Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 22. mars, var haldinn 116. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík, kl. 11.05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D), Sabine Leskopf (S) og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir (B). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Arnaldur Sigurðarson (P); Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Elínborg Una Einarsdóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Jón Pétur Zimsen, skólastjórar í grunnskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum.Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðlaug Sturlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrslan Menntun fyrir alla á Íslandi. Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi. Jafnframt lögð fram samantekt um helstu atriði lokaskýrslunnar. SFS2016030109

Arnór Guðmundsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Skóli án aðgreiningar er grundvallar hugmyndafræði sem leggur áherslu á jafnan rétt allra nemenda til kennslu og náms við sitt hæfi. Skýrsla Evrópumiðstöðvarinnar um menntun án aðgreiningar á Íslandi er brýnt innlegg sem mikilvægt er að nýta til að bæta framkvæmd stefnunnar. Skýrslan gefur tilefni til þess að endurskoða skipulag skólaþjónustu í borginni, styrkja verulega samstarf skóla og þjónustumiðstöðva varðandi þjónustu við börn með sérþarfir og draga úr vægi greininga en auka áherslu á markviss inngrip sem stuðla að framförum nemenda. Niðurstöðurnar verða m.a. nýttar í þeirri umfangsmiklu vinnu sem nú stendur yfir við að rýna og bæta starfsumhverfi kennara og annars starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu ráðuneytisins og fagnar útkomu þessarar skýrslu og ekki síst þeirri breiðu samstöðu sem skapast hefur meðal ráðamanna að fylgja niðurstöðum markvisst eftir.

Guðni Olgeirsson, sérfræðingur á skrifstofu mennta- og vísindamála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 13. febrúar 2017, varðandi innritun nemenda í framhaldsskóla og bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 6. mars 2017, um breytingu á reglugerð um innritun í framhaldsskóla.SFS2017020069

- Kl. 12.35 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Meirihlutinn gagnrýnir harðlega að niðurstöður samræmdra prófa í 9. bekk grunnskóla geti ráðið úrslitum um inntöku nemenda í tiltekna framhaldsskóla. Það gengur gegn yfirlýstum tilgangi samræmdu prófanna sem er að veita nemendum og kennurum þeirra leiðsagnarmat til að stuðla að framförum nemenda í efstu bekkjum grunnskólans og grefur undan námsmatskerfi grunnskólanna sjálfra. Þá vekur furðu ákvörðun um að prófa ekki ritun sem stangast á við ráðleggingar fagráðs um náms- og gæðamat Menntamálastofnunar. Skorað er á mennta- og menningarmálaráðherra að kveða skýrt á um að einkunnir úr samræmdum prófum í 9. bekk skuli ekki nýttar í þeim tilgangi að velja nemendur inn í framhaldsskóla.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna telur brýnt að skóla- og frístundaráð skori á nýjan ráðherra menntamála að hann felli úr gildi heimild framhaldsskólanna í nýlegri reglugerð sem snýr að því að geta nýtt sér niðurstöður samræmdra könnunarprófa sem viðbótargögn við inntöku nemenda í framhaldsskóla. Áheyrnarfulltrúi foreldra telur varhugavert að gefa hæfnimiðuðum samræmdum könnunarprófum aukið vægi með þessum hætti, það er mótsögn við skilgreind markmið þeirra. Framhaldsskólarnir hafa ítrekað fullyrt að þeir séu fullfærir um að meta nemendur út frá hæfnimiðunum lokeinkunnum þeirra úr grunnskóla.

Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi kennara í Reykjavík lýsir yfir þungum áhyggjum af þeim breytingum sem gerðar voru 8. desember 2016 á reglugerð um innritun í framhaldsskóla. Í reglugerðinni kemur fram að framhaldsskólar geti nú tekið mið af ýmsum viðbótargögnum við innritun, þar með talið niðurstöðum samræmdra prófa. Að minnsta kosti tveir framhaldsskólar hafa þegar tilkynnt að þeir muni líta til prófanna við inntöku nemenda. Tilgangur prófanna er að kanna að hvaða marki leiðbeinandi um það hvar nemandi stendur ári fyrir útskrift úr grunnskóla.

Prófin meta fáa og afmarkaða hæfniþætti úr aðalnámskrá og er það áhyggjuefni ef þessi próf eiga að meta nemendur fyrir frekara nám þar sem þau gefa ekki heildarmynd af stöðu þeirra. Átök um tilgang og inntak samræmdra prófa hafa skaðleg áhrif á skólastarf og skólasamfélagið allt og slíkt er óviðunandi fyrir nemendur.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Skv. reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla nr. 173/2017 segir að tilgangur samræmdra könnunarprófa í grunnskólum sé að vera leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda. Framsókn og flugvallarvinir vilja fá upplýsingar um hvernig grunnskólar í Reykjavík ætli sér og muni bregðast við niðurstöðum úr prófunum núna, þannig að þær nýtist til að verða leiðbeinandi um áherslur í námi einstakra nemenda.

Guðni Olgeirsson og Arnór Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. mars 2017, varðandi umsókn Landakotsskóla um aukið framlag. Jafnframt lögð fram umsókn Landakotsskóla, dags. 9. mars 2017. Enn fremur lagður fram þjónustusamningur skóla- og frístundasviðs og Landakotsskóla um framlag vegna nemenda í skólanum sem eiga lögheimili í Reykjavík og fósturbarna ef fósturforeldrar eiga lögheimili í Reykjavík ásamt viðaukum dags. 19. janúar 2016 og 17. febrúar 2017. Auk þess samningur skóla- og frístundasviðs ásamt viðaukum við Landakotsskóla um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla. SFS2016060089

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna til Landakotsskóla verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra nemenda sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 182 í stað 178 frá 1. apríl 2017. Gerður verði viðauki við núverandi samning aðila frá 20. október 2015 þar sem kveðið er á um fjölgun nemenda.

Frestað verði afgreiðslu umsóknar um að heimilt verði að greiða framlag vegna 20 reykvískra nemenda frá upphafi skólaárs 2017 – 2018 og umsóknar um að greitt verði framlag vegna fleiri fimm ára barna en nú er. Þær umsóknir verði afgreiddar svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 10. júní 2017.

Greinargerð fylgir.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

4. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. febrúar 2017 ásamt umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 7. mars 2017, um tillöguna.

Lagt er til að gerð verði áætlun og átak í uppsetningu öryggismyndavéla utanhúss við leik- og grunnskóla borgarinnar í öryggisskyni og til að koma í veg fyrir skemmdir á skólahúsnæði og leiktækjum á skólalóðum.

Greinargerð fylgir.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Lagt er til að mótuð verði áætlun um markviss viðbrögð við skemmdarverkum á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs með það fyrir augum að auka öryggi og lágmarka skaða. Skemmdarverk og eignaspjöll á starfsstöðum SFS eru fátíð en koma oft í hrinum. Mikilvægt er í slíkum aðstæðum að viðkomandi starfsstöðvum sé gert kleift að kaupa tímabundið mannaða gæslu studda með öryggismyndavélum á meðan komist er fyrir vandann. Þá er mikilvægt að brugðist sé strax við þeim tilvikum sem upp kunna að koma. Verkferill og nánara skipulag verði unnið í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið, skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og fulltrúa stjórnenda leikskóla, grunnskóla og frístundar.

Frestað.

SFS2017020125

5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 8. mars 2017:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum leggur til að árlegar niðurstöður heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna skoðunar á grunnskólum í Reykjavík verði gerðar opnar og aðgengilegar á vefsvæði Reykjavíkurborgar í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar, á sama hátt og m.a. starfsáætlanir skóla og mat á starfi skóla- og frístundastarfs.

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúa Pírata:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að leita umsagnar umhverfis- og skipulagsviðs, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og stjórnkerfis- og lýðræðisráðs um tillögu um birtingu árlegra niðurstaðna Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Samþykkt. SFS2017030024

6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. mars 2017, varðandi málefni Reykjavik International School, trúnaðarmál. SFS2015060190

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2017, um eftirlit með daggæslu í heimahúsum á árinu 2016. Jafnframt lagt fram matsblað fyrir vettvangsathugun hjá dagforeldrum og gæðaviðmið í daggæslu í heimahúsum. Enn fremur lagðar fram skýrslurnar Viðhorf dagforeldra 2015-2016 og Viðhorf foreldra barna hjá dagforeldrum 2015-2016. SFS2017030097

8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. mars 2017, um eftirlit með sjálfstætt reknum leikskólum í Reykjavík á árinu 2016. Jafnframt lögð fram viðmið og vísbendingar fyrir innra og ytra mat á gæðum leikskólastarfs. SFS2017030098

9. Lagt fram yfirlit yfir ferðir starfsmanna skóla- og frístundasviðs og kjörinna fulltrúa frá október til desember 2016. SFS2016120052

10. Lögð fram bréf Borgarstjórans í Reykjavík, dags. 8. mars 2017, um að Björn Jón Bragason taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði og dags. 12. mars 2017 um að Þórlaug Ágústsdóttir taki sæti áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráði og að Arnaldur Sigurðarson taki sæti varaáheyrnarfulltrúa. SFS2016060184

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á fundi borgarstjórnar 7. mars var samþykkt að Björn Jón Bragason tæki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði í stað Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur. Athygli vakti að borgarfulltrúinn Skúli Helgason, sem jafnframt er formaður skóla- og frístundaráðs, sat hjá þegar umræddur liður var borinn upp til samþykktar á borgarstjórnarfundinum. Óskað er eftir því að formaður ráðsins gefi skýringar á hjásetu sinni varðandi umræddan lið.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. mars 2017, embættisafgreiðsla sviðsstjóra, eitt mál. SFS2016080100

12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Með hvaða hætti er það tryggt í grunnskólum Reykjavíkur að kennsla á unglingastigi í verk-, list- og tæknigreinum sé í samræmi við aðalnámskrá, en í kafla 8.5 segir að listgreinar og verkgreinar skuli hafa jafnt vægi innan heildartímans sem gefinn er upp í viðmiðunarstundaskrá grunnskóla. Jafnframt er tekið fram að þess sé gætt að ekki halli á verklegt nám. Það á einnig við um skipulag valnámskeiða og því er gert ráð fyrir að allt að helmingur valstunda sé bundinn list- og verktengdu námi. SFS2017030152

13. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í aðalnámskrá eru sett fram matsviðmið við lok grunnskóla fyrir einstaka námsgreinar og námssvið. Óskað er eftir skýringum á því hvernig grunnskólar í Reykjavík nota matsviðmið við útskrift nemenda úr 10. bekk í verk- og listgreinum. SFS2017030153

14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir upplýsingum um hvernig grunnskólar í Reykjavík halda utan um forfallakennslu á unglingastigi, er hverjum og einum grunnskóla í sjálfsvald sett hvernig forfallakennslu er háttað? Ef ekki, hver ákveður það þá? Eru viðmiðunarreglur frá skóla- og frístundasviði til grunnskólanna? Er til samantekt fyrir síðustu 3 ár um hversu marga tíma nemandi á unglingastigi hefur misst vegna þess að ekki var forfallakennsla? SFS2017030154

15. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Nýverið var staðfest að réttur nemenda til kennslu í list- og verkgreinum er ekki virtur. Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar sem byggja á gögnum skólanna frá skólaárunum 2013-16 er staðan verst í Reykjavík. Þetta eru slæm tíðindi. Nemendur óska yfirleitt eftir meira verk- og listnámi. Brýnt er að bregðast við þessu því yfirmenn menntamála virðast hafa haft einbeittan vilja til að auka vægi samræmdra prófa sem getur unnið gegn yfirlýstum vilja fræðsluyfirvalda um allt land, sem er að auka einmitt vægi list- og verkgreina í grunnskólum. Framsetning á viðmiðunarstundaskrá í starfsáætlun skólanna og hvernig kennslumínútum er skipt milli námssviða er mjög ólík í grunnskólum. Það getur verið mjög erfitt fyrir m.a. fulltrúa foreldra að greina hvort að skólinn virði lágmarksrétt nemenda til kennslu í list- og verkgreinum. Hvernig hyggst skóla- og frístundaráð bregðast við þessum niðurstöðum og tryggja rétt nemenda til kennslu í list- og verkgreinum skv. lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá? SFS2017030155

Fundi slitið kl. 14.45

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir Hermann Valsson

Kjartan Magnússon  Marta Guðjónsdóttir

Sabine Leskopf   Sveinbjörg B. Sveinbjörnsd.