Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2011, 18. apríl, var haldinn 144. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 8:05. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ingunn Gísladóttir, staðgengill sviðsstjóra Leikskólasviðs, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram tillaga og greinargerð borgarstjóra til borgarráðs, dags. 14. apríl sl., um sameiningu skóla- og frístundamála.
- Kl. 8:54 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.
- Kl. 8:58 viku Eva Einarsdóttir og Valgerður Janusdóttir af fundi.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Þar sem fyrirliggjandi tillaga hefur hvorki hlotið eðlilega umfjöllun hjá viðkomandi fagráði né í stjórnkerfisnefnd, óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eftir því að afgreiðslu málsins verði frestað þar til sú umræða hefur farið fram og álit stjórnkerfisnefndar liggur fyrir. Að auki verði leitað álits hjá SAMFOK, Börnunum okkar, félagi foreldra í leikskólum, Kennarasambandi Íslands, Félagi starfsfólks í frítímaþjónustu, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, forstöðumönnum frístunda-miðstöðva ÍTR, Reykjavíkurráði ungmenna, skólastjórum leikskóla og skólastjórum grunnskóla.
Frestað.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Engin umræða eða fagleg vinna hefur átt sér stað í fagráðinu né stjórnkerfisnefnd um þessar breytingar en engar upplýsingar eða samtöl liggja fyrir. Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar ætlaði að keyra þessar breytingar í gegn án nokkurrar umræðu í fagráðunum. Ekkert var minnst á þessar breytingar á fundi menntaráðs og ÍTR á miðvikudag, þrátt fyrir að þær hafi þá verið ákveðnar og sviðsstjórar upplýstir um fyrirætlanir meirihlutans. Áfram er gengið harkalegast að skólakerfinu og uppsagnir yfirmanna Leikskóla- og Menntasviðs setja viðkvæmar sameiningar í enn meira uppnám en áður og nóg var nú samt. Á þessum tímapunkti þurfa skólar sem standa í sameiningu á allri þeirri stoðþjónustu sem til staðar er að halda. Fundurinn nú, sem er aukafundur að ósk minnihluta menntaráðs, upplýsti menntaráðsfulltrúa lítið sem ekkert en ljóst er að meirihlutinn heldur áfram að stunda flaustursleg og óvönduð vinnubrögð sem á endanum gera ekkert nema að skaða og trufla þau störf sem starfsmenn sviðsins sinna. Í 2. gr. samþykktar menntaráðs segir m.a. menntaráð mótar stefnu í menntamálum barna í grunnskólum Reykjavíkurborgar og tekur ákvarðanir og gerir tillögur til borgarráðs um verksvið þess en menntaráð hefur ekkert unnið með þessar breytingar. Á fundinum fengust engar skriflegar upplýsingar né voru kynnt drög að nýrri samþykkt sameinaðs ráðs þrátt fyrir að meirihlutinn ætli að afgreiða málið í borgarstjórn á morgun. Fyrirliggjandi tillögur meirihlutans um sameiningar skóla í Reykjavík hafa liðið fyrir vond og ólýðræðisleg vinnubrögð, auk þess sem ekkert liggur fyrir um nákvæmlega hvaða hagræðingu þær skila. Til að mótmæla þessu söfnuðust um 12.000 áskoranir, auk þess sem rúmlega 90#PR þeirra umsagna sem bárust voru neikvæðar. Þessi miklu og afdráttarlausu viðbrögð eru ekki síst því að kenna hversu illa var að verkinu staðið, hversu lítið samráðið var og hve takmarkaður faglegur grundvöllur var. Farið er af stað án nokkurrar stefnu eða framtíðarsýnar. Allt þetta hefur kallað á átök í stað sáttar. Það sama er að segja um þær stjórnkerfisbreytingar sem nú hafa verið kynntar á lokametrum þessarar vinnu. Um þær hefur engin umræða verið, hvorki á vettvangi fagráða, borgarráðs né stjórnkerfisnefndar auk þess sem engin greining liggur fyrir um þann ávinning sem þessar breytingar skila. Um það er ekki deilt að kerfisbreytingar eru nauðsynlegar og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað bent á að á sama tíma og meirihlutinn sker niður í grunnþjónustu við borgarbúa, hækkar skatta og virðist fyrirmunað að ná nokkurri sátt um mikilvæga þætti í starfsemi borgarinnar, sé ekki gengið af festu og yfirsýn til þess að lækka kostnað við kerfið sjálft. Í ráðhúsinu virðist sá vilji hins vegar ekki til staðar og sú staðreynd að stjórnkerfisnefnd, sem ábyrgð ber á tillögum og innleiðingu slíkra breytinga hefur ekki verið boðuð til fundar í tvo mánuði lýsir þessum vinnubrögðum vel. Þessar tillögur nú eru því framlagðar án nokkurrar heildarhugsunar um það hvernig spara eigi og hvers vegna það er t.d. talið farsælt að sameina alla þjónustu vegna menntunar og frístundar barna og ungmenna í eitt svið, á meðan svið sem tengjast framkvæmdum, skipulagi og samgöngum og fleiru starfa enn samkvæmt óbreyttu skipulagi. Þessi forgangsröðun meirihlutans vekur spurningar og er vond, en því miður verst fyrir borgarbúa. Aðför að skólakerfi borgarinnar heldur áfram.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
Eftirfarandi spurningar eru lagðar fram og óskað er eftir svörum við þeim fyrir lokaafgreiðslu málsins í borgarstjórn 19. apríl:
1) Óskað er eftir skriflegri greinargerð meirihluta menntaráðs um faglegar forsendur og ávinning af breytingu.
2) Skriflegum umsögnum félaga leikskólakennara, leikskólastjóra, grunnskóla-kennara og grunnskólastjóra, forstöðumönnum frístundaheimila og tómstunda-heimila og starfsmönnum þeirra.
3) Við hverja og hvaða fagaðila var haft samráð við ákvarðanir á þessum breytingum?
4) Við breytingar á sviðunum 2005 var talið mikilvægt af ólíkum aðilum að aðstoðarsviðsstjóri yrði ráðinn vegna stærðar og umfangs sviðsins auk þess sem leikskólaþjónustuþáttur sviðsins fékk þannig aukið vægi. Hvernig verður stjórnskipulagi háttað á nýju sviði sem 5000 starfsmenn starfa hjá?
5) Hvernig tryggja á að sá stutti tími sem framundan er til undirbúnings viðkvæmra sameininga leikskóla og grunnskóla og grunnskóla og frítstundaheimila verði ekki í uppnámi vegna stjórnkerfisbreytinga?
6) Hvaða aðrar stjórnkerfisbreytingar, t.d. á hörðu sviðunum séu í uppsiglingu?
7) Hvenær og hvar ákvörðun var tekin um þessar breytingar á Mennta-, Leikskóla-, og Íþrótta- og tómstundasviði? Óskað er eftir nákvæmum erindisfærslum um málið.
8) Umsögn mannauðstjóra borgarinnar um málið og hans aðkomu að því í aðdraganda málsins.
9) Skriflegri lýsingu frá borgarstjóra hvernig haga eigi sameiningu sviðanna.
10) Óskað er eftir nákvæmri útfærslu á kostnaði þess að sameina auk áætlaðrar hagræðingar.
11) Hvaða faglegu sjónarmið og rök liggja að baki tillögunni?
12) Hver eru viðhorf starfsmanna leikskóla og grunnskóla og starfsmanna sviðanna til breytinganna? Óskað er eftir fundargerðum af þeim fundum með starfsfólki sem þessar breytingar voru ræddar og kynntar.
13) Hve margir starfsmenn Leikskólasviðs, Íþrótta- og tómstundasviðs munu flytjast yfir til Menntasviðs?
14) Munu einhverjir af núverandi starfsmönnum þessara þriggja sviða ekki fá sambærileg störf og þeir gegna í dag fyrir þessar stjórnkerfisbreytingar? Hvaða störf breytast?
15) Hvenær er áætlað að sameinað svið sé að fullu tilbúið og breytingum lokið?
16) Hvernig verður nægjanleg lýðræðisleg aðkoma tryggð að fyrirhuguðu ráði sem stýrir um 30 af 50 milljarða útgjöldum borgarinnar?
17) Vísað er til viðtala við ráðgjafa vegna þessara breytinga. Hvar liggur sú vinna og hvar hefur hún verið kynnt? Óskað er eftir niðurstöðu þessarar vinnu.
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvaða starfsstöðvar Reykjavíkurborgar hafa verið sameinaðar frá upphafi þessa kjörtímabils og hvaða starfsstöðvar stendur til að sameina á þessu kjörtímabili?
Hvaða svið Reykjavíkurborgar stendur til að sameina á þessu kjörtímabili?
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík lýsir yfir miklum vonbrigðum og harmar þá leið sem notuð er þegar tillaga borgarstjóra um sameiningar á Menntasviði, Leiksskólasviði og hluta af ÍTR er sett fram. Tillaga borgarstjóra er sett fram án umræðu í menntaráði og ekki er gefinn tími til að ræða hana þar. Meirihlutinn vinnur ekki eftir verklagsreglum menntaráðs og er það óásættanlegt.
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík lagði fram svohljóðandi tillögu:
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík leggur til að hætt verði við allar framkomnar hugmyndir um sameiningar og samrekstur fyrir utan þær sem fullt samkomulag er um í viðkomandi skólasamfélagi. Nefnd um stjórnkerfisbreytingar ljúki sinni vinnu og í framhaldi af því verði skýr stefna mótuð í málefnum barna í Reykjavík og ákvarðarnir teknar.
Frestað.
Menntaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokks óskaði bókað:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill færa það til bókar að hann þarf að víkja af fundi til að sitja fund hjá ÍTR um sama efni. Er þetta til marks um þau flausturslegu vinnubrögð meirihlutans og þann hraða sem einkennir málið.
- Kl. 9:13 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra lýsir yfir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum sameiningum á yfirstjórn Leikskóla-, Mennta- og frístundamála ÍTR á sama tíma og skólar í borginni þurfa á sterku baklandi til að takast á við fyrirhugaðar sameiningar sem eru framundan í skólakerfinu. Það er hætta á að áratuga þekkingu og reynslu sé kastað á glæ með fækkun starfsmanna á þessum sviðum.
Áheyrnarfulltrúar Barnanna okkar og SAMFOK óskuðu bókað:
Börnin okkar og SAMFOK harma forgangsröðun meirihlutans í borginni og hvernig málefni barna í borginni eru fótum troðin. Kallað hefur verið eftir stjórnkerfisbreytingum og fyrsta stjórnkerfisbreytingin sem kynnt er á sér stað á þeim sviðum sem mikill niðurskurður er fyrirhugaður. Á sama tíma og fyrirhugaðar eru gríðarlegar breytingar á starfsemi fjölmargra leik- og grunnskóla er bakland þeirra sett í algjört uppnám með tillögu um sameiningu Leikskólasviðs, Menntasviðs og tómstundamála ÍTR. Ekki á aðeins að segja upp fjölda stjórnenda í leik- og grunnskólum heldur á einnig að segja upp sviðstjórum Leikskólasviðs og Menntasviðs. Á sama tíma og störf þessara starfsmanna og sviða eru í uppnámi eiga forsvarsmenn þeirra að styðja við stjórnendur leik- og grunnskóla í viðkvæmum og viðamiklum breytingum. Við það eru gerðar alvarlegar athugasemdir.
Einnig eru gerðar athugasemdir við að ekki hafi borist svör við tillögu allra áheyrnarfulltrúa í menntaráði frá síðasta menntaráðsfundi.
Menntaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Nú ætlar meirihlutinn enn og aftur að æða af stað án þess að spyrja hvorki kóng né prest. Virðist vera að hann átti sig ekki á því að hann er hluti af fjölskipuðu stjórnvaldi. Virðir hann að vettugi góðar ábendingar og hlustar ekki á varnaðarorð minnihlutans, áheyrnarfulltrúa eða raddir skólasamfélagsins. Allt þetta flakk og hringlandaháttur meirihlutans er til þess að draga úr fagmennsku starfsfólks og hafa veruleg áhrif á dagleg störf þess og starfsanda. Sést þetta t.d. best á stöðu og þróun fagstéttar frístundafræðinga. M.a. er hugmyndafræðileg samvinna skóla og frístundaheimila mjög lítil og mætti efla hana með öðrum hætti en sameiningu sviða. Skýr mörk verða hins vegar að vera á formlegri menntun og frístund barna. Meirihlutinn toppar sjálfan sig í vondum vinnubrögðum, þar sem tillagan um sameiningu sviða og tilfærslu málaflokks tómstunda og frístundar yfir á nýtt svið Skóla og frístundar, hefur hvergi verið rædd í stjórnkerfinu. Ekki stóð til að kynna hana í fagráðunum eða þeim sem málið varðar og fá umræður um hana áður en hún kæmi til framkvæmdar. Hér er á ferðinni eitt örlítið skref í stjórnkerfisbreytingum, alveg án þess að rætt hafi verið hvað verður um önnur svið eða starfsemi borgarinnar. Það er óábyrgt. Það er líka óábyrgt að taka þetta eina skref og leggja enn meira á þær stéttir sem hafa verið og munu verða undirlagðar á næstunni vegna sameiningatillagna meirihlutans. Ekki hefur meirihlutinn gefið út hver næstu skref eru og ekki getur hann svarað spurningum um hvert hann vill stefna í skólamálum eða hvernig hann ætlar að bregðast við umrótinu og óvissunni sem hefur skapast í menntakerfi borgarinnar. Fulltrúi Vinstri grænna er miður sín og á erfitt með að skilja aðgerðir meirihlutans. Er orðið ljóst að börn og ungmenni eru ekki sett í forgang hjá honum. Verk hans bera þess glögglega merki.
- Kl. 9:26 vék Þórunn Gyða Björnsdóttir af fundi.
Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Lengi hefur verið í farvatninu að tengja betur saman stefnumótun skóla- og frístundamála í Reykjavík og stjórnkerfisbreytingar með fækkun sviða er eðlileg þróun á þjónustu við borgarbúa. Nú er samþykkt að hefja undirbúning að sameiningu Leikskólasviðs og Menntasviðs sem og tómstundahluta ÍTR. Það er forsenda samfellu í þjónustu við börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Menntaráð hefur mótað stefnu og verkefnaáætlun til næstu fjögurra ára þar sem kveðið er á um samþættan skóla- og frístundadag barna og mikilvægi þess að líta á allt umhverfi barna og ungmenna sem eina heild – það er börnunum í borginni fyrir bestu. Síðustu mánuði hafa stjórnkerfisbreytingar verið í undirbúningi og sameining skóla- og frístundamála hefur verið rædd í stjórnkerfisnefnd þar sem fulltrúar allra flokka eiga sæti. Sviðsstjórar og skrifstofustjórar hafa komið að þessari vinnu og fyrstu niðurstöður greininga bentu til þess að samhljómur væri um sameiningu þeirra sviða sem koma að lærdóms- og uppeldisumhverfi barna. Þær niðurstöður voru kynntar á sameiginlegum fundi borgarráðs og stjórnkerfisnefndar fyrir margt löngu. Forgangsmál borgarstjórnar er að standa vörð um skóla- og frístundastarf í borginni og að ólíkar fagstéttir komi saman að menntun og þjónustu við börn og unglinga í Reykjavík.
Fundi slitið kl. 9:40
Oddný Sturludóttir
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson