Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2011, 12. janúar var haldinn 136. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi í Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 12:42. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir, Erna Ástþórsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Óttarr Ólafur Proppé, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Ingibjörg Jósefsdóttir, Félag skólastjórnenda í Reykjavík; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Stella Marteinsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, leikskólastjórar í Reykjavík. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir, Jón Ingi Einarsson, Kristín Egilsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

Formaður bauð Stellu Marteinsdóttur velkomna til síns fyrsta fundar í menntaráði.

1. Lögð fram skýrslan Nám og kennsla nemenda með þroskahömlun, dags. desember 2010. Hrund Logadóttir, verkefnastjóri sérkennslu á Menntasviði, kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð beinir því til borgarráðs að samþykkja að sameina starfsemi Safamýrarskóla og Öskjuhlíðarskóla í nýjum sérskóla, frá 1. ágúst 2011. Nýr sérskóli starfi í húsnæði Öskjuhlíðarskóla.
Jafnframt verði fræðslustjóra falið að stofna starfshóp sem undirbýr stofnun nýs sérskóla með gerð stefnukorts, skipurits, skólanámskrár og starfsáætlunar fyrir fyrsta skólaárið. Starfshópurinn leggur fram verkáætlun sem tekur til húsnæðisbreytinga, mannauðsmála, ráðningarmála og upplýsingagjafar til hagsmunaaðila. Starfshópurinn upplýsir menntaráð reglulega um verkefnið.
Greinargerð fylgir.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að stofnað verði til þátttökubekkja fyrir nemendur með þroskahömlun við almenna grunnskóla undir stjórn nýs sérskóla, samkvæmt þeirri fyrirmynd sem starfshópur um tilhögun náms og kennslu nemenda með þroskahömlun leggur til í skýrslu sinni frá desember 2010. Undirbúningur fyrsta þátttökubekkjarins fari af stað á fyrsta starfsári nýs sérskóla og á næstu árum verði stofnað til fjögurra slíkra þátttökubekkja, einn í hverjum borgarhluta.
Greinargerð fylgir.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að nýr sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun hafi hlutverk ráðgjafarskóla þar sem veitt verði ráðgjöf um nám og kennslu nemenda með þroskahömlun bæði í almennum grunnskólum án aðgreiningar og í sérúrræðum. Áhersla verði á að byggja upp sérfræðiþekkingu og ráðgjöf um framkvæmd náms og kennslu nemenda með þroskahömlun í almennum grunnskólum og gegni m.a. þátttökubekkir frá sérskólanum þar lykilhlutverki auk þess sem áhersla verði á að ráðgjöfin fari sem mest fram úti á vettvangi nemenda og kennara.
Greinargerð fylgir.

- Kl. 13:35 vék Óttarr Ólafur Proppé af fundi og Eva Einarsdóttir tók þar sæti.

2. Lögð fram skýrslan, Samstarf foreldra og skóla, dags. í desember 2010. Nanna K. Christiansen, verkefnastjóri á Menntasviði, kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð þakkar starfshópi um samstarf foreldra og skóla fyrir störf sín og samþykkir tillögur starfshópsins. Þær snúa m.a. að því að grunnskólar stuðli að markvissu samstarfi við foreldra með skýrri áætlun skóla um foreldrasamstarf, að leik- og grunnskólar finni leiðir sem veiti foreldrum hlutdeild í námi og starfi barna, að megináhersla fræðslu til skólastjórnenda verði á samstarf foreldra og skóla og að leikskólar starfi samkvæmt nýútgefinni handbók um samstarf fjölskyldna og skóla.
Menntaráð óskar eftir því að Menntasvið og Leikskólasvið leggi fram framvinduskýrslur í vor þar sem greint verði frá innleiðingu nýrra áætlana skóla um eflingu foreldrasamstarfs. Einnig óskar menntaráð eftir því að tölfræði- og rannsóknaþjónusta sviðanna leggi mat á árangurinn í sínum reglubundnu viðhorfskönnunum meðal foreldra, en einnig með könnun úr slembiúrtaki strax á haustönn 2011.
Áheyrnarfulltrúi SAMFOK óskaði bókað:
SAMFOK lýsir yfir ánægju sinni með áform menntaráðs um markvisst samstarf við foreldra. Tillögur starfshópsins verða vonandi upphafið að vitundarvakningu skólastjórnenda, kennara og foreldra um mikilvægi slíks samstarfs. SAMFOK hefði þó viljað sjá hlutverk aðila í samstarfinu sett fram á meira afgerandi hátt. Ljóst er að skólastjórnendur og kennarar þurfa að eiga frumkvæði að foreldrasamstarfi og bjóða foreldra velkomna til samstarfs. Gerð samstarfsáætlana og framkvæmd þeirra verður lykilatriði í þessu markvissa samstarfi og brýnt er að ábyrgð sé skýr og viðhorf jákvæð svo vel til takist.

Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað:
Börnunum okkar finnst einkennilegt að ekki sé fyrirhugað að vinna áfram með foreldrasamstarf eins og gera á fyrir grunnskólana því greining á tækifærum til foreldrasamstarfs er ekki síður mikilvægt í leikskólum en grunnskólum.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík óskaði bókað:
Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík fagnar mjög að hafin er vinna við undirbúning að samstarfsáætlun foreldra og skóla. Áheyrnarfulltrúinn bendir á að það sé brýnt að leikskólastjórar fái þjálfun og kennslu í gerð slíkrar áætlunar í sama mæli og grunnskólastjórar, sérstaklega í ljósi þess að á áætlun er að sameina leik- og grunnskóla í framtíðinni.

3. Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða.
Menntaráð leggur til við borgarráð að það samþykki að falla frá því að kosnir verði af borgarstjórn í upphafi hvers kjörtímabils tveir fulltrúar í skólanefnd Skóla Ísaks Jónssonar.
Greinargerð fylgir.

4. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 10. janúar sl., þar sem lagt er til að reglur Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar um þjónustutryggingu verði felldar brott frá og með 1. apríl 2011.
Samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað.
Sjálfstæðisflokkurinn harmar þá ákvörðun meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar að leggja niður mikilvægt úrræði fyrir foreldra með ung börn. Í tugi ára hefur skort verulega á úrræði fyrir þá foreldra sem hafa lokið fæðingarorlofi sínu og hafa ekki fengið úrræði hjá dagforeldrum eða í leikskóla. Þjónustutryggingin var hugsuð sem stuðningur við þá foreldra sem þurftu að leita annarra leiða, t.d. til að greiða au-pair, frænkum og öfum eða ömmum eða til að geta tekið sér foreldraorlof og lengra fæðingarorlof. Ársgömul rannsókn Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd við HÍ sýnir að 86#PR foreldra sem nýtti sér þetta úrræði til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla/dagforeldra eru ánægðir með þennan valkost. Algengasta ástæða þess að foreldrar nýttu sér þjónustutrygginguna er að þeir höfðu ekki fengið aðra þjónustu fyrir barnið. Það er markvert að 88#PR af öllum foreldrum, óháð nýtingu þjónustutryggingar, töldu þjónustutrygginguna auðvelda foreldrum að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar og 88#PR töldu hana nýtast vel til að greiða ættingjum eða vinum fyrir að annast barnið. Þá taldi meirihluti svarenda að þjónustutryggingin bætti möguleika þeirra á að samþætta umönnun og atvinnuþátttöku. Frá og með apríl verða allir þessir foreldrar án þjónustu, sem mun lengja biðlista hjá dagforeldrum og leikskólum. Nú þegar biðlistar eftir þjónustu hafa ekki verið lengri í mörg ár skýtur skökku við að styðja foreldra ekki lengur til að hjálpa sér sjálfir.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa þá sýn að forgangsraða beri fjármunum Leikskólasviðs til vistunar barna á leikskólum og hjá dagforeldrum. Þjónustutrygging hefur þjónað foreldrum í Reykjavík vel frá árinu 2007 en var komið á í allt öðru árferði en nú er staðreynd. Besti flokkurinn og Samfylkingin telja að höfuðáhersla Leikskólasviðs eigi að vera á leikskólastarf og vistun hjá dagforeldrum. Að öllu óbreyttu hefði fjármagn til greiðslu þjónustutryggingar numið um 250 milljónum króna á næsta ári sem hefði takmarkað alvarlega möguleika borgarinnar á að bjóða yngstu borgurunum leikskóla- og dagforeldrapláss á næstu árum. Þess ber að geta að 300 milljónir fara til fjármögnunar nýrra leikskólaplássa fyrir börn sem verða tveggja ára á árinu 2011. Það er sú þjónusta sem foreldrar í Reykjavík treysta fyrst og fremst á og við viljum veita.

5. Lagt fram bréf sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 10. janúar sl. þar sem kynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 14. desember sl. hafi verið samþykkt breytingartillaga á reglum Leikskólasviðs um leikskólaþjónustu sem gerir ráð fyrir að veittur verði 75#PR systkinaafsláttur vegna vistunar annars barns og 100#PR afsláttur vegna vistunar þriðja og fjórða barns. Tekjuáhrif breytingarinnar eru óveruleg og ekki talin ástæða til að endurskoða tekjuáætlun af þessum sökum.

6. Lagt fram bréf frá Leikskólanum Mýri, mótt. 10. des. sl., beiðni um að leikskólinn verði gerður að borgarreknum leikskóla.

Svohljóðandi tillaga samþykkt samhljóða:
Menntaráð samþykkir að sviðsstjóri Leikskólasviðs hefji viðræður við fyrirsvarsmenn sjálfstætt starfandi leikskólans Mýri.
Greinargerð fylgir.

7. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 5. janúar sl., þar sem lagt er til að áhersluþættir þróunarstyrkja menntaráðs fyrir grunnskóla skólaárið 2011 – 2012 verði foreldrasamstarf og verkefni tengd menningaruppeldi í grunnskólum.
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 5. janúar sl., varðandi upphaf skólastarfs, vetrarleyfi og umhverfisdaga hjá nemendum í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2011 – 2012. Þar er gert ráð fyrir að skólastarf hefjist mánudaginn 22. ágúst; að þeir skólar sem taka vetrarleyfi velji eftirtaldar dagsetningar á haustönn: 21., 24. og 25. október og á vorönn 23. og 24. febrúar og að umhverfisdagar verði 13. september 2011 og 23. apríl 2012.
Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna í menntaráði leggja til að stofnaður verði hópur sem hafi það verkefni að samræma starfsdaga leikskóla og grunnskóla. Markmiðið sé að á næsta ári verði í sameinuðu menntaráði sameiginlegt skóladagatal samþykkt.
Samþykkt.

9. 9. og 10. töluliðum útsendrar dagskrár frestað.

10. Lagt fram bréf borgarstjórnar, dags 7. desember sl., þar sem kynnt er að það tímabil sem menntaráð fer með verkefni leikskólaráðs framlengist til 1. júlí nk.

11. Lögð fram ályktun frá stjórn Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla og sameiginlegri skólamálanefnd beggja félaga frá fundi 9. desember 2010.

- Kl. 15:55 vék Rósa Steingrímsdóttir af fundi.

12. Kynning á innri leigu húsnæðis hjá Reykjavíkurborg, sem svar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar að lútandi, frá fundi menntaráðs 17. nóvember sl. Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar kynnti og svaraði fyrirspurnum ásamt Halldóru Káradóttur, Gísla H. Guðmundssyni, Óla Jóni Hertervig og Hreini Ólafssyni. Jafnframt var lögð fram auglýsing um reikningsskil sveitarfélaga, skýrsla starfshóps um innri leigu, dags. 7. desember 2009 og minnisblað til aðgerðahóps, dags. 2. nóv. 2010 um skil á húsnæði til Eignasjóðs og innri leigu.

13. 14., 15. og 16. lið útsendrar dagskrár frestað.

14. Lögð fram dagskrá ráðstefnu Leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, Vísindi og tónlist í leikskólastarfi, sem haldin verður 5. febrúar nk. í Háskóla Íslands Stakkahlíð.

- Kl. 16:40 viku Líf Magneudóttir, Eva Einarsdóttir og Stella Marteinsdóttir af fundi.
- Kl. 16:52 vék Erna Ástþórsdóttir af fundi.

15. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði ítreka ósk sína um kynningu á ferli mála þegar upp koma hugmyndir eða vangaveltur kennara eða foreldra um þörf á sérstökum úrræðum vegna námsörðugleika, hegðunarvandamála, einhverfu eða annarra þroskatakmarkana. Átt er við allt ferli mála á báðum skólastigum og í frístund, skimun og greiningu, kynningu niðurstaðna, innleiðingu ákvarðana og eftirlit. Að auki óskar Sjálfstæðisflokkurinn eftir yfirliti og kynningu á því hvernig mismunandi þekking á þjónustu við börn með sérhæfðar þarfir er eftir hverfum og hvernig ein sérhæfð þjónustumiðstöð þjónar annarri. Að auki er óskað eftir upplýsingum um bið eftir greiningu/aðstoð þjónustumiðstöðvar við einstaklinga sem þurfa þjónustu. Óskað er eftir að þessar upplýsingar berist eins fljótt og auðið er vegna vinnu við breytingar á a) sérkennslustefnu, b) úthlutun sérkennslukvóta og c) stjórnkerfisbreytinga.

16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um fjölda nemenda í fjarnámi á framhaldsskólastigi í grunnskólum borgarinnar og í hvaða skólum þeir stunda fjarnám greint eftir haust og vorönn 2008-2011.

Fundi slitið kl. 17:03

Oddný Sturludóttir
Kjartan Magnússon Stefán Benediktsson
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir