyrir skemmdir á skólahúsnæði og  leiktækjum á skólalóðum.

Greinargerð fylgir.

- KL. 14.09 tekur Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn tveim atkvæðum skóla- og frístundaráðsfultrúa sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina situr hjá.

Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 22. mars 2017 ásamt umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 7. mars 2017, varðandi eftirlitsmyndavélar og ályktun skólaráðs Langholtsskóla vegna öryggismyndavéla, dags. 6. apríl 2017:

Lagt er til að mótuð verði áætlun um markviss viðbrögð við skemmdarverkum á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs með það fyrir augum að auka öryggi og lágmarka skaða. Skemmdarverk og eignaspjöll á starfsstöðum SFS eru fátíð en koma oft í hrinum. Mikilvægt er í slíkum aðstæðum að viðkomandi starfsstöðvum sé gert kleift að kaupa tímabundið mannaða gæslu studda með öryggismyndavélum á meðan komist er fyrir vandann. Þá er mikilvægt að brugðist sé strax við þeim tilvikum sem upp kunna að koma. Verkferill og nánara skipulag verði unnið í samstarfi við umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og fulltrúa stjórnenda leikskóla, grunnskóla og frístundar.

Samþykkt.

SFS2017020125

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Komið hefur verið til móts við hluta af tillögu okkar sjálfstæðismanna með hugmynd um tímabundið vöktunarkerfi vegna skemmdarverka en ekki hefur verið komið til móts við þann mikilvæga hluta tillögunnar sem snýr að öryggi barna á og við skólalóðir. Ljóst er að öryggismyndavélar þjóna líka því hlutverki að auka öryggi nemenda á og við skólalóðir og hafa reynst vel í þeim tilgangi þar sem þeim hefur verið komið upp.

Brýnt er að öryggi barna sé ávallt haft í fyrirrúmi.

Hrólfur Jónsson skrifstofustjóri og Berglind Söebech verkefnastjóri frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og Jón Páll Haraldsson skólastjóri Laugalækjarskóla taka sæti á fundinum undir þessum lið.

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. maí 2017, varðandi drög að breytingum á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla auk  reglna Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla með drögum að breytingum. Auk þess lagðar fram umsagnir Tónskóla Hörpunnar, dags. 20. apríl 2017; Tónstofu Valgerðar, dags. 22. apríl 2017, Stjórnar samtaka tónlistarskóla, dags. 21. apríl 2017; Tónskóla Eddu Borgar, dags. 24. apríl 2017 og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. maí 2017. Enn fremur lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 4. apríl 2017, reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, samþykktar í borgarráði 9. febrúar 2017, reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til stuðnings við tónlistarnám, dags. 31. ágúst 2016 og jöfnunar á aðstöðumun nemenda, samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, dags. 13. apríl 2016. SFS2016080106

- Kl. 14.30 víkja Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Atli Steinn Árnason af fundinum.

- Kl. 14.40 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.

Drög að breytingum á reglum Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla samþykktar og vísað til borgarráðs.

Sigfríður Björnsdóttir, deildarstjóri listfræðslu á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. maí  2017, drög að samningum vegna neðri og efri stiga tónlistarnáms auk fylgiskjals, trúnaðarmál. Jafnframt lögð fram drög að þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla vegna neðri og efri stiga tónlistarnáms, með breytingum merktum og með breytingum samþykktum. Auk þess lagðar fram umsagnir Tónskóla Hörpunnar, dags. 20. apríl 2017; Tónstofu Valgerðar, dags. 22. apríl 2017, Stjórnar samtaka tónlistarskóla, dags. 21. apríl 2017; Tónskóla Eddu Borg, dags. 24. apríl 2017 og Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. maí 2017. Enn fremur minnisblað sviðsstjóra, dags. 4. apríl 2017, reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, samþykktar í borgarráði 9. febrúar 2017, reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til stuðnings við tónlistarnám, dags. 31. ágúst 2016 og jöfnunar á aðstöðumun nemenda, samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, dags. 13. apríl 2016. SFS2016080106

Drög  að samningum við tónlistarskóla  vegna neðri stiga tónlistarnáms eru samþykktir og vísað til borgarráðs með fyrirvara um að skólarnir uppfylli skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla. Sviðsstjóra er falið að gera samninga við þá aðila sem tilgreindir eru í fskj. 5.1.1 á grundvelli endanlegra útreikninga á framlögum m.a. með tilliti til sértækra áhrifa breytinga kjarasamninga, þ.e. vegna menntunarmats stjórnenda og þrepahækkun yngri kennara. Jafnframt eru samningar vegna efri stiga tónlistarnáms samþykktir og vísað til borgarráðs en samþykkið nær ekki til kennslumagns eða fjárhæða samnings vegna efri stiga tónlistarnáms þar sem upplýsingar frá Jöfnunarsjóði liggja ekki fyrir um framlag hans. Þar sem hlutverk Reykjavíkurborgar er að miðla framlagi Jöfnunarsjóðs er sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs falið að ganga frá samningum við aðila þá sem tilgreindir eru í fskj. 5.1.1. á grundvelli upplýsinga frá Jöfnunarsjóði þegar þær liggja fyrir. Gerður er fyrirvari um að skólarnir uppfylli skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um þjónustusamninga við tónlistarskóla.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er upplýsinga um fjölda nemenda í tónlistarskólum sundurliðað eftir skólum og hverfum  og hversu mörgum nemendum Reykjavíkurborg greiðir með í hverjum skóla fyrir sig . Jafnframt  er óskað upplýsinga hvaða tónlistarskólar starfa jafnframt innan og í

samstarfi við leik- og grunnskóla

Sigfríður Björnsdóttir, deildarstjóri listfræðslu á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum.

8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. apríl 2017, varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila. Jafnframt lagt fram bréf Hjallastefnunn ehf, dags. 17. mars 2017, bréf dags. 2. maí 2017, drög að þjónustusamningi við Hjallastefnuna ehf, bréf Landakotsskóla, dags. 17. mars 2017, gjaldskrá Landakotsskóla vegna síðdegisvistar, bréf Landakotsskóla, dags. 16. nóvember 2016, merkt trúnaðarmál, drög að þjónustusamningi við Landakotsskóla, bréf Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 16. mars 2017, dagskrá og starfsáætlun frístundar Skóla Ísaks Jónssonar auk tómstundunaframboðs skólans, útreikningur á kostnaði frístundar Skóla Ísaks Jónssonar, trúnaðarmál, verð á frístund Skóla Ísaks Jónssonar auk draga að þjónustusamningi við Skóla Ísaks Jónssonar. Jafnframt lagt fram bréf SVÞ, dags. 16. nóvember 2016, trúnaðarmál. Auk þess lagt fram bréf Waldorfskólans Sólstafa, dags. 16. mars 2017, minnisblað sviðsstjóra, dags. 6. mars 2017, bréf SSSK dags. 2. mars 2017,  tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. janúar 2017, varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila, tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2016 og tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2016. SFS2016100093

Samþykkt og vísað til borgarráðs með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra að gerðir verði samningar við Hjallastefnuna ehf, Skóla Ísaks Jónssonar og Landakotsskóla vegna reksturs frístundaheimila skólanna. Waldorfskólanum Sólstöfum verði gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum áður en tekin verðu ákvörðun varðandi umsókn hans.

9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 25. apríl 2017, varðandi umsókn Skóla Ísaks Jónssonar um aukið framlag auk bréfs Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 13. mars 2017, ósk um breytingu á viðmiði um fjölda nemenda sem greitt er framlag vegna fjölgunar nemenda í Ísaksskóla. Jafnframt lagður fram þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs við Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 20. október 2015, vegna framlags til skólans vegna nemenda í skólanum sem eiga lögheimili í Reykjavík og fósturbarna ef fósturforeldrar eiga heima í Reykjavík og þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs við Skóla Ísaks Jónssonar, dags. 26. maí 2015, vegna framlags vegna vistunar reykvískra barna sem verða fimm ára á árinu sem þau hefja skólagöngu í leikskóladeild leikskólans að hausti. FS2017030070

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til Skóla Ísaks Jónssonar verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 199 í stað 161 frá upphafi skólaárs 2017 – 2018. Sviðsstjóra er falið að gera  viðauka við núverandi samning aðila frá 20. október 2015 þar sem kveðið er á um fjölgun nemenda.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Samþykkt með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina og vísað til borgarráðs. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikilvægt er að sjálfstætt reknir skólar í Reykjavík fái að vaxa og dafna í samræmi við spurn eftir þjónustu þeirra. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja því tillögu um fjölgun nemenda í Ísaksskóla, sem Reykjavíkurborg greiðir framlag með, úr 161 í 199 og lýsa yfir ánægju sinni með þá viðhorfsbreytingu sem virðist nú eiga sér stað hjá meirihlutanum til sjálfstætt rekinna skóla.

- Kl. 15.10 víkur Sveinn Sigurður Kjartansson af fundinum.

10. Lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs við Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík auk bréfs samtakanna dags. 10. mars 2017. SFS2015060051

- Kl. 15.12 víkur Sindri Smárason af fundinum.

Samþykkt.

11. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 26. apríl 2017, til borgarráðs varðandi lækkun leikskólagjalda. SFS2017050015

12. Lögð fram dagskrá Höfuð í bleyti, frístundamálaráðstefna.  SFS2017040177

13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. apríl 2017, varðandi afhendingu barnabókaverðlauna. SFS2017040168

14. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá 117. fundi skóla- og frístundaráðs þann 5. apríl 2017 varðandi rétt foreldra til að ákveða skólaúrræði fyrir börn sín. SFS2017040050

- kl. 15.26 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum.

Bókun skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina þakkar langt og ítarlegt svar við fyrirspurn sinni frá 5. apríl sl. varðandi rétt foreldra barna með verulega þroskaskerðingu til að ákveða að barnið sæki nám í almennum skóla þrátt fyrir að barnið njóti þá ekki sérstakrar umönnunar þroskaþjálfa eða annarra sérmenntaðra starfsmanna sem geta þá annast skipulagningu og virkni námskrár aðlagað þörfum barnsins. Í svarinu kemur fram afdráttarlaus og sterk staða foreldranna til að taka slíka ákvörðun. Í fyrirspurninni 5. apríl var einnig spurt hvor það dragi úr ákvörðunarrétti foreldra ef barn með verulega þroskaskerðingu veldur öðrum börnum og starfsfólki verulegu ónæði og vera þess í almennum bekk leggur jafnvel aukna ábyrgð á samnemendur. Í svari sviðsstjóra er því miður ekki komið inn á þá hlið málsins. Samnemendur þroskaheftra barna hljóta að eiga ákveðinn rétt á næði til náms og vinnu og foreldrar þeirra hljóta einnig að eiga kröfu á að börn þeirra njóta næðis til náms.

15. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá 117. fundi skóla- og frístundaráðs þann 5. apríl 2017 varðandi stöðu einhverfra barna. SFS2017040049

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra, dags. 26. apríl 2016, varðandi embættisafgreiðslu sviðsstjóra, eitt mál. SFS2015010035

17. Lagt fram yfirlit yfir stöðu markmiða í starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2016.

Frestað.

18. Lögð fram stefna og starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2017.

Frestað.

19. Lagt fram ársfjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2016.

Frestað.

20. Fram fer kynning á fyrirhuguðu sumarstarf skóla- og frístundasviðs.

Frestað.

21. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir upplýsingum um hvort skóla- og frístundasvið hafi sett sig í samband við velferðarsvið og einnig yfirstjórn búsetukjarnans að Rangárseli 16 – 20, 109 Rvk.,  varðandi þá “styrktu búsetu” sem þar hefur verið stofnað til tímabundið vegna bráðavanda tveggja fullorðinna einstaklinga sem þurfa eftirlit allan sólarhringinn en á síðar að flytja í öryggisheimili í Stjörnugróf þegar sú bygging rís.  Tveir fjölmennir grunnskólar eru þarna í nærumhverfinu, börn sækja að auki félagsmiðstöðina í Hólmaseli og klúbbastarf o.fl. í Seljakirkju en umræddur búsetukjarni er steinsnar frá Hólmaseli og Seljakirkju. Báðir skólarnir nýta sér sundlaug Ölduselsskóla og fjöldi barna sækir iðulega íþróttaæfingar í leikfimishúsi Seljaskóla eða eiga leið framhjá Rangárseli á leið sinni til og frá æfingasvæði ÍR. Þegar svona háttar til hlýtur að vera brýnt að sfs sé í opnum samskiptum við velferðarsvið og tryggt sé að stjórnun rekstrar í Rangarseli geti sýnt fram á að öryggi barnanna í nærumhverfinu sé ekki og verði ekki á nokkurn hátt ógnað með starfsemi “styrktra búsetuúrræða” í Rangársels búsetukjarnanum.

- Kl. 15.09 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.

- Kl. 15.25 víkja Soffía Pálsdóttir og Sabine Leskopf af fundinum.

- Kl. 15.35 víkja Elísaet Helga Pálmadóttir, Hrund Logadóttir, Ragnar Hansson og Kristján Gunnarsson af fundinum.

Fundi slitið kl. 15.40

Skúli Helgason

Hermann Valsson Jóna Björg Sætran

Kjartan Magnússon  Marta Guðjónsson