Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2011, 13. apríl, var haldinn 143. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 14:14. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Lögð fram umsögn menntaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar, dags. 13. apríl 2011, um skýrslu starfshóps, Greining tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar 2011.

Lögð fram svohljóðandi tillaga menntaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Menntaráð samþykkir að vísa því til borgarráðs að Reykjavíkurborg og Menntavísindasvið Háskóla Íslands geri með sér samstarfssamning til ársins 2014 um stuðning og ráðgjöf við breytingar og endurskipulagningu á skóla- og frístundastarfi í Reykjavík. Samstarfið felist í stefnumótun um breytingar og framþróun í skóla- og frístundastarfi barna. Samstarfið felist einnig í stuðningi og ráðgjöf við fyrirhugaðar breytingar sem tengjast endurskipulagningu í lærdómsumhverfi barna.
Samþykkt með 4 atkvæðum.

Lögð fram svohljóðandi tillaga menntaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Menntaráð samþykkir að vísa því til borgarráðs að Reykjavíkurborg blási til vinnufunda í hverju hverfi á næstu vikum með foreldrum leikskóla- og grunnskólabarna og starfsfólki þar sem unnar verði hugmyndir um frekari sparnað í skólum og frístundaheimilum. Afraksturinn verði nýttur við undirbúning fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2012. Skipaðir verði undirbúningshópar í hverju hverfi með fulltrúum foreldra og starfsfólks Reykjavíkurborgar sem skili tillögum til borgaryfirvalda um fyrirkomulag fundanna.
Samþykkt með 4 atkvæðum.

Menntaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði getur engan veginn fallist á umsögn meirihlutans. Vinnubrögð og nálgun meirihluta Besta flokks og Samfylkingar í málinu hafa verið til skammar og ekki bætir úr skák þegar ákveðið er að þvinga einnig umsögn í gegn í stað þess að sjónarmið allra flokka fjölskipaðs stjórnvalds komi fram. Óbilgirni og einstrengingshætti flokkanna eru greinilegan engin takmörk sett. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til beita sér gegn áformum meirihlutans, m.a. vegna þess sem fram kemur í afstöðu fulltrúans í umsögn sem hann lætur fylgja með á fundinum.

Menntaráðsfulltrúi Vinstri grænna lagði fram umsögn, dags. 13. apríl 2011, um skýrslu starfshóps, Greining tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar 2011.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Umsögn Besta flokksins og Samfylkingarinnar tekur mið af framkomnum ábendingum foreldra, starfsfólks og fagaðila þó ekki hafi verið unnt að koma til móts við allar óskir. Viðamikið undirbúningsferli hefur átt sér stað með þátttöku fjölmargra, ljóst var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að endurskipulagning í skóla- og frístundastarfi væri nauðsyn, nú þegar sveitarfélög hagræða þriðja árið í röð. Tillögurnar eru vandaðar og eru eðlileg og rétt viðbrögð við þröngum fjárhag borgarinnar og barnasprengju í Reykjavík.

Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur mistekist að standa með farsælum hætti að undirbúningi hagræðingar í skólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Óvönduð vinnubrögð við mótun og kynningu tillagna um sameiningu skóla, leikskóla og frístundaheimila hefur valdið uppnámi í skóla- og frístundastarfi. Þetta kemur m.a. fram með flausturslegum vinnubrögðum, miklum flýti og ónógu samráði við hagsmunaaðila. Í rúmlega 90#PR umsagna frá skólum, foreldrum, skólastjórnendum og starfsmönnum er eindregin afstaða tekin gegn sameiningarhugmyndum meirihlutans.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði harma að fulltrúar meirihlutans ætli að berja höfðinu við steininn og fara í þessar miklu breytingar þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra, fagfólks og starfsmanna og lítinn fjárhagslegan ávinning. Ekki liggja enn fyrir upplýsingar um kostnað sem hlýst af því að fara í þessar aðgerðir enda myndu þær leiða í ljós hve lítill sá ávinningur væri.
Samtals er hagræðing af sameiningu og samrekstri undir einu prósenti af heildarútgjöldum þeirra þriggja sviða, sem unnu að þessari skýrslu þegar tillögurnar verða að fullu komnar til framkvæmda. Búast má við að talsvert rask á skólastarfi verði þegar stofnanir verða sameinaðar og hætt við að tímabundið skapist órói og ótti vegna árekstra og átaka í sameiningu starfsumhverfis ólíkra stétta.
Þær breytingartillögur, sem meirihlutinn leggur nú fram, fela í flestum tilvikum í sér tímabundna frestun um hálft ár og eru einungis settar fram vegna tímahraks. Þeir stjórnendur grunnskóla, sem áttu að fá uppsögn frá og með 1. maí, fá nú uppsögn með haustinu og því verður nýr stjórnandi að taka við á miðju skólaári. Erfitt er að skipta um stjórn skóla á miðju skólaári án þess að það bitni beint á starfi skólans og þar með þjónustu við börn.
Mikill greinarmunur er gerður á leikskólum og faglegu starfi þeirra miðað við röksemdafærslur í umsögn meirihlutans um að fresta tímabundið breytingum á grunnskólum vegna samráðs og samstarfs við fagaðila. Leikskólarnir bera hitann og þungann af hagræðingunni og í raun má segja að allir grunnskólarnir fái aðstoð og aukinn tíma til að aðlagast breytingum á meðan að svo er ekki um neinn leikskóla.
Meirihlutinn kýs að stunda blekkingarleik varðandi þær tölur sem lagðar eru til grundvallar við útreikning fjárhagslegs ávinnings við þessar aðgerðir. Svokölluð innri leiga er stærsti einstaki hagræðingarliðurinn í töflu meirihlutans þegar færð eru rök fyrir sparnaði og skilar um 35#PR af heildinni. Þá hefur árangurslaust verið beðið um rökstuðning fyrir því að gert sé ráð fyrir hagræðingu í formi leigu af óbyggðum byggingum.

Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram umsögn, dags. 13. apríl 2011, um skýrslu starfshóps, Greining tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar 2011.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Besti flokkurinn og Samfylkingin telja aldrei nógu oft áréttað að á þriðja ári í hagræðingu er afar erfitt að skerða meira í skólastarfinu sjálfu með flötum niðurskurði. Því var farið í viðamikla greiningu á öllum möguleikum til hagræðingar með endurskipulagningu í stjórnun og betri nýtingu húsnæðis. Hagræðingin sem af breytingunum hlýst er afar mikilvæg til að betur verði hægt að hlífa skóla- og frístundastarfi á næstu árum, sem verða eflaust líka strembin í rekstri borgarinnar.
Umsögn Besta flokksins og Samfylkingarinnar tekur mið af framkomnum ábendingum foreldra, starfsfólks og fagaðila þó ekki hafi verið unnt að koma til móts við allar óskir. Viðamikið undirbúningsferli hefur átt sér stað með þátttöku fjölmargra, ljóst var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að endurskipulagning í skóla- og frístundastarfi væri nauðsyn, nú þegar sveitarfélög hagræða þriðja árið í röð. Tillögurnar eru vandaðar og eru eðlileg og rétt viðbrögð við þröngum fjárhag borgarinnar og barnasprengju í Reykjavík.

Áheyrnarfulltrúar Barnanna okkar, SAMFOK, starfsfólks í leikskólum; Félags skólastjórnenda í Reykjavík; Kennarafélags Reykjavíkur og leikskólastjóra í Reykjavík lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Allir sex áheyrnarfulltrúarnir leggja til að svarað verði fyrir hverja sameiningu hvernig tekið var tillit til umsagna foreldraráða og skólaráða eins og mennta- og menningamálaráðuneytið lagði til í umsögn sinni og þær upplýsingar gerðar opinberar. Jafnframt að farið verði að tillögu ráðuneytisins um að stuðst verði við gátlista með leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar frá 19. mars 2010 fyrir sameiningu stofnana ríkisins, spurningar aðlagaðar að sameiningarverkefninu, þeim svarað og svörin gerð opinber.
Frestað.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra hefur áhyggjur af því að í sameinuðum leikskóla sé of langt gengið í niðurskurði í stjórnun. Það er fyrirséð að vinnuálag á þeim leikskólastjórum verður gríðarlegt. Fyrst og fremst í ljósi þess að aðstoðarleikskólastjóri er að hluta til með vinnuskyldu á deild með börnum. Það sem meira er að í öllum leikskólum eru deildarstjórar með 100#PR vinnuskyldu á deildum.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra hefði viljað sjá aukið stjórnunarhlutfall aðstoðar-leikskólastjóra í öllum sameinuðum leikskólum. Sérstaklega er það brýnt til að hægt sé að standa vörð um faglegt starf þar sem mikill skortur er á leikskólakennurum í borginni.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Með stækkun leikskólaeininga eykst stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra til muna. Á það hefur verið bent að við sameiningar gefast fleiri möguleikar fyrir aðstoðarleikskólastjóra að starfa í stærra hlutfalli stjórnunar en nú er.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Börnin okkar fagna að fallið hefur hafi verið frá sex sameiningum leikskóla og frestað einni sameiningu leik- og grunnskóla. Enn eru þó flestar tillögur um sameiningar leikskóla uppi á borðinu og er gagnrýnivert að fara á í sameiningar á fjölmörgum leikskólum samtímis. Lítill tími er gefinn í undirbúning en þær verða allar framkvæmdar fyrir 1. júlí næstkomandi. Börnin okkar gagnrýna einnig að ekki sé gætt jafnræðis þar sem sums staðar er niðurskurði frestað og nærsamfélaginu gert kleift að koma að sparnaðartillögum en annars staðar ekki.
Nær allar umsagnir foreldraráða leikskóla hafna sameiningartillögum og benda á að fjárhagslegar forsendur séu óljósar og að stefnt sé að litlum ávinningi. Samráð við foreldra og fagfólk var gagnrýnt og lögð fram ósk um að fá að koma að virku samráði um sparnaðartillögurnar. Nú á hins vegar að keyra í gegn nánast allar sameiningartillögurnar, þvert á umsagnir foreldraráða, og auk þess er óskað eftir aðkomu foreldra að tillögum um enn frekari niðurskurð árið 2012. Foreldrar lýstu sig reiðubúna til samráðs um sparnað fyrir árið 2011 í staðinn fyrir þær sameiningar sem nú á að fara í. Nú á hins vegar að keyra sameiningartillögurnar í gegn nánast óbreyttar en auk þess boða foreldra til umræðna um niðurskurð á næsta ári. Þetta er gagnrýnivert.
Við tökum undir helstu atriðin sem gagnrýnd eru í umsögnunum og leggja áherslu á að það sé mjög óæskilegt að fara út í sameiningar sem snerta 24 leikskóla samtímis í miklum andbyr nærsamfélagsins á sama tíma og vitað er að aðeins í 15#PR tilvika heppnast sameiningar skv. skýrslu Fjármálaráðuneytisins frá 2010. Heildarhagræðing við þessar sameiningar árið 2014 er undir einu prósenti og ekki er tilgreindur sá kostnaður sem vænta má að falli til við innleiðingu breytinganna. Í öðrum sveitarfélögum hefur samrekstur ekki leitt af sér sparnað, þvert á móti hefur kostnaður í meira en helmingi tilvika staðið í stað eða verið meiri við samrekstur, samkvæmt könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2010.
Börnin okkar krefjast þess að okkar yngstu þjóðfélagsþegnum verði með öllu hlíft við frekari niðurskurði og hagræðingu.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Nægur tími verður gefinn til innleiðingar nýrra sameinaðra leikskóla, eins og verið hefur þegar leikskólar hafa verið sameinaðir í Reykjavík. Þá er mikilvægt að foreldrar og starfsfólk verði þátttakendur í innleiðingarferlinu. Hagræðingin sem af breytingunum hlýst er afar mikilvæg til að standa vörð um skólastarfið. Það er fagnaðarefni að í umsögnum skóla- og foreldraráða birtist ríkur vilji foreldra til samstarfs með borgaryfirvöldum sem stuðli að rekstrarhagræðingu í skólum og frístundaheimilum. Umsögn Besta flokksins og Samfylkingarinnar tekur mið af framkomnum ábendingum foreldra, starfsfólks og fagaðila þó ekki hafi verið unnt að koma til móts við allar óskir. Viðamikið undirbúningsferli hefur átt sér stað með þátttöku fjölmargra, ljóst var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að endurskipulagning í skóla- og frístundastarfi væri nauðsyn, nú þegar sveitarfélög hagræða þriðja árið í röð. Tillögurnar eru vandaðar og eru eðlileg og rétt viðbrögð við þröngum fjárhag borgarinnar og barnasprengju í Reykjavík.

Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:
Umsögn meirihluta menntaráðs um skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra ber þess, að einhverju leiti, merki að horft hafi verið til álits og varnaðarorða í umsögnum fag- og hagsmunaaðila og er það vel. Sérstaklega er því fagnað að skólasamfélaginu í Efra- Breiðholti og Vesturbæ verði, með ólíkum hætti þó, falið að leita bestu lausna á fyrirkomulagi í þessum skólahverfum. Á sama tíma harmar SAMFOK að litið sé framhjá umsögnum skólaráða í Grafarvoginum og Hvassaleiti/Álftamýri sem hafna nánast öll fyrirliggjandi tillögum og gagnrýna skort á samráði við hagsmunaaðila en lýsa sig reiðubúna að ganga til viðræðna um framtíðarfyrirkomulag skólahalds í hverfunum. SAMFOK telur eðlilegt að í þessum hverfum og í öðrum hverfum þar sem sameiningar eru fyrirhugaðar nú eða síðar, verði farin sama leið og í Vesturbæ og Efra-Breiðholti þ.e. að skólasamfélaginu verði falið að skoða hvaða fyrirkomulag kæmi best út og mest sátt næðist um. Slík vinnubrögð ættu að auka möguleika á lausn sem meirihluti íbúa gæti sætt sig við.
SAMFOK gagnrýnir að á sama tíma og ákvarðanir um sameiningar eru teknar í trássi við vilja skólaráða er ætlunin að kalla foreldra til viðræðna um frekari niðurskurð á næsta ári. Það er ekki það sem var lagt upp með af hálfu foreldra.

Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík lagði fram svohljóðandi bókun:
Félag skólastjórnenda í Reykjavík fordæmir þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila frá nóvembermánuði til dagsins í dag.
Þessi vinnubrögð hafa skapað gífurlegt óöryggi og óvissu hjá nemendum, foreldrum og starfsmönnum grunnskólanna í borginni.
Skólastjórnendur krefjast þess að nú þegar verði skýrar línur dregnar fram í skólamálum borgarinnar og allar ákvarðanir er varða framtíðarskipan skólamála í borginni verði ítarlega tímasettar.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Það er ávallt svo þegar breytingar eru í farvatninu að ákveðin óvissa fylgir því tímabili þar sem tillögurnar eru til umræðu og afgreiðslu. Nú liggur umsögn meirihluta menntaráðs um tillögurnar fyrir svo senn mun liggja fyrir hvaða breytingar verða gerðar á yfirstjórnum grunnskóla.

Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík harmar að meirihluti menntaráðs skuli ekki taka mark á umsögnum foreldra, starfsmanna grunnskóla og annarra sérfræðinga sem hafa komið fram varðandi sameiningar grunnskóla í Reykjavík.
Þó svo að tímasetningum hafi verið breytt stendur enn til að sameina grunnskóla þvert á vilja þeirra sem spurðir voru.
Um er að ræða þrjár sameiningar í yfirstjórn Korpuskóla og Víkurskóla, Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla og Borgaskóla og Engjaskóla. Ef umsagnir viðkomandi skólaráða eru skoðaðar er ljóst að viðkomandi skólaráð mæla ekki með sameiningu eða hafna en lýsa yfir vilja til samstarfs og samvinnu við borgaryfirvöld. Meirihlutinn virðist hafa tekið ákvörðun fyrir einhverju síðan því ekkert tillit er tekið til fjölda ábendinga sem komið hafa fram og hafna sameiningu þessara grunnskóla.
Flutningi unglinga úr Húsaskóla og Hamraskóla er hafnað í skólaráðum beggja skólanna. Engu að síður stendur sú tillaga óbreytt.
Það er jákvætt að litið sé á sameiningu Ártúnsskóla, Kvarnaborgar og Skólasels sem tilraunaverkefni. Sem slíkt fær það aðrar áherslur.
Fulltrúi skólastjórnenda fagnar því að skólasamfélagi í Vesturbæ skuli vera falið að koma sér saman um skipan skólamála í hverfinu og hefði kosið að fleiri borgarhlutum hefði verið boðið að taka þátt í þannig verkefni og eiga virkan þátt í umræðu og skipulagi skólamála.
Einnig er það jákvætt að sjá þær breytingar sem hafa átt sér stað varðandi Efra-Breiðholt.
Tillaga eitt um sameiginlega yfirstjórn frístundastarfs og grunnskóla er enn óljós og hefði átt að vera sett fram sem formlegt tilraunaverkefni.
Að öðru leyti vísar fulltrúi skólastjórnenda í Reykjavík í umsögn KÍ. Í lokaorðum þeirrar samantektar eru borgaryfirvöld hvött til að móta skýra sýn og heildarstefnu áður en ráðist er í umfangsmiklar breytingar og leita raunverulegs samráðs við þá sem hafa bestar forsendur til að fjalla um og greina möguleg tækifæri til skólaþróunar.

Menntaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Hagræðingin sem af breytingunum hlýst er afar mikilvæg til að standa vörð um skólastarfið. Umsögn Besta flokksins og Samfylkingarinnar tekur mið af framkomnum ábendingum foreldra, starfsfólks og fagaðila þó ekki hafi verið unnt að koma til móts við allar óskir. Viðamikið undirbúningsferli hefur átt sér stað með þátttöku fjölmargra, ljóst var við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að endurskipulagning í skóla- og frístundastarfi væri nauðsyn, nú þegar sveitarfélög hagræða þriðja árið í röð.

2. Lögð fram svör sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 11. apríl sl., Framkvæmda- og eignasviðs dags. 12. apríl sl. og Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 11. apríl sl. við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi menntaráðs 6. apríl sl. varðandi viðbótarupplýsingar um kostnað vegna endurskipulagningar skóla- og frístundastarfs.

- Kl. 17:25 vék Líf Magneudóttir af fundi.
- Kl. 18:00 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.


Fundi slitið kl. 18.20

Oddný Sturludóttir

Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon Óttarr Ólafur Proppé Stefán Benediktsson