Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

M E N N T A R Á Ð

Ár 2010, 13. október var haldinn 130. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í sal Miðbæjarskólans að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 12:38. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Líf Magneudóttir, Pétur Magnússon, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Halldóra Guðmundsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, Skólastjórafélag Reykjavíkur; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, Félag stjórnenda í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Guðrún Edda Bentsdóttir, Guðrún Sigtryggsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

Formaður bauð Pétur Magnússon velkominn á sinn fyrsta fund í menntaráði.

1. Lögð fram drög að þjónustusamningi milli Menntasviðs og sjálfstætt rekins grunnskóla, dags. í október 2010. Sigríður Thorlacius, lögfræðingur Menntasviðs, kynnti samninginn og svaraði fyrirspurnum.

- Kl. 13:07 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

2. Lögð fram drög að reglum Reykjavíkurborgar um leyfi til reksturs grunnskóla, dags. í október 2010. Sigríður Thorlacius, lögfræðingur Menntasviðs fór yfir drögin og svaraði fyrirspurnum.

3. Lögð fram skýrsla starfshóps um flutning barna með sérþarfir milli skólastiga, dags. í júlí 2010. Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri leikskólaskrifstofu Leikskólasviðs, kynnti niðurstöður skýrslunnar og svaraði fyrirspurnum.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð samþykkir tillögur starfshóps um flutning barna með sérþarfir milli skólastiga og þakkar fyrir greinargóða og afar upplýsandi samantekt. Það er ánægjulegt að sjá að meirihluti foreldra, eða 82#PR, sögðust vera ánægðir með undirbúning að skólabyrjun. Afar mikilvægt er að sem fyrst liggi fyrir samræmdar reglur fyrir þjónustumiðstöðvar borgarinnar um flutning fatlaðra barna milli leik– og grunnskóla og í því tilliti má ekki gleyma þætti frístundaheimila. Menntaráð vill bæta við tillögur starfshópsins að betrumbæta þurfi upplýsingagjöf borgarinnar til handa foreldrum barna með sérþarfir, bæði á heimasíðum og upplýsingavef borgarinnar og í sérkennslustefnum beggja sviða.

Kl. 13:30 var gert hlé á fundinum og fundarmenn fóru á Ingólfstorg til að fylgjast með leikskólabörnum sem luku friðargöngu sinni á torginu með því að mynda friðarmerkið og syngja. Fundurinn hófst á ný kl. 14:00.

- Kl. 14:00 vék Pétur Magnússon af fundi og Óttarr Ólafur Proppé tók þar sæti.

4. Formaður menntaráðs lagði fram og kynnti stuttlega aðgerðaáætlun í skólamálum - 10 rauðir þræðir og einn grænn. Fjallað um þátttöku skólasamfélagsins við að útfæra skref út frá aðgerðaáætluninni inn í starfsáætlanir Leikskólasviðs og Menntasviðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menntaráði leggja til að unnið verði kynningarrit fyrir foreldra og forráðamenn 4-5 ára barna í leikskóla. Ritið hafi það markmið að börn fái góða aðlögun að nýju umhverfi og að foreldrar sjái glögglega hvert þeir eigi að leita ef einhverjar spurningar vakna. Í þessu riti eru upplýsingar um hvernig skólaumhverfið breytist á þessum tíma, hvernig barnið breytist og þroskast og hvernig færsla og samfella á milli skólastiga er skipulögð í Reykjavík. Í ritinu komi fram hvernig þessi samfella er skilgreind að lágmarki hjá reykvískum skólum en síðan séu tekin dæmi um ólíkar leiðir leik- og grunnskóla í ólíkum hverfum sem sýna glögglega fjölbreytni skóla borgarinnar. Að lokum séu upplýsingar um samfellu skólastiga fyrir börn með sérþarfir og um reglur varðandi börn sem vilja byrja fyrr í grunnskóla eða vera lengur í leikskóla. Ritið verði að minnsta kosti komið á rafrænt form fyrir haustið 2011.
Samþykkt.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna lýsa áhyggjum sínum vegna þess hversu stutt á veg fjárhagsáætlunargerð næsta árs er komin. Meginlínur um forgangsröðun og hagræðingaraðgerðir hafa ekki verið ákveðnar í aðgerðarhópi og eru nánast óunnar af hálfu meirihlutans. Kjörnir fulltrúar menntaráðs hafa hins vegar hist nokkrum sinnum til að ræða hugmyndir um niðurskurð og hagræðingu á Mennta- og Leikskólasviði. Er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig en þegar pólitísk stefnumörkun liggur ekki fyrir er hætt við að sú vinna fari forgörðum. Á borgarstjórnarfundi 21. september kom fram að aðgerðaráætlun sem unnin hefur verið eftir síðastliðin tvö ár hefur verið felld úr gildi. Ekki liggur fyrir hvort unnið verður áfram á hennar grunni. Tilkoma aðgerðaráætlunar 2008 tryggði farsæla pólitíska sátt sem leiddi til betri fjárhagsáætlunargerðar en áður hafði tíðkast og á grunni þeirrar vinnu vilja fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna að verði áfram unnið og hafa ítrekað boðið samráð og samstarf um þau verkefni. Þrátt fyrir þetta er það enn svo að aðgerðarhópur borgarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar hefur ekki sent frá sér sameiginleg skilaboð sem veldur því að fulltrúar í menntaráði geta illa metið á hvaða grundvelli hagræðingartillögur skuli byggja. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna í menntaráði vilja ítreka þá skoðun sína að nauðsynlegt sé að leggja meginlínur um hvað skuli vera í komandi fjárhagsáætlun.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Fjárhagsáætlunarvinna á Mennta- og Leikskólasviði er í góðum gangi og gott samráð og samstarf hefur verið milli allra flokka í menntaráði. Fyrir það er þakkað og óskandi væri að sú góða samstaða og sameiginleg leiðarljós geti einkennt fjárhagsáætlunargerð þessa árs eins og síðastliðin ár.

5. Lagt fram yfirlit yfir stöðu markmiða í september í starfsáætlun Leikskólasviðs fyrir árið 2010.

6. Lagt fram yfirlit yfir stöðu markmiða í september í starfsáætlun Menntasviðs fyrir árið 2010.

- Kl. 14:44 vék Þorgerður L. Diðriksdóttir af fundi.

7. Lagt fram minnisblað verkefnisstjóra á leikskólaskrifstofu Leikskólasviðs, dags. 7. október sl., um skil á starfsáætlunum leikskóla í Reykjavík skólaárið 2010-2011.

Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar þeim leikskólum sem nú þegar hafa skilað starfsáætlun. Enn hafa rúmlega 30 leikskólar ekki skilað starfsáætlun og ekki óskað eftir fresti. Menntaráð ítrekar að um lagaskyldu er að ræða og ráðgjöf á Leikskólasviði stendur leikskólum til boða við gerð starfsáætlunar. Starfsáætlun er mikilvægt stjórnunartæki og upplýsingagjöf til foreldra og því algjörlega óviðunandi að skilin séu jafn slök og raun ber vitni.

8. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra, dags. 11. október sl., um starfsáætlanir grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2010-2011.

9. Lagt fram minnisblað, dags. í október 2010, upplýsingar um nemenda- og deildafjölda í grunnskólum Reykjavíkur skólaárið 2010-2011.

10. Samþykkt að skipa Margréti Kristínu Blöndal, Líf Magneudóttur og Guðrúnu Höllu Sveinsdóttur í valnefnd vegna barnabókaverðlauna. Margrét Kristín verður formaður.

11. Samþykkt að skipa Evu Einarsdóttur, Sigríði Pétursdóttur, Stefán Benediktsson, Rósu Gunnarsdóttur, Þórdísi Þórðardóttur, Nönnu Kristínu Christiansen og Ingveldi Hrönn Björnsdóttur í stýrihóp BRÚAR – samráðsvettvangs um skólamál. Eva verður formaður.

12. Lagt fram svar, dags. 11. okt. sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Barnanna okkar frá fundi menntaráðs 22. sept. sl., varðandi handbók um öryggi barna í leikskólum.

13. Lagt fram svar, dags. 11. okt. sl., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Kennarafélags Reykjavíkur frá fundi menntaráðs 22. sept. sl., varðandi breytingar á tölvumálum grunnskóla í haust.

14. Lögð fram ársskýrsla Menntasviðs Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009.

15. Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað vegna svars, sem var lagt fram á fundi menntaráðs 22. september sl., við fyrirspurn þeirra varðandi aðalskoðun í leikskólum:
Aðalskoðun er einn liður af þremur í innra eftirliti leikskóla (skv. reglugerð 942/2002 og 607/2005) og sá hluti eftirlits sem á að fara fram af óháðum aðila sem hefur vottaða faggildingu til aðalskoðunar. Frá því í janúar 2006 hefði aðalskoðun leikskóla átt að fara fram árlega. Samkvæmt Faggildingastofu hefur einn aðili á Íslandi vottaða faggildingu til aðalskoðunar leikskóla (BSI á Íslandi), samkvæmt þeim og umhverfisráðuneytinu, hafði enginn leikskóli fengið aðalskoðun árið 2009 og aðeins tveir leikskólar samtals fengið aðalskoðun síðan 2006.
Jafnvel þótt í þrígang hafi verið spurt um aðalskoðun á fundum leikskólaráðs/menntaráðs hafa ekki fengist haldbær svör hvort og hvenær aðalskoðun hafi farið fram og ýmist vísað á Framkvæmdasvið eða Heilbrigðiseftirlitið en hvorugur aðilinn framkvæmir aðalskoðun eins og kröfur um aðalskoðun eru tilgreindar í reglugerðinni. Við undrumst að fá svo misvísandi svör við fyrirspurnum okkar.
Það er ekki framkvæmd lögbundin aðalskoðun í leikskólum borgarinnar og það hefur ekki verið haldið hingað til miðlægt utan um slys á börnum í leikskólum í borginni (sbr. svar menntaráðs frá 23. júní). Börnin okkar hafa verulegar áhyggjur af þessu og telja að bæta þurfi verulega úr að farið sé að tilmælum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um úrbætur, framkvæma þurfi aðalskoðun leikskóla og að halda þurfi miðlægt utan um slysaskráningu vegna slysa sem verða í leikskólum í borginni.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Börnunum okkar er þakkað fyrir ábendingar sínar. Ljóst er að þörf er á skilvirku eftirliti. Daglega yfirfer starfsfólk leikskólanna lóðirnar og slysum á börnum hefur fækkað jafnt og þétt síðastliðin ár. Árlega er reglubundið eftirlit frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar, sem er óháður eftirlitsaðili, og tekur út allar leikskólalóðir. Unnið er að úrbótum jafnt og þétt.

16. Áheyrnarfulltrúi Barnanna okkar óskaði bókað vegna svars, sem var lagt fram á fundi menntaráðs 22. september sl., við fyrirspurn þeirra varðandi eldvarnarmál í leikskólum.

Í janúar lögðu Börnin okkar fram eftirfarandi fyrirspurn „Óskað er eftir upplýsingum um hvernig staðið er að brunæfingum í leikskólum, hvort til séu viðbragðsáætlanir og hvort til séu rýmingaráætlanir fyrir alla leikskólana“. Í kjölfar þess lagði Leikskólasvið spurningalista fyrir leikskólastjóra á þessu ári sem 74 af 78 leikskólum svöruðu. Niðurstöður þess eru m.a. að engin rýmingaráætlun er til í 5 leikskólum af þessu 74 sem svara, eða 7#PR skóla. Aldrei eru haldnar brunaæfingar í 17 þessara leikskóla sem svara, eða 23#PR. Samkvæmt reglugerð 200/1994 um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði kemur m.a. fram í grein 3.3 um brunaæfingar að í atvinnuhúsnæði þar sem 30 manns eða fleiri starfa skuli halda brunaæfingu a.m.k. árlega. Í slíkum brunaæfingum er farið yfir helstu brunavarnir húsa og rýming húsa æfð undir umsjón slökkviliðsstjóra eða annars aðila sem viðurkenndur er til slíks. Ljóst er að Reykjavíkurborg brýtur lög hvað varðar brunaæfingar í leikskólum. Samtökin Börnin okkar – samtök foreldrafélaga leikskólabarna telja ljóst að öryggismálum í leikskólum Reykjavíkur er verulega ábótavant og mjög mikilvægt er að þessi mál verði tekin föstum tökum nú þegar.

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins óskuðu bókað:
Ekki er tekið undir það að öryggismálum í leikskólum borgarinnar sé verulega ábótavant. Alltaf má gera betur og starfsfólk Leikskólasviðs og leikskólanna er ávallt á verði yfir öryggi og velferð barna í leikskólum. Strax var gripið til aðgerða vegna niðurstaðna kannana um brunavarnir og ber leikskólastjórum að uppfylla ítrustu kröfur sem gerðar eru.

- Kl. 15:54 viku Stefán Benediktsson, Óttarr Ólafur Proppé og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.

17. Áheyrnarfulltrúi SAMFOK lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:
Með vísan í frétt Hagstofunnar nr. 198/2010 á vef hennar frá 1. október 2010 um starfstíma grunnskóla 2009-2010 vill SAMFOK spyrja:
1. Hefur orðið samdráttur í grunnskólum Reykjavíkur í kennslustundum til sérkennslu og stuðnings og þá hversu mikill?
2. Er fjöldi kennslustunda í grunnskólum Reykjavíkur í samræmi við viðmið í lögum um grunnskóla?
3. Eru skóladagar í grunnskólum Reykjavíkur 180 eða fleiri í öllum tilfellum?

Fundi slitið kl. 16:15

Oddný Sturludóttir
Erna Ástþórsdóttir Kjartan Magnússon
Líf Magneudóttir