Skóla- og frístundaráð
M E N N T A R Á Ð
Ár 2010, 11. ágúst var haldinn 125. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn í sal Miðbæjarskólans að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 12:40. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Erna Ástþórsdóttir, Eva Einarsdóttir, Kjartan Magnússon, Líf Magneudóttir, Stefán Benediktsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Bryndís Jónsdóttir, SAMFOK; Halldóra Guðmundsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Rósa Steingrímsdóttir, Börnin okkar; Sesselja Ingibjörg Jósefsdóttir, Skólastjórafélag Reykjavíkur; Þorgerður L. Diðriksdóttir, Kennarafélag Reykjavíkur og Þórunn Gyða Björnsdóttir, Félag stjórnenda í leikskólum. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri Leikskólasviðs, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Sigurðardóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Ingunn Gísladóttir og Jón Ingi Einarsson. Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.
Þetta gerðist:
Fundurinn hófst á því að Oddný Sturludóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir minntust Lauru Bergs, ritara leikskólaráðs sem lést nýlega.
Menntaráð Reykjavíkur vottar Lauru Bergs virðingu sína og þakkar hennar störf.
Formaður bauð Rósu Steingrímsdóttur velkomna á sinn fyrsta fund í menntaráði.
1. Lögð fram skýrsla starfshóps um rekstrarhagræðingu í máltíðaþjónustu leik- og grunnskóla Reykjavíkurborgar, dags. í maí 2010. Jafnframt lögð fram skýrsla starfshóps um viðmiðunarmatseðil/hráefnismatseðil og samræmd innkaup í mötuneytum leik- og grunnskóla. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri rannsókna- og tölfræðiþjónustu Menntasviðs og Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, verkefnisstjóri lýðheilsu á Leikskólasviði kynntu skýrslurnar og svöruðu fyrirspurnum.
Bókun menntaráðs:
Menntaráð þakkar fyrir frábæra vinnu starfshóps sem síðastliðinn vetur hefur unnið að því að kanna möguleika á rekstrarhagræðingu í máltíðaþjónustu leik- og grunnskóla Reykjavíkur. Brýnt er að tryggja að niðurstöður þessarar vinnu nýtist til að bæta frekar mataræði í leik- og grunnskólum. Menntaráð samþykkir fyrir sitt leyti tillögur hópsins sem kveða á um: 1) vandaðan hráefnismatseðil til viðmiðunar fyrir mötuneyti 2) samræmd innkaup mötuneyta á hverfavísu 3) tilraunaverkefni í Vesturbæ 4) skipan starfshóps sem vinni tillögur að einföldun á kostnaðarbókhaldi mötuneyta og 5) skilgreiningu á fyrirmyndareldhúsi og mótun þjónustustefnu fyrir mötuneyti leik- og grunnskóla. Við innleiðingu alls þessa hefur verið ákveðið að ráða starfsmann í sex mánuði í sérstakt atvinnuátak og bindur menntaráð miklar vonir við að tryggt verði til framtíðar að fagmenntaður starfskraftur sinni skólamötuneytum í Reykjavík. Fulltrúum foreldra verði gefinn kostur á að taka virkan þátt í þeirri vinnu sem framundan er við að bæta mataræði í skólum, með setu í rýnihópi um verkefnið. Menntaráð telur mikilvægt að matur í leik- og grunnskólum einkennist af gæðum og ýtrustu hagræðingu verði náð með betra skipulagi í allri umgjörð skólamötuneyta. Með samræmdum hráefnisinnkaupum er jákvætt skref stigið gagnvart foreldrum sem eiga börn á báðum skólastigum. Skólamatráðum í Reykjavík er þakkað fyrir gott innlegg í vinnu starfshópsins og menntaráð telur mjög mikilvægt að hafa gott samráð við þá í framhaldinu svo áfram verði hægt að byggja upp metnaðarfull skólamötuneyti í Reykjavík. Menntaráð telur brýnt að fá grófar niðurstöður úr tilraunaverkefninu í Vesturbæ inn á fund menntaráðs strax í október svo hægt sé að meta þær m.t.t. fjárhagsáætlunar fyrir árið 2011. Menntaráð hvetur skólastjórnendur til að gefa börnum og unglingum tækifæri til að hafa áhrif á matseðil í sínum skóla með lýðræðislegum hætti og huga að því að viðunandi tími og næði gefist til að neyta – og njóta matar í grunnskólum Reykjavíkur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurnir:
1) Til þess að geta greint í kjölfar tilraunaverkefnisins raunverulega hagræðingu að breytingu á innkaupum og viðmiðunarmatseðli þarf að setja upp núll punkt til viðmiðunar. Óskað er eftir skýrum samanburðartölum sem sýna hve hár raunkostnaðurinn er í dag (hráefni og kostnaður við vinnu í mötuneyti) til að hægt sé að bera saman þegar úttekt er gerð á tilrauninni.
2) Í 35#PR grunnskóla er boðið upp á morgunhressingu. Á að setja einhverjar reglur um kostnað að þessu leyti og/eða jafnræðisreglu um að annað hvort eigi allir eða enginn að bjóða morgunmat?
3) Í rúmum helmingi grunnskóla sinnir mötuneyti nemenda einnig mötuneyti starfsfólks. Hversu mörg mötuneyti eru sérstaklega rekin fyrir starfsfólk og hversu margir skólar haga því þannig að starfsfólk borði í sama mötuneyti og nemendur? Hvaða reglur eru um þessi mál og hvernig skiptist þessi kostnaður í bókhaldi?
4) ÍTR býður síðdegishressingu fyrir nemendur og vafalaust felst hagræðing í að tengja þá hressingu við mötuneyti leik- og grunnskóla. Er gert ráð fyrir að þetta sé skoðað í tilraunaverkefninu?
5) Ákveðinnar neikvæðni gætir hjá stjórnendum leik- og grunnskóla varðandi sameiningu og samnýtingu mötuneyta sem jafnvel eru mjög nálægt eða á sömu lóð. Það gæti stafað að því að verið er að spyrja stjórnendur fagstarfsins einungis og því er spurt hvort að sömu spurningar hafi verið lagðar fyrir starfsfólks mötuneyta? Ef ekki, verður það gert í þeim starfshópum sem eru nú að störfum eða eru að hefja störf?
6) Umræða síðasta vetur í fjölmiðlum fjallaði að hluta til um tíma barna til að nærast. Til lítils er unnið ef að þessi þáttur situr eftir þar sem sum börn eru þá áfram ekki að nærast nóg eða njóta matar. Er stefnt að því að meta þennan þátt sérstaklega?
2. Lögð fram skýrsla starfshóps um tilraun um samrekstur leikskólanna Tjarnarborgar og Öldukots 2009 – 2010, dags. í maí 2010. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri rannsókna- og tölfræðiþjónustu Menntasviðs kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.
- Bryndís Jónsdóttir vék af fundi kl. 13:50
Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Menntaráð þakkar starfsmönnum og stjórnendum leikskólanna Tjarnarborgar og Öldukots fyrir þátttökuna í tilraunaverkefninu. Það kemur fram í skýrslunni að verkefnið hefur verið skemmtilegt, samskipti í stærri starfsmannahópi hafi aukið viðsýni og breidd í umræðuna og starfsfólk og stjórnendur líta á samreksturinn sem faglega áskorun. Það er fagnaðarefni að foreldrar og börn eru hér eftir sem hingað til ánægðir með leikskólann. Í starfsáætlun Leikskólasviðs undanfarin tvö ár hefur verið áhersla á að nýta tækifæri til samrekstrar/sameiningu leikskóla. Sú stefna er fyrst og fremst byggð á faglegum grunni þar sem meiri mannauður eykur þekkingarstig og tækifæri leikskólans. Sá lærdómur sem draga má af verkefninu er að mikilvægt er að vanda allan undirbúning og setja fram skýr markmið um hvernig staðið skuli að sameiningu/samrekstri leikskóla. Markmiðin þurfa þó að tryggja að sveigjanleiki sé fyrir hendi til tryggja að sérstaða sameinaðra skóla haldist og að tími breytinga sé rúmur.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Vinstri græn telja varhugavert að sameina leikskóla. Leikskólar eru lykilstofnanir þar sem fagmenntað starfsfólk sinnir menntun barna og gæti sameining bitnað á gæðum náms. Börn er afar mikilvægur þjóðfélagshópur sem þarf að hlúa vel að og má niðurskurður ekki bitna á honum. Það er vissulega nauðsynlegt að gæta aðhalds í rekstri Reykjavíkurborgar, nú sem endra nær, en sparnaður má alls ekki leiða til að þjónusta við börn og aðra mikilvæga þjóðfélagshópa sé skert eða að gæði hennar verði ófullnægjandi. Vinstri græn telja víst að ætlunin með sameiningum leikskóla sé að ná fram sparnaði með lækkun stjórnunarkostnaðar og sparnaði í starfsmannahaldi. Slíkur niðurskurður getur falið í sér að fagmenntuðu starfsfólki verði fækkað og þar með getur dregið úr gæðum leikskóla. Þá vilja Vinstri græn árétta að langflestir stjórnendur og millistjórnendur leikskóla eru konur. Óforsvaranlegt er að fækka stjórnunarstöðum þar sem kvenstjórnendur eru í meirihluta ef ekki er ráðist í sambærilegar sparnaðar-aðgerðir þar sem karlar eru í meirihluta stjórnenda.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Ætlunin með sameiningu leikskóla er bæði faglegs eðlis sem og liður í hagræðingu. Engar uppsagnir eru í farvatninu heldur eingöngu verið að skoða tækifæri til sameiningar þar sem stjórnendur segja upp af eðlilegum ástæðum. Mjög hart hefur verið gengið fram í hagræðingu í leikskólastarfinu sjálfu og ljóst að leita verður nýrra leiða. Margt mælir með tilraunum af þessu tagi og ljóst að þróunin er á þessa leið. Til dæmis opnar nýr og spennandi skóli í Úlfarsárdal innan nokkurra vikna þar sem einn stjórnandi er yfir leikskóla, grunnskóla og frístundaheimili. Illskárra er að hagræða í stjórnendakostnaði en í faglegu skólastarfi. Allir starfsmenn borgarinnar hafa fundið áþreifanlega fyrir hagræðingaraðgerðum, bæði karlar og konur.
3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 9. ágúst sl. um sameiningu leikskóla.
4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra Leikskólasviðs, dags. 9. ágúst sl. um nýja deild við leikskólann Rauðhól.
5. Lagt fram bréf fræðslustjóra, dags. 9. júlí sl. um skóladagatal Dalskóla skólaárið 2010-2011.
Samþykkt.
6. Lögð fram á ný svohljóðandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna sem frestað var á fundi menntaráðs 23. júní sl.
Menntaráð samþykkir að stofna starfshóp sem leiti leiða til að uppræta áhrif staðlaðra kynjamynda á tækifæri og aðstæður barna til að þroskast og mennta sig. Hópurinn skal vinna með mannréttindastjóra borgarinnar og sérfræðingum háskólasamfélagsins að því að finna leiðir til að afmá þau höft sem staðalímyndir skapa fyrir stúlkur og drengi og möguleika þeirra til menntunar og innihaldsríks lífs. Starfshópurinn skal undirbúa vinnuþing um málefnið sem verði opið fyrir öllum hagsmunaaðilum skólastarfs. Starfshópurinn skal leggja fyrir menntaráð tillögur að aðgerðum til að efla sjálfstraust og hæfileika barna til að þroska með sér áhugamál og hæfileika óháð stöðluðum ímyndum um hlutverk kvenna og karla.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins lögðu fram svohljóðandi málsmeðferðar-tillögu:
Besti flokkurinn og Samfylkingin fagna tillögu VG um að uppræta áhrif staðlaðra kynjamynda á tækifæri og aðstæður barna til að þroskast og mennta sig. Besti flokkurinn og Samfylkingin leggja til að tillögunni verði vísað í mannréttindaráð en formaður ráðsins hefur tekið jákvætt í að vinna þessu mikilvæga máli brautargengi í samráði við fleiri svið borgarinnar en skólasviðin. Þannig náum við betri árangri í að uppræta áhrif staðlaðra kynjamynda. Menntaráð hvetur skólastjórnendur til að standa vörð um jafnréttismenntun og skapa tækifæri í skólastarfi fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum og rækta hæfileika sína. Markmið jafnréttismenntunar er að allir séu virkir þátttakendur í því að skapa samfélag jöfnuðar, jafnréttis og réttlætis. Skólastjórar eru hvattir til við skipulagningu alls skólastarfs og þá sérstaklega í námsvali að virða mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og vinna gegn áhrifum staðlaðra kynjamynda.
Sú málsmeðferð samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá.
Fulltrúi Vinstri grænna óskaði bókað:
Það veldur fulltrúa Vinstri grænna miklum vonbrigðum að tillögu hans um að skipa starfshóp til að uppræta staðlaðar kynjamyndir skuli vísað alfarið til mannréttindaráðs. Á fundi menntaráðs þ. 23. júní 2010 var samþykkt tillaga meirihlutans um að skipa starfshóp sem leitar leiða til að auka námsáhuga drengja í skólum. Ekki hafa enn komið fram afgerandi rannsóknir sem segja að kynin nemi með ólíkum hætti og það halli sérstaklega á drengi í þessu samhengi og því verði að beita öðrum kennsluaðferðum þegar drengir eiga í hlut. Þvert á móti hefur það komið á daginn að fjölbreyttar kennsluaðferðir gagnast báðum kynjum og ætti nálgunin því að vera heildstæð frekar en að taka annað kynið fram yfir hitt eins og kemur t.d. skýrt fram í lokaskýrslu um móðurskólaverkefnið Drengir og grunnskólinn í Vesturbæjarskóla. Fulltrúi Vinstri grænna setur sig ekki á móti því að Menntasvið vinni tillöguna í samstarfi við önnur svið eða ráð, eins og t.d. mannréttindaráð. Hins vegar er tillagan ekki til þess fallin að mannréttindaráð taki að sér að útfæra hana þar sem hún snertir skólastarf í víðu samhengi, með nákvæmlega sama hætti og tillaga meirihlutans um námsleiða drengja. Með þessari málsmeðferð er aðeins verið að drepa málinu á dreif. Að lokum vill fulltrúi Vinstri grænna árétta að nauðsynlegt sé í skólastarfi að hlúa vel að báðum kynjum og þar með öllum börnum og stuðla að hvers kyns fjölbreytni. Líðan og velferð barna tengist fleiri breytum en aðeins kyni, t.a.m. efnahag foreldra og menntun þeirra. Jafnframt er hætt við því að börn aðfluttra finni sig ekki í skólastarfi. Eðlilegt er að líta til allra þeirra breyta sem mögulega hafa áhrif á líðan barna áður en gripið er til aðgerða og byggt á bestu kenningum á hverjum tíma. Þá vill fulltrúi Vinstri grænna ítreka að jafnréttisfræðslu í skólum og á Menntavísindasviði Háskóla Íslands er tilfinnanlega ábótavant og mætti gera miklu meira í að fræða börn, ungmenni og þá sem koma að uppeldisstörfum um jafnrétti og áhrif staðalmynda á samfélagið.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Mannréttindaskrifstofu er faglega betur treystandi til að meta áhrif staðlaðra kynjamynda í borgarsamfélaginu öllu heldur en Menntasviði, enda er það hlutverk Mannréttindaskrifstofu að nálgast svo viðamiklar áskoranir með samþættingu allra sviða að leiðarljósi. Að sjálfsögðu munu Mennta- og Leikskólasvið taka þátt í þeirri vinnu, en ekki er hægt að undanskilja ÍTR, Velferðarsvið, mannauðsskrifstofu og mun fleiri.
7. Lögð fram ályktun skólaráðs Klébergsskóla, móttekin 16. júní sl., varðandi hagræðingu í grunnskólum.
8. Lögð fram bókun frá fundi hverfisráðs Árbæjar, dags. 11. júlí sl., varðandi byggingu Norðlingaskóla.
9. Lagt fram afrit úr bréfi hverfisráðs Hlíða til borgarráðs, dags. 14. júlí sl. varðandi upplýsingagjöf og samstarf.
10. Lagður fram úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í stjórnsýslumáli nr. 72/2009.
11. Lagður fram úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í stjórnsýslumáli nr. 86/2009.
12. Menntaráð samþykkti að skipa Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Óttarr Proppé í starfshóp um úrræði sem stuðla að auknum námsárangri drengja/nemenda í grunnskólum. Þorbjörg verður formaður hópsins. Jafnframt verða í hópnum fulltrúar frá skrifstofum Menntasviðs og Leikskólasviðs, fulltrúi skólastjóra, leikskóla- og grunnskólakennara og foreldra. Jafnframt lögð fram drög að erindisbréfi hópsins.
13. Lagt fram svar fulltrúa Samfylkingarinnar og Besta flokksins við fyrirspurnum fulltrúa Sjálfstæðisflokks, frá fundi menntaráðs 23. júní sl., varðandi sameiningu leikskóla- og menntaráðs.
14. Fjallað um stöðu samninga við tónlistarskóla.
15. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Mikilvægt er að foreldrar fái með góðum fyrirvara upplýsingar um breytingar á þjónustutryggingu til að hægt verði að skipuleggja umönnun yngstu barnanna. Samfylking var á síðasta kjörtímabili ósammála þáverandi meirihluta um þetta úrræði. Hver er stefna nýs meirihluta í borgarstjórn varðandi þjónustutryggingu?
Fundi slitið kl. 15:55
Oddný Sturludóttir
Erna Ástþórsdóttir Eva Einarsdóttir
Kjartan Magnússon Líf Magneudóttir
Stefán Benediktsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir