Skóla- og frístundaráð
MENNTARÁÐ
Ár 2010, 8. september var haldinn 127. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í sal Miðbæjarskólans að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 12.42. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Halldóra Guðmundsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, Skólastjórafélag Reykjavíkur; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, Félag stjórnenda í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Jónsdóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð felur fræðslustjóra og sviðsstjóra Leikskólasviðs að stofna starfshóp sem útbýr tillögur að stefnu um aukið og markvisst samstarf skóla og foreldra, bæði á leikskóla- og grunnskólastigi. Í starfshópnum skulu sitja fulltrúar foreldra, kennara, skólastjórnenda og skrifstofu Mennta- og Leikskólasviðs.
Greinargerð fylgir.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:
SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, fagna tillögu menntaráðs um stefnumótun í samstarfi skóla og foreldra. Eins og kemur fram í tillögunni benda rannsóknir til þess að virk þátttaka foreldra í skólastarfi hafi jákvæð áhrif á frammistöðu, líðan og viðhorf barna þeirra. Samkvæmt grunnskólalögum eiga foreldrar að hafa aðkomu að stefnumörkun skóla og fá til umfjöllunar skólanámskrá, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið í gegnum skólaráðin. Þannig bera foreldrar ekki einungis ábyrgð á því að vera góðir skólaforeldrar heldur hafa einnig lögbundin réttindi til að hafa áhrif á skólastarf. Viðhorf skólastjórnenda skipta höfuðmáli í þessu samhengi og eru lykillinn að farsælu samstarfi heimila og skóla
2. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að fela fræðslustjóra að stofna starfshóp um endurskoðun Stefnu fræðsluráðs Reykjavíkur um sérkennslu frá 2002. Hópurinn skal skoða stefnuna með tilliti til nýrra laga um grunnskóla, nýrra reglugerða um nemendur með sérþarfir og sérfræðiþjónustu og nýrrar aðalnámskrár grunnskóla og einnig með tilliti til niðurstaðna starfshópa Menntasviðs um málefni sem varða nemendur með sérþarfir. Sérkennslustefnan verði útfærð þannig að aðgengi foreldra og aðstandenda sé gott og upplýsingar aðgengilegar. Starfshópurinn skili tillögum 1. mars 2011.
Greinargerð fylgir.
3. Lögð fram skýrslan Skólahald á Kjalarnesi – tillögur starfshóps, dags. september 2010. Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri á Leikskólasviði kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.
Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að fela fræðslustjóra og sviðsstjóra Leikskólasviðs að vinna áfram að frekari samfellu í skólahaldi á Kjalarnesi, á grunni tillagna starfshóps um skólahald á Kjalarnesi. Menntaráð leggur áherslu á að áframhald verði á gifturíku samstarfi við foreldra á Kjalarnesi. Menntaráð verði upplýst um gang mála með reglulegu millibili.
4. Lögð fram skýrslan Áætlun um endurnýtingu og orkusparnað í leikskólum – tillögur starfshóps, dags. maí 2010. Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, leikskólaráðgjafi á Leikskólasviði kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.
- Kl. 14.15 vék Ragnar Þorsteinsson af fundi.
Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir tillögur starfshóps um Áætlun um endurnýtingu og orkusparnað í leikskólum. Menntaráð felur sviðsstjóra Leikskólasviðs og fræðslustjóra, í samstarfi við Umhverfissvið, að hrinda af stað átaki með það að markmiði að ná niður sorpmagni frá leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar með aukinni flokkun sorps og endurnýtingu. Öðrum tillögum starfshópsins verði forgangsraðað og þeirra sjáist stað í starfsáætlunum beggja sviða næsta ár. Sambærileg tillaga verður lögð fram í íþrótta- og tómstundaráði og verkefnið unnið í samvinnu sviðanna sem hlut eiga að máli.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð fagnar tillögum starfshóps um áætlun um endurnýtingu og orkusparnað í leikskólum og innleiðingu stefnunnar í starfsáætlun grunn- og leikskóla á næsta ári í samvinnu við ÍTR. Það er ósk menntaráðs að öll svið borgarinnar taki sér til fyrirmyndar starf leik- og grunnskóla og að starfið komi af stað hugarfarsbreytingu í samfélaginu. Þannig mættu allir borgarbúar vera meðvitaðir um kosti þess að flokka sorp, endurnýta og spara orku.
Borgin á að halda áfram að sýna frumkvæði og vera fyrirmynd í þessum efnum og gera öllum kleift að m.a. flokka sorp í meira mæli.
5. Lögð fram skýrslan Niðurstöður lesskimunar í grunnskólum Reykjavíkur vorið 2010, dags. ágúst 2010 og minnisblað verkefnastjóra á grunnskólaskrifstofu Menntasviðs, dags. 18. ágúst sl. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á Menntasviði kynnti niðurstöður lesskimunarinnar og svaraði fyrirspurnum.
Bókun menntráðs:
Menntaráð þakkar fyrir kynningu á niðurstöðum lesskimunarprófs, sem lagt var fyrir nemendur í 2. bekk í 35 grunnskólum Reykjavíkur vorið 2010. Niðurstöðurnar gefa til kynna að 67#PR nemenda geti lesið sér til gagns samkvæmt viðmiðum höfunda prófsins. Árangurinn nú er hinn næstbesti frá upphafi lesskimunarprófsins, sem fyrst var lagt fyrir nemendur í grunnskólum borgarinnar árið 2002. Lesskimunarpróf gegna mikilvægu hlutverki við að finna þá nemendur, sem þurfa sérstakan stuðning við lestrarnám snemma á skólagöngunni. Þau gefa einnig þeim nemendum, sem ekki eru taldir þurfa slíka aðstoð, og foreldrum þeirra dýrmætar upplýsingar um stöðu í námi og geta einnig verið þeim hvatning til að gera enn betur. Menntaráð leggur því ríka áherslu á að skólar kynni niðurstöður lesskimunarprófs fyrir nemendum og foreldrum og stuðli þannig að því að upplýsingar um stöðu náms séu sem aðgengilegastar á hverjum tíma. Æskilegt er að foreldrar fái upplýsingar um stöðu þess skóla sem barn þeirra gengur í, þau markmið sem skólinn setur sér og þau þróunarverkefni sem hann vinnur að til að bæta lestrarkunnáttu sinna nemenda. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Æskilegt er að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimunarprófi, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.
- Kl. 15.05 vék Rósa Steingrímsdóttir af fundi.
6. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra um nemendafjölda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2010-2011, bráðabirgðatölur 1. september 2010. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu Menntasviðs kynnti stöðuna og svaraði fyrirspurnum.
- Kl. 15.50 vék Bryndís Jónsdóttir af fundi.
- Kl. 16.00 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.
7. Rætt um TALIS 2013.
Bókun menntaráðs:
Árið 2008 tók Ísland þátt í rannsókn á viðhorfum, starfsháttum og aðstæðum kennara. Rannsóknin var á vegum OECD og framkvæmd á Íslandi af Námsmatsstofnun fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Á þeim tíma var álitið mikilvægt að safna upplýsingum um kennara, sérlega í ljósi þess að í þeim rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið á íslenskum nemendum, hefur verið safnað upplýsingum um nemendurna sjálfa, aðstæður þeirra í skóla og heima, aðstæður skólanna sem þeir ganga í og fjölda mörg önnur atriði sem tengjast frammistöðu nemenda. Það er grundvallaratriði þegar reynt er að skilja hvað það er sem stýrir frammistöðu nemenda að mikilvægasti aðilinn í öllu námsferlinu fyrir utan nemandann sjálfan, þ.e. kennarinn sé hafður með. Ætlunin er að endurtaka TALIS rannsóknina á 5 ára fresti, í næsta skipti árið 2013, og safna enn frekari upplýsingum og betri um kennara og þeirra hlutverk í menntuninni. Nú eru hins vegar blikur á lofti þar sem fjármögnun þessa verks er í uppnámi og mennta- og menningarmálaráðuneytið treystir sér ekki til þess að greiða það sem til þarf. Því er mögulegt að Ísland verði ekki með í rannsókninni árið 2013 og væri það verulegur skaði þar sem reikna má með að rannsóknin verði svo ekki endurtekin aftur fyrr en árið 2018. Því yrðu 10 ár á milli rannsókna sem er allt of langur tími. Jafnframt er ljóst að fyrsta umferð rannsóknarinnar leiddi í ljós margt sem reikna má með að hafi hugsanlega breyst við efnahagshrunið árið 2008. Ef ekki verður tekið þátt árið 2013 munu þær breytingar ekki sjást og þar með verður ákaflega erfitt að skipuleggja menntunina í takt við þær breytingar sem eru að gerast hjá kennarahópnum. Kennarar grunnskólans eru mikilvægustu aðilarnir í menntun barnanna og því óásættanlegt að þeirra upplýsingar séu ekki með í því gagnasafni sem nýtast á til þess að skilja hvað það er sem stýrir árangri.
Menntaráð Reykjavíkur beinir þeim tilmælum til mennta- og menningarmála-ráðuneytisins að tryggja þátttöku Íslands í TALIS rannsókninni 2013.
8. Lagt fram svar fræðslustjóra, dags. 6. september sl., við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi menntaráðs 25. ágúst sl., varðandi haustnámskeið kennara.
9. Lagt fram svar sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 6. september sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Barnanna okkar frá fundi menntaráðs 25. ágúst sl., varðandi viðmiðunarmatseðil/hráefnismatseðil og samræmd innkaup í mötuneytum leik- og grunnskóla.
Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Samtökin Börnin okkar telja eðlilegt að kannað sé sérstaklega raunverulegt magn af kjöti í unnum kjötvörum og magn fisks í unnum fiskvörum með tilliti til hvort það sé í samræmi við útboðsgögn (t.d. að sé í raun 70#PR fiskur í fiskibollum). Einnig að foreldrar séu upplýstir um eða hafi greiðan aðgang að niðurstöðum af öllum rannsóknum (prófunum) á matvælum sem borin eru á borð í leik- og grunnskólum.
10. Lagt fram svar fræðslustjóra, dags. 6. september sl., við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá fundi menntaráðs 25. ágúst sl., varðandi framkvæmdir á skólalóð Vesturbæjarskóla.
11. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nú þegar fallið hefur verið frá samræmdum lokaprófum í grunnskóla eru skólaeinkunnir barna í 10. bekk lagðar til grundvallar inntöku í framhaldsskóla. Við brottfall samræmdra prófa var ekki komin skýr lína um hvernig inntöku miðað við námsmat væri háttað. Því er greinilega komin upp sú staða að hver skóli fyrir sig, eða skólar í samstarfi, búa sér til svokallaða skólaeinkunn sem skilgreind er sérstaklega, framhaldsskólum til kynningar. Menntaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um hvort Menntasvið sé þátttakandi í þessari vinnu og ef svo sé, hvernig skólaeinkunn er skilgreind fyrir 10. bekk grunnskóla í Reykjavík.
12. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi tillögu:
Menntaráð samþykkir að Menntasvið í samvinnu við Umhverfissvið, Velferðarsvið, Framkvæmda- og eignasvið og Jafningjafræðsluna, standi að gerð og kynningu fræðsluefnis fyrir börn og ungmenni um mikilvægi þess að ganga vel um umhverfi sitt, sameiginleg svæði og eigur annarra.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
Fundi slitið kl. 16.33
Oddný Sturludóttir
Erna Ástþórsdóttir Óttarr Ólafur Proppé
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Stefán Benediktsson