Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

Leikskólaráð

Ár 2009, 23. september kl. 14:00 var haldinn 62. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Ragnar Sær Ragnarsson formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Einar Örn Ævarsson, Hanna Kristín Skaftadóttir, Stefán Benediktsson og Oddný Sturludóttir. Auk þeirra sátu fundinn Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, varaáheyrnarfulltrúi F- lista, Þórunn Gyða Björnsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Halldóra Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum og Ólöf Kristjánsdóttir, áheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Ragnhildur Erla Bjarnadóttir sviðsstjóri, Kolbrún Vigfúsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Auður Jónsdóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.

Þetta gerðist:


Formaður bauð velkomin þau Hönnu Kristínu Skaftadóttur og Stefán Benediktsson, sem nú sátu sinn fyrsta fund í leikskólaráði.

1. Lögð fram drög að reglum um leikskólaþjónustu og nýjum dvalarsamningi.
Guðrún Sigtryggsdóttir, lögfræðingur gerði grein fyrir þeim breytingum sem orðið hafa á reglunum frá því að þær voru kynntar á fundi leikskólaráðs 9. september sl.

Reglurnar samþykktar með fjórum samhljóða atkvæðum.
Nýr dvalarsamningur samþykktur samhljóða.

Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Samfylkingin þakkar starfsmönnum Leikskólasviðs fyrir yfirgripsmikla samræmingu á reglum um leikskólaþjónustu. Samfylkingin hefur þó bent á ósanngirni þeirrar miklu hækkunar á leikskólagjaldi fyrir fjölskyldur íslenskra ríkisborgara með erlent lögheimili og eins telur Samfylkingin að innritun í sjálfstætt starfandi leikskóla eigi að vera á miðlægri hendi.

2. Lagðar fram upplýsingar um stöðu innritunar og nýtingu leikskóla. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri TOR gerði grein fyrir málinu.

3. Lagðar fram upplýsingar um undirbúning fjárhagsáætlunar 2010 og fjárhagsramma Leikskólasviðs. Formaður, sviðsstjóri og fjármálastjóri gerðu nánar grein fyrir málinu.

Kl. 14:45 tók Hermann Valsson sæti á fundinum.

Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð leggur áherslu á að væntanleg hagræðing á Leikskólasviði verði unnin í góðu samráði meiri- og minnihluta leikskólaráðs, með leikskólastjórum og starfsfólki leikskólanna. Í væntanlegri vinnu verður haft að leiðarljósi að standa vörð um það góða faglega starf sem unnið er í leikskólum Reykjavíkur, einnig er vert að árétta að áfram verður staðinn vörður um gjaldskrár og störfin í leikskólunum.

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra óskaði bókað:

Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra er þeirrar skoðunar að lengra verði ekki gengið í hagræðingu í leikskólum borgarinnar nema að draga úr þjónustu.
Frekari niðurskurður í starfsmannahaldi bitnar harkalega á gæðum faglegs starfs leikskólanna. Það getur varla talist samrýmast nýsamþykktri sérkennslustefnu.

4. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar frá síðasta fundi leikskólaráðs um vinnu við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

5. Lagt fram minnisblað mannauðsráðgjafa og þróunarfulltrúa á leikskólaskrifstofu um Evrópusamstarfsverkefnið ASSIST sem Leikskólasvið tók þátt í og er nýlokið.
Fyrirhugað er að áframhald verði á þessu samstarfsverkefni.

6. Lagt fram erindisbréf starfshóps um starfsumhverfi leikskóla.
Erindisbréfið samþykkt samhljóða og ákveðið að leikskólaráð verði upplýst mánaðarlega um vinnu starfshópsins.

7. Lögð fram auglýsing um næsta fund Brúar, samstarfsvettvangs um skólamál, sem haldinn verður 30. september n.k. Yfirskrift fundarins er Læsi á öllum skólastigum.

8. Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svohljóðandi fyrirspurn:

Hvernig hyggst meirihlutinn tryggja að sérkennsla leikskólabarna skerðist ekki í ljósi uppsagna á starfsheitum sérkennara og sérkennslustjóra í leikskólum og fyrirhuguðum sparnaði næsta árs?

9. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í samþykkt fyrir leikskólaráð segir: „Jafnframt gerir það tillögur til borgarráðs um byggingu nýrra leikskóla eða viðbygginga við eldri skóla og gerð leik- og gæsluvalla“. Þróunin hefur þó verið á þá lund að framkvæmda- og eignaráð og eignasjóður hafa haft forgöngu um uppbyggingaráform skóla. Því er spurt:
1) Hver er staðan í uppbyggingarmálum nýrra leikskóla fyrir árið 2010?
2) Mun leikskólaráð gera tillögur til borgarráðs, eins og samþykkt ráðsins segir til um, að fenginni ítarlegri greiningu á fjölgun barna versus fjölda leikskólaplássa?

10. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi tillögu:
Leikskólaráð fái á sinn fund deildarstjóra TOR til upplýsingagjafar um fjölgun barna á leikskólaaldri í borginni, m.t.t. uppbyggingar nýrra leikskóla og viðbygginga. Mikilvægt er að ráðið glöggvi sig á fjölgun barna í borginni og taki mið af henni við gerð fjárhagsáætlunar og 3ja ára áætlunar sem fylgir í kjölfarið.

Afgreiðslu tillögunnar frestað.


Fundi slitið kl. 15:45

Ragnar Sær Ragnarsson
Hermann Valsson Fanný Gunnarsdóttir
Oddný Sturludóttir Einar Örn Ævarsson
Stefán Benediktsson Hanna Kristín Skaftadóttir