Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Menntaráð

Ár 2007, 5. nóv. kl. 13:00 var haldinn 64. fundur menntaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir, Friðrik Dagur Arnarson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Áslaug Friðriksdóttir. Auk þeirra sátu fundinn Sigrún Ólafsdóttir og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúar Kennarafélags Reykjavíkur, Óskar Einarsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Bergþóra Valsdóttir áheyrnarfulltrúi SAMFOKs. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson, fræðslustjóri, Valgerður Janusdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir og Jón Ingi Einarsson.
Fundargerð ritaði Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf fræðslustjóra um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, tvö mál.

2. Formaður kynnti ,,Brú” – umræðuvettvang leikskóla- og menntaráðs.

Tillaga meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og F-lista:
Menntaráð samþykki að setja á laggirnar umræðuvettvang leikskóla- og menntaráðs, ,,Brú”. Markmið Brúar er að standa fyrir opnum fundum þar sem gefst tækifæri fyrir alla þá aðila sem tengjast skólastigunum tveimur að setja fram hugmyndir, kynna verkefni sín og ræða samstarf skólastiganna. Hlutverk Brúar er eingöngu að vekja umræðu og vettvangurinn mun á engan hátt ganga inn á verksvið leikskóla- og menntaráðs.
Ábyrgðarmenn Brúar eru sviðsstjórar beggja sviða í nánu samstarfi við bæði ráð.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt .

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að nýr meirihluti hafi ákveðið að sameina ekki Menntasvið og Leikskólasvið. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Frjálslyndra vísa í að ekki eigi að fara í fleiri breytingar í bili en eru heldur ekki með yfirlýsingar um sameiningu sviða. Þessu ber að fagna því reynslan af því að hafa tvö ráð er mjög góð að mati sjálfstæðismanna. Mjög mikilvæg verkefni voru og eru til umfjöllunar á báðum sviðum og ekki veitir af tímanum sem kjörnir fulltrúar fá með starfsmönnum sviða og áheyrnarfulltrúum tvisvar í mánuði. Sviðin sem starfa mjög náið saman um tvö menntastig og búa yfir þó nokkrum fjölda faglegra starfsmanna sem vinna fyrir bæði skólastigin og eru bæði orðin sterk og sérþekking mikil. Mun markvissari stýring verkefna og tengsl við kjörna fulltrúa eru kostir sem allir sjá að er raunveruleiki. Verkefnið nefnt Brú sem hér liggur fyrir í dag felur í sér ágæta viðbót við núverandi samstarf sviða og ráða. Mikilvægt er að þessi viðbót feli ekki í sér að umræða um sömu mál fari ekki fram í ráðum.

3. Lögð fram skýrsla starfshóps um málþroska og læsi í leik- og grunnskólum, júní 2007. Verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu kynnti helstu niðurstöður.

4. Lagt fram minnisblað um börn með lesröskun. Skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu gerði grein fyrir málinu.

Tillaga fulltrúa Samfylkingar, skv. 6. lið fundar menntaráðs frá 1. okt. 2007 lögð fram að nýju.

Formaður menntaráðs leggur fram svohljóðandi breytingartillögu, tillagan orðist svo:
Óskað er eftir því við fræðslustjóra að hann stofni framkvæmdahóp um bætta þjónustu við nemendur með sértæka lestrarerfiðleika.
Hópnum er ætlað að kanna hvernig staðið er að málefnum nemenda með sértæka lestrarerfiðleika í grunnskólum og koma með tillögur að bættri þjónustu. Hópurinn skal leita eftir ráðgjöf frá þeim aðilum á Íslandi sem hafa sérfræðiþekkingu á þessu sviði.
Í hópnum verði fulltrúar Menntasviðs, skólastjórnendur, kennarar og foreldrar.
Hópurinn geri úttekt á hvernig þörfum nemenda með sértæka leserfiðleika er mætt og geri menntaráði grein fyrir niðurstöðunni á fundi í janúar 2008.
Tillagan svo breytt samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna þessu mikilvæga skrefi til að bæta þjónustu við börn með sértæka lesröskun. Börn sem hafa átt við lestrarerfiðleika að stríða hafa í langan tíma ekki fengið fullnægjandi þjónustu og úrræði fyrir þau verið færri og óskýrari en ásættanlegt er. Það er tímabært að líta markvisst á stöðuna, hvað er í boði og hvað skortir. Mikilvægt er að fá frá starfshópnum m.a. tillögur að námsefniskosti og aðgangi að honum, kröfur um þá þjónustu sem foreldrar barna með lesröskun geta átt tilkall til og aðgang kennara að námskeiðum um kennsluaðferðir. Þá er mikilvægt að skoðaðar séu lausnir sem gera rafrænt kennsluefni aðgengilegra lesblindum.

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga um útvíkkun á starfi starfshóps um málefni tónmenntakennslu í grunnskólum Reykjavíkur.
Menntaráð samþykkir að breyta starfi starfshóps um málefni tónmenntakennslu í grunnskólum Reykjavíkur, sem samþykkt var á 55. fundi menntaráðs 7. maí 2007, í þá veru að starfshópurinn fjalli einnig um hvernig auka megi vægi listfræðslu í grunnskólum. Jafnframt verði óskað eftir því að Bandalag íslenskra listamanna tilnefni fulltrúa í hópinn.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt.

6. Lögð fram tillaga borgarstjóra um aðgerðir í starfsmannamálum til að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknarverðari vinnustað sem var lögð fram á fundi borgarráðs 19. okt. þ.m.

- Kl. 14.45 vék Áslaug Friðriksdóttir af fundi og Kristján Guðmundsson tók sæti á fundinum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í menntaráði styðja umræddar aðgerðir í starfsmannamálum enda byggja þær að miklu leyti á þegar undirbúnum tillögum fyrrverandi meirihluta. Að gefnu tilefni ber að ítreka að fyrrverandi meirihluti var ekki að fela þennan skelfilega vanda, þvert á móti voru ýmsar af þessum aðgerðum í farvegi. Það vekur hins vegar athygli að mörgu er ósvarað og sérstaka athygli vekur að barátta fyrrverandi minnihluta fyrir svonefndum TV-einingum til launahækkunar fyrir starfsmenn leikskóla er ekki nýtt. Ljóst má því vera að núverandi meirihluti hefur þegar látið af þeim áherslum og launabaráttu fyrir þennan hóp borgarinnar. Þá er ljóst að jafnræðis er ekki gætt hvað varðar þessar aðgerðir þar sem þeir sem eru ekki í fullu starfshlutfalli njóta meiri kaupmáttar en þeir sem eru í 100#PR stöðugildi.

Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og F-lista óska bókað:
Greiðslur TV-eininga eru kjarasamningsbundnar og koma að sjálfsögðu til framkvæmda um áramót. Fyrirkomulag á greiðslum vegna TV-eininga verður kynnt leikskólastjórum nú í nóvember eins og áætlanir mannauðsskrifstofu gerðu ráð fyrir áður en af meirirhlutaskiptum varð. Í 5. liða aðgerðaplani borgarstjóra í starfsmannamálum eru tíundaðar þær viðbótaraðgerðir sem nýr meirihluti ætlar að grípa til í starfsmannamálum. Því er ekki talin ástæða til að tíunda áður ákveðnar kjarasamningsbundnar aðgerðir.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska bókað:
Eins og fulltrúum meirihlutans er ljóst er verið að vísa í að flýta átti greiðslu TV- eininga. Alltaf stóð til að innleiða þær 1. janúar 2008, það hefur ekki breyst.

Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Vinstri grænna, Framsóknar og F-lista óska bókað:
Ef meirihlutaskipti hefðu átt sér stað strax í haust væri þessi gagnrýni eðlileg. Fyrrverandi meirihluti hafði ekki gert ráð fyrir að greiðslunum yrði flýtt og þar af leiðandi er nauðslynlegur undirbúningur vegna greiðslnanna á byrjunarreit. Nú eru tæpir tveir mánuðir í að TV-einingar komi til greiðslu samkvæmt kjarasamningi og undirbúningur miðaður við það.

7. Lagt fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa SAMFOKs frá fundi menntaráðs 3. sept. sl. um hlutfall deildarstjóra og sérkennara í almennri kennslu og fjölda stöðugilda leiðbeinenda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2007-2008. Starfsmannastjóri Menntasviðs gerði grein fyrir málinu.

8. Lagt fram bókarkorn Freyju Haraldsdóttur, Að sýna virðingu í verki, samstarf nemenda og stuðningsfulltrúa.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar útkomu vandaðs bókarkorns um samstarf nemenda og stuðningsfulltrúa sem mun styrkja þá í starfi sínu með nemendum með fötlun. Menntaráð felur jafnframt fræðslustjóra að skipuleggja dreifingu bæklingsins í skólasamfélaginu.

9. Lagðar fram upplýsingar um nemenda- og deildafjölda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2007 – 2008. Fræðslustjóri gerði grein fyrir málinu.

10. Oddný Sturludóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Marta Guðjónsdóttir voru tilnefndar fulltrúar menntaráðs í vinnuhópi um undirbúningsferli fyrir hönnun grunnskóla í Úlfarsárdal.

11. Lagt fram minnisblað um íslenskuverðlaun menntaráðs. Formaður starfshópsins, Marta Guðjónsdóttir gerði grein fyrir málinu.

12. Drög að starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2008 lögð fram.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi bókun:
Sjálfstæðisflokkurinn situr hjá við afgreiðslu starfsáætlunar menntaráðs fyrir árið 2007 enda byggir hún í öllum meginatriðum á þeirri menntastefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn í góðu samstarfi við aðra flokka hefur verið að vinna að undir forystu Júlíusar Vífils Ingvarssonar fráfarandi formanns menntaráðs. Þakkað er fyrir að tekið hefur verið tillit til ábendinga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytingar en ýmsar tillögur hafa ekki verið teknar til greina. Allar þær tillögur lúta að auknu sjálfstæði skóla og aukni vali fyrir foreldra. Óskað eftir að tillögur sjálfstæðismanna birtist í fundargerð með þessari bókun.

Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins á framtíðarsýn:

Nám við hæfi hvers og eins – markviss samvinna
1) Setningin falli brott: ,,Hann setur sér markmið, gerir áætlanir til að ná þeim og metur árangurinn í samráði við foreldra og kennara.” Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er í þessari setningu verið að vísa í innihald hugmyndafræðilegra þátta skólastefnu sem felur í sér að nemendur setji sér áætlanir og markmið á öllum aldursstigum. Sjálfstæðisflokkurinn vill að frelsi grunnskóla borgarinnar um val á skólastefnu sé sem mest.
2) Í kafla um námsmat bætist við: ,, Stefnt er að besta mögulega árangri nemenda og skóla á öllum sviðum náms og færni. Framfarir nemenda eru bornar saman við fyrri árangur hvers og eins.
3) Í stað ,,hæfileikar nemenda ... lífsleikni” komi ,,Hæfileikar nemenda njóta sín og námsframboð er fjölbreytt.”
4) Inn í texta komi setningin: ,,Mikilvægt er að efla nemendur í þekkingarleit sinni og þjálfa þá í sjálfstæðri og gagn¬rýnni hugsun.“
Skóli án aðgreiningar – jöfn tækifæri til náms
1) Inn í texta komi setningin: ,,Skólinn sé án aðgreiningar án tillits til þroska eða getu sem endurspeglist í því að öll skólastig og allir skólar sinni sérkennslu, nýbúum og bráðgerum börnum”.
2) Inn í texta komi setningin: ,,Sama fé fylgir barni óháð vali foreldra um skóla.”
3) Inn í texta komi setningin: ,,Unnið er útfrá hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar.”
Inn í texta komi setningin: ,,Skólastarf mótast af mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem byggir á jafnræðisreglunni og miðar að því að allir fái notið mannréttinda án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Grunnskólar taka í starfi sínu mið af fjölmenningarlegu samfélagi og nemendum tryggður jafn réttur til náms svo sem kostur er. “
Jákvæð sjálfsmynd – góð andleg og líkamleg líðan
1) Orðin ,,..um hlutverk kynja” falli brott enda er mikilvægt að vinna gegn alls kyns staðalmyndum.
2) Inn komi setningin ,, Í skólanum ríkir gagnkvæmt traust milli samstarfsaðila, foreldra, starfsmanna og nemenda.”
3) Inn í setningu um hollustu, hreyfing og heilbrigði bætist við orðið ,,öryggi”.
Sjálfstæði skóla – gæði og fagmennska.
1) Inn komi setningin: ,,Hver og einn skóli hefur sín einkenni, hugmyndafræði og þjónustu sem foreldrar geta kynnt sér á einfaldan hátt”
2) Setningin ,,jafnræði er á milli skóla í húsnæði og aðbúnaði” breytist í ,,Húsnæði og aðbúnaður í skólum borgarinnar er sambærilegur” enda er aldrei hægt að tryggja fullkomið jafnræði á milli skóla í húsnæði og aðbúnaði.
Náin tengsl skóla, foreldra og samfélags
1) Í stað grenndarsamfélags standi orðið ,,samfélag”
2) Setningin ,,Foreldrar taka ...” breytist í: ,,Foreldrar taka virkan þátt í námi barna sinna, eigi greiðan aðgang að upplýsing um all sem snýr að skólagönu þeirra og séu upplýstir um þann sameiginlega ávinning barnsins sem kemur með auknu samstarfi heimilis og skóla.“

Við bætist sjötti liður í framtíðarsýn, kaflinn fjölbreytileiki og sveigjanleiki:

Fjölbreytileiki – sveigjanleiki:
Skólar borgarinnar eru hvattir til að marka sér sérstöðu með því að leggja áherslu á ákveðna þætti í skólastarfinu, s.s. tónlist, myndlist, íþróttir og stærðfræði. Skólabragur og skólamenning eru í hávegum höfð og skólar efldir á eigin forsendum. Foreldrar geta valið um skóla fyrir börn sín. Stefnt er að fleiri valkostum og auknu vali fyrir nemendur í hefðbundnu námi og fjarnámi. Val nemenda og áhersla í námi byggi á styrkleikum og hæfileikum. Vægi list- og verkgreina er aukið og aukið val fyrir nemendur með listræna hæfileika. Sjálfstætt reknir skólar sem starfræktir eru í borginni auka enn frekar á fjölbreytt val foreldra og nemenda um áherslur í námi. Þeir búa við sömu starfsskilyrði og hafa sömu skyldur gagnvart nemendum, foreldrum og skólayfirvöldum og aðrir skólar. Skólabyrjun í grunnskóla er sveigjanleg og nemendur ljúka grunnskóla á mislöngum tíma.

Tillögur Sjálfstæðisflokksins um viðbót við skref 2008:
• Stofnaður sé starfshópur sem fer yfir hvort markmið sérkennslustefnu 2002 hafi náðst.
• Stofnaður sé starfshópur sem hefur það að leiðarljósi að búa til stefnu borgarinnar gagnvart sjálfstætt starfandi grunnskólum, setur fram skýrt ferli fyrir áhugasama rekstraraðila og tryggir að fé fylgi barni óháð vali foreldra á skóla.
• Hugað verði að þörfum bráðgerra barna í grunnskólum borgarinnar og verkefni innleidd til að mæta börnunum betur.
• Endurskoðuð verði viðmið vegna mats á þeim börnum sem vilja fara fyrr í grunnskóla.
• Bæta við í punkti um úrvinnslu á tillögum starfshóps um sveigjanleg skólaskil. Inn komi, ,,og könnuð formlega reynsla foreldra af börnum sem hafa farið fyrr í grunnskóla”.

Námsflokkar Reykjavíkur
Starfsemi Námsflokka Reykjavíkur verði endurskoðuð með það að markmiði að efla starfsemina enn frekar.
Þá verða rekstrarlegir þættir Námsflokka Reykjavíkur endurskoðaðir með hagræðingu í huga þannig að fjármunir nýtist betur í nám þeirra einstaklinga sem leita til Námsflokkanna.
Skref:
1. Einn náms- og starfsráðgjafi starfi við Námsflokka Reykjavíkur sem þjóni eingöngu nemendum Námsflokkana.
2. Út falli kaflinn í staðinn: Efla náms- og starfsráðgjöf.........
3. Öflugt grunnnám verði í boði fyrir þá nemendur sem ekki hafa lokið grunnskólanámi.
4. Námsflokkarnir bjóði upp á starfsnám fyrir dagforeldra.
5. Námsflokkarnir skipuleggi starfstengt íslenskunám fyrir starfsmenn borgarinnar af erlendum uppruna.
6. Námsflokkarnir bjóði upp á Landnemaskóla fyrir nýbúa þar sem kynning fer fram á íslensku samfélagi s.s. réttindi og skyldum, heilbrigðisþjónustu o.fl. þáttum sem gagnlegir eru fyrir þennan hóp til að aðlagast sem fyrst íslensku samfélagi.

Fjármálastjóri Menntasviðs gerði grein fyrir drögum að fjárhagsáætlun.
Starfs- og fjárhagsáætlun Menntasviðs 2008 vísað til borgarráðs.

13. Minnisblað um uppsetningu matarforrits í mötuneytum grunnskóla Reykjavíkur. Frestað.

14. Málefni nemanda - trúnaðarmál. Sérfræðingur á skrifstofu fræðslustjóra gerði grein fyrir málinu.
Tillaga fræðslustjóra að svari samþykkt.

15. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn vegna aðgerða í starfsmannamálum til að gera Reykjavíkurborg að eftirsóknarverðari vinnustað, sbr. 6. lið fundar og óskuðu eftir skriflegu svari á næsta fundi menntaráðs.
1. Eru þessi hlunnindi í lið 1 (heilsuræktarstyrkir, sundkort, bókasafnskort, aðgangskort á söfn ofl.) skattskyld?
2. Hvernig verður útfærslan á hlunnindum starfsmanna?
3. Hvaða meðferð fá þessi hlunnindi ef starfsmaður óskar ekki eftir þeim?
4. Hvernig verður útfærslan á lið 2 (til stofnana sem glíma við undirmönnun)? Hvernig verður peningum úthlutað, hversu miklar upphæðir fara til grunnskóla og hvernig er jafnræðis gætt?
5. Hversu margir starfsmenn eru að fá úthlutað greiðslum vegna liðs 5 (greiðsla til þeirra starfsmanna sem skylt er að matast með nemendum) í grunnskólum?
6. Er verið að nýta kjarasamninga og ákvæði í honum til fulls með þessm aðgerðum?
7. Eiga sjálfstætt starfandi grunnskólar að fá leiðréttingu á samningum í ljósi þessara breytinga? Ef ekki, hvers vegna ekki?

16. Áheyrnarfulltrúar Kennarafélags Reykjavíkur lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
1. Er kennd heimilisfræði í öllum skólum borgarinnar?
2. Hver kennir heimilisfræði?
3. Eru kennararnir með heimilisfræði sem kjörsvið?
4. Er ásættanlegt kennslueldhús í öllum skólum borgarinnar?
5. Er verið að kenna samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla?
Greinargerð fylgir.

Fundi slitið kl. 16:50

Oddný Sturludóttir
Anna Margrét Ólafsdóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Friðrik Dagur Arnarson Þorbjörg Helga VigfúsdóttirMarta Guðjónsdóttir Kristján Guðmundsson