No translated content text
Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2011, 26. janúar var haldinn 137. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Kristín Bjarnadóttir, Börnin okkar; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Kristín Egilsdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Kristínu Bjarnadóttur velkomna til síns fyrsta fundar í menntaráði.
1. PISA 2009. Almar M. Halldórsson, verkefnisstjóri PISA hjá Námsmatsstofnun kynnti helstu niðurstöður og svaraði fyrirspurnum.
Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Menntaráð fagnar góðum árangri reykvískra nemenda í PISA könnuninni 2009. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hve vel reykvískir nemendur koma út í lesskilningi. Brýnt er að halda áfram þeirri góðu vinnu sem fór af stað árið 2007 og snéri að vitundarvakningu meðal nemenda og foreldra. Niðurstöðurnar eru mikil hvatning fyrir reykvíska kennara og brýnt er að styðja við samstarf reykvískra kennara, Menntavísindasviðs HÍ og Námsmatsstofnunar um breytta kennsluhætti í anda kenningarramma OECD. Menntaráð hvetur skólastjóra í Reykjavík til að vinna með stöðu sinna skóla á fjölbreyttan hátt með starfsfólki og foreldrum, auk hefðbundinnar kynningar í skólaráðum.
Fulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík og Kennarafélags Reykjavíkur óskuðu bókað:
Fulltrúar skólastjóra og kennara í menntaráði fagnar framsetningu niðurstaðna PISA 2009 þar sem hver og einn skóli fær niðurstöður og samanburð við fyrri niðurstöður. Á þann hátt gefst kennurum og stjórnendum skólanna tækifæri til að fagna góðum árangri ásamt því að vinna með niðurstöðurnar til hvatningar og framfara í skólastarfi í samvinnu við nemendur og foreldra.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna vill þakka Almari fyrir góða kynningu á niðurstöðum PISA á lesskilningi og læsi íslenskra grunnskólanemenda. Í ljósi hennar og einnig þeirrar menntastefnu Reykjavíkurborgar að leggja áherslu á læsi í víðum skilningi, vill fulltrúi Vinstri grænna koma því á framfæri að óráðlegt er að meirihlutinn geri skólastjórnendum að minnka starfshlutfall á skólabókasafni um 50#PR á haustönn 2011, ef við viljum halda áfram að bæta okkur í læsi og lestrarskilningi. Eitt af mörgum hlutverkum skólabókasafna er að sinna kennslu í upplýsingalæsi, þjónustu við kennara og nemendur í bókaleit auk þess sem kennslustundir í ýmsum greinum fara fram á safninu með aðstoð skólasafnskennara. Hann hefur mikil áhrif á það hvernig starfið á safninu er skipulagt. Skólabókasöfn eru mikilvægur menningar-vettvangur sem menntaráð ætti að standa vörð um og efla. Þau eru beinn aðgangur að hverju barni í Reykjavík til að glæða áhuga þeirra á lestri. Innviði skóla skipta jafnframt miklu máli fyrir lestrarfærni nemenda. Þar mætti kalla skólabókasöfnin hjartað í þeim kroppi.
Fulltrúi Vinstri grænna kallar eftir því að menntaráð framfylgi stefnu sinni um að leggja áherslu á læsi í víðum skilningi í grunnskólum Reykjavíkur og falli frá niðurskurðarhugmyndum sínum á skólabókasöfn. Betra væri að auka vægi þeirra og finna leiðir til að aðstoða og styðja kennara við að kenna nemendum að njóta bókmennta.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Í stefnumótun sinni leggur menntaráð áherslu á læsi sbr. samþykkt ráðsins þar um. Þrátt fyrir erfiðan fjárhag eru 5-7 skólar á ári styrktir til að taka þátt í svokölluðu byrjendalæsi sem miðar að því að styrkja lestrarfærni yngstu nemenda grunnskólans. Á sama tíma taka kennarar þessara skóla þátt í endurmenntun vegna þessa.
2. Lögð fram skýrsla starfshóps um skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum, dags. í janúar 2011. Þorsteinn Hjartarson, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Breiðholts kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum ásamt Hákoni Sigursteinssyni deildarstjóra hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts.
- Kl. 14:07 vék Þorgerður L. Diðriksdóttir af fundi.
- Kl. 14:18 tók Guðjón Ragnar Jónsson sæti á fundinum.
- Kl. 14:23 tók Jón Ingi Einarsson sæti á fundinum.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Menntaráð þakkar starfshópi fyrir skýrslu og tillögur sem fjalla um skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum. Ráðið lýsir yfir ánægju með tillögu um að gegnsæjar reglur (reiknilíkan) verði notaðar til úthlutunar fjármagns til sérfræðiþjónustu á þjónustu-miðstöðvum. Menntaráð lýsir yfir ánægju með tillögur um miðlunartorg þekkingar og aukna samvinnu kennsluráðgjafa á þjónustumiðstöðvum. Einnig lýsir ráðið yfir ánægju með tillögu starfshópsins að verklagi sem snýr að málum sem vísað er til sérfræðiþjónustunnar, svo sem við skimun, athugun í bekk og verklag vegna vanda nemenda.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Sjálfstæðisflokkurinn þakkar starfshópi um skólaþjónustu á þjónustumiðstöðvum fyrir mikla, mikilvæga og góða vinnu. Verkefnið er brýnt enda ljóst að aðgengi að sérfræðiþjónustu hefur verið ójafnt eftir ólíkum hverfum. Til dæmis hafa biðlistar eftir þjónustu verið mismunandi eftir hverfum, kennsluráðgjöf missterk og áherslur á sérþjónustu mismunandi sem hefur þau áhrif að sérþekking starfsmanna og þar með þjónustu einangrast. Margar tillögur eru í skýrslunni sem leitast við að taka á þessum mikla vanda en áfram þarf að fylgjast vel með þessum galla dreifingar þjónustunnar. Niðurskurður við sérkennslu er staðreynd í fjárhagsáætlun þessa árs en tillögur starfshópsins benda flestar til aukins kostnaðar við þjónustu á þjónustumiðstöðvum. Þetta kemur á óvart í ljósi krafna um niðurskurð og þá sérstaklega þegar til stendur að breyta úthlutunarreglum sérkennslufjármagns til skólanna. Almennt er þessi málaflokkur í uppnámi enda er til viðbótar við kröfu um jafnt aðgengi að þjónustu óljóst hvernig stjórnkerfisnefnd breytir skipulagi ráða, sviða og þjónustumiðstöðva.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Sérkennslumál á Leikskóla- og Menntasviði eru alls ekki í uppnámi, heldur þvert á móti í mikilli endurskoðun.
Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð felur fræðslustjóra og sviðsstjóra Leikskólasviðs að skipa starfshóp sem móti tillögur að útfærslu reglugerðar um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla og nemendaverndarráð í grunnskólum nr. 584/2010 með tilliti til áhersluatriða reglugerðarinnar og markmiða hennar, þannig að hlutverk sérfræðiþjónustu verði skýrt og samræmt í allri Reykjavíkurborg. Starfshópurinn skilgreini hlutverk sérfræðiþjónustu þjónustumiðstöðvanna gagnvart:
a. símenntun starfsfólks í leik- og grunnskólum,
b. eftirfylgni og mati á árangri,
c. forvarnarstarfi, stuðningi við foreldra og heildarsýn,
d. félags- og þroskafræðilegri þekkingu,
e. túlkaþjónustu.
Starfshópurinn vinni náið með endurskoðun sérkennslustefnu Menntasviðs sem er nú í endurskoðun.
Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að fela fræðslustjóra að vinna að innleiðingu verkferla fyrir skólastjóra, sem fram koma í skýrslu starfshóps um skólaþjónustu á þjónustu-miðstöðvum. Verkferlarnir eru annars vegar vegna aðkomu sérfræðiþjónustu skóla að máli nemenda og hins vegar vegna greiningargagna og beiðna frá BUGL, GRR, læknum og öðrum sérfræðingum vegna skilafunda.
3. Lögð fram drög að þjónustusamningi milli Menntasviðs og sjálfstætt rekins grunnskóla, dags. í janúar 2011. Jafnframt lögð fram umsögn Samtaka verslunar og þjónustu, dags. 1. desember 2010, um drög að þjónustusamningi við sjálfstætt rekinn skóla frá október 2010. Sigríður Thorlacius, lögfræðingur Menntasviðs, kynnti málið og svaraði fyrirspurnum.
Frestað.
4. Lögð fram drög að reglum Reykjavíkurborgar um leyfi til reksturs grunnskóla, dags. 19. janúar 2011. Sigríður Thorlacius, lögfræðingur Menntasviðs gerði grein fyrir málinu.
Frestað.
5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 24. janúar sl., um breytingu á reglum um leikskólaþjónustu. Jafnframt lögð fram samantekt á þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á reglunum og drög að breyttum reglum Leikskólasviðs um leikskólaþjónustu.
Samþykkt með fjórum atkvæðum og vísað til borgarráðs.
6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 24. janúar sl., um breytingu á reglum um framlag vegna barna hjá dagforeldrum. Jafnframt lögð fram samantekt á þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á reglunum og drög að breyttum reglum Leikskólasviðs um framlag vegna barna hjá dagforeldrum.
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
7. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs þar sem lagt er til að áhersluþættir þróunarstyrkja menntaráðs fyrir leikskóla árið 2011 -2012 verði Læsi leikskólabarna á margskonar þætti í lífi og starfi.
Frestað.
8. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi menntaráðs 8. sept. sl.
Menntaráð samþykkir að Menntasvið í samvinnu við Umhverfissvið, Velferðarsvið, Framkvæmda- og eignasvið og Jafningjafræðsluna, standi að gerð og kynningu fræðsluefnis fyrir börn og ungmenni um mikilvægi þess að ganga vel um umhverfi sitt, sameiginleg svæði og eigur annarra.
Greinargerð fylgir.
Frestað.
- Kl. 16:00 vék Þórunn Gyða Björnsdóttir af fundi.
9. Lagt fram bréf frá formanni Félags skólastjórnenda í Reykjavík, dags. 25. jan. sl. þar sem greint er frá áhyggjum skólastjórnenda vegna þess niðurskurðar sem hefur verið kynntur í fjárhagsáætlun grunnskóla Reykjavíkurborgar 2011.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Af samtals ríflega 500 milljóna króna hagræðingu á Menntasviði er gert ráð fyrir að kennslumagn sé lækkað um 250 milljónir króna. Nú heyrist í gegnum fulltrúa foreldra í skólaráðum skóla að sumir foreldrar hafa aðgang að upplýsingum um hagræðingarkröfu hvers skóla fyrir næsta haust en sumir ekki. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna í menntaráði óska eftir minnisblaði sem útlistar hvernig hagræðingaráform eru skipulögð, þ.e. samskipti Menntasviðs og einstakra skóla og hvernig aðkomu foreldra og starfsmanna er háttað í ferlinu. Óskað er eftir að menntaráð fái dæmi um niðurskurð á kennslumagni eftir nokkrum ólíkum skólum til að hægt sé að sjá hvernig niðurskurður á kennslumagni bitnar á ólíkum skólum. Að lokum er óskað eftir greiningu á því hvað þetta þýðir m.t.t. starfa kennara og hvaða kennslugreinar eða nám er í hættu að falla brott og hvernig fylgt verði eftir að skólar sinni sínu lögbundna hlutverki. Óskað er eftir upplýsingum um hvernig hagræðingarkrafan er misjöfn eftir skólum.
- Kl. 16:16 tók Guðjón Ragnar Jónsson sæti á fundinum.
Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks í menntaráði lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Eðlilegt er að bregðast við þeirri miklu og hörðu gagnrýni sem komið hefur fram frá foreldrum og fagaðilum á meint samráðsferli vegna fyrirhugaðrar endurskipu-lagningar. Því samþykkir menntaráð að boða til opinna kynningar- og samráðsfunda í öllum hverfum hið fyrsta.
Frestað.
10. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru áhyggjufullir yfir og óska eftir upplýsingum um stöðu mála fyrir hönd nemenda í 10. bekk grunnskóla sem nú eru að undirbúa umsókn í framhaldsskóla. Nú í lok janúar er enn ekki ljóst hvernig inntökuskilyrði vegna hverfaskipulags verði háttað en ráðuneyti menntamála hefur tilkynnt að þar verði breytingar gerðar. Til viðbótar liggja enn engar upplýsingar fyrir almennt um nám að loknum grunnskóla en þau skjöl sem eru á vef ráðuneytisins hafa ekki verið uppfærð frá 2008. Þessir þættir skapa mikla óvissu hjá nemendum auk þess sem þeir þurfa að liggja fyrir miklu fyrr enda taka nemendur ákvarðanir um framtíð sína og skólagöngu árum áður en kemur að umsóknarferli. Að auki flækir þetta mikilvæg störf námsráðgjafa sem styðja nemendur við val á skóla.
- Kl. 16:36 vék Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.
11. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 24. janúar sl., um embættisafgreiðslu erinda sem borist hafa menntaráði, fimm mál. Einnig lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 24. janúar sl., um embættisafgreiðslu erindis sem borist hefur menntaráði, eitt mál.
12. Lagt fram svar, dags. 10. janúar sl., við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi menntaráðs 17. nóv. sl., um sjálfstætt rekna grunnskóla í Reykjavík.
13. Lagt fram svar, dags. 10. janúar sl., við fyrirspurn fulltrúa Vinstri grænna frá fundi menntaráðs 8. des. sl., um afdrif tillögu um að skipa starfshóp til að leita leiða til að uppræta staðlaðar kynjamyndir í skólastarfi.
14. 12. og 13. lið útsendrar dagskrár frestað.
Fundi slitið kl. 16:40
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir Óttarr Ólafur Proppé
Stefán Benediktsson