No translated content text
Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2011, 22. júní, var haldinn 150. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn á Kjarvalsstöðum í Reykjavík og hófst kl. 9.10. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Ingi Bogi Bogason, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Stella Marteinsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, dags. 13. janúar 2011, þar sem ráðið vísar tillögum úr skýrslu verkefnisstjórnar um menningarfána, til umfjöllunar og umsagnar menntaráðs. Jafnframt lögð fram skýrsla verkefnisstjórnar Menningarfáni Reykjavíkurborgar, dags. 12. janúar 2011. Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Reykjavíkurborg, kynnti og svaraði fyrirspurnum.
Lögð fram svohljóðandi tillaga menntaráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar að umsögn menntaráðs:
Menntaráð fagnar skýrslu verkefnisstjórnar um menningarfána Reykja-víkurborgar. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá að tillögur hópsins byggja á þeirri hugmyndafræði sem efst er á baugi í listfræðslu og menningu barna.
Eins og kemur fram í skýrslunni var verkefnisstjórn skipuð fulltrúum borgarinnar sem og faglegum fulltrúa frá Bandalagi íslenskra listamanna. Leikskóla- og Menntasvið áttu sína fulltrúa í hópnum sem tryggðu að tekið væri fullt tillit til sjónarmiða leik- og grunnskóla.
Í markmiðasetningu um menningarfána var litið til nýrrar menntastefnu og aðalnámskráa beggja skólastiga sem og þann hluta menningarstefnu Reykjavíkurborgar er lýtur að barnamenningu. Hugmyndir hópsins ganga allar út á að viðurkenna menningu og listir sem markvissan þátt í uppeldi, leik og námi barna á öllum skólastigum. Ennfremur að gefa leik- og grunnskólum tækifæri til að efla list- og menningarstarfsemi sem þegar er til staðar með því að auka samstarf við listamenn sem og lista- og menningarstofnanir. Með því er framlag barna til menningar og lista gert sýnilegt.
Í drögum að kostnaðaráætlun verkefnisins fyrir árið 2011 kemur fram að stofnkostnaður er áætlaður 1.350.000 kr. og árlegur rekstrarkostnaður 650.000 kr. Auk þess er gert ráð fyrir launum verkefnisstjóra og hugsanlegum hvatningasjóði. Taka þarf afstöðu til þess út frá fjárhagsáætlun borgarinnar hvort hægt er að mæta þessum kostnaði.
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu menningarfánans. Verkefnið er spennandi og vel unnið og sérstakar þakkir eru færðar starfsmönnum fyrir vel útfærðar hugmyndir. Þó er það svo að í verkefninu eru settar skorður þess efnis að eingöngu samstarfsverkefni/stefnur leik- grunnskóla og frístundaheimila í menningarmenntun sem er líklegt til að draga úr áhuga sumra skóla til að nálgast þessi markmið auk þess sem að borgarhlutar eru mismunandi vel settir varðandi samstarf þriggja eininga. Miklu fremur ætti hvatning til samstarfs að vera nægjanleg krafa en einstakir skólar eða samsetning eininga eftir samstarfi skóla að duga til að hægt verði að sækja um menningarfána. Samkvæmt upplýsingum, sem fengust á fundinum, mun árlegur kostnaður við verkefnið nema a.m.k. 6,4 milljónum króna. Er það umtalsverður kostnaður og til samanburðar má geta þess að hann er stór hluti þeirrar upphæðar sem áætlað er að umdeildar breytingar meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins á skólahaldi í Reykjavík muni skila á fyrsta ári. Deila má um hvort rétt sé að kjörnir fulltrúar skapi fleiri slík verkefni með miðlægum hætti og sendi þau út í skólana á sama tíma og skólastjórnendur eru knúnir til að spara hvern eyri og fella niður þörf verkefni í skólunum.
- Kl. 9:45 tók Jón Ingi Einarsson sæti á fundinum.
2. Menntaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að gera þjónustusamninga við tónlistarskóla til eins árs fyrir skólaárið 2011-2012. Með því fellur úr gildi samþykkt ráðsins frá 24. nóvember 2010 um breytta ráðstöfun fjármagns til tónlistarskóla sem borgarráð staðfesti 2. desember 2011.
Greinargerð fylgir.
Samþykkt með 4 atkvæðum.
3. Lagt fram svar fræðslustjóra, dags. 20. júní 2011, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi ráðsins 11. maí sl. varðandi hagræðingu á tónlistarskóla.
4. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 20. júní sl. þar sem lagt er til að þegar tveir eða fleiri leik- og/eða grunnskólar sameinast verði fundið nýtt nafn á hinn nýja skóla. Auk þess er lagt til ákveðið verklag við nafnabreytingu.
Samþykkt með 4 atkvæðum.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu fremur viljað kveða skýrt á um að sameinaðir skólar hafi val um hvort ný nöfn séu tekin upp eða gömlum haldið, allt eftir þróun samstarfs skólanna og ferli breytinga hverju sinni. Til að mynda er ekki endilega eðlilegt að leikskólarnir Berg og Bakki sem eru sameinaðir en staðsettir tugi kílómetra frá hvorum öðrum séu með sömu nöfnin eða Álftamýrarskóli og Hvassaleitisskóli sem líklega verða reknar sem mjög sjálfstæðar einingar.
5. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 20. júní 2011, um starfsáætlanir leikskóla Reykjavíkur 2010-2011.
Samþykkt.
6. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 14. maí 2011, um starfsáætlanir grunnskóla Reykjavíkur 2011-2012.
Samþykkt.
7. Menntaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að settur verði á fót starfshópur tveggja sviða, Menntasviðs og Menningar- og ferðamálasviðs. Hlutverk starfshópsins verði að finna og útfæra tækifæri til samstarfs og/eða samrekstrar skólabókasafna og Borgarbókasafns Reykjavíkur með það að markmiði að leita aukinnar hagræðingar og bættrar þjónustu við skólanemendur og aðra borgarbúa.
Sviðsstjórar beggja sviða verði ábyrgðarmenn hópsins en Borgarbókasafn Reykjavíkur og Menntasvið tilnefni tvo fulltrúa hvor. Hjálagt eru drög að erindisbréfi.
Frestað.
- Kl. 11:45 vék Ingi Bogi Bogason af fundi.
8. Heildarmat á skólastarfi skólaárið 2010 til 2011. Birna Sigurjónsdóttir, verkefnisstjóri á Menntasviði kynnti heildarmat Borgaskóla, Hagaskóla, Klébergsskóla, Landakotsskóla, Árbæjarskóla og Fossvogsskóla og svaraði fyrirspurnum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt:
Menntaráð beinir þeim tilmælum til skólastjóra grunnskóla að samantekt niðurstaðna úr heildarmati verði sett á heimasíður viðkomandi skóla, foreldrum og nemendum til upplýsingar.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu Birnu Sigurjónsdóttur á niðurstöðum heildarmats sex grunnskóla skólaárið 2010-2011. Niðurstöðurnar eru mikilvægt umbótatæki til að gera gott skólastarf betra. Nú þegar hartnær allir grunnskólar hafa farið í gegnum ítarlegt heildarmat er í auknum mæli hægt að byggja stefnumótun menntaráðs á niðurstöðum vandaðs mats, allt til að bæta vellíðan og árangur barna og unglinga í Reykjavík.
Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að heildarmat grunnskóla sé framkvæmt af þriðja aðila, óháðum Menntasviði.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna lýsir yfir ánægju sinni með heildarmat grunnskóla. Heildarmatið er mælitæki sem veitir foreldrum mikilvæga yfirsýn yfir skólastarfið og gefur þeim, nemendum og starfsfólki tækifæri á að tjá sig um mismunandi þætti skólastarfsins. Mikilvægt er að Menntasvið noti þessar upplýsingar til að gera úrbætur þar sem það á við.
9. Lögð fram þriggja mánaða uppgjör Leikskólasviðs og Menntasviðs. Kristín Egilsdóttir, fjármálastjóri Leikskólasviðs og Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs, kynntu og svöruðu fyrirspurnum.
10. Samþykkt að skipa eftirfarandi fulltrúa í starfshóp um málefni barna af erlendum uppruna: Óttarr Ólaf Proppé, Líf Magneudóttur, Evu Einarsdóttur, Sigrúnu Sveinbjörnsdóttur, Kristínu Hjörleifsdóttur, Hildi Önnu Hilmarsdóttur og Karólínu Zabel. Starfsmenn hópsins verða Fríða Bjarney Jónsdóttir og Nanna Kristín Christiansen. Óttarr verður formaður. Lögð fram drög að erindisbréfi starfshópsins.
11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 20. júní 2011, um stöðu mála í innritun í leikskóla Reykjavíkurborgar.
12. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 20. júní 2011, um námskeið/vinnustofu fyrir nýja stjórnendur leikskóla Reykjavíkurborgar.
- Kl. 12:19 vék Bryndís Jónsdóttir af fundi.
13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 20. júní 2011, um útgáfu bæklingsins Auður býr í barni hverju: Leiðbeiningar fyrir starfsfólk skóla um stuðning við börn í efnaminni fjölskyldum. Auk þessa var bæklingurinn lagður fram.
- Kl. 12:30 viku Þórunn Gyða Björnsdóttir og Stella Marteinsdóttir af fundi.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar útgáfu bæklingsins Auður býr í barni hverju og hvetur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili til að nýta sér efni bæklingsins. Einnig hvetur menntaráð til þess að bæklingurinn verði kynntur þjónustumiðstöðvum og Velferðarsviði.
14. Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 12. maí 2011, til borgarstjórans í Reykjavík varðandi niðurstöður úttektar á leikskólanum Múlaborg.
Frestað.
15. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 30. maí 2011, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa menntaráði, eitt mál.
16. Lögð fram ársskýrsla Leikskólasviðs fyrir árið 2010.
17. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að sérkennslustefna Reykjavíkurborgar, sem nú er í smíðum, kveði skýrt á um að foreldrar barna með sérþarfir hafi val um að sækja hverfaskóla eða sérskóla. Er vísað til fjórðu málsgreinar 17. greinar laga um grunnskóla nr. 91 frá 2008 þar sem segir að telji foreldrar barns, skólastjórar, kennarar eða aðrir sérfræðingar að það fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla geti foreldrar sótt um skólavist fyrir barnið í sérúrræði innan grunnskóla eða í sérskóla.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
18. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð Reykjavíkur samþykkir að hefja undirbúningsvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla. Viðbyggingin skal hýsa íþróttasal, sundlaug og e.t.v. aðra starfsemi skólans, sem koma þarf fyrir með betri hætti en unnt er í núverandi húsnæði. Skoða skal hvort Klettaskóli og Brúarskóli geti samnýtt umrædda íþróttaaðstöðu en nemendur þeirra eru hinir einu af þeim, sem stunda nám við borgarrekna grunnskóla, sem hafa ekki aðgang að íþróttahúsi á skólalóð sinni eða í næsta nágrenni. Jafnframt skulu skoðaðir möguleikar á samnýtingu íþróttahússins með Suðurhlíðar-skóla. Stefnt skal að því að þarfagreining og kostnaðaráætlun vegna verkefnisins liggi fyrir 1. nóvember næstkomandi.
Frestað.
19. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir að Menntasvið skoði einkunnir nemenda í 10. bekk í íslensku og stærðfræði þrjú ár aftur í tímann (2009-2011) og skoði fylgni þeirra við könnunarpróf Námsmatsstofnunar og kynni fyrir menntaráði.
Fundi slitið kl. 12.40
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir