Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2011, 2. september, var haldinn 154. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 9.04. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Ingibjörg Jósefsdóttir, félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík og Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri leikskólaskrifstofu Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Auður Jónsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram að nýju bréf stjórnkerfisnefndar, dags. 18. ágúst sl., þar sem óskað er eftir umsögn menntaráðs við drög að samþykktum fyrir skóla- og frístundaráð og íþrótta- og tómstundaráð. Lögð fram drög að samþykkt fyrir íþrótta- og tómstundaráð, dags. 29. júní sl. og drög að samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð, dags. 31. ágúst sl.
Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður kynnti málið og svaraði fyrirspurnum.

- Kl. 9.27 tók Líf Magneudóttir sæti á fundinum.

Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 31. ágúst sl., þar sem gerð er tillaga að umsögnum menntaráðs um drög að samþykktum fyrir skóla- og frístundaráð og íþrótta- og tómstundaráð.
Samþykkt með 4 atkvæðum með svohljóðandi viðbót:
Vakin er athygli á því að ósamræmi er á milli samþykkta skóla- og frístundaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs þar sem að í síðari samþykktinni er ekki tiltekið í fyrsta tölulið að ráðið geri tillögu til borgarráðs um stefnu Reykjavíkurborgar í íþrótta- og tómstundamálum líkt og fram kemur í þeirri fyrri varðandi stefnumótun í skóla- og frístundastarfi.

Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá og vísa í fyrri bókanir sínar vegna málsins. Illa er staðið að málinu af hálfu meirihluta borgarstjórnar og vinnubrögðin afar ámælisverð, ekki síst í ljósi þess um hve umfangsmiklar stjórnsýslubreytingar er að ræða. Þrátt fyrir að málið sé komið svo langt að drög að samþykktum vegna nýs skóla- og frístundaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs liggja fyrir, vantar enn mikið upp á að stjórnendur, starfsmenn og meðlimir viðkomandi ráða hafi heildaryfirsýn yfir umræddar breytingar og hvernig kerfinu er ætlað að virka að þeim loknum. Slík lausatök eru óviðunandi.

2. Rætt um fundartíma menntaráðs. Ákveðið að funda á hálfs mánaðar fresti, annan og fjórða miðvikudag kl. 10:00.

- Kl. 10.05 vék Anna Helga Sigfúsdóttir af fundi.

3. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um frágang skólalóðar Norðlingaskóla og verkáætlun vegna byggingarframkvæmda við skólann og hvenær til stendur að flytja burt skála, sem enn standa á lóðinni. Óskir hafa borist frá íbúum um að hreinsun skólalóðarinnar verði hraðað en kvartað hefur verið yfir því að timbur, hellur, jarðvinnuefni og annað byggingarefni, sem ekki ætti að vera á leiksvæði barna, sé á víð og dreif um skólalóðina, og valdi slysahættu.

Fundi slitið kl. 10.15

Oddný Sturludóttir

Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir