Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2011, 16. mars, var haldinn 140. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12.36. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir, Elsa Yeoman, Erna Ástþórsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn, Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Ráðning skólastjóra við nýjan sérskóla.
Lögð fram:
a) Greinargerð fræðslustjóra, dags. 11. mars sl., vegna ráðningar í stöðu skólastjóra við nýjan sérskóla.
b) Auglýsing um stöðu skólastjóra við nýjan sérskóla í Reykjavík.
c) Viðmið menntaráðs Reykjavíkur við val á milli umsækjenda um skólastjórastöður í grunnskólum Reykjavíkurborgar, samþykkt á 29. fundi menntaráðs 2. mars 2006.
d) Yfirlit yfir umsækjendur um stöðu skólastjóra við nýjan sérskóla í Reykjavík.
Sjö umsóknir bárust um stöðuna.
Lagt er til að Erla Gunnarsdóttir verði ráðin í stöðu skólastjóra við nýjan sérskóla í Reykjavík.
Samþykkt.

- Kl. 13.00 vék Elsa Yeoman af fundi og Eva Einarsdóttir tók þar sæti.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 10. mars sl., um innritun systkina í leikskóla Reykjavíkurborgar 2011 auk álits borgarlögmanns, dags. 26. apríl 2010, um réttmæti systkinaforgangs í leikskólum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Leikskólastjórar í hverju hverfi fyrir sig hittist í mars/apríl nk. og innriti í sameiningu undir stjórn innritunarfulltrúa Leikskólasviðs. Þá fari leikskólastjórar yfir hvaða börn í þeirra leikskólum eiga systkini sem verða tveggja ára á árinu og innriti börnin í sama leikskóla og eldra systkini, sé þess nokkur kostur. Litið verður á þetta sem tilraun og verður gerð úttekt nk. haust meðal leikskólastjóra til að meta kosti og galla við framkvæmdina.
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
3. Lögð fram tillaga að úthlutun þróunarstyrkja menntaráðs tengdum Menntasviði um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2011:

a) Umsækjandi Breiðholtsskóli. Heiti verkefnis: Bætt samstarf betri árangur. Tillaga kr. 300.000.-
b) Umsækjandi Hvassaleitisskóli. Heiti verkefnis. Starfsáætlun um samstarf heimilis og skóla. Tillaga kr. 250.000.-
c) Umsækjandi Ingunnarskóli. Heiti verkefnis: Hávamál í fortíð og nútíð. Tillaga kr. 350.000.-
d) Umsækjandi Klébergsskóli. Heiti verkefnis: Grænir skólar á Kjalarnesi. Tillaga kr. 340.000.-
e) Umsækjandi Laugalækjarskóli. Heiti verkefnis: Vefbundið skráningarkerfi fyrir tungumálaver. Tillaga kr. 250.000.-
f) Umsækjandi Laugarnesskóli. Heiti verkefnis. Námskeið í heimilisfræði fyrir foreldra. Tillaga kr. 300.000.-
g) Umsækjandi Rimaskóli. Heiti verkefnis: Skáknámskeið fyrir nemendur og foreldra í Rimaskóla. Tillaga kr. 150.000.-
h) Umsækjandi Rimaskóli. Heiti verkefnis: Hrói Höttur í grenndarskógi. Leiksýning 6. bekkjar Rimaskóla í Nónholti í Grafarvogi, skólaskógi Rimaskóla. Tillaga kr. 350.000.-
i) Umsækjandi Víkurskóli. Heiti verkefnis: Útikennslusvæði. Samstarfsverkefni grunn- og leikskóla. Tillaga kr. 200.000.-
j) Umsækjandi Víkurskóli. Heiti verkefnis: Landnám Íslands. Tillaga kr. 300.000.-
k) Umsækjandi Víkurskóli. Heiti verkefnis: Ymur Íslands. Tillaga kr. 200.000.-
l) Umsækjandi Vogaskóli. Heiti verkefnis: Menningaruppeldi – Auðlind til framtíðar. Tillaga kr. 400.000.-
Samþykkt.
4. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins sem var frestað á fundi menntaráðs 26. janúar 2011:
Eðlilegt er að bregðast við þeirri miklu og hörðu gagnrýni sem komið hefur fram frá foreldrum og fagaðilum á meint samráðsferli vegna fyrirhugaðrar endurskipulagningar. Því samþykkir menntaráð að boða til opinna kynningar- og samráðsfunda í öllum hverfum hið fyrsta.
Samþykkt að vísa frá með fjórum atkvæðum gegn þremur.

Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Hugtökin fagleg vinnubrögð og samráð hafa öðlast nýja merkingu hjá meirihluta menntaráðs og í algerri andstöðu við almennan skilning á þeim. Þó fundirnir séu kannski opnir eru þeir illa kynntir og aðeins hluta foreldra boðið að mæta. Minnihlutinn í menntaráði hefur ekki fengið vitneskju um fyrirkomulagið – eða verið boðið á fundina – og hafður útundan í öllu sem að þeim snýr. Fyrir tilviljun fær hann boð á fundi ef svo heppilega vill til að hann eigi börn í þeim skólum sem breytingartillögurnar ná til. Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks gagnrýna þessi vinnubrögð meirihlutans og hvernig staðið er að fundarröðinni enda verður ferli sameininga ekki afgreitt með einum fundi í hverju hverfi heldur mörgum fundum í öllum hverfum – á öllum stigum málsins. Hefðu fundirnir því mátt vera fleiri og haldnir fyrr og með aðkomu allra íbúa. Er það nokkuð ljóst að meirihlutinn hefur ekki í hyggju að koma á raunverulegu samtali milli foreldra, fagstétta og borgaryfirvalda eða hlusta og virða skoðanir þeirra. Með þessu má ætla að meirihlutinn hafi ekki í hyggju að breyta stefnu sinni í sameiningarmálum og að skoðanir foreldra og fagstétta skipta engu máli. Með sanni má þá kalla þessa fundarröð sýndarmennsku. Meirihlutinn hefði betur átt að samþykkja tillögu minnihlutans um opna og vel auglýsta fundi í öllum hverfum borgarinnar. Frekar valdi hann að bíða eftir skýrslunni til að geta kynnt þær sameiningarhugmyndir sem hann ætlar einhliða – sama hvað tautar og raular – að ná í gegn.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Menntaráðsfulltrúar og ÍTR-fulltrúar, sem og hverfisráðsfulltrúar hafa fengið boð á fundi í hverfum um efni skýrslunnar. Á fundunum hafa skapast miklar og góðar umræður um breytingar á skólastarfi og mörg sjónarmið hafa verið á lofti. Sjaldan hefur jafn viðamikið undirbúningsferli farið fram vegna breytinga á skóla- og frístundastarfi í Reykjavík og teljast fundirnir, stórir sem smáir, vera 175 talsins síðan í nóvember. Um 500 manns, foreldrar, stjórnendur og starfsfólk komu með beinum hætti að starfi hópsins með ábendingar á öllum stigum málsins, fyrir utan þær ábendingar sem starfshópnum hafa borist í gegnum ábendingagátt. Þess ber að geta að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í starfshópnum tók virkan þátt í undirbúningi þessa samráðsferlis og gerði ekki athugasemdir við það fyrr en því var nærri lokið. Þess ber líka að geta að allt menntaráð samþykkti verkefnaáætlun til næstu fjögurra ára, í október síðastliðnum, þar sem kveðið er á um: ,,Barnið er í fyrirrúmi í öllu skólastarfi og nám fer fram innan sem utan skólans. Öll þjónusta miðar að innihaldsríkum skóladegi sem er barnvænn og fjölskylduvænn. Á næstu fjórum árum ætlar menntaráð að brjóta upp hefðbundin skil á milli skóla og skólastiga og vinna markvisst að því að samþætta skóla- og frístundastarf. Í skipulagi skóladagsins verður litið til aukinnar samkennslu og hreyfanleika fagkennara og frístundafræðinga milli skóla og betri nýtingar á húsnæði og fjármagni með tilliti til samreksturs og sameiningar stofnana sem koma að lærdómsumhverfi barna. Áfram skal haldið með tilraunir á ólíkum rekstrarformum, líkt og í Dalskóla.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óskuðu bókað.
Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins getur ekki skotið sér undan ábyrgð á því stórkostlega klúðri og samráðsleysi, sem hefur verið viðhaft vegna tillagna þessara flokka um sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í Reykjavík. Svo dæmi sé tekið hefur kjörnum fulltrúum í menntaráði aðeins verið boðin þátttaka í tveimur af þeim 175 fundum, sem meirihlutinn gumar af í bókun sinni. Ámælisvert er t.d. að fulltrúum í menntaráði, sem skipað er fulltrúum allra flokka í borgarstjórn, hafi t.d. ekki verið boðin þátttaka í fundum, sem haldnir hafa verið um umræddar sameiningartillögur að undanförnu, með þátttöku starfsmanna viðkomandi vinnustaða. Þegar loksins eru haldnir opnir fundir í hverfum borgarinnar er þannig staðið að málum að fundirnir séu sem fæstir og svo margar tillögur undir á hverjum þeirra að erfitt er að ná fullnægjandi umræðum um þær.

5. Lögð fram skýrsla starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, dags. í febrúar 2011. Einnig lagt fram minnisblað um stöðu mála, dags. 14. mars sl., yfirlit yfir fundi á umsagnartíma, erindisbréf samstarfshóps um samþætt skóla- og frístundastarf 6 – 9 ára barna, dags. 10. mars sl. og bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík, dags. 3. mars sl. um afgreiðslu borgarráðs á framangreindri skýrslu. Óskar J. Sandholt verkefnastjóri og Hildur Björk Svavarsdóttir deildarstjóri tölfræði- og rannsóknarþjónustu Leikskólasviðs og Menntasviðs Reykjavíkur komu á fundinn og svöruðu fyrirspurnum.
Áheyrnarfulltrúar SAMFOK og Barnanna okkar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Þar sem samtökin hafa fengið beiðni um að gefa umsögn um skýrslu
starfshópsins um sameiningar óskum við eftir upplýsingum um
sundurliðaðan kostnað vegna hverrar sameiningar sem fyrirhuguð er bæði í
leikskólum og grunnskólum.

Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi tillögu:
Hagræðingarkrafa borgarinnar á Menntasvið er óraunhæf og óafturkræf fyrir skólastarf í borginni. Mikilvægt er að það fjármagn sem á að spara með samrekstri og/eða sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila nýtist nemendum. Fulltrúi kennara í menntaráði leggur það til að sú hagræðing sem fæst með samrekstri og/eða sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila renni aftur inn í skólakerfi Reykjavíkurborgar.
Frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkir að efna til viðræðna við Landakotsskóla og Tjarnarskóla um aukið samstarf í því skyni að leysa vandamál, sem upp eru komin vegna mikillar fjölgunar nemenda í Vesturbænum. Skoðað verði hvort draga megi úr miklum húsnæðisþrengslum í Vesturbæjarskóla og Melaskóla með því að nýta laus skólarými í Landakotsskóla og Tjarnarskóla.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun og fyrirspurn:
Á meðan vinna starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila stóð yfir óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna ítrekað eftir því að fá upplýsingar um gönguvegalengdir milli þeirra skóla, sem tillögur eru gerðar um að samreka eða sameina. Sérstaklega var tekið fram að óskað væri eftir upplýsingum um gönguvegalengdir á milli umræddra stofnana en ekki loftlínu. Nú hafa ábendingar borist um að í skýrslu starfshópsins sé miðað við loftlínu við fjarlægðarmælingar milli skóla. Enn skal því óskað eftir því að lagðar verði fyrir menntaráð réttar upplýsingar um gönguvegalengdir milli umræddra stofnana. Jafnframt skal óskað eftir upplýsingum um akstursvegalengd milli sömu stofnana.
Fulltrúar Samfylkingar innar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Það er sjálfsagt að verða við þessari ósk og svör verða lögð fram á menntaráðsfundi 23. mars nk.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Varðandi opna fundi með foreldrum leikskóla- og grunnskólabarna um fyrirliggjandi tillögur vegna breytinga á skólahaldi er óskað eftir því að sérstakur fundur verði haldinn í hverju þjónustuhverfi. Þannig verði einn fundur haldinn með foreldrum í Laugardal, Háaleiti og Bústöðum, annar með foreldrum í Miðborg og Hlíðum og hinn þriðji með foreldrum í Vesturbænum.

Samþykkt að vísa frá með fjórum atkvæðum gegn þremur.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Nú þegar hafa verið auglýstir fundir með foreldrum í þessum hverfum og þeir munu fara fram næstkomandi laugardag. Breytingar á skóla- og frístundastarfi í Miðborg, Hlíðum og Vesturbæ verða til umræðu á öðrum fundinum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fyrir tæpu ári, 19. maí sl. var samþykkt í leikskólaráði að leikskólinn Suðurborg væri viðurkenndur sem sérhæfður leikskóli fyrir börn á einhverfurófi skv. skilgreiningu um sérkennslustefnu Leikskólasviðs. Sérhæfðir leikskólar eru skilgreindir sérstaklega í sérkennslustefnu Leikskólasviðs frá því í ágúst 2009, en þeir eru leikskólar þar sem starfsfólk býr yfir sérhæfðri þekkingu á ákveðinni fötlun og viðurkenndum íhlutunarleiðum. Múlaborg er sérhæfður leikskóli vegna líkamlega fatlaðra barna og Sólborg vegna heyrnaskertra og heyrnalausra barna. Sérstaklega er tilgreint í fjárhagsáætlunum vegna þessarar sérhæfingar. Óskað er eftir því hver staðan er á innleiðingu þessarar tillögu og hvernig verður farið með þessa ákvörðun ef ákveðið verður að sameina Suðurborg og Hólaborg eins og áætlað er.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnafulltrúi leikskólastjóra skilur ekki hvað verið er að fara með í faglegum rökstuðningi á sameiningum leikskóla. Í skýrslunni á bls. 30, er talað um „Aukið svigrúm myndast til að ráða inn sérhæft starfsfólk”. Það er ekki ætlunin í sameinuðum leikskóla að fjölga stöðugildum og það sem meira er, viðvarandi skortur er enn á uppeldismenntuðu starfsfólki. Í tveggja ára niðurskurði hefur stöðugildum í leikskóla fækkað og sérhæfðar verkefnastöður verið lagðar niður og það er ekkert sem bendir til að þær verði endurreistar í bráð. Það er þversagnakennt að tala um aukningu á sérhæfðu fólk á sama tíma og uppsagnir 60 leikskólastjórnenda eiga sér stað. Það eru fyrst og fremst leikskólakennarar og annað uppeldismenntað starfsfólk undir stjórn leikskólastjóra sem hafa leitt fagstarf í reykvískum leikskólum á undaförnum árum. Sameiningar leikskóla þurfa að gerast í samkomulagi við leikskólastjórnendur og aðra hlutaðeigendur, til þess að vænlegur ávinningur hljótist. Þannig hafa sameiningar leikskóla undanfarin ár verið gerðar, í sæmilegri sátt við stjórnendur og án uppsagna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Það er ljóst að þegar hagrætt er þriðja árið í röð verður æ erfiðara að vinna að fjárhagsáætlun án þess að til komi breytingar á störfum. Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók ákvörðun um að verja kjör þeirra sem lægst hafa launin á leikskólunum en gera breytingar á yfirstjórn og fela færri stjórnendum stærri verkefni. Hægt verður að bjóða öllum stjórnendum störf á leikskólum Reykjavíkur áfram og það er mikilvægt. Rökstuðningur í skýrslunni vísar til þess að í stærri skólum verður meiri sveigjanleiki. Starfsfólk með sérhæfingu t.d. í málefnum barna með sérþarfir gæti nýst stærri hópi barna, einnig starfsfólk með sérmenntun t.d. í listum. Áfram verður höfuðábyrgð á því að leiða faglegt starf í höndum skólastjórnenda, hér eftir sem hingað til.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík lagði fram svohljóðandi fyrirspurnir:
1. Það hefur komið fram að í sameinuðum leikskóla verði fjórum leikskóla-stjórnendum sagt upp og tveir stjórnendur ráðnir í staðinn. Hvernig verður uppsögnum stjórnenda og endurráðningu stjórnenda háttað í annars vegar sameinuðum grunnskóla og hins vegar sameinuðum leik- og grunnskóla ?
2. Í verklagsreglum um sameiningar leikskóla kemur fram, að ef leikskólastjóri annars leikskólans ákveður að láta af störfum, er heimilt að fela hinum leikskólastjóranum að taka við stjórn hins sameinaða leikskóla, án þess að starfið sé auglýst. Hvers vegna verða sum störf auglýst en önnur ekki?
3. Í upphafi var talað um að gera áætlun um tækifæri í samrekstri til fjögurra ára. Hvað varð til þess að þau áform breyttust ?
4. Hver er framtíðarsýn í borginni varðandi fámenna grunnskóla?

- Kl. 15.30 vék Bryndís Jónsdóttir af fundi.
- Kl. 15.35 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.

Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík, Kennarafélags Reykjavíkur og SAMFOK óskuðu bókað:
Áheyrnarfulltrúar skólastjóra, kennara og SAMFOK í menntaráði hvetja menntaráð/borgarráð/borgarstjórn til að upplýsa hagsmunaaðila og taka mark á þeim umsögnum sem munu koma fram á næstu dögum. Samkvæmt erindisbréfi starfshópsins á að útfæra tillögur til fjögurra ára og greina faglegan og fjárhagslegan ávinning við hvern sameiningarkost. Það hefur ekki verið gert. Ekki er vænlegt til árangurs að breytingar á annars góðu starfi grunnskólanna í Reykjavík verði þvingaðar fram í andstöðu foreldra og starfsmanna. Enn er tækifæri til að vinna betur í öllum hverfum og eiga opnar og heiðarlegar viðræður við fólk um hvernig best verði staðið að hagræðingu í grunnskólum borgarinnar í hverju nærsamfélagi fyrir sig.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Í skýrslu starfshóps, þar sem fjölmargt fagfólk kom að vinnunni, er kveðið á um fjárhagslegan og faglegan ávinning sameiningarkosta. Ljóst er að fjárhagur borgarinnar er afar þröngur og skólastarfi ekki til góðs að fresta því að endurskipuleggja skóla- og frístundastarf og spara þannig hundruðir milljóna á næstu árum, sem ekki þarf þá að sækja í skólastarfið sjálft. Þau rök vega þungt, að með því að fara í breytingar á yfirstjórn, endurskipuleggja skóla- og frístundastarf með þarfir barnanna og þjónustu við þau í fyrirrúmi, er hægt að standa vörð um gott skólastarf í Reykjavík.

Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fjöldi kennara í skólum eru í beinu sambandið við nemendafjölda og úthlutun fjármagns til kennslumagns. Því spyr fulltrúi kennara í menntaráði: Eru ótímabundnar ráðningar grunnskólakennara fleiri en stöðugildi kennara í borginni fyrir skólaárið 2011-2012, miðað við það fjármagn sem skólarnir fá til kennslu. Ef svo er hversu mörgum stöðugildum munar þetta?

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað
Börnin okkar gagnrýna óvandaðan málflutning í skýrslunni, t.d. eru sumar vegalengdir sem gefnar eru upp í skýrslunni milli leikskóla sem á að sameina rangar. Ekki eru birtar ýtarlegar niðurstöður úr þeim SWOT greiningarferlum sem sögð er hafa farið fram og rökstuðningur mjög keimlíkur fyrir alla leikskóla. Ekki er augljóst að fækkun leikskólastjóra og sameiningar komi ekki til með að bitna á faglegu starfi leikskóla. Áheyrnarfulltrúi foreldra lýsir undrun á þeirri misskiptingu sem er í áherslum tillagnanna á milli hverfa þar sem sum hverfi verða harkalegra fyrir barðinu á sameiningum en önnur eins og Breiðholtið þar sem sameina á 10 af 14 leikskólum og fjöldi barna á leikskólastjóra verður langt yfir meðaltali fyrir borgina og önnur hverfi.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Ekkert bendir til þess að stærð skóla, eða fjöldi barna á stjórnanda hafi merkjanleg áhrif á gæði stjórnunar eða leikskólastarfs. Áfram er frábært leikskólastarf í sameinuðum leikskólum, bæði í Reykjavík sem og öðrum sveitarfélögum. Sjálfsagt er að greina vegalengdir með mun nákvæmari hætti og leggja fram á næsta fundi menntaráðs. Í Breiðholti eru leikskólar frekar smáir og margir standa nálægt hvor öðrum og því leggur starfshópurinn til sameiningar þeirra leikskóla.

Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í nýútkominni skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili er tafla á blaðsíðu 9 sem á að sýna fjárhagslegan ávinning af þeim tillögum sem settar eru fram í skýrslunni. Óskað er eftir ítarlegum upplýsingum og útreikningum á hvað er innfalið í hverri línu af fyrstu þremur línunum í töflunni. Hvað felst í útreikningum á Grunnskóli breytingar á yfirstjórn (3 sameiningar), Leikskóli breytingar á yfirstjórn (14 sameiningar) og Sameinaðir leik- og grunnskólar, breytingar á yfirstjórn (2 sameiningar).
Einnig er óskað eftir nánari útskýringum á útreikningum vegna Hagkvæmari bekkjardeilda í grunnskólum (8 skólar). Hvaða skóla er verið að tala um?

6. Lögð fram innkomin erindi vegna hagræðingar í leikskólum Reykjavikurborgar (8 erindi) og grunnskólum Reykjavíkurborgar ( 9 erindi).
Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Samtökin Börnin okkar lýsa yfir furðu sinni á því að ekki sé tekið tillit til ábendinga fjölmargra foreldra, starfsmanna, hagsmunasamtaka foreldra og fleiri aðila, sem hafa sent aðilum innan stjórnsýslu borgarinnar, formanni menntaráðs og borgarstjóra erindi þar sem varað er við með rökstuddum hætti skelfilegum afleiðingum fyrirhugaðra sameininga og skipulagsbreytinga í leikskólum borgarinnar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Meirihlutinn mun að sjálfsögðu skoða allar ábendingar sem komið hafa fram frá foreldrum, starfsmönnum og hagsmunasamtökum. Sveitarfélög um allt land hafa sameinað skólastofnanir undanfarin ár og ekki er hægt að taka undir að afleiðingar þeirra hafi verið skelfilegar. Eins bendir ekkert til þess að stærð skóla hafi áhrif á gæðin, í Reykjavík er frábært leikskólastarf í litlum sem stórum leikskólum. Í þeim leikskólum sem sameinaðir hafa verið í Reykjavík, sem og í öðrum sveitarfélögum ríkir ánægja með leikskólastarfið og börnum líður vel.

7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 1. mars sl., um að sameinaður leikskóli í Fellahverfi fái nafnið Holt.
Samþykkt.
8. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins frá fundi ráðsins 9. febrúar sl. um ýmsa þætti varðandi sameiningar og/eða samrekstur leik- og grunnskóla og frístundaheimila.
9. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra frá fundi ráðsins 23. febrúar sl. um hvernig standa eigi vörð um styrkleika og sérstöðu skólastiga í sameinuðum skóla.
10. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Barnanna okkar frá fundi ráðsins 23. febrúar sl. um tilvísun í rannsóknir á sameiningum leikskóla.
11. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa leikskólastjóra frá fundi menntaráðs. 23. febrúar sl. um rekstur leikskóla árið 2010.
12. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Við upphaf efnhagslegra áfalla 2008 voru borgarfulltrúar sammála um þá forgangsröðun að verja börnin í borginni. Í kjölfarið var búin til sérstök nefnd, Börnin í borginni, til að fylgjast með líðan barna og starfsfólks í leikskólum, grunnskólum og í frístundastarfi á vegum Reykjavíkurborgar á meðan að efnahagsþrengingar standa yfir. Nú hefur frá því að nýr meirihluti tók við ekki nein vinna farið fram á þessum mikilvæga vettvangi og vefsvæði Barnanna í borginni liggur niðri. Óskað er eftir skýrum svörum um framtíðaráform meirihlutans varðandi þetta mikilvæga verkefni sem veitir okkur skýrar upplýsingar um líðan barna sem fylgjist með tölulegum upplýsingum sem gefa vísbendingar um breytta fjárhagsstöðu heimilanna.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að beina því til borgarráðs og Framkvæmdasviðs að við ákvörðun um lagningu battavalla á skólalóðum á árinu 2011 verði farið eftir tillögum Íþróttabandalags Reykjavíkur og Knattspyrnuráðs Reykjavíkur um forgangsröðun slíkra valla en við hana var farið eftir því hvar íþróttaaðstöðu barna og unglinga væri helst ábótavant í hverfum Reykjavíkur. Umræddar tillögur voru samþykktar einróma á fundi íþrótta- og tómstundaráðs 21. maí 2010.
Frestað.
13. Lagt fram bréf frá samtökunum Börnunum okkar, dags. 14 mars sl., þar sem tilkynnt er um nýja stjórn samtakanna. Formaður er Rósa Steingrímsdóttir og varaformaður Hlín Eyglóardóttir. Í sama bréfi er tilkynnt um nafnabreytingu samtakanna og eru þau nú
samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík. Áheyrnarfulltrúi í menntaráði er Rósa Steingrímsdóttir og varamaður er Gauti Marteinsson

Fundi slitið kl. 16.10

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Erna Ástþórsdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Stefán Benediktsson