Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2011, 23. febrúar, var haldinn 139. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:39. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Hildur Skarphéðinsdóttir, staðgengill sviðsstjóra Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir, Steinunn Hjartardóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 14. febrúar sl. um systkinaforgang í leikskóla Reykjavíkurborgar.
Frestað.

2. Lagt fram yfirlit, sundurliðun á hagræðingu Menntasviðs árið 2011. Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri og Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs kynntu stöðuna.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:

Fulltrúa Vinstri grænna finnst óásættanlegt hversu margir liðir fjárhagsáætlunarinnar eru því marki brenndir að meirihluti menntaráðs geti ekki gert grein fyrir þeim með fullnægjandi hætti. Enn er á huldu hverjar forsendur einstakra útgjaldaliða eru. Það er nauðsynlegt að framsetning áætlunarinnar sé með þeim hætti að utanaðkomandi geti skilið hana án mikillar fyrirhafnar. Eins veltir fulltrúinn því fyrir sér af hverju meirihlutinn hefur ekki hafið vinnu við þriggja ára fjárhagsáætlun. Á niðurskurðar-tímum skiptir sköpum að vera fyrirhyggjusamur og skipulagður og setja sér skýr markmið. Finnst fulltrúanum gæta nokkurs kæruleysis í vinnuaðferðum meirihlutans og hann skorta skipulagsvitund og framtíðarsýn í störfum sínum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Ekki er um neinar breytingar á framsetningu fjárhagsáætlana að ræða og forsendur þær sömu og hafa verið um nokkra ára skeið. Embættismenn og kjörnir fulltrúar hafa lagt sig í líma við að útskýra fjárhagsáætlunina og upplýsingar standa öllum ráðsmönnum og áheyrnarfulltrúum ávallt til boða. Þriggja ára áætlanir síðastliðinna þriggja ára hafa tekið mið af þeirri óvissu sem er í samfélaginu vegna efnahagsástands ríkis og sveitarfélaga og hefur verið sátt um það á vettvangi borgarstjórnar. Endurskipulagning þvert á svið leikskóla, grunnskóla og frístunda sem fram fer í starfshópi um greiningu tækifæra mun skila til framtíðar mikilli hagræðingu. Markmiðið þar er skýrt, að standa vörð um skóla- og frístundastarf, nýta betur húsnæði og aðstöðu og nýta fjármuni í skóla- og frístundastarfið sjálft, í stað þess að auka á rekstrar- og byggingarkostnað með nýbyggingum og viðbyggingum. Það lýsir fyrirhyggju og ábyrgð, ekki kæruleysi.

3. Lagt fram svar fræðslustjóra, dags. 21. febrúar sl. við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna frá fundi ráðsins 26. janúar sl., um hagræðingu á Menntasviði og aðkomu foreldra og starfsmanna að þeirri vinnu.

4. Lögð fram innkomin erindi vegna hagræðingar í leikskólum Reykjavikurborgar (8 erindi) og grunnskólum Reykjavíkurborgar (34 erindi).

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði fagnar þeim fjölmörgu erindum sem borist hafa frá skólaráðum, foreldrafélögum, fagkennurum, foreldrum og fleiri málsmetandi aðilum. Það er von fulltrúans að meirihlutinn bregðist við gagnrýnisröddum sem berast um sameiningar, samrekstur og niðurskurð á Mennta- og Leikskólasviði og endurskoði afstöðu sína í ljósi þeirra. Fulltrúi Vinstri grænna tekur undir þær áhyggjur sem foreldrar og starfsfólk hefur og ítrekar mikilvægi þess að á niðurskurðartímum eigi ávallt að setja börn og ungmenni í forgang við alla ákvarðanatöku.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs er mjög opinn fyrir öllum hugmyndum sem beinast að því að stuðla að betra skólastarfi og hefur skoðað öll erindi sem borist hafa frá skólaráðum, foreldrafélögum, fagkennurum, foreldrum og fleiri málsmetandi aðilum. Meirihluti menntaráðs tekur mikið mark á allri þeirri málefnalegri gagnrýni sem fram hefur komið og mun hafa hana að leiðarljósi í frekari vinnu sem fram undan er. Að öðru leyti er vísað í fyrri bókanir um forgangsröðun meirihlutans, í þágu ungra barna sem þurfa leikskólapláss, í þágu kjara starfsfólks sem hefur lægstu launin í leikskólunum og í þágu skólastarfs í grunnskólum með því að draga til baka fyrirhugaða hagræðingu á kennslumagni.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:

Börnin okkar fagna þeim erindum sem borist hafa um niðurskurð og sameiningar-hugmyndir í leikskólum. Við skorum á meirihlutann að bregðast við gagnrýnisröddum sem berast um sameiningar, samrekstur og niðurskurð á Leikskólasviði og endurskoði afstöðu sína í ljósi gagnrýnisradda.
Börnin okkar harma þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við undirbúning
niðurskurðar í menntakerfi borgarinnar. Við mótmælum því að gefa sér, að ekkert annað komi til greina en niðurskurður og sameiningar og hvetjum borgina til að setja börn og ungmenni í forgang. Í uppsiglingu er mesta bakslag í leikskóla- og menntamálum sem um getur.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs bendir á að í fjárhagsáætlun þessa árs er forgangsraðað í þágu innra starfs leikskólanna og þeim hlíft við frekari hagræðingu. Eins var staðinn vörður um kjör starfsfólks sem hefur lægstu launin í leikskólunum og tæplega 500 milljónum bætt í ramma Leikskólasviðs á milli ára til að mæta einum stærsta árgangi Íslandssögunnar sem þarfnast leikskóla- og dagforeldraplássa á þessu ári. Sameiningar hafa verið skoðaðar síðastliðin tvö ár á Leikskólasviði og mörg sveitarfélög hafa endurskipulagt rekstur og yfirstjórn sinna skóla síðustu ár. Ekki yrði ráðist í slíkar breytingar ef það teldist vera neikvæð skólaþróun, þvert á móti felast í því fagleg tækifæri og umfram allt tækifæri til að standa betur vörð um skólastarfið sjálft, þó breytingar verði á yfirstjórn.

Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:

SAMFOK mótmælir þeim niðurskurði sem nú stendur eftir í grunnskólum Reykja-víkur. Foreldrar hafa sýnt niðurskurðaraðgerðum fyrri ára skilning en þolinmæði þeirra er þrotin eins og skýrt kom fram á fundi foreldra með borgaryfirvöldum í síðustu viku og fjölmörg erindi foreldra og foreldrafélaga til menntaráðs gefa til kynna. Foreldrar telja ekki mögulegt að skera meira niður í grunnskólunum án þess að það bitni á þjónustu við nemendur og kalla enn og aftur eftir því að borgin
forgangsraði fjármunum sínum í þágu barna og ungmenna.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Meirihluti menntaráðs gerir sér grein fyrir að áhyggjur foreldra eru miklar en bendir á að stakkurinn er mjög þröngt skorinn vegna aðstæðna. Hagræðing Menntasviðs á þessu fjárhagsáætlunarári er ekki nema brot af því sem hann var í fyrra og hitteðfyrra. Borgin forgangsraðar fjármunum sínum enn frekar í þágu barna og ungmenna á þessu ári en undanfarin ár. Fyrir liggur að endurskipuleggja skóla- og frístundastarf barna og unglinga þvert á svið og það mun skila sér í því að auðveldara verður að standa vörð um skóla- og frístundastarf.

- Kl. 14:44 vék Þorgerður Diðriksdóttir af fundi.

5. Staða mála í starfshópi um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Kristín Egilsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Oddný Sturludóttir gerðu grein fyrir málinu.

- Kl. 16:15 vék Ragnar Þorsteinsson af fundi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Á síðustu vikum hafa hugmyndir, sem verið hafa til skoðunar í starfshópi um samrekstur og/eða sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, spurst út og valdið mikilli ólgu, óánægju og kvíða meðal foreldra skólabarna sem og hjá stjórnendum og starfsmönnum umræddra borgarstofnana. Á fjölmennum fundum foreldra skólabarna í Ráðhúsi Reykjavíkur á þriðjudag og fimmtudag í liðinni viku, kom í ljós svo ekki verður um villst að meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins hefur mistekist að standa með farsælum hætti að frekari hagræðingu og ljóst er að henni er stefnt í voða ef ekki verður nú þegar brugðist við með réttum hætti og þessu nauðsynlega verkefni komið í sáttafarveg. Þess vegna þarf að auka samráð og besta leiðin til þess er að gefa fulltrúum hagsmunaaðila beina aðild að þeirri mikilvægu vinnu, sem á sér stað í umræddum starfshópi. Með slíkri aðild væri tryggt að sjónarmið foreldra, stjórnenda og starfsmanna hefðu raunverulegt vægi í þessari vinnu og líklegt er að hún dragi úr tortryggni, sem ætíð er til staðar þegar samráð er af skornum skammti. Því er harmað að meirihlutinn hafi í borgarráði hafnað tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fulltrúum helstu hagsmunaaðila, t.d. samtaka foreldra, kennara, starfsfólks í leikskólum og skólastjórnenda, verði boðið að taka sæti í umræddum starfshópi og hafi þannig raunverulega aðkomu að þeirri vinnu sem þar á sér stað.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:

Þegar hefur verið samþykkt tillaga þess efnis að áheyrnarfulltrúar í menntaráði og forstöðumenn frístundaheimila ÍTR, auk starfsfólks frístundaheimila, verði upplýstir um vinnu starfshópsins og þær hugmyndir sem nú er unnið með, með reglulegum fundum. Áheyrnarfulltrúar koma frá eftirtöldum samtökum: Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Samtök foreldrafélaga leikskólabarna í Reykjavík, Kennarafélag Reykjavíkur, starfsfólk í leikskólum, Félag stjórnenda í leikskólum, Félag skólastjórnenda í Reykjavík. Framundan eru enn frekari fundir í hverfum borgarinnar sem og mikilvægur undirbúningur innleiðingar nýrra sameinaðra skóla, sem foreldrar og starfsfólk taka virkan þátt í, sem og undirbúningur annarra breytinga í skóla- og frístundastarfi barna í Reykjavík. Sumar hugmyndanna munu ná enn frekari þroska í samráði við foreldra á komandi mánuðum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar samtaka foreldra, skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna borgarinnar hafa margoft og ítrekað kvartað yfir skorti á samráði vegna þeirra hagræðingarhugmynda sem nú er unnið að. Slíkur samráðsskortur hefur leitt til mikillar óánægju í borginni og þess að umrædd vinna er ekki í farsælum farvegi. Ekki verður fallist á að nægilegt sé að halda fulltrúum umræddra hópa upplýstum um vinnu starfshópsins, mun æskilegra er að gefa þeim beina aðild að þeirri mikilvægu vinnu, sem þar á sér stað og er enn harmað að meirihlutinn skuli hafa hafnað tillögu þess efnis.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:

Harma verður þá óánægju sem upp kom á síðustu vikum, en eins og fram er komið er sameiningarstarfið rétt að hefjast og langt og vonandi farsælt samstarf framundan með öllum hlutaðeigandi aðilum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:

Grundvöllur farsællar niðurstöðu í viðkvæmum málum er að hagsmunaaðilum sé gefinn kostur á fullu samráði og raunverulegri aðkomu frá fyrstu stigum vinnunnar. Því miður hafa fulltrúar meirihlutans skellt skollaeyrum við slíkum óskum og er það harmað. Hins vegar er tekið undir óskir um að farsælt samstarf sé framundan með öllum hlutaðeigandi aðilum.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Með hvaða hætti er áætlað að standa vörð um styrkleika og séreinkenni hvors skólastigs í sameinuðum leik- grunnskóla?

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Börnin okkar óska eftir tilvísun í rannsóknir á sameiningum leikskóla.

6. 6. lið útsendrar dagskrár frestað.

7. Lögð fram ársskýrsla Náttúruskóla Reykjavíkur fyrir árið 2010.

8. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að allar ákvarðanir vegna hagræðingar séu ávallt tengdar áhrifa á barnið og nemandann. Til þess að það sé skýrt þarf ýtarlegar upplýsingar um fjárhagsáætlanir og ákvarðanir um áhrif hagræðingar eða niðurskurðar. Óskað er eftir að á næsta fundi menntaráðs liggi fyrir ýtarleg gögn um hagræðingu í skólum og leikskólum. Í því plaggi verði útlistað:
1. Hvaða liðir keyrðu framúr í rekstri beggja skólastiga og sviða á síðasta ári.
2. Hvaða liðir sem keyrðu framúr hafa verið bættir og hvernig þeir voru bættir.
3. Hvaða liðir sem keyrðu framúr verði mætt með hagræðingu/breytingu.
4. Hvernig sú hagræðing verði ákveðin og innleidd og hvenær (t.a.m. með langtímaforföllum og sérkennslu).
5. Óskað er eftir yfirliti yfir sérkennslukostnað, sundurliðuðu, fyrir bæði sviðin með skýrum upplýsingum um hvaða upphæðir þarf að hagræða fyrir og hvernig.
6. Óskað er eftir skýrum upplýsingum um framúrkeyrslur á báðum sviðum og útlistun á hvernig hún er tilkomin.
7. Einnig er óskað eftir skjali sem sýnir hvað heildarhagræðingin þýðir framreiknað fyrir ársgrundvöll 2012 við hlið útlistunar fyrir árið í ár. Óskað er eftir slíku yfirliti sundurliðuðu fyrir hvern skóla.
8. Óskað er eftir minnisblaði sem sýnir heildartölur þær sem áætlað er að spara við samrekstur leik- og grunnskóla og frístundaheimila á þessu ári og framreiknað fyrir árið 2012.
9. Óskað er eftir upplýsingum um hvaða heildarhagræðingarkrafa er gerð samtals á þessi þrjú svið vegna þessara sameiningaráforma og hvernig sú hagræðing mun skila sér aftur inn í skólakerfið.

9. Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra lagði fram svohljóðandi fyrirspurnir:
1. Hversu margir leikskólar skiluðu rekstrarafgangi fyrir árið 2010?
2. Hver er heildarupphæð rekstrarafgangs leikskólanna fyrir árið 2010?
3. Hversu margir leikskólar voru með rekstrarhalla fyrir árið 2010?
4. Hver er heildarupphæð rekstrarhalla leikskólanna fyrir árið 2010?

Fundi slitið kl. 16:44

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir