No translated content text
Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2011, 4. maí, var haldinn 145. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Óttarr Ólafur Proppé, Rúna Malmquist, Stefán Benediktsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Sigrún Sigurðardóttir, leikskólastjórar í Reykjavík og Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Hildur Skarphéðinsdóttir, staðgengill sviðsstjóra Leikskólasviðs, Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Jónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Húsnæðismál Rimaskóla, Dalskóla og nýs sérskóla. Rúnar Gunnarsson arkitekt á mannvirkjaskrifstofu Framkvæmda- og eignasviðs kynnti og svaraði fyrirspurnum.
2. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. mars sl., þar sem óskað er umsagnar menntaráðs um reglur og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar. Einnig lagðar fram umsagnir Leikskólasviðs og Menntasviðs, dags. 8. apríl sl., þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við ferilinn en óskað eftir að fulltrúar sviðanna eigi kost á að sitja verkfundi á byggingarstigi.
Samþykkt.
3. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 17. mars sl., þar sem óskað er umsagnar menntaráðs um átaksverkefni, endurbætur og meirháttar viðhald fasteigna.
Lögð fram umsögn Leikskólasviðs, dags. 27. apríl sl., þar sem ekki er gerð athugasemd við áætlun varðandi leikskóla.
Samþykkt með þeirri breytingu að lagt er til að undir endurbætur og viðhald falli endurbætur á fallvörnum leiksvæða leikskólalóða líkt og á fallvörnum leiksvæða grunnskólalóða.
Lögð fram umsögn Menntasviðs, dags. 8. apríl sl., þar sem lagt er til að áætlun varðandi grunnskóla verði samþykkt með breytingum.
Samþykkt.
4. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 27. apríl sl., með tillögu að stofnun sérdeildar í Vogaskóla fyrir nemendur með einhverfu. Hrund Logadóttir, verkefnastjóri sérkennslu á Menntasviði kynnti og svaraði fyrirspurnum.
Samþykkt.
- Kl. 13:19 vék Óttarr Ólafur Proppé af fundi og Erna Ástþórsdóttir tók þar sæti.
5. Lögð fram tillaga að úthlutun almennra styrkja menntaráðs tengdum Leikskólasviði um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2011:
a) Umsækjandi Börnin okkar. Heiti verkefnis: Auka starfsemi félagsins. Tillaga kr. 300.000.-
b) Umsækjandi Myndlistaskólinn í Reykjavík. Heiti verkefnis: Samstarf myndlistaskóla og leikskóla - skapandi starf á sjónrænan hátt. Tillaga kr. 2.000.000.-
c) Umsækjandi Haukur Freyr Gröndal. Heiti verkefnis: Kynna djasstónlist, hljóðfæri og spuna fyrir börn á leikskólaaldri með Helgu Steffensen. Tillaga kr. 500.000.-
d) Umsækjandi Tinna Grétarsdóttir. Heiti verkefnis: Út í veður og vind. Tillaga kr. 200.000.-
e) Umsækjandi RannUng. Heiti verkefnis: Rekstrarstyrkur. Tillaga kr. 700.000.-
f) Umsækjandi RannUng. Heiti verkefnis: Starfendarannsókn. Tillaga kr. 1.250.000.-
g) Umsækjandi Náttúruskólinn. Heiti verkefnis: Rekstrarstyrkur. Tillaga kr. 1.200.000.-
h) Umsækjandi Afmæli leikskóla. Heiti verkefnis: Gjafir. Tillaga kr. 240.000.-
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Lögð fram tillaga að úthlutun þróunarstyrkja menntaráðs tengdum Leikskólasviði um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2011:
a) Umsækjandi leikskólinn Berg. Heiti verkefnis: Grænir skólar á Kjalarnesi. Tillaga kr. 360.000.-
b) Umsækjandi leikskólinn Geislabaugur. Heiti verkefnis: Nú skal segja... Tillaga kr. 850.000.-
c) Umsækjandi leikskólinn Hamraborg. Heiti verkefnis: Vísindaleikir: Stjörnufræði. Tillaga kr. 600.000.-
d) Umsækjandi leikskólinn Foldakot. Heiti verkefnis: Að skapa. Tillaga kr. 200.000.-
e) Umsækjandi Dalskóli. Heiti verkefnis: Heima í mótun. Tillaga kr. 900.000.-
f) Umsækjandi Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Heiti verkefnis: Lesum fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn á leikskólaaldri. Tillaga kr. 300.000.-
g) Umsækjandi leikskólinn Rofaborg. Heiti verkefnis: Eins og fuglinn Fönix. Tillaga kr. 600.000.-
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Börnin okkar fordæma ákvörðun um styrkveitingu sem felur í sér mismunun hagsmunasamtaka foreldra á skólastigum grunnskóla og leikskóla. Samtök foreldra leikskólabarna sitja klárlega ekki við sama borð og samtök foreldra grunnskólabarna með styrkveitingu til Barnanna okkar upp á kr. 300.000 á meðan SAMFOK fær samtals kr. 5.300.000 frá borginni í styrk og þjónustusamning. Börnunum okkar hefur ekki verið boðinn þjónustusamningur sambærilegan við það sem Samfok fá, þrátt fyrir að við höfum lagt fram umsókn um sambærilega upphæð og farið eftir þeim leikreglum sem borgin hefur sett með reglum um styrki frá 25.06.2006. Grunnurinn að góðu samstarfi foreldra og skóla er lagður í leikskóla og af nógu er að taka í hagsmunagæslu foreldra að leikskólastarfi. Ef við fáum ekki styrk til að sinna nauðsynlegum verkefnum og efla samstarf milli foreldra, leikskóla og Leikskólasviðs, þá er starf samtakanna í húfi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Ábendingar hafa komið fram um að miklu munar á fjárstuðningi menntaráðs við samtök foreldra grunnskólabarna annars vegar og samtök foreldra leikskólabarna hins vegar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna taka undir það sjónarmið að mikilvægt sé að jafnræði ríki í stuðningi borgarinnar við foreldra og samtök þeirra og telja æskilegt að við þessa styrkjaúthlutun hefði þetta misræmi verið leiðrétt eða a.m.k. dregið úr því.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar benda á að styrkveitingar til Barnanna okkar og Samfoks eru jafnháar upphæðir, 300.000 krónur. Ótímabundinn samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og Samfoks, sem hefur verið til staðar síðan árið 1998, hefur engin stjórnsýsluleg tengsl við umræddar styrkveitingar. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna frumkvæði Barnanna okkar um að ganga til þjónustusamninga við Leikskólasvið og lýsir yfir áhuga á því að skoða það í samhengi við sameiningu leikskóla- og grunnskólamála í Reykjavík. Á það skal bent að samanburður við samstarfssamning Samfoks er hæpinn því hann er ekki til reksturs skrifstofu heldur samstarfssamningur um ákveðin samstarfsverkefni til eflingar sambands milli foreldra og skóla. Á það skal bent að umsókn Barnanna okkar var um styrk upp á 7 milljónir króna til reksturs skrifstofu en heildarupphæð almennra styrkja til leikskólamála er um 6,5 milljónir króna. Það var því erfitt að koma til móts við þær óskir Barnanna okkar miðað við úthlutað fjármagn til styrkja tengdum leikskólamálum. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar benda á að þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu var staðinn vörður um styrkjapotta Leikskólasviðs enda efling þróunarverkefna og áframhaldandi samstarf við jafn ólíka aðila og Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna, Myndlistaskólann í Reykjavík og Náttúruskólann afar mikilvægt. Einnig má benda á að þróunarsjóður til grunnskóla var endurvakinn við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 enda eru styrkir til þróunar- og nýbreytni verkefna mikilvægt vítamín fyrir metnaðarfullt skólastarf.
Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir rökstuðningi fyrir því af hverju Börnin okkar fá ekki sambærilegan styrk eða þjónustusamning og Samfok þrátt fyrir að við höfum lagt fram beiðni um styrk upp á sambærilega upphæð. Með umsókn Barnanna okkar um almennan styrk til jafns við þá upphæð sem samtök foreldra grunnskólabarna þá er boltanum varpað til borgarinnar um hvort þeir leiti eftir samningi eða veiti styrk því samkvæmt 5. gr. reglna borgarinnar um styrki segir að fagnefndir Reykjavíkurborgar bera ábyrgð á meðferð styrkumsókna á sínu sviði, úthlutun styrkja og gerð samninga í umboði borgarráðs. Markmið reglanna er að koma á samræmdu vinnulagi/reglum í úthlutun styrkja, tryggja jafnræði við ráðstöfun skattfjár borgarbúa og auka festu í vinnubrögðum við úthlutun styrkja. Við erum því klárlega búin að sækja um eftir réttum leiðum og með umsókn okkar var lagður fram rökstuðningur fyrir þeim verkefnum sem samtökin telja brýnt að sinna og við höfum verið öflugur málsvari foreldra leikskólabarna sem við teljum að mætti styrkja enn frekar.
6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 20. apríl sl., þar sem fram kemur að foreldrar og starfsfólk í leikskólanum Bakka og Bergi hafi valið nýtt nafn á sameinaðan leikskóla, Bakkaberg.
Samþykkt.
7. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra, dags. 27. apríl sl., varðandi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að gera samkomulag við sjálfstætt rekna skóla vegna inntöku nemenda. Umrædd tillaga, sem var frestað á fundi ráðsins 16. mars sl. lögð fram á ný:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkir að efna til viðræðna við Landakotsskóla og Tjarnarskóla um aukið samstarf í því skyni að leysa vandamál, sem upp eru komin vegna mikillar fjölgunar nemenda í Vesturbænum. Skoðað verði hvort draga megi úr miklum húsnæðisþrengslum í Vesturbæjarskóla og Melaskóla með því að nýta laus skólarými í Landakotsskóla og Tjarnarskóla.
Greinargerð fylgdi.
Tillögunni vísað til starfshóps sem Menntasvið kemur á um skólahald í Vesturbæjar-, Mela-, Granda- og Hagaskóla til samræmis við samþykkt borgarstjórnar frá 19. apríl 2011.
8. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sem var frestað á fundi menntaráðs 18. apríl 2011:
Þar sem fyrirliggjandi tillaga hefur hvorki hlotið eðlilega umfjöllun hjá viðkomandi fagráði né í stjórnkerfisnefnd, óska fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eftir því að afgreiðslu málsins verði frestað þar til sú umræða hefur farið fram og álit stjórnkerfisnefndar liggur fyrir. Að auki verði leitað álits hjá SAMFOK, Börnunum okkar, félagi foreldra í leikskólum, Kennarasambandi Íslands, Félagi starfsfólks í frítímaþjónustu, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, forstöðumönnum frístunda-miðstöðva ÍTR, Reykjavíkurráði ungmenna, skólastjórum leikskóla og skólastjórum grunnskóla.
Samþykkt að vísa til borgarráðs.
9. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Félags skólastjórnenda í Reykjavík sem var frestað á fundi menntaráðs 18. apríl 2011:
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík leggur til að hætt verði við allar framkomnar hugmyndir um sameiningar og samrekstur fyrir utan þær sem fullt samkomulag er um í viðkomandi skólasamfélagi. Nefnd um stjórnkerfisbreytingar ljúki sinni vinnu og í framhaldi af því verði skýr stefna mótuð í málefnum barna í Reykjavík og ákvarðarnir teknar.
Tillagan felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins harma að ekki hafi verið tekið tillit til tillögu áheyrnarfulltrúa Félags skólastjórnenda. Það er til marks um það hversu slæm stjórnsýsla hefur verið viðhöfð í þessu máli að meirihlutinn í Reykjavík hefur alger-lega hundsað Stjórnkerfisnefnd Reykjavíkurborgar og ekki leitað álits hennar vegna þeirra stjórnkerfisbreytinga sem samþykktar voru í borgarstjórn, 19. apríl sl.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Það er ofureðlilegt að borgarráð og borgarstjórn samþykki tillögu um að hafinn verði undirbúningur að sameiningu sviða hjá Reykjavíkurborg. Ekki síst vegna þess að fækkun sviða og stjórnkerfisbreytingar hafa verið í deiglunni frá því vorið 2010 og um það hefur ríkt samhljómur milli flokka í borgarstjórn Reykjavíkur. Málið hefur fengið umræðu í stjórnkerfisnefnd og undirbúningur að sameiningu sviðanna er m.a. í höndum fulltrúa þeirrar nefndar, auk þess sem starfsfólk sviðanna kemur að innleiðingunni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Tillögu um sameiningu Mennta, Leikskóla og tómstundahluta ÍTR var ekki vísað til umsagnar stjórnkerfisnefndar eins og samþykktir borgarinnar kveða á um. Stjórnkerfisnefnd gafst því ekki færi á að gefa umsögn um hana. Það verður að teljast afleit stjórnsýsla.
10. Lögð fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 2. maí 2011, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, samtals 3 mál.
11. Lögð fram innkomin erindi vegna hagræðingar í leikskólum Reykjavíkurborgar (2 erindi) og grunnskólum Reykjavíkurborgar (2 erindi).
12. Lagt fram samþykki borgarstjórnar, dags. 20. apríl 2011 á tillögum um samrekstur og sameiningar leikskóla, grunnskóla og yfirstjórnar skóla og frístundaheimila.
13. Lögð fram skýrsla um niðurstöður tilraunaverkefnis um notkun hráefnismatseðils og sameiginleg innkaup mötuneyta í leikskólum og grunnskólum í Vesturbæ, dags. apríl 2011. Einnig lagt fram minnisblað deildarstjóra tölfræði og rannsóknaþjónustu Leikskóla- og Menntasviðs, dags. 26. apríl sl. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustunnar og Ingibjörg Halldórsdóttir, verkefnastjóri kynntu og svöruðu fyrirspurnum.
- Kl. 15:09 vék Þorgerður Diðriksdóttir af fundi.
14. Starfshópur um endurskipulagningu mötuneyta á vegum Reykjavíkurborgar. Elsa Yeoman, formaður starfshópsins og Hrönn Pétursdóttir kynntu og svöruðu fyrirspurnum.
15. Lagt fram svar fræðslustjóra, dags. 27. apríl sl., við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi menntaráðs 16. mars sl., varðandi starfshópinn Börnin í borginni.
16. Lagt fram svar fræðslustjóra, dags. 27. apríl sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Félags skólastjórnenda frá fundi menntaráðs 18. apríl sl., varðandi sameiningu sviða og starfsstöðva hjá Reykjavíkurborg.
- Kl. 15:40 vék Kristín Egilsdóttir af fundi.
- Kl. 15:45 vék Ragnar Þorsteinsson af fundi.
17. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í marz 2009 lagði fulltrúi Samfylkingarinnar í menntaráði til að allir kjörnir fulltrúar í ráðinu hefðu seturétt á fundum fræðslustjóra með skólastjórum. Menntaráð samþykkti tillöguna með þeirri breytingu að kjörnir fulltrúar skyldu hafa seturétt á umræddum fundum tvisvar á ári, að hausti og á vori. Við afgreiðslu málsins lýstu fulltrúar Samfylkingar yfir þeim vilja sínum að allir fundir skólastjóra væru opnir kjörnum fulltrúum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lýsa yfir furðu sinni á því að eftir að flytjandi umræddrar tillögu varð formaður menntaráðs, hafa kjörnir fulltrúar, fyrir utan hana sjálfa, ekki verið boðaðir á skólastjórafundi þrátt fyrir áðurnefnda samþykkt ráðsins. Óskað er eftir skýringum á því hverju þetta sætir og hvort ráðgert sé að boða kjörna fulltrúa í menntaráði á slíkan fund áður en yfirstandandi skólaári lýkur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Það skrifast á mannleg mistök að fulltrúar minnihlutans hafi ekki verið boðaðir á skólastjórafundi síðastliðið haust. Misskilningur var uppi um að seturéttur minnihlutafulltrúa í menntaráði hafi verið í tilraunaskyni til eins árs en það er ríkur vilji Samfylkingarinnar og Besta flokksins að halda þessu áfram og verður úr þessu bætt hið snarasta.
Fundi slitið kl. 16:30
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Erna Ástþórsdóttir
Kjartan Magnússon Rúna Malmquist
Stefán Benediktsson Þorleifur Gunnarsson