Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ


Ár 2010, 24. nóvember var haldinn 134. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í sal Miðbæjarskólans að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 12.40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 22. nóvember sl., um embættisafgreiðslu erinda sem borist hafa menntaráði, þrjú mál.

2. Lögð fram umsögn menntaráðs, dags. 22. nóvember sl., um tillögu fulltrúa Besta flokks, Samfylkingar og Vinstri grænna, um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Jafnframt lagt fram á ný bréf Önnu Kristinsdóttur mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, dags. 4. nóv. sl., um tillöguna og einnig minnisblað fræðslustjóra, dags. 22. nóvember sl., um innkomin erindi vegna tillögunnar.

- Kl. 12.53 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
- Kl. 13.05 tók Stefán Benediktsson sæti á fundinum.

Umsögn menntaráðs lögð fram með svohljóðandi breytingu á h) lið: Þær stofnanir borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð tryggi að samráð verði haft við þá sem áfallið snertir áður en kallað er til fagaðila til stuðnings. Í nærsamfélagi leik- og grunnskólans gæti verið um að ræða prest hverfisins, sálfræðing í þjónustumiðstöð eða aðra fagaðila. Helgistundir sem tengjast viðbrögðum við áfalli skulu fara fram utan skólatíma.
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá.

Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:

Stjórn SAMFOK lýsir yfir ánægju sinni með og tekur heils hugar undir umsögn menntaráðs um tillögu um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa. Stjórnin hefur þó eina athugasemd varðandi b) lið en hún telur ekki að það stríði gegn mannréttindum eða flokkist undir trúboð að trúar- og lífsskoðunarfélög fái að kynna starfsemi sína á skólatíma með svipuðum hætti og íþróttafélög, skátahreyfingin eða aðrir slíkir hópar og afhenda þeim bæklinga, bækur eða annað sem því tengist. Slíkt geti ennfremur leitt til opinskárrar umræðu, leidda af foreldrum, um trúmál heima fyrir sem hljóti að teljast til sjálfsagðra mannréttinda barna, sbr. 13. og 14. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að barn eigi rétt á því að fá upplýsingar og hafa eigin trúarskoðanir ef þær brjóta ekki réttindi annarra og foreldrar eigi að leiðbeina börnum sínum í þessum málum. Sú leiðbeining getur ekki farið fram með þöggun og útilokun alls sem tengist trú úr umhverfi barnsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lýsa yfir andstöðu við fram komna tillögu mannréttindaráðs og telja skýrslu Mennta- og Leikskólasviðs frá 2007 um samstarf kirkju og skóla vera afar góðan ramma um samstarf þessara aðila. Þar segir orðrétt í niðurstöðum: „Samskipti leik- og grunnskóla við trúar- og lífsskoðunarhópa einkennist af skilningi og virðingu fyrir hlutverki hvors annars. Stofnanir eru meðvitaðar um ólíkar forsendur fyrir starfi hvors annars og virða þau lög, reglur og samþykktir sem í gildi eru fyrir þessar stofnanir og samfélagið í heild.“ Tillögur að reglum mannréttindaráðs um samskipti skóla og trúfélaga eru í heild sinni hið furðulegasta mál og kemur öllum er fjallað hafa um á óvart. Í fyrsta lagi endurspeglar tillaga meirihluta mannréttindaráðs ekki umburðarlyndi eða jafnræði heldur einkennist hún af miðstýringu og boðvaldi. Í öðru lagi eru þessar róttæku reglur aðeins unnar á grundvelli 22 kvartana sem hafa borist mannréttindaskrifstofu úr skólakerfi sem þjónar rúmlega 20.000 nemendum. Í þriðja lagi eru samvinna og samstarf við skóla og trúfélög engin. Á auðveldan hátt hefði verið hægt að vanda betur til verka með því að ná fram víðtækri samstöðu við foreldra, kennara og starfsmenn skóla, nemendur, fræðimenn, þjóðkirkju og trúar- og lífsskoðunarfélög með það að markmiði að leggja mat á hvort ástæða sé til þess að endurmeta samstarf trúar- og lífsskoðunarfélaga við grunnskóla og leikskóla í Reykjavík. Í fjórða lagi gengur sú hugsun í tillögunni um boð og bönn gegn þeirri hugmyndafræði sem búið er að innleiða í skólasamfélagið í mörg ár, að skólinn hafi mikið sjálfstæði og að stofnanir, félög og fyrirtæki í hverju hverfi vinni náið með skólasamfélaginu. Tillögurnar nú útiloka einn lykilþátttakanda í þessu mikilvæga samstarfi og fela í sér vantraust á starfsfólk skólanna, sem hingað til hefur verið treyst til að virða mörk skóla og samstarfsaðila. Dæmin um samstarf stofnana og starfsemi trúar- og lífskoðunarhópa á skólatíma eru fjölmörg og uppbyggileg og fela ekki í sér trúboð. Dæmi eru um að skólar brautskrái elstu nemendur við hátíðlega athöfn í kirkju sem er í næsta húsi, að starfsmenn kirkju komi og kynni fyrir leikskólabörnum hvað er að gerast í kirkjunni á daginn þegar þau sjá reglulega líkfylgd frá leiksvæði sínu og samstarf kirkju og skóla um nafnlaus framlög til að greiða niður matargjöld barna sem eiga um sárt að binda. Með tillögum meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins verður allt slíkt samstarf bannað. Fjölmörg önnur dæmi eru um persónuleg, vinaleg og félagsleg tengsl kirkju og skóla auk þess sem tengsl kristinnar trúar og íslenskrar menningar hafa um aldir verið svo samofin að erfitt er og óæskilegt að draga línu þar á milli.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna getur ekki fallist á umsögn meirihluta menntaráðs við tillögur mannréttindaráðs um samskipti leik- og grunnskóla og trúar- og lífsskoðunarhópa, enda ekki tekið mið af sjónarmiðum Vinstri grænna þar. Við vinnslu tillögunnar þarf að hafa í huga að ný aðalnámskrá grunn- og leikskóla tekur gildi í byrjun árs 2011. Er eðlilegt að tekið sé tillit til þess og að allir liðir tillögunnar samræmist innihaldi hennar. Þá áréttar fulltrúi Vinstri grænna að mannréttindi eru algild og óhagganleg. Er því eðlilegt að tillagan taki ekki mið af stundarhagsmunum. Þá er áréttað að tillagan var afrakstur samstarfs þriggja flokka og var mikil eining um hana í mannréttindaráði. Ætti hún því að hafa sama stuðning þessara sömu þriggja flokka í menntaráði sem virðist því miður ekki nást. Viðbætur meirihlutans við lið h) eru aðfinnsluverðar og mikil afturför við nokkuð skýra tillögu mannréttindaráðs. Sú tillaga meirihlutans að bæta við prestum hverfisins ef áföll verða er í skýrri andstöðu við það markmið. Þar fyrir utan verður ekki séð að rökfærsla meirihlutans um að prestar séu fagaðilar í áfallahjálp standist þrátt fyrir einhverja þjálfun í „sálgæslu“ í guðfræðináminu og auðvitað þá þekkingu sem þeir væntanlega hafa á nærsamfélaginu. Er upphaflegur texti mannréttindaráðs fullnægjandi og skýr og felur í sér að hægt er að kalla til presta ef forsvarsmenn skólans og foreldrar nemanda sem fyrir áfallinu verða samþykkja það. Einnig telur meirihlutinn að ekki fari fram trúboð í tilfellum þar sem prestar koma að áfallahjálp. Erfitt er að sjá hvernig sérfræðingar í kristinni trú geta veitt áfallahjálp sem ekki grundvallast á menntun þeirra og trúarsannfæringu. Sérfræðimenntun og kunnátta presta er fyrst og fremst á sviði guðlegra málefna og ætti því ekki að geta þeirra sérstaklega í lið h). Ekki þarf að hafa orð um það meir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Skýrsla starfshóps frá 2007 um samstarf skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa kvað einmitt á um að starfsreglur skorti svo sátt megi nást um samstarf skóla og t.d. þjóðkirkjunnar. Allir sem starfa að fræðslumálum hljóta að vera sammála um að trúboð á ekki rétt á sér í skólum á skólatíma, þar á hins vegar að fara fram fræðsla um kristin fræði jafnt sem önnur trúarbrögð, af hálfu kennara.
Ekki er ætlunin að takmarka sjálfstæði skóla í Reykjavík. En í ljósi mikilvægi skólans og með tilliti til þess að öll börn á skólaaldri ganga í grunnskóla og nær öll börn í leikskóla er brýnt að hlutverk skólans sé skýrt. Þá reynir á jafnræði og jafnvægi og að sérstaða skólans verði ekki túlkuð á mismunandi vegu. Í umsögn menntaráðs koma fram svipaðar áhyggjur og Sjálfstæðisflokkur viðrar, þ.e. að leikskólar geti ekki farið í vettvangsheimsóknir í kirkju hverfisins. Ekkert í reglum mannréttindaráðs kemur þó í veg fyrir að húsnæði kirkjunnar verði nýtt t.d. undir útskriftarathafnir grunnskólanema, enda sé þar ekki um trúarathöfn að ræða heldur athöfn á vegum skólans. Í samræðum við skólastjóra bæði leik- og grunnskóla kom fram óvissa með þann hluta tillagnanna sem snéri að áfallaráðum skóla og því þykir meirihluta menntaráðs mikilvægt að árétta að, að höfðu samráði við hlutaðeigandi, geti skólar áfram notið liðsinnis presta ef áföll verða.

3. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að fela fræðslustjóra og sviðsstjóra Leikskólasviðs að stofna starfshóp sem hefur það hlutverk að rýna og endurskoða úthlutunarreglur Mennta- og Leikskólasviðs varðandi fjármagn til sérkennslu í almennum grunnskólum, leikskólum, sérskólum og sérdeildum. Unnið verði með það markmið í huga að samræma sem kostur er úthlutunarreglur beggja sviða þannig að nýjar úthlutunarreglur komi sem best til móts við sérkennslu- og þjónustuþarfir einstakra leikskólabarna, grunnskólanemenda og nemendahópa.
Greinargerð fylgir.

4. Lögð fram drög að breyttum viðmiðunarreglum um úthlutun fjármagns vegna barna af erlendum uppruna ásamt minnisblöðum sviðsstjóra dags. 16. nóvember sl. og 22. febrúar 2008. Drög að viðmiðunarreglum lögð fram með þeirri breytingu að í upphafi 1. gr. fyrsta málsliðs komi fram að úthlutun fari fram einu sinni á ári í janúar.
Samþykkt efnislega.

5. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að vísa því til borgarráðs að hafinn verði undirbúningur að breyttri ráðstöfun þeirra fjármuna sem Reykjavíkurborg hefur veitt til tónlistarskóla á grundvelli þjónustusamninga. Þjónustukaup Reykjavíkurborgar verða byggð á faglegri stefnu menntaráðs um tónlistarfræðslu sem nú er í vinnslu. Undirbúningur verður unninn í samstarfi Menntasviðs Reykjavíkurborgar, innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar og skrifstofu borgarlögmanns. Ráðstöfun Reykjavíkurborgar á fjármunum til tónlistarskóla mun fara fram með hinu breytta sniði frá og með skólaárinu 2011-2012.

Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi SAMFOK vill koma á framfæri þeirri skoðun sinni að óásættanlegt sé, á meðan grunnskólinn stendur frammi fyrir gríðarlegum niðurskurði, að Reykja-víkurborg greiði niður tónlistarnám fyrir 16 ára og eldri.

6. Skipan í starfshópa.
Samþykkt að skipa Ernu Ástþórsdóttur, Drífu Baldursdóttur, Kára Sölmundarson, Stefán Benediktsson, Hildi Skarphéðinsdóttir, Kristínu Bjarnadóttur, Ingibjörgu Kristleifsdóttur, og Stellu Marteinsdóttur í starfshóp um hvatningarverðlaun menntaráðs vegna leikskóla Reykjavíkur. Erna verður formaður.
Samþykkt að skipa Friðrik Dag Arnarson í starfshóp um hvatningarverðlaun menntaráðs vegna grunnskóla Reykjavíkur sem fulltrúa Vinstri grænna.
Samþykkt að skipa Bryndísi Jónsdóttur sem fulltrúa SAMFOK í stýrihóp BRÚAR – samráðsvettvangs um skólamál.

Fundi slitið kl. 15.10

Oddný Sturludóttir

Erna Ástþórsdóttir Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé Kjartan Magnússon
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir