Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 5. apríl, var haldinn 117. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík, kl. 10.35. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Þorkell Heiðarsson (S) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Þórhildur Ágústsdóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, skólastjórar í leikskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Sigrún Sveinbjörnsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 27. mars 2017, aðgerðaráætlun í leikskólamálum – tillögur um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. SFS2017030198

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er mikið fagnaðarefni að borgarráð hafi einróma samþykkt tillögur stýrihópsins Brúum bilið um aðgerðir í leikskólamálum.  Þar með liggur fyrir að sviðið mun opna sjö ungbarnadeildir við fjóra leikskóla borgarinnar strax í haust þar sem rými verður fyrir um 90 börn.  Ungbarnadeildirnar verða sérhæfðar með aðstöðu, leikrými og búnaði sem hæfir þroska og tryggir öryggi barna á öðru og þriðja aldursári.  Stefnt er að því að slíkar ungbarnadeildir verði starfræktar í öllum hverfum borgarinnar. Stefnt er að því að sérhæfðir ungbarnaleikskólar verði hluti af uppbyggingu komandi ára í leikskólamálum, s.s. við Kirkjusand.  Jafnframt er samþykkt að fjölga rýmum á sjálfstætt starfandi leikskólum borgarinnar og voru á fundinum í dag samþykktar umsóknir fimm slíkra leikskóla í þá veru. Alls munu aðgerðir fjölga rýmum um 300 frá því sem nú er með áherslu á börn frá 18-24 mánaða.  Loks hækkar niðurgreiðslur til dagforeldra um 10% til viðbótar 2,5% hækkun sem samþykkt var um áramótin.  Því verður fylgt eftir með samstarfi við dagforeldra um aukin gæði og öryggi þeirrar þjónustu.  Aðgerðirnar í leikskólamálum undirstrika vilja meirihlutans til að bjóða foreldrum ungra barna betri þjónustu með áherslu á ólíka valkosti sem mæta fjölbreyttum þörfum foreldra.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar- og flugvallarvina styðja aðgerðaáætlun í leikskólamálum en telja að varðandi fjölgun leikskólarýma þurfi að taka meira tillit til spurnar eftir leikskólaþjónustu í einstökum hverfum borgarinnar en gert er. Svo virðist sem aðeins 5% af fyrirhugaðri fjölgun leikskólarýma komi í hlut Breiðholts en í því hverfi búa hins vegar rúmlega 17% borgarbúa. Þá er lagt til að niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum verði hækkaðar um 25% í stað þeirrar 10% hækkunar sem lagt er til samkvæmt aðgerðaáætluninni.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er í besta falli ótímabært og í versta falli rangt að halda því fram að Breiðholt muni bera skarðan hlut frá borði varðandi hlutdeild í þeirri 300 barna fjölgun sem fylgir aðgerðunum í leikskólamálum.  Hér þarf að hafa í huga að einn þeirra fjögurra leikskóla sem mun opna ungbarnadeild í haust er einmitt í Fellahverfinu í Breiðholti. Þá eru miklar líkur á því að börn úr Breiðholti komist að í þeim sjálfstætt starfandi leikskólum sem nú munu hafa úr fleiri rýmum að spila. Sú mynd skýrist þó nánar þegar líður á árið. Síðan er rétt að hafa í huga að framundan er undirbúningur við næsta áfanga í stofnun ungbarnadeilda og þar eru tækifæri fyrir áhugasama leikskóla og stjórnendur þeirra í Breiðholti eins og í öðrum hverfum.

Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og starfsfólks í leikskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúar leikskólakennara og skólastjórnenda leikskóla, fagna því að Reykjavíkurborg ætlar að opna leikskóla fyrir yngri börn og bjóða upp á ungbarnadeildir. Mikilvægt er að fá svör um það hvort opnað verði fyrir innritun barna fædd 2016 í aðra leikskóla sem ekki eru með svokallaðar ungbarnadeildir.  Einnig, hvort jafnræðis verði gætt milli allra leikskóla og barna og hvort fjármagn muni fylgia með þeim börnum, eins og gert er ráð fyrir að fari í ungbarnadeildirnar?  Opnun ungbarnadeilda kalla á fleiri starfsmenn og í ljósi stöðunnar í ráðningarmálum síðastliðin misseri höfum við áhyggjur af þeim. Tryggja verður að deildarstjóri með leikskólakennaramenntun fáist til starfa á ungbarnadeildirnar ásamt fagmenntun annarra starfsmanna.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík (FFLR) fagnar tillögu um að byggja upp ungbarnadeildir í fjórum leikskólum Reykjavíkur haustið 2017. Hún miðar að aukinni þjónustu við foreldra og að brúa bilið sem fæðingar- og feðraorlof myndar við leikskólagöngu í dag. Rannsóknir sýna að mikilvægt er að kringumstæður barna á aldrinum 0-2ja ára séu fullnægjandi hvað varðar skilyrði fyrir eðlilegum heilaþroska og t.a.m. tengslamyndun og bendum í því samhengi á Sæunni Kjartansdóttur sálgreini og bók hennar Árin sem enginn man. Til að stuðla að eðlilegum þroska barna þurfa ungbarnadeildir að uppfylla þau faglegu skilyrði sem rannsóknir og sérfræðingar benda á. Skortur á fagmenntuðu fólki í leikskólum er alvarlegt vandamál nú þegar og telur FFLR afar mikilvægt að við opnun ungbarnadeilda séu lágmarkskröfur tryggðar og viðmiðum þar að lútandi fylgt.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, um flutning barnaheimilisins Óss og beiðni um rekstarleyfi. Auk þess lögð fram umsókn um rekstrarleyfi og þjónustusamning við Barnaheimilið Ós, dags. 20. mars 2017, auk fylgigagna, rekstrarleyfi fyrir Barnaheimilið Ós, dags. 10. júní 2014, umsögn foreldraráðs Barnaheimilisins Óss, dags. 31. mars 2017, drög að nýju rekstrarleyfi og reglur Reykjavíkurborgar um rekstrarleyfi leikskóla, samþykktar í leikskólaráði 26. nóvember 2008. SFS2017030142

Rekstrarleyfi fyrir Barnaheimilið Ós vegna reksturs leikskóla í húsnæði að Skerplugötu 1, Reykjavík, samþykkt frá og með 15. júlí 2017 með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá.

3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, beiðni um aukið framlag til Barnaheimilisins Óss, umsókn um rekstrarleyfi og þjónustusamning við Barnaheimilið Ós, dags. 20. mars 2017, þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs við Barnaheimilið Ós, dags. 19. maí 2010 og viðauki við samning aðila, dags. 23. febrúar 2015. SFS2017030142 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Barnaheimilisins Óss verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 48 í stað 32 frá 1. september 2017.  Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila frá 19. maí 2010, þar sem kveðið er á um fjölgun barna.

Samþykkt og vísað til borgarráðs með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá.

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, ósk um breytt rekstrarleyfi leikskóla og aukið framlag til Félagsstofnunar stúdenta – Mánagarður, beiðni um  stækkun og fjölgun dvalarrýma á leikskólanum Mánagarði, dags. 26. janúar 2017, þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs við Félagsstofnun stúdenta, dags. 19. maí 2010 og viðauki við samning aðila, dags. 23. janúar 2015 auk reglna Reykjavíkurborgar um rekstrarleyfi leikskóla, samþykktar í leikskólaráði 26. nóvember 2008. SFS2015030161

Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Félagsstofnunar stúdenta vegna Mánagarðs verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 98 í stað 68 frá 1. september 2017 eða síðar ef rekstrarleyfi leikskóla vegna stækkunarinnar liggur ekki fyrir á þeim tíma.  Gerður er fyrirvari um að Félagsstofnun stúdenta fái útgefið rekstrarleyfi leikskóla vegna stækkunar leikskólans en eitt af skilyrðum þess er að umsögn foreldraráðs liggi fyrir. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila frá 19. maí 2010, þar sem kveðið er á um fjölgun barna þegar framangreindu skilyrði um útgáfu rekstrarleyfis hefur verið fullnægt.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, beiðni um breytt rekstrarleyfi og aukið framlag til Vinagarðs leikskóla KFUM og K, beiðni um breytingu á rekstrarleyfi fyrir leikskólann Vinagarð, leikskóla KFUM og KFUK, ódags. er barst 12. apríl 2015, rekstrarleyfi leikskólans Vinagarðs, dags. 15. júní 2015, umsögn foreldraráðs leikskólans Vinagarðs, dags. í mars 2017, þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs við Vinagarð, dags. 19. maí 2010 og viðauki við samning aðila, dags. 9. janúar 2015 auk reglna Reykjavíkurborgar um rekstrarleyfi leikskóla, samþykktar í leikskólaráði 26. nóvember 2008. SFS2017040127

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Vinagarðs verði breytt með þeim hætti að heimilt verði að greiða framlag vegna 20 reykvískra barna til viðbótar við þau 75 börn sem nú er heimilt að greiða framlag vegna frá 1. september 2017. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka við núverandi samning aðila frá 19. maí 2010 vegna þessa.

Vegna fyrirhugaðrar stækkunar leikskólans er jafnframt lagt til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilað er að greiða framlag vegna til Vinagarðs geti orðið 155 í stað 95 frá 1. september 2018. Gerður er fyrirvari um að  Vinagarður fái útgefið rekstrarleyfi leikskóla vegna stækkunar leikskólans. Sviðsstjóra er falið að gera viðauka/samning þar sem kveðið er á um fjölgun barna þegar framangreindu skilyrði um útgáfu rekstrarleyfis hefur verið fullnægt.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, með beiðni um aukið framlag til Vinaminnis, umsókn um aukið framlag til leikskólans Vinaminnis, dags. 16. apríl 2015, þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs við Vinaminni, dags. 19. maí 2010 og viðauki við samning aðila, dags. 8. janúar 2015 auk rekstrarleyfis leikskólans Vinaminnis, dags. 22. febrúar 2012. SFS2014120190

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Vinaminnis verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 86 í stað 69 frá 1. september 2017. Sviðsstjóra er falið að gera viðauki við núverandi samning aðila frá 19. maí 2010, þar sem kveðið er á um fjölgun nemenda.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, með beiðni um aukið framlag til Skóla ehf, vegna Ungbarnaleikskólans Ársólar, umsókn um aukið framlag til Ungbarnaleikskólans Ársólar, dags. 3. júní 2016, þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs við Skóla ehf, dags. 19. maí 2010 og viðauki við samning aðila, 20. febrúar 2015 og dags. 20. febrúar 2015. Jafnframt lagt fram rekstrarleyfi Skóla ehf, dags. 29. júní 2016.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Ungbarnaleikskólans Ársólar verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 68 í stað 54 frá 1. september 2017.  Sviðsstjóra er falið að gera viðauki við núverandi samning aðila frá 2. júní 2010.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

8. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs yfir 1 m.kr. tímabilið október til desember 2016. SFS2016060116

9. Lagt fram svar við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi kosningu varamanns í skóla- og frístundaráð. SFS2016060184

10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, umsókn um stofnun og rekstur sjálfstæðs rekins sérskóla í Reykjavík og umsókn um starfsleyfi fyrir þróunarskóla, sjálfstætt starfandi sérskóla. Atli F. Magnússon, Ida Jensdóttir, Þóra Björk Karlsdóttir og Guðný Maja Riba, kynna og svara fyrirspurnum. SFS2017020088

Guðrún Edda Bentsdóttir og Hrund Logadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

- Kl. 11.40 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu og fagnar þessu framtaki og vonast til að hægt verði að koma á samstarfi sem þessu.  Skóli eins og Arnarskóli yrði alvöru valkostur fyrir foreldra barna með fötlun.

11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. apríl 2017, drög að breytingum á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla og samningum vegna neðri og efri stiga tónlistarnáms. Jafnframt lagðar fram reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla með drögum að breytingum, drög að samningsformi fyrir þjónustusamninga við tónlistarskóla vegna neðri og vegna efri stiga tónlistarnáms með breytingum. Enn fremur reglur um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla, samþykktar í borgarráði 9. febrúar 2017, reglur um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til stuðnings við tónlistarnám, dags. 31. ágúst 2016 og jöfnunar á aðstöðumun nemenda, samkomulag um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, dags. 13. apríl 2016. Sigfríður Björnsdóttir, deildarstjóri listfræðslu á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnir og svarar fyrirspurnum. SFS2016080106

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa drögum að breytingum á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar og drögum að breytingum á samningum við tónlistarskóla vegna neðri og efri stiga til umsagnar tónlistarskóla í Reykjavík sem eru með þjónustusamning við Reykjavíkurborg og jafnframt til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Samþykkt.

- Kl. 12.35 tekur Sveinbjörg Birna sæti á fudninum og Jóna Björg Sætran víkur þar sæti.

12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 31. mars 2017, varðandi málefni Breiðholtsskóla,  merkt trúnaðarmál. SFS2017040002

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:

Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að starfsmanna og foreldrakannanir verði lagðar fyrir árlega fyrstu finm árin í skólum þar sem skólastjóraskipti eiga sér stað og sviðið styðji sérstaklega við skólasamfélög þar sem nýjir skólastjórnendur hafa verið ráðnir.

- Kl. 13.15 víkur Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir af fundi og Jóna Björg Sætran tekur þar sæti.

13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 5. apríl 2017, varðandi breytingu á ráðgerðum fundum skóla- og frístundaráðs.

14. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á 98. fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst var fjallað um meðferð eineltismála í skóla- og frístundastarfi. Skóla- og frístundaráð beindi því til borgarráðs að samþykkt verði að fenginn verði óháður aðili til að fara yfir verkferla starfsstöðva skóla- og frístundasviðs vegna eineltis og samskiptavanda barna. Hver er staðan á þessari vinnu ? Var þetta samþykkt ? Er óháð úttekt farin í gang ? Á skóla- og frístundasviði er starfandi ráðgjafi foreldra og skóla, skv. heimasíðu Reykjavíkurborgar vinnur hann að úrlausn eineltismála í samstarfi við foreldra og stofnanir Reykjavíkurborgar. Er haldið utan um skráningar vegna erinda foreldra, fjölda þeirra og eðli, annars vegar til ráðgjafa foreldra og skóla og hins vegar til sviðsins í heild. Eru skráningar tengdar einstökum skólum? SFS2017040051

15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um stöðu einhverfra barna til að fá kennslu og nám við hæfi næsta skólaár, og möguleika þeirra á innritun í einhverfudeild haustið 2017. Hve margir einhverfir, börn og unglingar, eru á biðlista eftir að komast að á einhverfudeildum við grunnskóla Reykjavíkur? Hve lengi hafa þessi börn og unglingar verið á biðlista? Verður opnuð ný einhverfudeild við grunnskóla í Reykjavík haustið 2017? SFS2017040049

16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Framsókn og flugvallarvinir óska eftir upplýsingum um rétt foreldra til að ákveða hvort börn með verulega þroskaskerðingu sæki almenna skóla þrátt fyrir að barnið njóti þá ekki sérstakrar umönnunar þroskaþjálfa eða annarra sérmenntaðra starfsmanna sem geta þá annast skipulagningu námskrár sem er þá aðlöguð að þörfum barnsins, þjálfun til andlegrar örvunar, samskiptahæfni, kennslu og náms samkvæmt þroska og hæfni barnsins. Hverjir aðrir en foreldrar koma að þeirri ákvarðanatöku? Dregur það úr ákvörðunarrétti foreldra ef barnið veldur öðrum börnum og starfsfólki verulegu ónæði og jafnvel aukinni ábyrgð á samnemendur? SFS2017040050

Fundi slitið kl. 13.20

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir Hermann Valsson

Kjartan Magnússon  Jóna Björg Sætran

Þorkell Heiðarsson Örn Þórðarson