Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2010, 22. september var haldinn 129. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í fundarsalnum Hofi á Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:45. Fundinn sátu Óttarr Ólafur Proppé, varaformaður, Erna Ástþórsdóttir, Hanna Lára Steinsson, Líf Magneudóttir, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Halldóra Guðmundsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, Skólastjórafélag Reykjavíkur; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, Félag stjórnenda í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrslan Niðurstöður viðhorfskönnunar foreldra barna í skólahljómsveitum 2010, dags. í ágúst 2010. Ásgeir Björgvinsson, tölfræði- og rannsóknaþjónustu Mennta- og Leikskólasviðs kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum ásamt Laufeyju Ólafsdóttur, forstöðumanni tónlistarmála á Menntasviði.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar niðurstöðum viðhorfskönnunar foreldra barna í skólahljómsveitum. Í þeim kemur fram að ánægja foreldra með kennsluna er mikil. Eins er ánægjulegt að sjá að umbætur hafa átt sér stað á ýmsum sviðum frá árinu 2006, til að mynda hefur verið gert átak í heimasíðuvinnu og upplýsingagjöf sem skilar sér í meiri ánægju foreldra.

2. Lögð fram skýrslan Niðurstöður viðhorfskönnunar foreldra barna hjá dagforeldrum vorið 2010, dags. í september 2010. Ásgeir Björgvinsson, tölfræði- og rannsóknaþjónustu Mennta- og Leikskólasviðs kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum ásamt Sigríði Marteinsdóttur, leikskólaskrifstofu Leikskólasviðs.

- Kl. 13:15 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Ánægjulegt er að sjá hve ánægja foreldra með þjónustu dagforeldra er mikil og stöðug en yfir 90#PR foreldra eru ánægðir með þeirra þjónustu. Úr viðhorfskönnuninni má þó lesa í fyrsta lagi að foreldrar virðast ekki nægilega upplýstir um hvert skal leita innan borgarkerfisins ef eitthvað amar að og í öðru lagi að listar með nöfnum starfandi dagforeldra eru illa uppfærðir á heimasíðum þjónustumiðstöðva. Sviðsstjóra Leikskólasviðs er falið að vinna í samráði við þjónustumiðstöðvar að úrbótum.
Menntaráð óskar eftir því að í næstu viðhorfskönnun foreldra til þjónustunnar sé greint sérstaklega hvernig mishár kostnaður dagforeldra miðað við leikskóla annars vegar og aldur barns hins vegar hefur áhrif á hvenær foreldrar vilja að börnin þeirra komist í leikskóla.

3. Lögð fram skýrslan Niðurstöður viðhorfskönnunar dagforeldra vorið 2010, dags. í september 2010. Ásgeir Björgvinsson, tölfræði- og rannsóknaþjónustu Mennta- og Leikskólasviðs kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum ásamt Sigríði Marteinsdóttur, leikskólaskrifstofu Leikskólasviðs.

Bókun menntaráðs:
Það er ánægjulegt að sjá að áfram er mikil ánægja foreldra með dagforeldrakerfið eða um 90#PR. Einnig kemur fram að dagforeldrar eru ánægðir í starfi. Mikil og markviss vinna fór fram á síðasta kjörtímabili undir forystu Fannýjar Gunnarsdóttir til að bæta starfsumhverfi dagforeldra.
Mörg góð skref hafa verið tekin í átt að öflugra fagstarfi dagforeldra og að auki hefur eftirlit fjármálaskrifstofu og leikskólaskrifstofu eflst til muna. Mikilvægt er að fjárfesta í aukinni fræðslu fyrir dagforeldra enda er langur starfsfaldur dagforeldra merki um ákveðinn stöðugleika í starfsumhverfi þeirra.
Þrátt fyrir að á undanförnum árum hafi niðurgreiðslur með hverju barni hjá dagforeldri aukist um 50#PR eru foreldrar enn óánægðastir með þann mun sem er á gjöldunum til dagforeldra sem eru talsvert hærri en í leikskólum borgarinnar.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Í viðhorfskönnun meðal dagforeldra kemur í ljós að ánægja með þjónustu þjónustumiðstöðvanna dalar. Sviðsstjóra Leikskólasviðs er því falið að vinna í samráði við þjónustumiðstöðvar að úrbótum.

- Kl. 14:00 tók Bryndís Jónsdóttir sæti á fundinum.

4. Birna Sigurjónsdóttir, verkefnastjóri á Menntasviði, kynnti niðurstöður heildarmats í Vogaskóla.

Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur þakkar kærlega fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í heildarmat grunnskóla Reykjavíkurborgar. Skólar sem þegar hafa farið í gegnum heildarmat hafa haft af því mikið gagn. Umbótaáætlun sem unnin er í kjölfar heildarmats gefur stjórnendum og starfsmönnum skólanna tækifæri til að rýna vel starf sitt með það að leiðarljósi að bæta starfsemi hvers skóla. Grunnskólar sem enn eiga eftir að fá þessa frábæru þjónustu frá Menntasviði bíða fullir eftirvæntingar.

5. Lagt fram bréf Láru Björnsdóttur, fyrir hönd velferðarvaktar félags- og tryggingamála-ráðuneytisins, dags. 1. september sl., til sveitarstjórna með afriti til skólanefnda, félagsmálanefnda og íþrótta- og tómstundaráða. Efni: Ályktun velferðarvaktarinnar í upphafi skólaárs.

6. Lagt fram bréf Katrínar Jakobsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 3. september sl., til skóla á öllum skólastigum, sveitarfélaga, skólanefnda, foreldrafélaga og ýmissa hagsmunaaðila. Efni: Byggjum á bjartsýni og hlúum að velferð og vellíðan í skólum.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð óskar eftir að hópurinn Börnin í borginni, sem vaktar stöðu mála við þjónustu barna í Reykjavík á tímum efnahagsþrenginga, komi og gerir ráð fyrir stöðu mála. Hópurinn er mikilvægur til að veita kjörnum fulltrúum upplýsingar um velferð barna í borginni og ekki hefur verið kynnt staða mála síðan sl. vor.

7. Lögð fram skýrslan Úttekt á starfi leikskólans Sólborgar í Reykjavík, dags. í maí 2010, sem unnin var af Menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir mennta- og menningarmála-ráðuneytið. Jafnframt lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 6. september sl. til borgarstjóra er varðar niðurstöður úttektarinnar og bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 9. september, sama efnis.

Bókun menntaráðs:
Úttekt á leikskólanum Sólborg sýnir að skólastarfið er til mikillar fyrirmyndar og starfsfólki og stjórnendum skólans óskað til hamingju með hana. Afar mikilvægt er að sjá að úttektin staðfestir mikilvægt ráðgjafar- og fræðsluhlutverk Sólborgar. Nú er tveggja ára tilraunaverkefni Leikskólasviðs og mennta- og menningarmála-ráðuneytisins lokið en fullljóst að þetta verkefni leikskólans er mikilvægt og þarft fyrir landið í heild. Því þarf að halda áfram og mikilvægt að ganga í það verk að staðfesta áframhaldandi samstarf svo ekki verði rof á verkefninu.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Lagt er til að sviðstjóri Leikskólasviðs fari í formlegar viðræður við mennta- og menningarmálaráðuneytið um áframhald samstarfs sérhæfðra leikskóla borgarinnar og ráðuneytisins um ráðgjafar- og fræðsluhlutverk skólanna. Með því er viðurkennd mikilvæg skylda þessara skóla til að miðla upplýsingum til annarra skóla á landinu.

- Kl. 14:30 vék Hanna Lára Steinsson af fundi og Oddný Sturludóttir tók þar sæti.

8. Lagt fram svar, dags. 9. september sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Skólastjórafélags Reykjavíkur, frá fundi menntaráðs 25. ágúst sl., varðandi innritun á frístundaheimili ÍTR.

9. Lagt fram svar, dags. 13. september sl., við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks, frá fundi menntaráðs 8. september sl., varðandi inntöku í framhaldsskóla.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði þakka fyrir svör við fyrirspurn um skólaeinkunnir grunnskóla í 10. bekk. Mikil umræða í ráðinu bendir til að það sé að mörgu mikilvægu að huga, bæði er varðar hvernig borgin metur hvernig brottfall samræmdra prófa hefur haft áhrif á gerð skólaeinkunna, samstarf framhaldsskóla við grunnskólana, áhrif hverfareglu við inntöku, misgott aðgengi nemenda að óskaskólum (t.d. bekkjarskólum eða áfangaskólum) og rétt nemenda til sveigjanlegra skólaskila. Óskað er eftir að sérstaklega sé rætt í menntaráði eða á sérfundi um þessa þætti til að menntaráð sé vel upplýst um áhyggjur skólafólks, foreldra, fræðimanna og unglinga.

10. Lagt fram svar, dags. 22. september, við þriðja lið fyrirspurnar fulltrúa Sjálfstæðisflokks, frá fundi menntaráðs 11. ágúst sl., varðandi mötuneytismál í leik- og grunnskólum Reykjavíkur.

11. Lagt fram svar, dags. 22. september, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Samfok, frá fundi menntaráðs 25. ágúst sl., varðandi kostnaðarhlutdeild foreldra í skólamáltíðum.

12. Lögð fram svör, dags. 22. september, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Barnanna okkar, frá fundi menntaráðs 23. júní sl., varðandi aðalskoðun og eldvarnarmál.

13. Lögð fram skýrslan Starfsumhverfi leikskóla. Tillögur og greinargerð starfshóps á vegum Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, dags. í september 2010. Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri leikskólaskrifstofu Leikskólasviðs kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð þakkar starfshópi um starfsumhverfi leikskóla fyrir sína vinnu og samþykkir þær tillögur sem þar eru lagðar fram. Menntaráð leggur áherslu á að framkvæmdastjórn Leikskólasviðs hraði vinnu við framkvæmd tillögu 1 c er tekur til fjölda og samsetningar starfsmanna í leikskólum. Jafnframt felur menntaráð fræðslustjóra að vinna tillögu að verklagi sem taki á mögulegum samrekstri eða sameiningu grunnskóla.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í 10 gr. reglugerðar nr. 655/2009 um starfsumhverfi leikskóla kemur fram; „Sveitarstjórn skal útbúa handbók fyrir starfsfólk leikskóla með leiðbeinandi reglum um öryggi barna og slysavarnir í leikskólum. Leiðbeiningar þessar skulu staðfestar af sveitarstjórn sem jafnframt skal sjá um að þær séu aðgengilegar almenningi á heimasíðu skólans eða sveitarfélagsins eða með öðrum hætti eða kynntar í skólasamfélaginu.”
Hefur þessi handbók um öryggi barna á leikskólum verið útbúin og hvar er þessa handbók um öryggi barna á leikskólum að finna hjá Reykjavíkurborg?

Áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi starfsmanna leikskóla borgarinnar fagnar skýrslu um starfsumhverfi leikskóla og þeim tillögum sem hún inniheldur. Ljóst er að nú þegar lög um fermetra og starfsmannafjölda eru úr gildi á tímum fjárhagsörðugleika borgarinnar, hræðast starfsmenn leikskólanna að þessar breytingar verði t.d. til þess að auka við fjölda barna per starfsmann. Hafa ber í huga að þessi breyting var gerð til þess að bæta hag barnanna og þeirra sem starfa með þeim í leikskólanum.

Áheyrnarfulltrúi Félags stjórnenda í leikskólum óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra fagnar því að skýrsla starfshóps um umhverfi leikskóla sé skýr og í takt við reglugerð um umhverfi leikskóla. Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra væntir þess, að í komandi úttekt á leikskólum Reykjavíkurborgar, verði ákvörðun um hámarksfjölda barna og stöðugildi starfsmanna tekin af sanngirni og á faglegum forsendum.

14. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að haldin verði ráðstefna í tengslum við dag leikskólans sem er 6. febrúar nk. og felur ráðstefnunefnd að sjá um framkvæmd hennar. Þema ráðstefnunnar verði Vísindi í leikskólastarfi og Tónlist og hreyfing í leikskóla. Skipulag ráðstefnunnar verði það sama og var á ráðstefnunni Sögur og ævintýr sem haldin var á degi leikskólans árið 2010.
Greinargerð fylgir.

15. Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Í vor var farið í gang með víðtækar breytingar á tölvumálum í grunnskólum borgarinnar, í hverju fólust þær?
2. Hver ber ábyrgð á þeirri vinnu og þeim viðbótar kostnaði við undirbúning og úrvinnslu þess að koma þeim í gegn?

16. Áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Lús og njálgur er algengt vandamál í grunnskólum og leikskólum borgarinnar og því spyr fulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur:
1. Hver heldur utan um eftirlit og skráningu á lúsar- og njálg tilfellum í grunnskólum/leikskólum borgarinnar?
2. Hver eru viðbrögð og vinnureglur hvað varðar lús og njálg í skólum? borgarinnar?
3. Hver er meðalkostnaður á mann við aflúsun?

- Kl. 15:57 vék Erna Ástþórsdóttir af fundi.

17. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði óska eftir ítarlegum upplýsingum um spá Leikskólasviðs um þörf á þjónustu við næstu tvo til þrjá árganga (2009, 2010 og spá 2011). Ljóst er að hærri fæðingartíðni og minni búflutningar úr Reykjavík hefur veruleg áhrif á þjónustuþörf við yngstu börnin. Óskað er svar við eftirfarandi spurningum:
a) hversu mörg börn þurfa þjónustu á næstu árum,
b) mun reglan um að börn sem verða tveggja ára á ári hverju fái pláss, ná fram að ganga miðað við spár
c) ef ekki eru nægjanleg pláss m.v. núverandi stöðu er óskað eftir upplýsingum um hvort og þá hvernig eigi að fjölga leikskólaplássum og
d) hvernig eigi að nálgast þjónustu við þau börn sem mögulega fá ekki þjónustu hjá dagforeldrum eða leikskólum.

Fundi slitið kl. 16:15

Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Stefán Benediktsson
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir