Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2011, 14. september, var haldinn 155. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12.35. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK, Ingibjörg Jósefsdóttir, félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík, Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Auður Jónsdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Kristín Egilsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrsla Leikskólasviðs, dags. ágúst 2011, Endurskoðun úthlutunar sérkennslu. Auk þess lagðar fram reglur við úthlutun á stuðningstímum til barna í leikskólum hjá Reykjavíkurborg. Jafnframt lagðar fram umsagnir Sjónarhóls og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
Elísabet Helga Pálmadóttir, verkefnastjóri sérkennslu á skóla- og frístundasviði og Helgi Viborg, deildarstjóri sérfræðideildar Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, kynntu og svöruðu spurningum.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð þakkar starfshópi um endurskoðun úthlutunar sérkennslu fyrir vandaða vinnu. Í megindráttum kveða tillögur starfshópsins á um: Stóraukna eftirfylgni með úthlutun, bætta verkferla, hverfamiðaðri úthlutun, sanngjarnari skiptingu fjármagns eftir raunverulegri þörf á sérkennslu, meiri ráðgjöf á vettvangi leikskólans og meiri áherslu á gerð einstaklingsnámsskráa fyrir hvert barn. Menntaráð samþykkir tillögur starfshópsins og felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að fylgja eftir tillögum merktum a-h um endurskoðun úthlutunar sérkennslu. Nýju skóla- og frístundaráði verði kynnt úttekt á framkvæmdinni eigi síðar en 1. október 2012.
Samþykkt með 5 atkvæðum og vísað til borgarráðs.

Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu þessara breytinga á úthlutun til barna í leikskólum. Þakka ber góða vinnu sem liggur að baki þessum hugmyndum, sem snúast að miklu leyti um að stemma stigu við fjölgun greininga og eftirfylgni með þjónustu við börn. Það verður hins vegar að geta þess að annar öflugur drifkraftur umræddra breytinga er krafa um sparnað, sem felur í sér að hagræðing er knúin fram með því að draga úr fjárveitingum og þrengja úthlutunarreglur. Ljóst er að umræddar breytingar munu hafa veruleg áhrif en þær hafa þó ekki verið rýndar með fullnægjandi hætti og því er engan veginn ljóst hvort raunveruleg hagræðing náist. Allt eins er líklegt að kostnaður aukist með því að dreifa umræddri þjónustu á fleiri staði en nú er og fjölga þannig milliliðum, þ.e. til sex þjónustumiðstöðva, miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir. Eðlilegt hefði verið að rýna svo miklar breytingar með ýtarlegri hætti. Leiði slík skoðun í ljós að slíkar breytingar séu æskilegar, mælir margt með því að þær verði innleiddar í litlum skrefum, t.d. í tilraunaskyni í einu hverfi til að meta hver þjónustubreytingin er og afleiðingar í fjármálalegu samhengi. Að lokum vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ræða í hreinskilni þann kost að fækka fremur þjónustueiningum við sérkennslu og tryggja þannig að fagmennska sérkennslustarfsmanna nýtist betur og að munur á þjónustu milli hverfa verði ekki meiri en nú er.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Fulltrúar leikskólaskólastjóra, sérkennslustjóra, sérkennsluráðgjafa, sálfræðinga og annars fagfólks sátu í hópnum og skila hér vandaðri vinnu sem að sjálfsögðu verður metin jafnt og þétt og endurmetin eftir því sem þurfa þykir. Stöðug framúrkeyrsla og vöxtur hefur verið í fjármagni til sérkennslu undanfarin ár sem nauðsynlegt er að stemma stigu við. Ekki er verið að fjölga milliliðum heldur breyta verklagi á úthlutun sem verður nú hverfamiðuð í stað þess að vera á miðlægum grunni, sem hefur skapað meiri fjarlægð. Tilraun verður gerð í tveimur hverfum með ráðgjöf á vettvangi sem miklar vonir eru bundnar við.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að fela sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að kalla formlega eftir samstarfi við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sbr. tillögu merkta i) í skýrslu starfshóps um endurskoðun úthlutunar sérkennslu. Markmiðið með samstarfinu verði að skoða aðstæður barna á einhverfurófi, greiningar, þjónustuþörf og hvernig stuðningi og kennslu barna á einhverfurófi er háttað í leikskólum.
Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að hrinda af stað tilraunaverkefni, sbr. merkta j) í skýrslu starfshóps um endurskoðun úthlutunar sérkennslu. Tilraunaverkefnið eigi sér stað í tveimur hverfum borgarinnar í samstarfi leikskóla og þjónustumiðstöðva og gangi út á ,,hlaupandi ráðgjafa“ sem fari á milli leikskóla og veiti ráðgjöf á vettvangi. Ráðgjöfin geti verið margvísleg en aðaláherslan verði á aðstæður barna sem þurfa stuðning vegna hegðunarvanda. Ráðgjöfin myndi nýtast starfsfólki í starfi með börnum með sérþarfir og dregur úr greiningum sem í einhverjum tilvikum gætu verið óþarfar.
Samþykkt og vísað til borgarráðs.

Reglur við úthlutun á stuðningstímum til barna í leikskólum hjá Reykjavíkurborg samþykktar með 5 atkvæðum og vísað til borgarráðs.

2. Lögð fram drög að samningi mennta- og menningarmálaráðuneytis við Reykjavíkurborg vegna Námsflokka Reykjavíkur um sérhæfðar námsbrautir. Iðunn Antonsdóttir, forstöðu-maður Námsflokka Reykjavíkur kynnti og svaraði fyrirspurnum.

Samþykkt og vísað til borgarráðs.

3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga menntaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi ráðsins 22. júní sl.:
Lagt er til að heildarmat grunnskóla sé framkvæmt af þriðja aðila, óháðum menntasviði.
Greinargerð fylgdi.
Frestað.
4. Lögð fram að nýju tillaga menntaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, sem frestað var á fundi menntaráðs 24. ágúst sl.:
Menntaráð Reykjavíkur felur skólastjórum að sjá til þess að niðurstöður lesskimunarprófs verði kynntar fyrir nemendum og foreldrum og stuðla þannig að því að sem gleggstar upplýsingar um stöðu náms séu aðgengilegar á hverjum tíma. Rétt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimunarprófinu. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimunarprófi, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.
Samþykkt.

5. Dagskrárliður 5 í útsendri dagskrá felldur úr dagskránni.

6. Lögð fram að nýju tillaga menntaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, sem frestað var á fundi ráðsins 22. júní sl.:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkir að hefja undirbúningsvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla. Viðbyggingin skal hýsa íþróttasal, sundlaug og e.t.v. aðra starfsemi skólans, sem koma þarf fyrir með betri hætti en unnt er í núverandi húsnæði. Skoða skal hvort Klettaskóli og Brúarskóli geti samnýtt umrædda íþróttaaðstöðu en nemendur þeirra eru hinir einu af þeim, sem stunda nám við borgarrekna grunnskóla, sem hafa ekki aðgang að íþróttahúsi á skólalóð sinni eða í næsta nágrenni. Jafnframt skulu skoðaðir möguleikar á samnýtingu íþróttahússins með Suðurhlíðarskóla. Stefnt skal að því að þarfagreining og kostnaðaráætlun vegna verkefnisins liggi fyrir 1. nóvember næstkomandi.
Samþykkt að vísa tillögunni til vinnu vegna fjárhags- og fjárfestingaáætlunar Reykjavíkur-
borgar.
7. Lagt fram 6 mánaða uppgjör leikskólasviðs og menntasviðs. Kristín Egilsdóttir og Jón Ingi Einarsson, fjármálastjórar kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

8. Undirbúningur fjárhagsáætlunargerðar 2012. Kristín Egilsdóttir og Jón Ingi Einarsson, fjármálastjórar kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

- Kl. 14.45 vék Kristín Egilsdóttir af fundinum.

9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. september sl., um stöðu innritunar í leikskóla Reykjavíkurborgar.

10. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs, dags. 1. september sl., um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.

11. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjóra, dags. 7. sept. sl., varðandi samþykkt borgarstjórnar um starfsemi skóla- og frístundasviðs.

- Kl. 15.25 vék Ingibjörg Jósefsdóttir af fundi.

12. Viðhald leikskólalóða – staða mála. Sighvatur Arnarsson, skrifstofustjóri gatna- og eignaumsýslu hjá framkvæmda- og eignasviði og Rósa Magnúsdóttir, deildarstjóri umhverfiseftirlits hjá Reykjavíkurborg kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

- Kl. 15.55 vék Rósa Steingrímsdóttir af fundi.

13. Dagskrárlið 10 í útsendri dagskrá frestað.

14. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í Fréttablaðinu í dag, 14. september, koma fram upplýsingar um flutninga grunnskólabarna í Reykjavík á milli hverfa, sveitarfélaga og landa. Óskað er eftir að menntaráð fái sambærilegar upplýsingar fyrir sl. 3 ár til að hægt sé að meta hvort aukning hafi orðið á flutningi barna milli skóla, sér í lagi innan borgarinnar.

Fundi slitið kl. 16.10

Oddný Sturludóttir

Eva Einarsdóttir Erna Ástþórsdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir