Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2011, 11. maí, var haldinn 146. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:42. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Valdimarsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík og Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Hildur Skarphéðinsdóttir, staðgengill sviðsstjóra Leikskólasviðs, Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir. Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

- Kl. 12:53 tóku Natan Kolbeinsson, fulltrúi ungmennaráðs Kringluhverfis og Eygló Rúnarsdóttir, verkefnisstjóri á Íþrótta- og tómstundasviði, sæti á fundinum.

1. Lögð fram skýrslan Stefnumótun í tónlistarfræðslu í Reykjavík, dags. í maí 2011. Formaður menntaráðs og Laufey Ólafsdóttir, forstöðumaður tónlistarmála á Menntasviði kynntu skýrsluna og svöruðu fyrirspurnum.

Tillögur starfshóps að stefnu um tónlistarfræðslu samþykktar með 6 atkvæðum og vísað til borgarráðs.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Nokkurra vonbrigða gætti hjá fulltrúa Vinstri grænna með skýrslu starfshóps um stefnumótun um tónlistarfræðslu í Reykjavík og getur hann því ekki greitt atkvæði með henni óbreyttri. Vissulega var vinnan í hópnum góð - það má sjá á fundargerðum - en svo virðist sem það hafi ekki skilað sér nógu vel í stefnumótunina. Eins var ekki tekið á brýnum álitamálum eins og aldursviðmiðum eða þjónustusamningum. Fulltrúi Vinstri grænna hefði viljað sjá áþreifanlegri tillögur varðandi tónmenntakennslu í leik- og grunnskólum og útfærslur á þeim. Þó sumt sé ágætt í skýrslunni er hún hvorki fugl né fiskur. Stefnumörkun í málefnum tónlistarkennslu í leik- og grunnskólum og tónlistarskólanna þarf að vera miklu skýrari svo fulltrúinn sé sáttur og eins hefði hann viljað sjá meira farið eftir ábendingum Innri endurskoðunar. Því situr hann hjá.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Það eru góð tíðindi að samhljómur hafi náðst í starfshópi um framtíðarsýn á tónlistarfræðslu í Reykjavík, en í honum sátu fulltrúar skólastjóra tónlistarskóla, fulltrúar tónlistarkennara og skólahljómsveita auk menntaráðsfulltrúa. Það skal áréttað að staða tónmenntakennslu í grunnskólum borgarinnar var ekki hluti af verkefnum starfshópsins. Það skal einnig áréttað að ein af ábendingum Innri endurskoðunar var að heildstæð stefna um tónlistarfræðslu í Reykjavík hafi ekki legið fyrir og því fagnaðarefni að svo sé nú.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Ný stefna Reykjavíkur í tónlistarfræðslu liggur nú fyrir. Vinna hópsins var talsverð og margar hugmyndir ræddar um framtíðarsýn í tónlistarmálum. Stefna sem nú er samþykkt tekur þó ekki á mikilvægum álitamálum né setur fram skýra framtíðarsýn til að gera gott tónlistarstarf, bæði tónlistarskóla og leik- og grunnskóla, betra. Enn liggja ekki fyrir stefnumarkandi ákvarðanir í mikilvægum álitamálum eins og varðandi aldursmörk, tillögur að breyttum þjónustusamningum og þátttöku ríkisins í niðurgreiðslum fyrir nemendur í mið- og framhaldsnámi. Enn á líka eftir að ræða útfærslur um aukið samstarf tónlistarskóla og leik- og grunnskóla, hugmyndir um tónlistarskóla fyrir aðra en börn og ungmenni í samstarfi við borgina og sjóði til að styrkja foreldra sem ekki geta kostað börn sín í tónlistarnám. Allar þessar ákvarðanir verður að tengja við stefnuna um leið og þær liggja fyrir.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir, í samhengi umræðu um þjónustusamninga og aldursviðmiða, yfirlitsblaði um þá hagræðingu sem áætlað er að verði að lokum sett á tónlistarskólana. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig á að brúa bilið á milli áætlana og þeirrar hagræðingar sem ekki næst vegna fjármuna til þjónustu við tónlistarskólana. Að auki er óskað eftir brúttó- og nettókostnaði við nám í tónlist og söng í nokkrum sveitarfélögum.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar öllum þeim sem komu að gerð stefnu Reykjavíkurborgar um tónlistarfræðslu, fulltrúum í starfshópi, kennurum og skólastjórum sem tóku þátt í könnun um starfsemi tónlistarskóla og skólahljómsveita sem og því fagfólki sem kom á fund hópsins.

2. Fjallað um stöðu mála við gerð þjónustusamninga við tónlistarskóla.

3. Lagt fram bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 19. apríl sl., þar sem vísað er til menntaráðs, frá fundi borgarfulltrúa og fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna, dags. 12. apríl sl., svohljóðandi tillögu um tónlistarnám handa öllum:
Tónlistarnám í Reykjavík er of dýrt. Það var stefna margra borgarfulltrúa í kosningunum 2010 að gera tónlistarnám í Reykjavík ódýrara og aðgengilegt öllum, ekki bara aðgengilegt yfirstéttarfólki. Niðurskurðurinn sem nú er boðaður gerir það að verkum að námið verður dýrara en það er nú þegar. Tónlistarnám líkt og aðrar tómstundir eiga að vera sjálfsagður hlutur að taka þátt í líkt og handbolti, fótbolti og frjálsar. Tillaga Ungmennaráðs Kringluhverfis er að þessu sinni tvískipt. Í fyrsta lagi að fallið verði frá þeim niðurskurði sem nú er boðaður í tónlistarnámi í Reykjavík svo námið verði ekki dýrara en það er nú þegar. Í öðru lagi verði skipaður starfshópur á vegum borgarstjórnar, skipaður fulltrúum ungs fólks, borgarfulltrúum úr minnihluta og meirihluta í borgarstjórn og öðrum hagsmunaaðilum til að finna leiðir til þess að gera tónlistarnám ódýrara en það er núna.

Natan Kolbeinsson, fulltrúi ungmennaráðs Kringluhverfis, sem var flutningsmaður tillögunnar mælti fyrir henni.

Samþykkt menntaráðs:
Menntaráð fagnar tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna um tónlistarnám í Reykjavík.
Menntaráð hyggst gera verkáætlun sem byggir á nýsamþykktri stefnu borgarinnar um tónlistarfræðslu. Hluti þeirrar áætlunar verður að skipa starfshóp sem skoða á hvernig hægt er að bjóða upp á fjölbreyttara og ódýrara tónlistarnám til að tryggja aðgengi sem flestra. Eins verður hlutverk starfshópsins að gera tillögur að þróunarverkefnum í tónlist til að vinna í samstarfi við leik- og grunnskóla og ÍTR. Menntaráð mun óska eftir fulltrúa frá Reykjavíkurráði ungmenna í starfshópinn.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Vegna fyrri hluta tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna óskar menntaráð bókað að samkomulag milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og mennta- og menningarmálaráðherra um framtíðarskipan framhaldsnáms í tónlist er á lokastigi. Í kjölfarið verður tekin afstaða til breyttra forsendna í fjárhagsáætlun Menntasviðs vegna tónlistarskóla.

- Kl. 14:29 viku Natan Kolbeinsson og Eygló Rúnarsdóttir af fundi.

4. 4. lið útsendrar dagskrár frestað.

5. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi menntaráðs 23. mars sl.:
Menntaráð samþykkir að leikskólastjórum leikskóla borgarinnar sé boðið upp á upplýsingar um hvernig leikskólar geti orðið sjálfstætt starfandi. Útbúinn verði sérstakur upplýsingapakki með upplýsingum um mögulegar samningsleiðir, sem fela í sér reiknireglur sem skýra hvernig að fé fylgi barni óháð rekstrarformi, upplýsingar um leigukostnað og samninga um húsnæði í leigu af borginni. Að auki verði dregin fram bæði tækifæri og áskoranir sem felast í því að vera sjálfstætt starfandi leikskóli. Valkosturinn sem fyrir liggur getur til dæmis falið í sér lækkun miðlægs kostnaðar hjá Menntasviði, aukinn sveigjanleika í rekstri og betri húsnæðisnýtingu og síðast en ekki síst aukinn sveigjanleika í stjórnun og stefnumótun í höndum leikskólastjóra og starfsfólks í samstarfi við foreldra til lengri tíma. Starfsfólk og foreldrar þurfa að vera vel upplýstir um allar ákvarðanir og breytingar er tengjast skólanum. Sett verði fram vinnulag við upplýsinga- og breytingarferli sem hæfist við ákvarðanatöku þar sem m.a. upplýsingaflæði til starfsfólks og foreldra væri skilgreint. Málið verði kynnt á næsta reglulega fundi leikskólastjóra.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 2.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Besti flokkurinn og Samfylkingin telja ekki tilefni til að kynna sérstaklega fyrir starfandi leikskólastjórum hvernig leikskólar geti orðið sjálfstætt starfandi. Þegar slík erindi berast til borgarinnar er um þau fjallað í hverju tilviki fyrir sig og á heimasíðu borgarinnar eru fyrirliggjandi upplýsingar um það hvernig ber að snúa sér hafi einstaklingar áhuga á því að reka sjálfstætt starfandi leikskóla.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Tilefnið er ærið og því ótrúlegt að fulltrúar meirihlutans í menntaráði hafni því að borgarreknir skólar geti ekki gerst sjálfstætt reknir. Sérstaklega kemur á óvart að fulltrúar Besta flokksins sem lofuðu miklum kerfisbreytingum og auknum sveigjanleika í skólakerfinu geta ekki séð sér fært að bjóða upp á upplýsingar um þennan valkost. Ekki einungis er með þessum valkosti tækifæri til hagræðingar á sömu forsendum og miklar sameiningar eiga að ná, þ.e. með minni umsýslu miðlægt, heldur líka tækifæri til að bjóða leikskólastjórum að takast á við aukinn sveigjanleika og nýbreytni á auðveldari hátt. Einn skóli breyttist á síðasta kjörtímabili úr borgarreknum í sjálfstætt rekinn og reynslan er afar góð, bæði faglega og fjárhagslega. Það skýtur líka skökku við að góður leikskólastjóri borgarinnar geti ekki fengið að breyta sínum skóla í sjálfstætt starfandi ef foreldrar og starfsfólk eru samstíga en því lofað að ef sami aðili boðar nýjan skóla sé hann boðinn velkominn. Þetta er ekki trúverðug sýn og líklegast að stefna meirihlutans sé afar skýr, að sjálfstætt starfandi skólar séu almennt ekki á stefnuskránni nú þegar stærsti og þriðji stærstu árgangar Íslandssögunnar séu að bíða eftir leikskólaplássi.

6. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Barnanna okkar, SAMFOK, starfsfólks í leikskólum; Félags skólastjórnenda í Reykjavík; Kennarafélags Reykjavíkur og leikskólastjóra í Reykjavík sem frestað var á fundi menntaráðs 13. apríl sl.:
Allir sex áheyrnarfulltrúarnir leggja til að svarað verði fyrir hverja sameiningu hvernig tekið var tillit til umsagna foreldraráða og skólaráða eins og mennta- og menningamálaráðuneytið lagði til í umsögn sinni og þær upplýsingar gerðar opinberar. Jafnframt að farið verði að tillögu ráðuneytisins um að stuðst verði við gátlista með leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar frá 19. mars 2010 fyrir sameiningu stofnana ríkisins, spurningar aðlagaðar að sameiningarverkefninu, þeim svarað og svörin gerð opinber.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Sérhver umsögn foreldraráða og skólaráða um sameiningartillögur var greind og flokkuð af tölfræði- og rannsóknaþjónustu Mennta- og Leikskólasviðs. Meginþættir umsagnanna voru rýndir og gerðar voru breytingar á sameiningartillögum til að koma að einhverju leyti til móts við athugasemdir sem þar komu fram. Innleiðing breytinganna er á ábyrgð sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg en þar starfar fagfólk á sviði skóla- og frístundamála og einnig er þar reynsla og þekking á innleiðingu breytinga. Til að vinna að hverri sameiningu eru myndaðir stýrihópar með erindisbréfi og þar eru ábyrgð og hlutverk skilgreind. Í sameiningarvinnunni verður unnið eftir skilgreindum aðferðum verkefnastjórnunar og stuðst við margskonar ítarefni og aðferðir sem byggja á faglegum grunni breytingastjórnunar, ritinu Sameining ríkisstofnana ásamt gátlista Ríkisendurskoðunar sem ber yfirskriftina Eftirlit með sameiningu ríkisstofnana. Hvað varðar gátlistann þá koma fram svör við hluta spurninganna í skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra en annað verður skilgreint af stýrihópum þegar þeir taka til starfa. Lagt er til að tillögunni verði vísað frá.

Frávísunartillaga fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 og er því tillögu áheyrnarfulltrúanna vísað frá.

- Kl. 15:38 vék Rósa Steingrímsdóttir af fundi.

7. Lagt fram bréf Innri endurskoðunar, dags. 20. des. sl., um eftirfylgni við stjórnsýsluúttekt Innri endurskoðunar á fyrirkomulagi stuðnings Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. Laufey Ólafsdóttir, forstöðumaður tónlistarmála á Menntasviði kynnti og svaraði fyrirspurnum.

8. Lögð fram minnisblöð sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 6. maí sl., vegna innleiðingar samþykktra tillagna um samrekstur og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og yfirstjórna skóla og frístundaheimila sem samþykktar voru í borgastjórn 19. apríl sl. Hildur Skarphéðinsdóttir, staðgengill sviðsstjóra Leikskólasviðs og Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri kynntu málið og svöruðu fyrirspurnum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Mikil óvissa ríkir meðal starfsfólks og foreldra um hvernig staðið verður að skólastarfi í þeim grunnskólum sem til stendur að sameina á næsta og þarnæsta skólaári samkvæmt ákvörðun borgarstjórnar frá 19. apríl sl. Hafa fulltrúar foreldra í Háaleitishverfi t.d. óskað eftir því að ráðið verði sem fyrst í nýja stöðu skólastjóra Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla enda sé mikil vinna fram undan í stýrihópi, sem til stendur að skipa, vegna sameiningar umræddra skóla. Bent er á mikilvægi þess að unnið verði af festu í umræddum stýrihópi, ekki síst vegna þess að til stendur að segja upp tveimur af lykilmönnum hans, þ.e. skólastjórunum, um næstu áramót.
Til að lágmarka það rót á skólastarfi, sem fyrirsjáanlegt er vegna illa ígrundaðra áforma meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins, er mikilvægt að skipað verði sem fyrst í nýjar stöður skólastjóra og í stýrihópa, þeirra skóla sem til stendur að sameina, til að stuðla að því að innleiðingin geti gengið sem áfallaminnst fyrir sig. Þá er brýnt að standa miklu betur að upplýsingagjöf til foreldra og starfsfólks í umræddum skólum en gert hefur verið hingað til.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Á næstu dögum fara tölvupóstar til foreldra með upplýsingum um næstu skref við innleiðingu í skólum sem tekin hefur verið ákvörðun um að sameina. Mikil og góð vinna hefur farið fram á Menntasviði undanfarnar vikur að undirbúa stýrihópa sem í munu sitja fulltrúar foreldra, starfsfólks, stjórnenda, mannauðsráðgjafa, þjónustumiðstöðva og fagfólks á sviðum skólamála. Þeir munu taka til starfa á næstu vikum og verður menntaráð upplýst reglulega um stöðu mála.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra er undrandi á því hve skammur tími er ætlaður til að vinna með umsóknir um 11 leikskólastjórastöður sem hafa verið auglýstar lausar til umsóknar. Það eru 11 virkir dagar frá því að umsóknarfrestur er útrunninn, þangað til val á umsækjendum á að liggja fyrir, með rökstuðningi. Það má líkja þessari vinnu við maraþonhlaup og þá þarf sérstaklega að passa millitímann vel til að tryggja að allir umsækjendur sitji við sama borð.

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Einvalalið skipar vinnuhóp sem hefur umsjón með ráðningarferlinu sem nú fer í hönd og engin ástæða til þess að bera kvíðboga fyrir því að ekki verði vandað vel til verksins.

- Kl. 16:22 viku Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Líf Magneudóttir og Anna Helga Sigfúsdóttir af fundi.

9. Könnun meðal skólastjóra á innleiðingu og framkvæmd laga um grunnskóla veturinn 2009-2010. Ásgeir Björgvinsson, verkefnastjóri á tölfræði- og rannsóknaþjónustu Leikskóla- og Menntasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum.

- Kl. 16:38 vék Óttarr Ólafur Proppé af fundi.

10. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 6. maí 2011, um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, 1 mál.

11. Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Kennarafélags Reykjavíkur frá fundi menntaráðs 16. mars sl., varðandi ótímabundnar ráðningar grunnskólakennara.

12. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að boðið verði upp á skýrar upplýsingar á vef Reykjavíkurborgar og vef Menntasviðs um hvernig hægt sé að gerast dagforeldri. Því miður er of mikið um að upplýsingum sé ábótavant og dæmi um að áhugasamir gefist upp á að leita leiða til að gerast dagforeldri vegna þessa. Það er bagalegt nú þegar verulega skortir á að foreldrar fái umönnunarþjónustu fyrir yngstu börnin sín að þetta sé óljóst. Útbúinn verði sérstakur upplýsingapakki með upplýsingum um stefnu borgarinnar í málefnum dagforeldra, fjárhagsramma, fjárhagslegan stuðning við hvert barn, menntakröfur og lög er varða þjónustu dagforeldra. Að auki verði listaðir upp þeir kostir og leiguverð á því húsnæði sem er í boði hjá Reykjavíkurborg, t.d. hús við gæsluvelli, stofur við grunnskóla og annað húsnæði. Gefin eru upp símanúmer og netföng hjá þeim tengiliðum borgarinnar sem geta aðstoðað áhugasama um nánari upplýsingar og þannig verði hægt að leiða fólk áfram og hvetja þá áfram til að hefja störf sem dagforeldri.
Frestað.

Fundi slitið kl. 16:45

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Stefán Benediktsson