Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2017, 8. mars, var haldinn 115. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14, Reykjavík, kl. 11.10. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Eva Einarsdóttir (Æ), Hermann Valsson (V), Jóna Björg Sætran (B), Kjartan Magnússon (D), Marta Guðjónsdóttir (D) og Sabine Leskopf (S).Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Þórhildur Ágústsdóttir (P); Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Atli Steinn Árnason, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Birgitta Bára Hassenstein, foreldrar barna í grunnskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar í leikskólum; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Sveinn Sigurður Kjartansson, foreldrar barna í leikskólum.Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir.

Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á skoðun starfseininga skóla- og frístundasviðs á árinu 2016. SFS2017030024

Frestað.

- Kl. 11.29 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fá þakkir fyrir ítarlega kynningu á skoðun starfsstöðva skóla og frístundasviðs á síðastliðnu ári. 

Kynningin dregur fram að ástand leikskólahúsnæðis sé almennt nokkuð gott og ástand leikskólalóða hefur batnað milli ára. Vissulega eru atriði sem betur mega fara og leggur ráðið áherslu á áframhaldandi vinnu við úrbætur á leikskólum.

Almennt er ástand grunnskólahúsnæðis ágætt og ástandið í mötuneytum grunnskóla tiltölulega gott og hefur batnað mikið. Fjöldi athugasemda er mestur varðandi húsnæði frístundaheimila og þarf sérstaklega að rýna þau mál m.t.t. úrbóta.  Mikilvægt er að stjórnendur leik – og grunnskóla kynni skýrslur um ástand einstakra skóla fyrir skólaráðum og foreldraráðum í leik- og grunnskólum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina leggur fram svohljóðandi bókun:

Niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á skoðun starfseininga skóla- og frístundasviðs á árinu 2016 sýna að eftirlitið er afar þarft. Þrátt fyrir að aðstæður eru víða góðar, þá sýnir ástandskoðunin svo margvíslegar og margar athugasemdir, að spurningar vakna um hvort ekki þurfi að taka harðar á því þegar stjórnendur starfsstaða láta undir höfuð leggjast að láta sinna þeim athugasemdum sem Heilbrigðiseftirlitið gerir. Skóla- og frístundasvið er að vísu starfsleyfishafi starfsemi leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva en vinnan á bak við það að lagfæra það sem laga þarf getur hinsvegar verið á ábyrgð annarra sviða borgarinnar en skóla - og frístundasviðs. Áberandi margar athugasemdir voru gerðar varðandi aðstöðu og aðbúnað á frístundaheimilum en aðstæður náms- og leikumhverfis barna og unglinga þurfa að fylla allar öryggiskröfur á öllum starfseiningum skóla- og frístundasviðs.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fulltrúum Heilbrigðiseftirlitsins fyrir greinargott yfirlit vegna skoðunar á starfseiningum skóla- og frístundasviðs. Yfirlitið sýnir, svo ekki verður um villst, að allt of litlu fé er varið til viðhalds og endurbóta á skólahúsnæði Reykjavíkurborgar sem og skólalóða. Þessi slæma staða er staðreynd þrátt fyrir að skóla- og frístundasvið greiði hátt í níu milljarða króna árlega í innri leigu til eignasjóðs borgarinnar vegna fasteigna og búnaðar. Slæmt er að heyra að fulltrúar heilbrigðiseftirlitsins þurfi ítrekað að grípa til þvingunarúrræða eins og þess að hóta lokun á húsnæði í því skyni að knýja fram aðkallandi úrbætur. Óviðunandi er að raka- og lekavandamál séu fyrir hendi í tæplega helmingi grunnskóla borgarinnar eða 17 skólum af 39. Austurbæjarskóli og Norðlingaskóli eru verst farnir og er því mikilvægt að þar verði gripið til úrbóta sem fyrst. Þá kemur fram að um er að ræða lélegt eða ónýtt gólfefni í 15 grunnskólum af 39. Heilbrigðiseftirlitið gerir einnig margar athugasemdir vegna grunnskólalóða. Mikið er um að leiktæki úr tré séu fúin sem rekja má til skorts á viðhaldi. Þá eru athugasemdir gerðar við fallundirlag á 21 grunnskólalóð. Gerðar eru kröfur um tafarlausar úrbætur á leikskólalóðum af 78 og athugasemdir við fallundirlag á 18 leikskólalóðum.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík hefur tvívegis lagt fram bókun er varðar asbest í leikskólum, fyrst í janúar 2016 og í júní sama ár eftir ófullnægjandi svar frá Heilbrigðiseftitliti Reykjavíkur um skoðun á málinu. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum leikskólans Drafnarborgar er asbest þar í klæðningum innveggja og umgengnisreglur þær að ekki megi negla í veggi þess vegna.  Hins vegar stóð til á síðasta ári að bora upp ný borð á veggina sem hætt var svo við.  Þekking leikskólastjórans á mengunarhættunni er afar takmörkuð og ávísun á stórslys ef ekkert er að gert.  Talið var nóg að þrífa upp ryk eftir borun til að forðast mengunarhættu sem er alrangt og stofnar heilsu ræstingarfólks sem og allra annarra í húsinu í hættu.Félagið ítrekar enn og aftur áhyggjur sínar vegna þessa og hvetur borgaryfirvöld eindregið til að kanna hvar asbest sé að finna í skólum og meti hættuna á mögulegri asbest mengun t.a.m. með mælingum og geri viðeigandi ráðstafanir ef þarf í samráði við viðeigandi sérfræðinga til að tryggja að börnin okkar og starfsmenn verði ekki fyrir asbest mengun.  Til eru þekktar aðferðir til mælinga á asbest-ögnum í andrúmslofti og einnig er til mælitæki sem er sérstaklega hannað til verksins. Málinu til stuðnings bendum við enn á samskipti okkar við Vilhjálm Rafnsson lækni og fyrrverandi prófessor í heilbrigðis- og faraldsfræði við Háskóla Íslands en hann starfaði einnig sem yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins.  Vilhjálmur lagði þunga áherslu á að málið yrði tekið föstum tökum vegna eðlis þess og alvarleika.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:

Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum leggur til að árlegar niðurstöður heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna skoðunar á grunnskólum í Reykjavík verði gerðar opnar og aðgengilegar á vefsvæði Reykjavíkurborgar í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar, á sama hátt og m.a. starfsáætlanir skóla og mat á starfi skóla - og frístundastarfs.

Rósa Magnúsdóttir, Gunnar Kristinsson og Ingibjörg H. Elíasdóttir frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur taka sæti á fundinum undir þessum lið.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. mars 2017, um framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila. Jafnframt lagt fram bréf Samtaka sjálfstæðra skóla, dags. 2. mars 2017, um drög að samningum vegna frístundar, tölvubréf Reykjavík International School, dags. 1. febrúar 2017, bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. janúar 2017 til Barnaskóla Hjallastefnunnar, Skóla Ísaks Jónssonar, Reykjavík International School, Landakotsskóla og Suðurhlíðarskóla. Enn fremur lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. janúar 2017, varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila, drög að þjónustusamningi um framlag vegna barna sem nýta frístundaheimili í sjálfstætt reknum skólum, tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. desember 2016 og tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. október 2016. SFS2016100093

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:

Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að tilkynna sjálfstætt reknum grunnskólum með yngri árganga  að ekki verði greitt framlag vegna reksturs frístundar þeirra á vorönn 2017 ef ekki berst um það umsókn fyrir 17. mars 2017 og í kjölfarið verði gerður um það samningur sem samþykktur er af skóla- og frístundaráði og borgarráði.

Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina gegn tveim atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Alvarlegir gallar eru á þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið samþykkt með tillögu Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna og svo virðist sem í henni komi fram það viðhorf sem þessir flokkar hafa til sjálfstætt rekinna skóla.

Frá árinu 2013 hafa sjálfstætt reknir skólar fengið greitt framlag vegna rekstrar frístundastarfsemi yngstu árganganna án þess að formlegur samningur liggi fyrir þar að lútandi. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja sjálfsagt að unnið sé að slíkri samningsgerð en leggja mikla áherslu á að það verði gert í sátt og samvinnu við þá skóla sem bjóða umrædda þjónustu en þeim ekki stillt upp við vegg innan þröngra tímamarka. Er það ekki síst mikilvægt í ljósi þess að sjálfstætt reknir skólar telja framlög borgarinnar til starfseminnar vera of lág og hafa ítrekað óskað eftir leiðréttingu sem æskilegt væri að yrði gert í tengslum við slíka samningsgerð. Það sætir furðu að sjálfstætt reknum skólum sé hótað því að greiðslur til þeirra vegna þessarar þjónustu verði felldar niður, sætti þeir sig ekki við breytt fyrirkomulag innan tveggja vikna. Hæpið er að slíkt standist góða stjórnsýsluhætti og jafnvel lagareglur vegna þess að ef hótuninni verður hrint í framkvæmd verður ekki annað séð en að hún hafi afturvirk áhrif í för með sér. Hér er tvímælalaust um íþyngjandi ákvörðun að ræða og hefði því verið eðlilegt að tilkynna umræddum skólum um hana fyrirfram og að gefa þeim kost á að koma andmælum á framfæri.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Rétt er að fram komi vegna rangfærslna í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að sjálfstætt reknir skólar hafa þegar fengið mánaðar frest til að skila inn umsóknum vegna frístundar.  Engar umsóknir hafa borist.  Með samþykkt tillögunnar á þessum fundi er skólunum veittur viðbótarfrestur í 2 vikur til að skila inn umsóknum.  Það hlýtur að teljast bæði málefnalegt og sanngjarnt.

3. Fram fer kynning á vinabæjarsamstarfinu kultur og fritid.

4. Lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs, dags. 6. mars 2017, og yfirlit yfir starfshópa á vegum borgarstjóra sem skóla- og frístundasvið á fulltrúa í, dags. 3. mars 2017. SFS2016020039

- Kl. 13.32 víkur Rósa Ingvarsdóttir af fundinum.

5. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf starfshópa skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2017. Jafnframt lögð fram erindisbréf starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi grunnskólakennara í Reykjavík, erindisbréf starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík og erindisbréf verkefnastjórnar um mótun menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030. SFS2015100017

6. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2017, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um gerð nýrra úthlutunarlíkana sbr. 16. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 14. september 2016 SFS2016090147

7. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 22. febrúar 2017, um að Ragnar Hansson taki sæti sem varamaður í skóla- og frístundaráði. SFS2016060184

8. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 6. mars 2017, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS2016080100

9. Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að setja á dagskrá umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um verslun með áfengi og tóbak, (smásala áfengis), nr. 86/2011, með síðari breytingum, þingskjal 165 - 106. mál. SFS20170030025

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæla þeirri ákvörðun meirihluta skóla- og frístundaráðs að setja nýtt mál á dagskrá fundarins án fyrirvara og afgreiða það án þess að samþykki allra kjörinna fulltrúa í ráðinu liggi fyrir. Það gengur gegn góðum stjórnarháttum að meirihluti ráðsins kjósi að setja viðkvæmt pólitískt mál á dagskrá og knýja á um ákveðna afgreiðslu á sama fundi án þess að það sé á útsendri dagskrá og án þess að allir fulltrúar hafi fengið tækifæri til að kynna sér gögn málsins, þ.e. þá umsögn sem hér hefur verið lögð fram.

Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. mars 2017, varðandi umsögn til allsherjar og menntamálanefndar um frumvarp til breytinga á lögum um verslun með áfengi og tóbak, (smásala áfengis), nr. 86/2011 með síðari breytingum, þingskjal 165 - 106. mál.

- Kl. 14.07 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.

- Kl. 14.17 víkja Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir og Kristján Gunnarsson af fundinum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi tillögu:   

Skóla- og frístundaráð samþykkir og vísar til borgarráðs umsögn sviðsstjóra, dags. 3. mars 2017, varðandi frumvarp til breytinga á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 86/2011 með síðari breytingum.

Samþykkt með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Bjartrar framtíðar, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Framsóknar og flugvallarvina og áheyrnarfulltrúi Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Frumvarp um afnám einkasölu ÁTVR á áfengi er atlaga að þeim frábæra árangri sem náðst hefur í forvörnum á Íslandi, ekki síst meðal ungmenna í Reykjavík á undanförnum 20 árum. Með samstilltu átaki fjölmargra aðila í íslensku samfélagi hefur tekist að minnka verulega áfengisneyslu 15-16 ára ungmenna, og er hún nú minni en jafnaldra þeirra í Evrópu bæði þegar horft er til heildarneyslu yfir eitt ár og neyslu síðustu 30 daga. Sérstök ástæða er til að vara við því ákvæði í nýjustu útgáfu frumvarpsins sem heimilar að auglýsa áfengi án veigamikilla takmarkana.  Það myndi fela í sér grundvallar stefnubreytingu stjórnvalda gagnvart markaðssetningu áfengis í samfélaginu. Ástæða er til að taka undir með embætti Landlæknis, sem bent hefur á að með samþykkt frumvarpsins væri búið að nema úr gildi tvær af þremur virkustu forvarnaraðgerðum áfengisforvarna samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni, sem eru takmörkun á aðgengi og bann við auglýsingum. Meirihlutinn hvetur Alþingi til að hafna ofangreindu frumvarpi með hag barna og ungmenna á Íslandi í huga.

Fundi slitið kl. 14.43

Skúli Helgason

Eva Einarsdóttir Hermann Valsson

Jóna Björg Sætran Kjartan Magnússon

Marta Guðjónsdóttir  Sabine Leskopf