Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2011, 23. mars, var haldinn 141. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:35. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Elsa Yoeman, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir og Stefán Benediktsson.
Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Valgerður Janusdóttir staðgengill fræðslustjóra, Hildur Skarphéðinsdóttir staðgengill sviðsstjóra Leikskólasviðs, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson og Kristín Egilsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram samantekt um niðurstöður fjölmenningarþings, dags. febrúar 2011. Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar kynnti og svaraði fyrirpurnum ásamt Nönnu Kristínu Christiansen, verkefnastjóra á grunnskólaskrifstofu Menntasviðs og Fríðu Bjarneyju Jónsdóttur, verkefnastjóri vegna barna af erlendum uppruna á Leikskólasviði.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar því hversu vel tókst til með hið metnaðarfulla fjölmenningarþing sem haldið var 6. nóvember síðastliðinn, og eru Mannréttindaskrifstofu færðar þakkir fyrir vandaða framkvæmd. Það er sérstakt fagnaðarefni að skólaforeldrum af erlendum uppruna var á þinginu gefið tækifæri til að fjalla um þjónustu leik- og grunnskólans út frá eigin reynslu og viðhorfum. Mennta- og Leikskólasvið munu kynna sér vel niðurstöður þingsins og vinna aðgerðaráætlun byggða á ábendingum þátttakenda. Ákjósanlegt væri að ÍTR, Menntasvið og Leikskólasvið ynnu slíka aðgerðaáætlun í samvinnu.

- Kl. 13:15 tók Þorgerður L. Diðriksdóttir sæti á fundinum.

2. Framkvæmdir við leik- og grunnskóla Reykjavíkur árið 2011. Sighvatur Arnarsson, skrifstofustjóri gatna- og eignaumsýslu, Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri mannvirkjaskrifstofu og Rúnar Gunnarsson, arkitekt, frá Framkvæmda- og eignasviði kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

- Kl. 13:20 tók Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sæti á fundinum.

- Kl. 13:25 vék Elsa Yoeman af fundi og Óttarr Ólafur Proppé tók þar sæti.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Í skýrslum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur má sjá að mikill misbrestur hefur verið á því að farið sé að tilmælum þeirra síðustu ár og mörg dæmi eru um alvarlegar athugasemdir sem ítrekaðar eru á milli ára eins og hengingahætta í rennibraut, klemmihætta í gormatæki og drukknunarhætta. Mikilvægt er að sýnt verði fram á að farið verði í framkvæmdir til að svo alvarlegar athugasemdir verði lagfærðar strax, eins og tilmæli eru um í skýrslum Heilbrigðiseftirlitsins. Börnunum okkar finnst mikilvægt að árleg aðalskoðun leikskóla fari fram árlega eins og kveðið er á um í reglugerð nr. 942/2002 og nr. 607/2005 en í því felst að óháður aðili með vottun til þess taki út útileiksvæði.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Börnunum okkar er þakkað fyrir ábendingar sínar. Ljóst er að þörf er á skilvirku eftirliti. Daglega yfirfer starfsfólk leikskólanna lóðirnar og slysum á börnum hefur fækkað jafnt og þétt síðastliðin ár. Árlega er reglubundið eftirlit frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar, sem er óháður eftirlitsaðili, og tekur út allar leikskólalóðir. Unnið er að úrbótum jafnt og þétt.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:

Á fundi leikskólaráðs (nú menntaráðs) þann 19. maí 2010 lögðu Börnin okkar fram ósk um að safnað væri saman upplýsingum um slys og óhöpp á leikskólum borgarinnar og fengu loforð um slíka samantekt með haustinu. Slík samantekt hefur enn ekki verið birt þrátt fyrir óskir um það. Þessi þrjú atriðið samanlögð: (1) ekki er brugðist við alvarlegum ábendingu Heilbrigðiseftirlits um úrbætur á leikskólalóðum, (2) ekki er framkvæmd lögbundin aðalskoðun á leikskólalóðum skv. rlg. nr. 942/2002 og 607/2005 og (3) ekki er haldið miðlægt utan um slys og óhöpp á leikskólum Reykjavíkurborgar, er ekki vænleg blanda til að tryggja öryggi barna okkar í leikskólum borgarinnar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:

Öryggi barna er forgangsmál borgaryfirvalda og er kappkostað að vinna jafnt og þétt að úrbótum jafnt sem eftirliti.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna telja brýnt að haldið verði áfram endurbótum þeim, sem hafnar voru á lóð leikskólans Hólaborgar fyrir nokkrum árum, og þeim lokið sem fyrst þar sem lóðin er í afar bágbornu ástandi. Jafnframt að við endurgerð lóðar Seljaskóla verði þar lagður körfuknattleiksvöllur með gúmmíundirlagi (tartani eða sambærilegu efni).

3. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem var frestað á fundi menntaráðs 16. mars 2011:

Menntaráð samþykkir að beina því til borgarráðs og Framkvæmdasviðs að við
ákvörðun um lagningu battavalla á skólalóðum á árinu 2011 verði farið eftir tillögum Íþróttabandalags Reykjavíkur og Knattspyrnuráðs Reykjavíkur um forgangsröðun slíkra valla en við hana var farið eftir því hvar íþróttaaðstöðu barna og unglinga væri helst ábótavant í hverfum Reykjavíkur. Umræddar tillögur voru samþykktar einróma á fundi íþrótta- og tómstundaráðs 21. maí 2010.

Samþykkt.

4. Lögð fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 21. mars 2011 og bréf fræðslustjóra, dags. 21. mars 2011, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði. Sjö mál Leikskólasviðs og eitt mál Menntasviðs.

5. Lögð fram innkomin erindi vegna hagræðingar í leikskólum Reykjavíkurborgar (7 erindi) og grunnskólum Reykjavíkurborgar ( 3 erindi ).

6. Lagðar fram niðurstöður Talnalykils, stærðfræðiskimunar í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur haustið 2010. Jafnframt lagt fram minnisblað um sama máls, dags. 21. mars 2011. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu Mennta- og Leikskólasviðs og Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

Bókun menntaráðs:

Skimunarprófið Talnalykill sem lagt var fyrir nemendur í 3. bekk í nóvember 2010 sýnir að mikill meirihluti nemenda, eða 72#PR-93#PR telst ólíklegur til að þurfa stuðning í stærðfræði. Niðurstöður hafa ekki verið jafn góðar frá því stærðfræðiskimanir hófust fyrir sjö árum. Ráðið telur þær upplýsingar, sem fram koma í niðurstöðum Talnalykils vera afar mikilvægar hverjum skóla til að bæta enn frekar stærðfræðinám í grunnskólum Reykjavíkur. Menntaráð felur fræðslustjóra að fela skólastjórum að kynna niðurstöður Talnalykils fyrir foreldrum og stuðla þannig að því að upplýsingar um framfarir og stöðu nemenda séu sem aðgengilegastar á hverjum tíma.

7. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 23. mars sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa SAMFOK og Barnanna okkar frá fundi ráðsins 16. mars sl. um kostnað vegna sameiningar.

8. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 23. mars sl.,, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi ráðsins 16. mars sl. varðandi fjarlægðarmælingar milli skóla.

9. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 21. mars sl., við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi ráðsins 16. mars sl. varðandi leikskólann Suðurborg.

10. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 21. mars sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra í Reykjavík frá fundi ráðsins 16. mars 2011 varðandi uppsagnir skólastjórnenda.

11. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 21. mars sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Félags skólastjórnenda í Reykjavík frá fundi ráðsins 16. mars sl. varðandi fjárhagslegan ávinning af sameiningum.

12. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 23. mars sl., við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi ráðsins 23. febrúar sl. varðandi hagræðingu í leikskólum og grunnskólum.

13. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Menntaráð samþykkir að leikskólastjórum leikskóla borgarinnar sé boðið upp á upplýsingar um hvernig leikskólar geti orðið sjálfstætt starfandi. Útbúinn verði sérstakur upplýsingapakki með upplýsingum um mögulegar samningsleiðir, sem fela í sér reiknireglur sem skýra hvernig að fé fylgi barni óháð rekstrarformi, upplýsingar um leigukostnað og samninga um húsnæði í leigu af borginni. Að auki verði dregin fram bæði tækifæri og áskoranir sem felast í því að vera sjálfstætt starfandi leikskóli. Valkosturinn sem fyrir liggur getur til dæmis falið í sér lækkun miðlægs kostnaðar hjá menntasviði, aukinn sveigjanleika í rekstri og betri húsnæðisnýting og síðast en ekki síst aukinn sveigjanleika í stjórnun og stefnumótun í höndum leikskólastjóra og starfsfólks í samstarfi við foreldra til lengri tíma. Starfsfólk og foreldrar þurfa að vera vel upplýstir um allar ákvarðanir og breytingar er tengjast skólanum. Sett verði fram vinnulag við upplýsinga- og breytingarferli sem hæfist við ákvörðanatöku þar sem m.a. upplýsingaflæði til starfsfólks og foreldra væri skilgreint. Málið verði kynnt á næsta reglulega fundi leikskólastjóra.

Frestað.

Fundi slitið kl. 16:10

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir