Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2011, 25. maí, var haldinn 147. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:42. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Stella Marteinsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík og Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur E. Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Jón Ingi Einarsson, Kolbrún Vigfúsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:

Menntaráð samþykkir að stofna starfshóp sem setur fram tillögur um hvernig best verði staðið að áframhaldandi stefnumótun á námi og kennslu/vinnu barna/nemenda með annað móðurmál en íslensku. Starfshópurinn starfi m.a. á grundvelli niðurstöðu vinnuhóps menntaráðs frá 2007 um málefni barna af erlendum uppruna í grunnskólum Reykjavíkur. Helstu verkefni starfshópsins verði; að vinna að stefnumótun leikskóla og grunnskóla í málefnum barna/nemenda með annað móðurmál en íslensku; að meta stöðu málaflokksins með tilliti til fyrri stefnumótunar og setja fram tillögur um þróun og úrræði á grundvelli þess; að vinna í samráði við ÍTR að umbótaáætlun í framhaldi af niðurstöðum fjölmenningarþings; að endurskoða handbók um móttöku nemenda með annað móðurmál en íslensku í grunnskólum Reykjavíkurborgar; að skoða sérstaklega stöðu nemenda af erlendum uppruna, námsárangur og líðan, til að sporna gegn brotthvarfi síðar meir á skólagöngunni. Starfshópurinn skili árlega stöðuskýrslu til menntaráðs.

Greinargerð fylgir.

Fríða B. Jónsdóttir, verkefnastjóri vegna barna af erlendum uppruna á Leikskólasviði og Nanna K. Christiansen, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu Menntasviðs svöruðu fyrirspurnum.

2. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi menntaráðs 11. maí sl.:

Menntaráð samþykkir að boðið verði upp á skýrar upplýsingar á vef Reykjavíkurborgar og vef Leikskólasviðs um hvernig hægt sé að gerast dagforeldri. Því miður er of mikið um að upplýsingum sé ábótavant og dæmi um að áhugasamir gefist upp á að leita leiða til að gerast dagforeldri vegna þessa. Það er bagalegt nú þegar verulega skortir á að foreldrar fái umönnunarþjónustu fyrir yngstu börnin sín að þetta sé óljóst. Útbúinn verði sérstakur upplýsingapakki með upplýsingum um stefnu borgarinnar í málefnum dagforeldra, fjárhagsramma, fjárhagslegan stuðning við hvert barn, menntakröfur og lög er varða þjónustu dagforeldra. Að auki verði listaðir upp þeir kostir og leiguverð á því húsnæði sem er í boði hjá Reykjavíkurborg, t.d. hús við gæsluvelli, stofur við grunnskóla og annað húsnæði. Gefin eru upp símanúmer og netföng hjá þeim tengiliðum borgarinnar sem geta aðstoðað áhugasama um nánari upplýsingar og þannig verði hægt að leiða fólk áfram og hvetja til að hefja störf sem dagforeldri.

Samþykkt.

Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 23. maí sl., varðandi upplýsingar fyrir þá sem vilja gerast dagforeldrar. Sigrún Björnsdóttir, upplýsingafulltrúi sviðsins kynnti upplýsingar fyrir dagforeldra á vef Leikskólasviðs.

3. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra, dags. 18. maí sl., varðandi staðfestingu skóladagatala grunnskóla skólaárið 2011-2012.
Samþykkt.

Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 23. maí sl., um samræmingu skipulagsdaga í leik- og grunnskólum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntasvið og Leikskólasvið hanni mót af reykvísku skóladagatali fyrir leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili. Mótið sé dagatal sem merkir inn helstu frídaga, sérstaka daga sem haldið er upp á í Reykjavík (t.d. uppákomur í menningarlífi borgarinnar, sérstakir dagar hjá bókasöfnum og fleira) og árvissa viðburði. Samræmdir starfsdagar og vetrarfrídagar í hverfum séu merktir inn. Skólarnir sjálfir geta svo bætt við sínum einkennum og viðburðum auk starfsáætlana og mótið felli úr gildi dagatal merkt Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Samþykkt.

- Kl. 14:12 vék Auður Árný Stefánsdóttir af fundi.

4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 20. maí sl., um breytingu á reglum um leikskólaþjónustu varðandi breytta innheimtu leikskólagjalda vegna sumarleyfa barna. Jafnframt lögð fram tillaga að þeirri breytingu.
Samþykkt.

5. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 24. maí sl., með tillögu valnefndar að nýr sérskóli fái nafnið Klettaskóli.
Samþykkt.

Eva Einarsdóttir vék af fundi við meðferð málsins.

6. Lögð fram skýrslan Viðhorf foreldra til leikskólastarfs í Reykjavík, dags. í maí 2011. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu Leikskólasviðs og Menntasviðs kynnti niðurstöðurnar og svaraði fyrirspurnum.

Bókun menntaráðs:

Menntaráð fagnar niðurstöðum úr Viðhorfskönnun foreldra til leikskólastarfs í Reykjavík. Það er mjög ánægjulegt að sjá hve mikil og stöðug ánægja er með starf leikskólanna og fer vaxandi í mörgum þáttum, t.a.m. fjölgar þeim sem eru mjög ánægðir með leikskóla barnsins síns, ánægja með dagleg samskipti við starfsfólk hækkar á milli ára og viðmót deildarstjóra í samskiptum við foreldra og börn. Þessar niðurstöður staðfesta frábært leikskólastarf í Reykjavík og metnað starfsfólks. Menntaráð telur að þrátt fyrir góða niðurstöðu úr viðhorfskönnuninni megi þó alltaf draga lærdóm til gagns og bendir sérstaklega á niðurstöður úr liðnum „kynning á nýju starfsfólki í leikskólanum“ sem bendir til þess hvar megi bæta úr.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar fagnar því að niðurstaða viðhorfskönnunar sýnir að foreldrar eru ánægðir með leikskóla borgarinnar. Þó skal bent á að heppilegra væri, út frá sjónarmiðum um réttmæti og áreiðanleika niðurstaðna, að spurningar í könnuninni yrðu settar fram með hlutlausum hætti í stað þess að hafa þær í formi leiðandi og jákvæðra fullyrðinga eins og nú var gert.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:

Viðhorfskönnun foreldra leikskólabarna var nú framkvæmd í þriðja sinn af tölfræði- og rannsóknaþjónustu Leikskólasviðs og Menntasviðs. Að þessu sinni var ákveðið að breyta orðalagi allra spurninga þannig að um fullyrðingar væri að ræða sem foreldrar gátu sem fyrr svarað á 5 punkta kvarða, frá mjög sammála yfir í mjög ósammála. Ástæður breytinganna voru nokkrar, þær helstu voru tvær: samræmi við orðalag og framsetningu sem notað er í vinnustaðagreiningum sviðsins sem Capacent og nú mannauðsskrifstofa Ráðhúss nota, (eins eru spurningar til nemenda í Skólapúlsinum byggðar upp sem fullyrðingar) og tímasparnaður í úrvinnslu niðurstaðna svo allir leikskólar gætu fengið niðurstöður fyrir sig fyrir lok skólaársins. Viðhorfskannanir geta verið af ýmsum toga en mjög algengt er að ákveðnum staðreyndum/ástandi/líðan er lýst á formi fullyrðinga sem svarendur taka afstöðu til. Slíkt form kannana getur vart talist leiðandi þar sem kvarðinn sem spurningum er svarað á er viðurkenndur 5 punkta kvarði sem hefur bæði jákvæða og neikvæða stefnu; svarendur geta valið að samþykkja eða hafna fullyrðingunum. Þess utan gátu svarendur valið að svara ekki einstökum spurningum eða listanum í heild. Þetta breytta form á framsetningu spurninga hafði lítil sem engin áhrif á niðurstöður. Allar lykilmælitölur voru stöðugar og helstu breytingar voru þær að svarendur færðu sig úr því að vera frekar ánægðir yfir í mjög ánægðir sem á engan hátt má rekja til þess hvernig könnunin var skipulögð. Fullyrðingar um að reynt hafi verið að beina svarendum í að velja frekar jákvæð svör eiga ekki við rök að styðjast, t.d. má nefna að hópur þeirra sem var óánægður stækkaði nokkuð milli ára.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 23. maí sl., um fjölgun leikskólaplássa í Reykjavík – staða mála. Ragnhildur E. Bjarnadóttir, sviðsstjóri og Óli Jón Hertervig, deildarstjóri eignaumsýsludeildar Framkvæmda- og eignasviðs kynntu málið og svöruðu fyrirspurnum.

8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 23. maí sl., um fjölgun dagforeldra í Reykjavík – staða mála. Ragnhildur E. Bjarnadóttir, sviðsstjóri og Óli Jón Hertervig, deildarstjóri eignaumsýsludeildar Framkvæmda- og eignasviðs gerðu grein fyrir málinu og svöruðu fyrirspurnum.

9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 23. maí sl., um framvindu innleiðingar áætlana leik- og grunnskóla um eflingu foreldrasamstarfs. Jafnframt lögð fram áætlun Leikskólasviðs um innleiðingu Handbókar um samstarf fjölskyldu og leikskóla og minnisblað Menntasviðs um námskeið skólastjóra – Aukið og markvisst samstarf skóla og skólaforeldra 2011. Nanna K. Christiansen, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu Menntasviðs og Kolbrún Vigfúsdóttir þróunarfulltrúi á leikskólaskrifstofu Leikskólasviðs gerðu grein fyrir málinu og svöruðu fyrirspurnum.

Bókun menntaráðs:

Menntaráð fagnar og þakkar þá góðu vinnu sem unnin hefur verið í innleiðingu áætlana leik- og grunnskóla um eflingu foreldrasamstarfs. Það ríkir síaukin meðvitund á mikilvægi samstarfs heimilis og skóla. Það er mikilvægt að skólar borgarinnar vinni eftir samræmdum áætlunum og að allt kapp verði lagt á að samstarfið verði sem víðtækast og nái til allra foreldra.

10. Lagður fram bæklingur á 7 tungumálum, Velkomin til samstarfs um leikskólabarnið, útg. 2011. Fríða B. Jónsdóttir, verkefnastjóri vegna barna af erlendum uppruna á Leikskólasviði, kynnti bæklinginn.

11. Lögð fram tillaga borgarstjóra um stofnun skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 24. maí sl. Jafnframt lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. maí 2011, með beiðni stjórnkerfisnefndar um umsögn menntaráðs um tillöguna. Dagur B. Eggertsson, formaður stjórnkerfisnefndar og Regína Ásvaldsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra kynntu tillöguna og svöruðu fyrirspurnum.

- Kl. 16:30 vék Ingibjörg Jósefsdóttir af fundi.

12. Lögð fram ársuppgjör Leikskólasviðs og Menntasviðs fyrir árið 2010. Kristín Egilsdóttir, fjármálastjóri Leikskólasviðs og Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:

Menntaráð leggur til við borgarráð að fallið verði frá sameiningum leik- og grunnskóla og uppsagnir stjórnenda verði dregnar til baka.

Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 3.

13. Lagt fram Samkomulag mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms sem var undirritað 13. maí sl. Formaður menntaráðs og Laufey Ólafsdóttir, forstöðumaður tónlistarmála á Menntasviði gerðu grein fyrir málinu og svöruðu fyrirspurnum.

Bókun menntaráðs:

Menntaráð fagnar þeim gríðargóðu tíðindum sem samkomulag um eflingu tónlistarnáms felur í sér. Lengi hefur verið beðið eftir því að ríkið og samband íslenskra sveitarfélaga nái saman um framtíðarfyrirkomulag framhaldsnáms í tónlist og miðnáms og framhaldsnáms í söng. Nú er það í höfn og felur í sér jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms sem tryggir jafnrétti til náms.

14. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 23. maí sl., við fyrirspurn Barnanna okkar frá fundi menntaráðs 4. maí sl., varðandi styrkbeiðni samtakanna.

15. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 23. maí sl., um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, tvö mál.

16. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 24 maí sl., um viðbragðsáætlun, verklag og aðgerðir vegna loftmengunar af völdum öskufalls.

Fundi slitið kl. 17:17

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir