Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2011, 9. febrúar, var haldinn 138. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12.40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Valgerður Janusdóttir, staðgengill fræðslustjóra, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Innritun í framhaldsskóla. Þórir Ólafsson, deildarstjóri hjá mennta- og menningar-málaráðuneytinu kynnti og svaraði fyrirspurnum. Kynningin var svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi menntaráðs 26. janúar sl.

2. Lögð fram tillaga að úthlutun almennra styrkja menntaráðs tengdum Menntasviði um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki ráðsins árið 2011:

a) Umsækjandi ADHD samtökin, Ingibjörg Karlsdóttir. ADHD námskeið og fræðsla um kennslu nemenda með ADHD fyrir kennara og annað starfsfólk grunnskóla. Tillaga kr. 400.000.-
b) Umsækjandi Endurmenntun Háskóla Íslands, Ragna Haraldsdóttir. Námskeið fyrir 8-14 ára börn. Kynna vísindi á sem víðtækastan hátt. Tillaga kr. 200.000.-
c) Umsækjandi Íslenska stærðfræðifélagið, Jóhann Sigurðsson. Hugtakasafn í stærðfræði sem verði opið og öllum aðgengilegt á vefnum www.stæ.is. Tillaga kr. 100.000.-
d) Umsækjandi Jóhann Guðmundur Breiðfjörð. Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda, að efla þátttöku grunnskólanema í keppninni og efla áhuga þeirra á nýsköpun. Tillaga kr. 300.000.-
e) Umsækjandi Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Guðrún Hilmarsdóttir. Eldvarnarátak. Öll börn í 3. bekk fá fræðslu um eldvarnir og öryggi heimilisins og þeim verður kynnt neyðarnúmerið 112. Áhersla er lögð á eldvarnir á heimilum barnanna. Börnin fá gefins myndskreytta bók um slökkviálfana Loga og Glóð og afrek þeirra. Tillaga kr. 200.000.-
f) Umsækjandi SAMFOK, Bryndís Jónsdóttir. Sameiginleg ábyrgð - velferð barna. Fundarherferð í alla grunnskóla Reykjavíkur til að vekja foreldra til umhugsunar um sameiginlega ábyrgð þeirra varðandi velferð barna í skólanum og nánasta umhverfi. Tillaga kr. 300.000.-

Alls kr. 1.500.000.-
Samþykkt.

3. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 7. febrúar sl., þar sem lagt er til að áhersluþættir þróunarstyrkja menntaráðs fyrir leikskóla árið 2011 verði læsi leikskólabarna á margskonar þætti í lífi og starfi.
Samþykkt.

4. Lögð fram minnisblöð sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, dags. 7. janúar sl. og 1. febrúar sl., um áhersluþætti þróunarstyrkja leikskóla árin 2006 til 2011 og grunnskóla árin 2004 til 2011 ásamt reglum um styrkveitingar.

5. Lagt fram yfirlit yfir kaup Menntasviðs yfir 1 milljón króna, tímabilið september til desember 2010.

6. Raunkostnaður við leikskólapláss samkvæmt fjárhagsáætlun 2011. Kristín Egilsdóttir, fjármálastjóri Leikskólasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. Lögð fram á fundinum greinargerð Leikskólasviðs, dags. 7. febrúar sl., um raunkostnað.

7. Fjölgun leikskólaplássa og dagforeldra í Reykjavík. Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, gerði grein fyrir stöðu mála.

8. Lagt fram svar deildarstjóra tölfræði- og rannsóknarþjónustu Menntasviðs, dags. 7. febrúar sl., við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá fundi menntaráðs 12. janúar sl., um fjölda nemenda í fjarnámi á framhaldsskólastigi í grunnskólum borgarinnar 2008 til 2010.

9. Lögð fram tilkynning, dags. 31. janúar 2011, um úttekt mennta- og menningar-málaráðuneytisins á Múlaborg vorið 2011.

10. Verkefni starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Óskar J. Sandholt, verkefnisstjóri starfshópsins, kynnti og svaraði fyrirspurnum. Lagt fram á fundinum minnisblað er lýsir markmiðum og framkvæmd rýnihópa sem starfshópurinn um tækifæri til endurskipulagningar leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs fól tölfræði- og rannsóknarþjónustu Menntasviðs að vinna í febrúar 2011. Einnig lagðar fram leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna samreksturs leik-, grunn- og tónlistarskóla.

-Kl. 14:30 tók sæti á fundinum Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundasviðs ÍTR og fulltrúi ÍTR í starfshópi um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.

Áheyrnarfulltrúi SAMFOKS óskaði bókað:
SAMFOK leggur áherslu á að áður en ákvarðanir eru teknar um sameiningar eða samrekstur grunnskóla og/eða leikskóla liggi fyrir fjárhagslegur ávinningur þeirra hugmynda og mat á áhrifum þessara aðgerða á faglegt starf viðkomandi stofnana. Ekki er ásættanlegt að faglegu starfi, líðan starfsmanna og barna sé stefnt í voða að ástæðulausu. Hagræðingin þarf að vera augljós og án fórnarkostnaðar við faglegt starf. SAMFOK mótmælir því að um samráð hafi verið að ræða við foreldra. Samráð byggist á því að aðilar setjist niður á jafnréttisgrunni og komist að sameiginlegri niðurstöðu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins þakka SAMFOK fyrir ábendinguna. Ávallt hefur það verið leiðarljós starfshópsins að rökstyðja tillögur að breyttu skipulagi skóla- og frístundastarfs með faglegum jafnt sem fjárhagslegum rökum. Meginmarkmið þessa viðkvæma og vandasama verkefnis er að standa vörð um faglegt skóla- og frístundastarf en skoða allar færar leiðir til að skoða skipulag skóla- og frístundastarfs. Líklegast verða allir aldrei á eitt sáttir um aðferð til að undirbúa breytingar. Fundir í hverfum með fulltrúum foreldra og starfsfólks úr öllum skólum, bæði leik – og grunnskólum og frístundaheimila, voru ekki síst ætlaðir til upplýsingagjafar og sem kveikja að frekari umræðu. Vinnu hópsins er ekki lokið, útreikningar liggja ekki fyrir og næstu skref verða kynnt skólasamfélaginu.

Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum óskaði bókað:
Stjórnir 1. svæðadeildar Félags leikskólakennara og 1. svæðadeildar Félags stjórnenda leikskóla lýsa þungum áhyggjum yfir þróun leikskólamála í Reykjavík.Leikskólarnir í Reykjavík hafa ekki farið varhluta af niðurskurði undanfarinna ára. Álag á kennara og stjórnendur leikskóla hefur aukist gríðarlega í kjölfar niðurskurðarins. Skólastjórnendur eru faglegir leiðtogar í leikskólum þar sem víða vantar fagmenntaða kennara til starfa. Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla frá árinu 2008 skal leikskólastjóri og aðstoðarleikskólastjóri hafa starfsheitið leikskólakennari. Komi til samreksturs skal samrekinn skóli starfa í samræmi við lög um viðkomandi skólastig og skal stjórnandi hafa leyfisbréf til kennslu á leik- og/eða grunnskólastigi. Aðrir stjórnendur en skólastjóri skulu hafa leyfisbréf til kennslu á viðkomandi skólastigi til að tryggja faglega stjórnun á hverju skólastigi. Samkvæmt fyrrgreindum lögum skulu að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda í leikskólum teljast til stöðugilda leikskólakennara og er markmið laganna að tryggja að þeir sem leggja stund á kennslu og uppeldisstörf hafi menntun í samræmi við störf þeirra og ábyrgð. Hlutfall fagmenntaðra í leikskólum Reykjavíkurborgar er með því lægsta sem gerist á landinu eða eingöngu um 35#PR. Mikill mannauður býr í þeim leikskólakennurum sem starfa hjá borginni og því er mikilvægt að búa þeim eftirsóknarvert starfsumhverfi. Í því árferði sem nú ríkir ættu borgaryfirvöld því að kappkosta að verja starfsaðstæður og kjör þessa kennara- og stjórnendahóps sem haldið hefur tryggð við borgina og sinnt starfi sínu af alúð og fagmennsku, jafnt í uppgangi sem niðursveiflu í efnahagslífinu. Þær hugmyndir sem fram hafa komið um sameiningar leikskóla og samrekstur leik- og grunnskóla í því markmiði að spara stjórnunarkostnað eru aðför að leikskólanum sem fyrsta skólastiginu í menntakerfinu og í hrópandi ósamræmi við nýlega löggjöf um leikskóla og þá framtíðarsýn sem þar er sett fram.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Samfylkingin og Besti flokkurinn þakka fulltrúum leikskólakennara og leikskólastjóra fyrir góða brýningu. Það er ávallt markmið borgarinnar að standa vörð um leikskóla sem eftirsóknarverðan starfsstað. Í því skyni var ákveðið við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011 að standa vörð um yfirvinnugreiðslur til starfsfólks leikskóla, sem gjarnan eru í hópi þeirra borgarstarfsmanna sem lægst hafa launin. Nú munar verulega á launum leikskólastarfsmanns í Reykjavík og öðrum sveitarfélögum og af því er menntaráð stolt. Ljóst er að í hópi leikskólastjóra eru öflugir stjórnendur sem vel gætu stjórnað samreknum leik- og grunnskóla, komi til þess. Lögin frá 2008 um leik- og grunnskóla sem opnuðu fyrir möguleika á samrekstri skóla og markmið lagabreytinganna var að efla skóla faglega og fjárhagslega, stuðla að samfellu, sveigjanleika og hreyfanleika kennara milli skólastiga. Andi laganna var að slíkar breytingar gætu verið hluti af jákvæðri skólaþróun. Mikilvægt er að árétta að verði breytingar á störfum stjórnenda í leikskólum borgarinnar er tryggt að kraftar allra munu nýtast áfram, því í fjárhagsáætlun Leikskólasviðs er gert ráð fyrir fjölgun starfsfólks leikskóla vegna barnafjölgunar.

Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastarfsfólks vill lýsa yfir undrun á vali þátttakenda í rýnihópa. Samkvæmt leikskólalögum og Aðalnámskrá leikskóla ber leikskólakennurum að skipuleggja og bera ábyrgð á faglegu starfi í leikskólum og hefðum við því viljað sjá hærra hlutfall leikskólakennara í rýnihópunum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Tölfræði- og rannsóknaþjónusta Mennta- og Leikskólasviðs undirbjó rýnihópavinnu eftir leikreglum eigindlegrar könnunaraðferðar og byggist á umræðum fárra einstaklinga um ákveðið málefni. Markmið rýninnar er fyrst og fremst að fá innsýn og hugmyndir í tengslum við ákveðið verkefni sem nýtt eru til að ákveða næstu skref í tiltekinni vinnu. Í leikskólum borgarinnar starfar margbreytilegur hópur fólks með fjölbreytta menntun. Starfshópnum þótti mikilvægt að heyra sjónarmið þeirra líka, auk leikskólakennara.

Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík óskaði bókað:
Fulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík í menntaráði bendir á að töluverð óánægja er meðal grunnskólastjórnenda með framgang og framkvæmd þeirrar vinnu sem í gangi er og snýr að hugsanlegri sameiningu eða samrekstri skólastofnana og frístundastarfs í borginni. Óánægjan snýr bæði að því hvernig hefur verið staðið að upplýsingaöflun, upplýsingagjöf og samráði við foreldra og starfsfólk sem og hvernig þeim sameiningarhugmyndum sem nú er unnið með hefur verið fylgt úr hlaði.Verulega hefur skort á að forsendur, bæði faglegar og fjárhagslegar liggi fyrir þannig að unnt sé fyrir viðkomandi aðila að taka afstöðu til hugmyndanna á faglegum forsendum. Þessi framsetning hefur orðið til þess að skapa óvissu og ólgu í kringum skólastarf í borginni. Skólastjórnendur fara þess á leit að vandað verði til verka í þessu mikilvæga máli og undirbúningi verði gefinn sá tími sem þarf, til að sátt náist um framkvæmd málsins.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Samfylkingin og Besti flokkurinn þakka skólastjórum fyrir þarfar ábendingar. Seint verða allir sammála um aðferð þá sem nýta skal í jafn viðkvæmu, viðamiklu og vandasömu verkefni. Starfshópurinn hafði hliðsjón af leiðbeiningum Sambands íslenskra sveitarfélaga í sinni vinnu og að mörgu leyti var lengra gengið en þar er gert ráð fyrir. Starfshópurinn setti sér strax í upphafi ákveðið leiðarljós og starfar samkvæmt erindisbréfi borgarráðs. Markmiðið var að standa vörð um skóla- og frístundastarf í borginni en skoða allar hugsanlegar leiðir til að breyta í skipulagi skóla- og frístundastarfs svo hægt sé að búa í haginn fyrir næstu ár. Það er ljóst að verkefni á borð við þetta þarf að vinna vel en það má jafnframt ekki taka of langan tíma því óvissa í skólasamfélaginu er eðlileg meðan á vinnunni stendur. Tekið er undir með skólastjórum að vanda verður til verka, ekki síst í næstu skrefum þar sem mikilvægt er að starfsfólk, stjórnendur og foreldrar komi að frekari skoðun hugmyndanna.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Stjórn Barnanna okkar hefur verulegar áhyggjur af framvindu leikskólamála í borg-inni. Þær sameiningarhugmyndir sem eru uppi á borðinu fela í sér niðurskurð til leikskólamála þriðja árið í röð. Með uppsögnum leikskóla- og aðstoðarleikskólastjóra hlýtur álagið á starfsfólk leikskóla að aukast enn frekar til viðbótar því álagi sem takmörkun á yfirvinnu og minnkað svigrúm til funda og undirbúnings hefur þegar valdið. Ennig er viðbúið að mikilvæg þekking og reynsla tapist þar sem ekki er hægt að gefa sér að leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar sæki um aftur eftir uppsagnir. Allt þetta bitnar að sjálfsögðu á gæðum starfsins. Fyrir ári síðan töluðu borgarfulltrúar um að standa vörð um grunnþjónustuna án þess að enn hafi verið svarað hvað teljist til grunnþjónustu. Nú er talað um sameiningu til að auka faglegan ávinning, en því er enn ósvarað hver hinn faglegi ávinningur er. Við óskum svara við hvaða faglegi ávinningur felst í því að fækka starfsfólki og hver er grunnþjónustan sem borgin ætlar að verja, felst hún einungis í að tryggja börnum okkar geymslupláss?

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Samfylkingin og Besti flokkurinn þakka Börnunum okkar fyrir góða brýningu. Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar var valið að verja kjör starfsfólks sem lægst hafa launin í leikskólum borgarinnar og verja stórauknu fé til nýrra leikskólaplássa fyrir stóran hóp nýfæddra barna í Reykjavík. Ekki var gerð bein hagræðingarkrafa á innra starf leikskólanna en breytingarnar framundan munu hafa í för með sér breytingar á störfum stjórnenda. Öllum þeim frábæru stjórnendum í leikskólum borgarinnar er tryggt áframhaldandi starf hjá borginni. Hér eftir sem hingað til verður faglegt starf leikskólanna í fyrsta sæti.

Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks kalla eftir upplýsingum um rannsóknir á áhrifum sameiningar og/eða samrekstur leik- og grunnskóla og frístundaheimila. Eins er óskað eftir upplýsingum um fjárhagslegan og faglegan ávinning af þessari vinnu og markmið sem hafa verið sett í tengslum við hana. Þá er óskað eftir yfirliti yfir þá sem eru í rýnihópunum; stöðunni sem rýnarnir gegna í þeim skólum/frístundaheimilum sem valin voru og eins frá hvaða leik- og grunnskólum og frístundaheimilum þeir koma. Eins vilja fulltrúarnir vita úr hvaða skólum foreldrar rýnihópanna koma, eftir hverfum. Að endingu er óskað eftir hugmyndum, sem lagðar hafa verið fyrir fundi rýnihópa í hverfum borgarinnar og/eða sendar stjórnendum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilum sem og einstökum skólaráðum. Einnig er óskað eftir afriti af glærukynningu þeirri, sem flutt var á fundinum. Eins vilja fulltrúarnir svör við spurningum sínum hvort rýnt hafi verið í skólanámskrá, stefnu og faglegt starf þeirra skóla sem hugmyndir standa um að sameina og/eða samreka.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Vinnubrögð starfshópsins og meirihluta menntaráðs eru vægast sagt grunnhyggin og hroðvirknisleg. Einkennast þau af virðingarleysi við fagstéttir, foreldra og börnin í borginni. Upplýsingum hefur eftir fremsta megni verið haldið frá kjörnum fulltrúum og sam-ráðsferlið allt einkennist af leyndarhyggju sem er í fullkomnu ósamræmi við kröfu borgarbúa um lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð. Samráð við minnihlutann var skorið við nögl og fulltrúar hans voru mataðir með upplýsingum sem þóknast meirihlutanum. Það er með öllu óásættanlegt að kjörnir fulltrúar séu að líta á þessar hugmyndir í fyrsta sinn eftir að skólastjórnendum leik- og grunnskóla bárust bréf um fyrirhugaðar sam-einingar. Það er til þess að skapa sundrungu í skólasamfélaginu og óvissu allra fag-stétta um starf sitt. Einnig bera þessar tilteknu aðgerðir meirihlutans um sameiningar og/eða samrekstur vott um vanþekkingu á eðli og innihaldi faglegs skólastarfs. Kynningu starfshópsins er verulega ábótavant þar sem hún svarar engum spurningum um faglegan eða fjárhagslegan ávinning. Ljóst er að hvati þessara aðgerða er fjárhagslegur þar sem meirihlutinn í Reykjavík hefur mótað þá stefnu að skera niður í leik- og grunnskólum. Hafa Vinstri græn lagt á það áherslu að hlífa eigi nemendum í grunn- og leikskólum í lengstu lög. Mat á faglegum áhrifum aðgerðanna virðast ekki hafa farið fram. Telja Vinstri græn það forkastanlegt að farið sé af stað með aðgerðir án þess að nokkuð mat liggi fyrir um mögulegan skaða eða ávinning sem aðgerðirnar geta haft í för með sér. Þá áréttar fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði þá afstöðu sína að sameiningar leik- og grunnskóla séu aðför að kvennastéttum og faglegu starfi í þágu barnanna í borginni. Getur fulltrúi Vinstri grænna ekki sætt sig við það eða samþykkt.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Samfylkingin og Besti flokkurinn þakka fyrir bókun VG. Það lá alltaf fyrir að fulltrúa VG í menntaráði var velkomið að taka þátt í þessari mikilvægu vinnu frá upphafi. Í starfshópnum eiga sæti, auk menntaráðs- og ÍTR-fulltrúa meirihlutans, sviðsstjórar Mennta- og Leikskólasviðs, forstöðumaður tómstundamála, mannauðsráðgjafar allra sviða og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ekki verður hægt að taka undir að vinna hópsins einkennist af hroðvirkni, virðingarleysi og grunnhyggni. Engum upplýsingum hefur verið haldið frá kjörnum fulltrúum og í raun má segja að samráðið hafi verið fjölbreytt og að verkefni hópsins hafi verið sú kveikja að umræðum um skóla- og frístundastarf sem þessi mikilvægu svið borgarinnar verðskulda. Allan tímann var lögð áhersla á mikilvægi upplýsingagjafar með reglulegum póstsendingum á stóran hóp stjórnenda og starfsfólks. Mikilvægt þótti að skólastjórnendur fengju fyrstir allra að vita hvaða vinnuhugmyndir væri verið að rýna. Allir eru sammála um mikilvægi þess að hlífa leik- og grunnskólum, sem og frístundastarfi barna sem mest. Ekki verður þó hjá því komist að leita allra lausna til að þessi langstærstu svið borgarinnar nái fram hagræðingu í rekstri. Farið var af stað með vinnu þessa starfshóps í samhljómi allra flokka í borgarráði, enda var þar áréttað í bókun að mikilvægt væri einnig að skoða stjórnkerfi borgarinnar í heild sinni og sameiningar starfsstöðva á ,,hörðum“ sviðum hennar.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna vísar á bug eftirá skýringum meirihlutans um samstarfvilja enda stóð fulltrúanum aldrei til boða að taka sæti í starfshópnum um greiningu tækifæra til sameininga og/eða samrekstrar. Skipan starfshópsins er lítill hluti af því samráðsleysi sem einkennir öll vinnubrögð meirihluta menntaráðs. Fulltrúinn á ekki að þurfa að bera sig eftir því að fá sæti í hópi sem meirihlutinn telur jafn mikilvægan og raun ber vitni og talar um að sé þverpólitískur. Þó hópurinn sé þvert á svið og ráð, og meirihlutinn hafi haft rík tækifæri til að skipa fulltrúa Vinstri grænna, hvar sem er í ferlinu, valdi hann að gera það ekki. Greinilegt er að meirihlutinn ætlar að ná sínu fram, án þess að hlusta á skoðanir og tillögur Vinstri grænna, foreldra, fagfólks og barna. Fulltrúi Vinstri grænna geldur varhug við þessum vinnubrögðum sem meirihlutinn viðhefur og óttast að með þeim verði hagsmunir barna undir.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Það skal ítrekað að fulltrúum VG stóð ávallt til boða að taka þátt í þessari vinnu.

Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík lagði fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík óskar eftir að leggja fram þá tillögu í ljósu umræðu á menntaráðsfundi að framkomnar hugmyndir um sameiningu og samrekstur í grunnskólum borgarinnar komi ekki til framkvæmda 2011.
Samþykkt með fjórum atkvæðum að vísa tillögunni til borgarráðs.

- Kl. 17:00 vék Eva Einarsdóttir af fundi.

Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna fagnar framkominni tillögu skólastjórnenda og telur að það ætti að ganga enn lengra og endurskoða fjárhagsáætlun borgarinnar með hagsmuni barna að leiðarljósi. Meirihluti Samfylkingar og Besta flokks kýs ekki aðeins að hunsa það jöfnunartæki sem útsvarið er, heldur er nú einnig fyrirhuguð gróf aðför að leik- og grunnskólum sem ekki síður gegna hlutverki við að jafna aðstæður fólksins í borginni. Vinstri græn skora á meirihlutann að taka forgangsröðunina til gagngerrar endurskoðunar og standa með börnunum í borginni. Eins og Vinstri græn hafa áréttað þá er byrjað á vitlausum enda í kerfinu þegar vinnan ætti að hefjast í m.a. miðlægri stjórnsýslu.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2011 er gert ráð fyrir hagræðingu í miðlægri stjórnsýslu upp á 11#PR. Allir flokkar eiga fulltrúa í stjórnkerfisnefnd og mikilvægt að þar ríki samstaða um mikilvægi breytinga. Ekki er tekið undir að verið sé að veitast að leik- og grunnskólum, mikilvægt er að endurskipuleggja og nýta betur t.d. húsnæði skóla fyrir leikskólabörn, skoða betur samþættingu skóla- og frístundastarfs sem kemur börnum til góða á skólatíma, skoða ávinning af sameiningum sé það metið sem faglega og fjárhagslega góður kostur.

Fundi slitið kl. 17.17

Oddný Sturludóttir

Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Óttarr Ólafur Proppé Stefán Benediktsson
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir