Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ

Ár 2013, 20. febrúar, var haldinn 35. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi, Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.08. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður (S), Eva Einarsdóttir (Æ), Hilmar Sigurðsson (S), Kjartan Magnússon (D), Óttarr Ólafur Proppé (Æ), Sóley Tómasdóttir (VG) og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir (D).
Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Andrea Sigurjónsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Anna J. Waage, foreldrar barna í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Jóhannes Guðlaugsson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum.
Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristín Egilsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

Formaður bauð Önnu J. Waage, nýjan áheyrnarfulltrúa foreldra barna í leikskólum velkomna á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

1. Verkefni skóla- og frístundasviðs vegna kynjaðrar fjárhagsáætlunargerðar 2014. Lagðar fram tillögur að verkefnum til að vinna með aðferðum kynjaðarar starfs- og fjárhagsáætlunargerðar, frá starfsdegi skóla- og frístundaráðs þann 30. janúar 2013. Lögð fram skýrsla um þátttöku foreldra í foreldrafélögum leikskóla og grunnskóla, sem og í foreldraráðum leikskóla og skólaráðum grunnskóla, tilraunaverkefni skóla- og frístundasviðs í kynjaðri fjárhagsáætlunargerð, dags. í september 2012. Jafnframt lögð fram skýrsla um þátttöku 13-16 ára unglinga í félagsmiðstöðvastarfi á sviði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar, dags. í september 2012.
Helga Gunnarsdóttir fjármálafulltrúi á skóla- og frístundasviði og Héðinn Sveinbjörnsson rekstrarstjóri frístundamiðstöðvarinnar Frostaskjóls, kynntu skýrslurnar og svöruðu fyrirspurnum ásamt Birgi Birni Sigurjónssyni fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, Þór Steinarssyni, sérfræðingi fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Herdísi Sólborgu Haraldsdóttur, nýjum starfsmanni í kynjaðri starfs- og fjárhagsáætlunargerð. SFS2012060120

Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að leita leiða til að jafna hlutföll kynjanna í foreldraráðum leik- og grunnskóla í samráði við Samfok og Börnin okkar. Tillögur verði lagðar fyrir ráðið í framhaldinu. Skóla - og frístundaráð samþykkir einnig að áfram verði skoðuð þátttaka feðra og mæðra í foreldraviðtölum og öðru samstarfi heimila og skóla.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð fagnar góðum niðurstöðum í könnun um þátttöku unglinga í félagasmiðstöðvarstarfi, eftir kyni, viðfangsefni og einnig var kynjahlutfall starfsfólks skoðað. Könnunin var hluti af verkefni um kynjaða fjárhags- og starfsáætlunargerð. Ekki var afgerandi munur á heildarþátttöku unglinga eftir kynjum og er það ánægjulegt. Í flestum viðfangsefnum var kynjamunur varla merkjanlegur. Ráðið tekur undir niðurstöður starfshópsins um mikilvægi bættrar skráningar svo hægt sé að greina starfið í rauntíma eins ítarlega og þörf þykir. Að lokum er starfsfólk félagsmiðstöðva hvatt til að bjóða áfram upp á fjölbreytt tilboð og klúbbastarf og að stuðla að því að allir unglingar fái notið sín án hamlandi áhrifa staðalímynda kynjanna.

2. Áherslur og forgangsröðun í skóla- og frístundamálum 2014 til 2017. Lagt fram yfirlit yfir verk-efni frá starfsdegi skóla- og frístundaráðs þann 30. janúar 2013, auk yfirlits yfir áherslur og forgangsröðun á skóla- og frístundasviði 2013-2017. SFS2013020089

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. febrúar 2013:
Lagt er til að frá og með haustinu 2013 greiði SFS / Reykjavíkurborg til sjálfstætt starfandi grunnskóla utan Reykjavíkur vegna reykvískra nemenda sem þar stunda nám sama gjald og greitt er til sjálfstætt starfandi grunnskóla í Reykjavík, þ.e. 75#PR af raunkostnaði skv. útreikningi Hagstofunnar. Við þessa breytingu fá sjálfstætt starfandi skólar sem reka skóla bæði í Reykjavík og í einhverju af nágrannasveitarfélögunum sömu fjárhæð greidda með reykvískum nemendum hvort sem skólinn er starfræktur í Reykjavík eða í einhverju af nágrannasveitarfélögunum.
Greinargerð fylgdi. SFS2013020013
Samþykkt með sex atkvæðum og vísað til borgarráðs, Sóley Tómasdóttir sat hjá.

4. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 31. desember 2012, um hreyfingu og slökun sem hluta af námi. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. febrúar 2013, varðandi tillöguna. SFS2013010038

Svohljóðandi málsmeðferðartillaga samþykkt:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að hvetja skólastjóra til að íhuga hlut hreyfingar í námi barna og hlut slökunar í námsumhverfi barna í skólum borgarinnar.

5. Skipan í starfshóp um stefnumótun skóla- og frístundasviðs um hjólreiðar barna og unglinga í Reykjavík. Samþykkt að skipa í starfshópinn Karl Sigurðsson (Æ), Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur (D), Sóleyju Tómasdóttur (VG) og Oddnýju Sturludóttur (S) sem jafnframt verður formaður. SFS2013010068

- Hlé gert á fundinum frá 12.10 til 12.35.
- Kl. 12.35 vék Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir af fundi og Hildur Skarphéðinsdóttir tók þar sæti.

6. Lögð fram starfsáætlun skóla- og frístundasviðs 2013. Guðrún Hjartardóttir verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012100012

7. Foreldravefur Reykjavíkurborgar. Guðrún Hjartardóttir verkefnastjóri á skóla- og frístundasviði og Sigrún Björnsdóttir upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, kynntu og svöruðu fyrirspurnum.

Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð þakkar ritstjórn nýs foreldravefjar fyrir frábær störf. Vefurinn er aðgengilegur, fróðlegur, læsilegur og fallegur. Bravó!

Áheyrnarfulltrúar foreldra leik- og grunnskólabarna í skóla- og frístundaráði lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar foreldra leik- og grunnskólabarna lýsa yfir ánægju með opnun foreldravefs Reykjavíkurborgar. Á vefnum er viðamikið safn upplýsinga og góðra ráða sem mun án efa nýtast foreldrum vel.
8. Lögð fram skýrsla um niðurstöður Talnalykils, stærðfræðiskimunar í 3. bekk í grunnskólum Reykjavíkur, haustið 2012. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. febrúar 2013. SFS2012100104
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Niðurstöður úr stærðfræðiskimun sem tekin var í 3. bekk reykvískra grunnskóla vorið 2012 sýna að færri nemendur, eða 4,3#PR, teljast þurfa sérstakan stuðning í stærðfræði. Það er 2,0#PR lægra hlutfall en á árinu 2011 og lægsta hlutfallið á tímabilinu 2007-2012. Góðir kennarar skapa gott skólastarf og það má þakka öflugum og metnaðarfullum kennurum í grunnskólum borgarinnar fyrir sinn þátt í þessum góða árangri. Eftirlit skóla- og frístundasviðs með vönduðum skimunum er afar mikilvægt fyrir þróun skólastarfs og eru sviðinu færðar þakkir fyrir metnað þegar kemur að mati og eftirfylgni. Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra að óska eftir því við skólastjóra að þeir kynni niðurstöður Talnalykils fyrir foreldrum og stuðla þannig að því að upplýsingar um framfarir og stöðu nemenda séu sem aðgengilegastar á hverjum tíma.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði óska eftir tölfræðilegu yfirliti á Talnalykli frá 2007 fyrir hvern skóla fyrir sig í Reykjavík svo hægt sé að sjá lang-tímaárangur í þeim góðu niðurstöðum sem nú liggja fyrir.

9. Lagt fram bréf frá Börnunum okkar, samtökum foreldra leikskólabarna í Reykjavík, dags. 12. febrúar 2013, þar sem tilkynnt er að ný stjórn hafi verið kosin. Fram kemur að fulltrúi samtakanna í skóla- og frístunaráði er Anna J. Waage og varamaður Rannveig Óskarsdóttir. SFS2013020107

10. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 6. febrúar 2013:
Skóla- og frístundaráð beinir því til umhverfis- og skipulagssviðs að undirbúningur verði hafinn við endurgerð skólalóðar Breiðholtsskóla með það að markmiði að framkvæmdir geti farið fram á árinu 2014. Jafnframt verði lagður göngustígur frá lóðinni austanverðri að Gamla ÍR-vellinum og hún þannig tengd hverfinu betur en nú er. Þá er mikilvægt að sem fyrst verði ráðist í viðeigandi úrbætur á húsnæði skólans en ljóst er að viðhaldi hans hefur verið ábótavant að undanförnu. Víða í skólanum þarf t.d. að mála veggi, endurnýja gólfdúka, hurðir og vinna bug á rakaskemmdum. Þá þarf að endurnýja innréttingar í heimilisfræðistofu. SFS2013020099

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að beina því til umhverfis- og skipulagsviðs að skoða sérstaklega viðhaldsmál húsnæðis Breiðholtsskóla og skólalóðar. Þó er ekki tekin afstaða til þess hvar í forgangsröðun Breiðholtsskóli eigi að vera og er því treyst að faglegt mat með yfirsýn að leiðarljósi ráði því hvar í röðinni skólar og skólalóðir eru settar þegar kemur að viðhaldi.
Samþykkt.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja fyrirliggjandi málsmeðferðartillögu í trausti þess að slík skoðun leiði til þess að ráðist verði sem fyrst í viðeigandi úrbætur á húsnæði Breiðholtsskóla og að hafist verði handa við endurgerð skólalóðarinnar á árinu 2014. Málefni umræddrar skólalóðar hafa verið til umræðu í borgarkerfinu árum saman og ætti flestum borgarfulltrúum því að vera kunnugt um réttmæti þess að endurgerð hennar verði í forgangi.

11. Fulltrúi Vinstri grænna í skóla- og frístundaráði óskar eftir því að breytingartillaga Vinstri grænna við fjárhagsáætlun borgarinnar, varðandi ráðningu þriggja sérfræðinga, sem vísað var til sviðsins í desember, verði tekin til umfjöllunar á næsta fundi ráðsins.

Fundi slitið kl. 13.30

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Hilmar Sigurðsson
Kjartan Magnússon Óttarr Ólafur Proppé
Sóley Tómasdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir