Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2010, 3. nóvember var haldinn 131. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í sal Miðbæjarskólans að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 12.45. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Halldóra Guðmundsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, Skólastjórafélag Reykjavíkur; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, Félag stjórnenda í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Jón Hartmann Elíasson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram afrit af bréfi borgarstjóra til borgarráðs, dags. 21. október sl., um fjárhags-áætlun Reykjavíkurborgar 2011.
Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri og Kristín Egilsdóttir fjármálastjóri kynntu mögulega hagræðingu á leikskólasviði.

- Kl. 13.54 tók Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri sæti á fundinum.

Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri og Jón Ingi Einarsson fjármálastjóri kynntu mögulega hagræðingu á Menntasviði.

- Kl. 14.56 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu ekki á þessu stigi lýsa afstöðu sinni til einstakra tillagna sem ræddar hafa verið í ráðinu vegna fjárhagsáætlunar, enda skal um þær ríkja trúnaður þar til þær eru framlagðar í borgarráði. Hins vegar ítreka borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins mikilvægi þess að betur sé staðið að undirbúningsvinnu vegna fjárhagsáætlunar, eigi hún að skila borgarbúum góðum og farsælum lausnum. Sú staðreynd að skýra forgangsröðun skortir, engin aðgerðaráætlun er í gildi og meirihlutinn hefur lítið nýtt vilja borgarstjórnar til þverpólitískrar samvinnu, veldur því að ástæða er til að hvetja meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar enn og aftur til nýrra og betri vinnubragða vegna fjárhagsáætlunar. Tíminn er að vísu orðinn afar lítill, þar sem öll vinna vegna áætlunarinnar er langt á eftir settum tímaviðmiðum, en borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka engu að síður nauðsyn þess að sá tími verði vel nýttur og komandi fjárhagsáætlun endurspegli öfluga forgangsröðun í þágu íbúa, áframhaldandi góða grunnþjónustu og skilning á því að verkefnið verður ekki leyst með auknum álögum á íbúa sem treysta því að borgin standi áfram með þeim á erfiðum tímum.

Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:

Stjórn SAMFOK lýsir yfir áhyggjum sínum af fyrirhuguðum frekari niðurskurði í menntamálum og telur að menntakerfið sé nú þegar nærri þolmörkum. Skorað er á menntaráð/Reykjavíkurborg að finna leiðir til þess að tryggja að niðurskurður komi ekki niður á börnum. Þau börn sem nú eru að alast upp eiga aðeins eina æsku, aðeins eitt tækifæri til skólagöngu í grunnskóla. Það er ekki unnt að vinda til baka og bæta þeim upp það sem tekið væri af þeim nú. Öll börn eiga rétt á því að fá kennslu við hæfi og tækifæri til að nýta möguleika sína.

Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:

Fulltrúi skólastjóra lýsir þungum áhyggjum af áframhaldandi niðurskurði á fjármagni til grunnskóla Reykjavíkur þriðja árið í röð. Á undanförnum tveimur árum hefur fjármagn til grunnskóla borgarinnar verið skorið niður um rúm 13#PR og nú er boðaður 3#PR niðurskurður til viðbótar. Ekki verður séð hvernig þessum niðurskurði verði náð án þess að draga úr lögbundinni þjónustu skólanna við nemendur. Sé niðurskurður óumflýjanlegur í grunnskólum landsins verða menntayfirvöld, ríki og sveitarfélög, að koma sér saman um hvernig draga eigi úr starfi grunnskólans meðal annars með viðeigandi breytingum á lögum. Á sama tíma er nauðsynlegt að leggja áherslu á áframhaldandi gæði skólastarfs og vellíðan starfsmanna og nemenda í grunnskólum borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:

Börnin okkar, samtök foreldrafélaga og ráða, hafa þungar áhyggjur af fyrirhuguðum niðurskurði. Leikskólar borgarinnar eru nú þegar reknir við afar þröngan kost og óttumst við að boðaður niðurskurður sé ógn við rekstur þeirra, öryggi barna og faglegt starf í leikskólum. Við viljum minna á að í maí síðastliðnum kom starfsfólk leikskóla með ábendingar um að niðurskurður bitni á faglegu starfi innan leikskóla og í kjölfar þess bárust samtökunum, Börnin okkar, ábendingar sama efnis frá bæði foreldrum og starfsfólki leikskóla. Nú þegar eru uppi vísbendingar að kominn sé tími á endurnýjun margra leikskólalóða, sbr. eftirlitsskýrslur Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, og óttumst við um öryggi barnanna í borginni eigi eðlilegt viðhald sér ekki stað á leikskólum.

Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur óskaði bókað:

Fulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lýsir þungum áhyggjum af niðurskurði til menntamála í Reykjavík þriðja árið í röð. Þegar kreppir að í þjóðfélaginu er skólinn nemendum og fjölskyldum þeirra mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Gott skólastarf og góður aðbúnaður er öflugt tæki til þess að draga úr neikvæðum áhrifum ástandsins á börn og unglinga og til þess að jafna aðstöðu þeirra. Ef þrengt verður frekar að rekstri grunnskóla borgarinnar bitnar það alvarlega á gæðum skólastarfsins og hefur áhrif á hag og framtíð nemenda.

Áheyrnarfulltrúar Félags stjórnenda í leikskólum og starfsmanna í leikskólum óskuðu bókað:
Áheyrnarfulltrúarnir lýsa áhyggjum sínum á því að enn meiri niðurskurður í leikskólum borgarinnar kemur til með að bitna fyrst og síðast á gæðum skólastarfsins og þá um leið á börnum í borginni og fjölskyldum þeirra. Með enn frekari niðurskurði er hætta á að leikskólinn verði ekki spennandi valkostur sem vinnustaður og þar með taki gæði starfsins skref aftur á bak.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:

Fulltrúa Vinstri grænna í menntaráði finnst að meirihlutinn hefði mátt leggja skýrari línur og beita sér af alefli fyrir því að hlífa reykvískum börnum og ungmennum fyrir beinum og óbeinum niðurskurði. Fulltrúi Vinstri grænna vill brýna fyrir meirihlutanum að æska, innihaldsrík skólaganga og velferð barna á að vera í fyrirrúmi við alla ákvarðanatöku. Mikill niðurskurður til mennta- og uppeldismála á eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar sem gætu orðið óafturkræfar. Fulltrúi Vinstri grænna vill einnig beina því til meirihlutans að velta meira fyrir sér hvernig niðurskurður bitnar á faglegu starfi, gæðum náms og líðan barna frekar en að einblína á krónur og aura.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:

Fjárhagsáætlun Leikskóla- og Menntasviðs er enn í vinnslu og ekki tímabært að tjá sig um einstaka þætti hennar. Það liggur fyrir að verkefnið er ærið og morgunljóst að eigi að takast að loka fjárhagsáætlun án halla verður að grípa til endurskipulagningar í skólaumhverfinu. Sú endurskipulagning mun taka til allra þátta í skólastarfinu og leiðarljósið verður að horfa til langtímamarkmiða um samstarf og samrekstur í víðum skilningi. Eftir niðurskurð síðustu ára er ljóst að allur viðbótarniðurskurður verður sérstaklega sársaukafullur og stutt í að fari að bitna á þjónustu. Því er mikilvægt að nú verði horft til framtíðar með varanlegri endurskipulagningu. Í því felst ekki bara hagræðing til framtíðar, heldur einnig möguleikar á róttækum breytingum sem geta leitt til bóta í faglegu starfi. Einnig er mikilvægt að taka tillit til þess að allur sparnaður sem leiðir af varanlegum skipulagsbreytingum kemur ekki einungis fram sem hagræðing heldur ekki síður sem svigrúm sem skapar möguleika til enn betri og faglegri þjónustu í náinni framtíð. Í allri nálgun borgarstjórnar er þess gætt að málaflokkar sem snúa ekki að börnum og ungmennum taki á sig meiri hagræðingu en skólasviðin. Þakkað er fyrir gott samstarf við aðra fulltrúa í menntaráði við gerð fjárhagsáætlunar og góða brýningu áheyrnarfulltrúa sem lýsir sameiginlegum metnaði allra í menntaráði fyrir hönd barna og skólastarfs í Reykjavík.

2. Formaður sagði frá opnum borgarafundi í átakinu Stöðvum einelti, sem verður haldinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, miðvikudaginn 3. nóvember kl. 20:00.

Fundi slitið kl. 16.04

Oddný Sturludóttir

Erna Ástþórsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson