No translated content text
Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2011, 24. ágúst, var haldinn 153. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Kristín Erna Arnardóttir, Líf Magneudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík og Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Auður Jónsdóttir, Guðrún Sigtyggsdóttir, Kolbrún Vigfúsdóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram drög að skýrslu Leikskólasviðs, dags. ágúst 2011, Endurskoðun úthlutunar sérkennslu. Elísabet Pálmadóttir, verkefnastjóri sérkennslu á Leikskólasviði og Helgi Viborg, deildarstjóri sérfræðideildar Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, kynntu skýrsluna og svöruðu fyrirspurnum.
2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 22. ágúst sl., um fjárhagslegt eftirlit með framlagi til dagforeldra. Jafnframt lagt fram álit Persónuverndar, dags. 17. ág. 2011, í máli nr. 2011/504 sem varðar heimild Reykjavíkurborgar til að óska eftir fjárhagsupplýsingum um dagforeldra.
- Kl. 13:34 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi og Kjartan Magnússon tók þar sæti.
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 29. júlí sl., varðandi beiðni stjórnar foreldrafélags leikskólans Mýri um að Reykjavíkurborg taki yfir rekstur hans. Í framhaldi af viðræðum við forsvarsmenn leikskólans er gerð tillaga um að Reykjavíkurborg taki yfir reksturinn frá 1. ágúst. 2011.
Samþykkt.
4. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 22. ágúst sl., þar sem gerð er tillaga um breytingu á viðmiðum vegna ráðninga skólastjóra við grunnskóla í Reykjavík.
Samþykkt.
5. Lagt fram bréf stjórnkerfisnefndar, dags. 18. ágúst sl., þar sem óskað er eftir umsögn menntaráðs við drög að samþykktum fyrir skóla- og frístundaráð og íþrótta- og tómstundaráð. Lögð fram drög að samþykkt fyrir skóla- og frístundaráð, dags. 23. ágúst sl. og drög að samþykkt fyrir íþrótta- og tómstundaráð, dags. 29. júní sl. Jafnframt lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 23. ágúst sl., þar sem gerð er tillaga að umsögnum menntaráðs um drög að samþykktum fyrir skóla- og frístundaráð og íþrótta- og tómstundaráð.
Frestað.
6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga menntaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins, sem frestað var á fundi ráðsins 22. júní sl.:
Lagt er til að settur verði á fót starfshópur tveggja sviða, Menntasviðs og Menningar- og ferðamálasviðs. Hlutverk starfshópsins verði að finna og útfæra tækifæri til samstarfs og/eða samrekstrar skólabókasafna og Borgarbókasafns Reykjavíkur með það að markmiði að leita aukinnar hagræðingar og bættrar þjónustu við skólanemendur og aðra borgarbúa.
Sviðsstjórar beggja sviða verði ábyrgðarmenn hópsins en Borgarbókasafn Reykjavíkur og Menntasvið tilnefni tvo fulltrúa hvor. Hjálagt eru drög að erindisbréfi.
Samþykkt.
Jafnframt lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjóra, dags. 23. júní sl., þar sem kynnt er samþykkt borgarráðs á tillögu varðandi möguleika á hagræðingu í bókasafnsrekstri borgarinnar. Tillögunni var vísað til starfshóps Menntasviðs og Menningar- og ferðamálasviðs.
- Kl. 14:46 vék Bryndís Jónsdóttir af fundi.
7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga menntaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi menntaráðs 22. júní sl.:
Lagt er til að heildarmat grunnskóla sé framkvæmt af þriðja aðila, óháðum Menntasviði.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
8. Lögð fram skýrslan Lesskimun 2011 - Niðurstöður úr lesskimun í 2. bekk í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2011. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu og Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu Mennta- og Leikskólasviðs kynntu niðurstöðurnar og svöruðu fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar besta árangri sem reykvískir nemendur í 2. bekk hafa náð í lesskimun frá upphafi mælinga. Markvisst átak í lestrarkennslu, t.a.m. í verkefni um ,,Byrjendalæsi“, skilar sér í því að sífellt fleiri nemendur geta lesið sér til gagns við lok 2. bekkjar. Skimunin er einnig mikilvægt tæki til að móta viðmið um hvaða nemendur þurfa stuðning í lestri og er því mikilvægt umbótatæki fyrir grunnskóla borgarinnar. Brýnt er að foreldrar séu upplýstir um niðurstöður skimunarinnar.
- Kl. 15:57 vék Oddný Sturludóttir af fundi og Kristín Soffía Jónsdóttir tók þar sæti.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð Reykjavíkur felur skólastjórum að sjá til þess að niðurstöður lesskimunarprófs verði kynntar fyrir nemendum og foreldrum og stuðla þannig að því að sem gleggstar upplýsingar um stöðu náms séu aðgengilegar á hverjum tíma. Rétt er að foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimunarprófinu. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimunarprófi, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.
Frestað.
9. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 22. ágúst 2011, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, tvö mál.
10. Lagt fram að nýju bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 12. maí 2011, til borgarstjórans í Reykjavík varðandi niðurstöður úttektar á leikskólanum Múlaborg og skýrsla ATTENTUS, með niðurstöðum úttektarinnar en umræðu um málið var frestað á fundi ráðsins 22. júní sl.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar jákvæðri úttekt mennta- og menningarmálaráðuneytisins á Múlaborg, sérhæfðum leikskóla í Háaleitishverfi. Sérstaklega er fagnaðarefni að sú tilraun að Múlaborg sinni sérstöku ráðgjafarhlutverki gefi svona góða raun. Menntaráð hvetur ráðuneyti menntamála til að halda áfram að styðja við þetta ráðgjafarhlutverk svo að önnur sveitarfélög og erlendir gestir fái áfram notið þekkingar skólans.
- Kl. 16:03 vék Rósa Steingrímsdóttir af fundi.
11. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra, dags. 10. ágúst sl., um heildarmat á skólastarfi skólaárið 2011-2012, en þá mun heildarmat fara fram í Hamraskóla, unglingadeild Húsaskóla, Ingunnarskóla, Laugalækjarskóla, Laugarnesskóla og Ölduselsskóla. Jafnframt lagt fram minnisblað fræðslustjóra dags. 22. ágúst sl., um ytra mat á grunnskólum.
12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 22. ágúst sl., um stöðu daggæslumála í Reykjavík og þróun framlags Reykjavíkurborgar til dagforeldra og í samanburðarsveitarfélögum.
13. Lagt fram minnisblað Soffíu Pálsdóttur, skrifstofustjóra tómstundamála hjá Íþrótta- og tómstundasviði, dags. 24. ágúst 2011, um rekstur frístundaheimila við Ártúnsskóla og Norðlingaskóla.
14. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Óskað er eftir því að fjármál Menntasviðs og Leikskólasviðs verði rædd á næsta fundi menntaráðs. Að undanförnu hafa fulltrúar í menntaráði fengið upplýsingar um fjármál Menntasviðs, sem eðlilegt væri að rædd væru án tafar á formlegum fundi menntaráðs og er því með ólíkindum að formaður skuli ekki hafa sett fjármál á dagskrá þessa fundar. Rétt er að minna á að menntaráð hefur ríkar eftirlitsskyldur og ber að fylgjast grannt með fjármálum Menntasviðs og Leikskólasviðs á hverjum tíma en ekki skoða niðurstöður eftir á. Vandséð er hvernig ráðið á að sinna því hlutverki sínu þegar mikilvægar upplýsingar um fjármál eru ekki lagðar fram á formlegum fundum. Er þetta aðeins eitt margra dæma um óstjórn meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins í stjórnsýslu og fjármálum borgarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna átelja slík vinnubrögð harðlega.
Frestað.
15. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks óska eftir minnisblaði frá Menntasviði með viðbrögðum við hugmyndum sem borgarstjóri reifaði í útvarpsviðtali í vikunni. Sérstaklega er óskað eftir áliti sviðsins á raunhæfni hugmynda um heimakennslu og afnáms skólaskyldu og hvaða kosti og galla slíkar breytingar hefðu í för með sér. Þá er óskað eftir áliti Menntasviðs á fullyrðingum borgarstjóra um að skólakerfið sé ekki nægilega skapandi og tillögum að úrbótum ef það reynist rétt. Ennfremur er óskað eftir upplýsingum um það sem betur mætti fara í fjárveitingum og pólitískri stefnumörkun til að hægt sé að búa grunnskólum borgarinnar skilyrði til skapandi starfs í samræmi við það sem borgarstjóri virðist gera kröfu um.
16. Menntaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi Vinstri grænna óskar eftir ítarlegi kynningu á málefnum einkarekinna leik- og grunnskóla í Reykjavík þar sem farið verður yfir:
• Samninga sem eru í gildi á milli Reykjavíkurborgar og einkarekinna leik- og grunnskóla.
• Bein og óbein fjárútlát borgarinnar undanfarin fimm ár til einkarekinna leik- og grunnskóla, bæði þau sem eru á grundvelli samninga og önnur.
• Forsendur að baki greiðslum borgarinnar til einkarekinna leik- og grunnskóla, m.a. hvað liggi að baki þeim nemendaígildum sem greidd eru til þeirra.
• Þróun nemendafjölda í einkareknum leik- og grunnskólum undanfarin fimm ár.
• Hvaða lög og reglugerðir ná utan um starfsemi einkarekinna leik- og grunnskóla og hvort réttindi þeirra og skyldur séu að einhverju leyti frábrugðnar því sem gildir um opinbera skóla.
• Hvernig eftirliti borgarinnar á ráðstöfun þeirra fjármuna sem hún greiðir til einkarekinna leik- og grunnskóla er háttað og hvaða heimildir borgin hefur til slíks eftirlits.
• Hvaða forsendur liggja að baki þeim upphæðum sem greiddar eru í skólagjöld í einkareknum leik- og grunnskólum sem borgin veitir fé til.
• Hvaða forsendur liggja að baki þeirri upphæð sem einkareknir leik- og grunnskólar taka í skólagjöld og hvað nemendur í einkareknum skólum fái fyrir þá upphæð umfram þá nemendur sem sækja borgarrekna skóla.
Fundi slitið kl. 16:27
Óttarr Ólafur Proppé
Kjartan Magnússon Kristín Erna Arnardóttir Kristín Soffía Jónsdóttir Líf Magneudóttir Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir