Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ


Ár 2011, 17. ágúst, var haldinn 152. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12.40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Ingibjörg Jósefsdóttir, félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar, samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík; Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík og Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtyggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Staða í kjaraviðræðum Félags leikskólakennara og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga kynnt. Hallur Páll Jónsson mannauðsstjóri Reykjavíkurborgar og Inga Rún Ólafsdóttir sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga kynntu stöðu mála og svöruðu fyrirspurnum.
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík óskaði bókað:
Leikskólastjórnendur í Reykjavík harma að allt stefni í verkfall hjá leikskólakennurum. Þeir hvetja samninganefnd sveitastjórna að ganga til samninga við Félag leikskólakennara tafarlaust. Félag leikskólakennara hefur gefið út viðmiðunarreglur í verkfalli sem eru yfirfarnar af lögfræðingi Kennarasambands Íslands. Leikskólastjórnendur í Reykjavík taka undir þessar reglur og líta svo á að þær verði hafðar til viðmiðunar ef til verkfalls kemur.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vona að samkomulag náist á næstu dögum
milli Reykjavíkurborgar og leikskólakennara svo koma megi í veg fyrir
verkfall. Komi engu að síður til verkfalls er rétt að leitast verði við að halda sem
flestum leikskóladeildum opnum og draga þannig úr því raski og
þjónustuskerðingu, sem verkfall mun óhjákvæmilega hafa í för með sér fyrir leikskólabörn og fjölskyldur þeirra.
Menntaráðsfulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna lýsir yfir stuðningi við meginlínur í kröfugerð leikskólakennara í kjarabaráttu þeirra. Kröfurnar eru í öllum aðalatriðum hófstilltar og sanngjarnar. Telur fulltrúi Vinstri grænna að sveitarfélögum á Íslandi, þ.m.t. Reykjavíkurborg, beri að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að koma til móts við leiksskólakennara. Að mati fulltrúa Vinstri grænna á það að vera langtímamarkmið Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga að gera vel við leik- og grunnskólakennara þar sem um er að ræða lykilstéttir samfélagsins. Öflugt faglegt starf, góð uppfræðsla og menntun barna verður ekki tryggð án góðs aðbúnaðar og viðunandi starfskjara starfsfólks uppfræðslustofnana. Nú þegar þverpólitísk sátt ríkir um að leikskólastigið sé fyrsta skólastigið þarf að gæta jafnræðis í launum. Borgarbúar gera kröfur um innihaldsríka menntun og metnaðarfullt starf í leik- og grunnskólum. Þeir sætta sig varla við að senda börnin sín á leikskóla þar sem engir fagmenntaðir leikskólakennarar eru að störfum svo sem raunin mun verða ef til verkfalls kemur. Fulltrúi Vinstri grænna vill hvetja borgarbúa til að standa með leikskólakennurum í baráttu þeirra m.a. með því að ætla ekki öðru starfsfólki að ganga í þeirra störf.Fulltrúi Vinstri grænna gerir sér grein fyrir því að verkfallsvopnið er aldrei notað af léttúð. Nú þegar er vegið að leikskólakennarastéttinni í Reykjavík og hefur hún ekki fengið þann sess sem henni ber. Fækkun stjórnenda er t.d. einn angi af viðhorfi manna til einnar mikilvægustu stéttar samfélagsins og ekki fær fulltrúi Vinstri grænna séð að meirirhluti Besta flokks og Samfylkingarinnar geri þessa stétt eftirsóknarverða með nýlegu framferði sínu.

Fundi slitið kl. 13.46

Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir