No translated content text
Skóla- og frístundaráð
Leikskólaráð
Ár 2009, 9. september kl. 14:00 var haldinn 61. fundur leikskólaráðs í fundarherbergi ráðsins að Fríkirkjuvegi 1. Fundinn sátu: Ragnar Sær Ragnarsson formaður, Fanný Gunnarsdóttir, Ingvar Mar Jónsson, Þórey Vilhjálmsdóttir, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, Hermann Valsson og Oddný Sturludóttir. Auk þeirra sátu fundinn Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, varaáheyrnarfulltrúi F- lista, Þórunn Gyða Björnsdóttir, áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra, Halldóra Guðmundsdóttir, áheyrnarfulltrúi starfsmanna í leikskólum og Anna Hansson, varaáheyrnarfulltrúi samtakanna Börnin okkar. Jafnframt sátu fundinn Hildur Skarphéðinsdóttir, Kristín Egilsdóttir og Ingunn Gísladóttir.
Fundargerð ritaði Laura Bergs.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjóra dags. 1. september sl. þar sem greint er frá því að Ragnar Sær Ragnarsson hafi verið kjörinn í leikskólaráð í stað Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, sem er í tímabundu leyfi, og að hann verði jafnframt formaður. Þá kemur fram að Þórey Vilhjálmsdóttir hafi tekið sæti Helgu Kristínar Auðunsdóttur í ráðinu og að Hanna Kristín Skaftadóttir taki sæti varamanns í stað Ragnars Sæs Ragnarssonar.
Formaður bauð Þóreyju Vilhjálmsdóttur velkomna til fyrsta fundar síns í leikskólaráði.
Fyrir hönd minnihluta óskaði Oddný Sturludóttir nýjum formanni leikskólaráðs velfarnaðar í starfi.
2. Lögð fram greinargerð um starfsemi leikskólans Laufásborgar, sbr. samþykkt leikskólaráðs frá 6. júní 2007. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu Menntasviðs gerði nánar grein fyrir málinu og svaraði fyrirspurnum.
Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð þakkar fyrir ítarlega og góða úttekt á starfsemi Laufásborgar. Ljóst er að fjölmargt í starfseminni er jákvætt og vitnisburður um góðan starfsanda og ánægju foreldra.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Samfylkingin og Vinstri græn þakka fyrir ítarlega úttekt á starfsemi Laufásborgar sem fulltrúarnir báðu um að yrði unnin þegar rekstrarformi Laufásborgar var breytt árið 2007. Það er gleðiefni að svo virðist sem ánægja foreldra og starfsmanna með leikskólann sé álíka og fyrir breytingu á rekstrarformi leikskólans enda var Hjallastefnan löngu búin að festa sig í sessi í hinum borgarrekna leikskóla Laufásborg. Í foreldrakönnun frá árinu 2007 sögðust 98#PR foreldra leikskólabarna í Laufásborg vera mjög eða frekar ánægð með starfsemi leikskólans. Í úttektinni kemur fram að foreldrar finna ekki fyrir breytingum vegna breytts rekstrarforms. Athygli vekur að í sömu foreldrakönnun sögðu 77#PR foreldra að þeir kysu ekki að barn þeirra hæfi skólagöngu ári fyrr, eða fimm ára. En nú er staðan sú að öllum fimm ára börnum í Laufásborg er beint í nýjan grunnskóla Hjallastefnunnar og því hefur orðið grundvallarbreyting á starfsemi Laufásborgar frá því sem var. Þegar meirihluti leikskólaráðs samþykkti breytt rekstrarform lá ekki fyrir að sú breyting yrði á starfsemi leikskólans. Samfylkingin og Vinstri græn ítreka áhyggjur sínar af þeirri þróun að börn hefji sífellt fyrr grunnskólagöngu en fagfólk, bæði hérlendis sem erlendis, hefur margoft bent á að best sé komið til móts við námsþarfir fimm ára barna innan veggja leikskólans. Skemmst er að minnast kröftugra mótmæla við tillögum meirihlutans um fimm ára bekki í grunnskólum. Laufásborg var, er og verður fyrirmyndarleikskóli og óljóst er hvaða áhrif breytt rekstrarform hefur á þá staðreynd, nema hið augljósa að skólagjöld eru nú hærri og fimm ára börnum er beint í annan skóla í öðru hverfi.
3. Lagt fram minnisblað frá fulltrúum Leikskólasviðs í viðbragðsteyminu Börnin í borginni. Auður Jónsdóttir, mannauðsráðgjafi og fulltrúi í viðbragðsteyminu gerði nánar grein fyrir starfi þess.
Bókun leikskólaráðs:
Börnin í borginni er nauðsynlegur vettvangur og áríðandi er að slíkur hópur starfi í borginni, bregðist skjótt við, vaki yfir stöðu mála og samræmi viðbrögð Reykjavíkurborgar.
4. Guðrún Sigtryggsdóttir, lögfræðingur á Leikskólasviði kynnti reglur um leikskólaþjónustu. Reglurnar verða lagðar fram til samþykktar á næsta fundi ráðsins.
5. Fríða Bjarney Jónsdóttir, verkefnisstjóri vegna barna af erlendum uppruna kynnti nýjar þýðingar á vef Leikskólasviðs og ný veggspjöld um fjölmenningu.
Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð fagnar því hve vel Leikskólasvið hefur unnið að því að koma til móts við börn og foreldra af erlendum uppruna og aukið aðgengi starfsfólks og foreldra að upplýsingum á heimasíðu Leikskólasviðs. Sú vinna er til fyrirmyndar.
6. Lagt fram minnisblað verkefnisstjóra á leikskólaskrifstofu um skil á starfsáætlun leikskóla skólaárið 2009 – 2010.
Bókun leikskólaráðs:
Leikskólaráð þakkar þeim leikskólum sem nú þegar hafa skilað starfsáætlun, en vill jafnframt beina því til þeirra leikskóla sem enn hafa ekki staðið skil á starfsáætlun að gera það hið fyrsta enda er um lagaskyldu að ræða.
7. Lagt fram minnisblað tölfræði- og rannsóknaþjónustu um stöðu innritunar og nýtingu leikskóla. Einnig voru lagðar fram upplýsingar um stöðu starfsmannamála. Fjármálastjóri og starfsmannastjóri gerðu nánar grein fyrir málinu.
Fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir leikskólaráði er óráðið í 48,6
stöðugildi í leikskólum á meðan þúsundir karla og kvenna með fjölbreytta menntun eru á atvinnuleysisskrá. Fulltrúar Samfylkingarinnar lýsa yfir áhyggjum af stöðu mála og óska eftir því að leikskólaráð verði upplýst hálfsmánaðarlega um stöðu ráðningarmála. Fulltrúar Samfylkingarinnar vilja vekja athygli á því að starfsánægja í leikskólum Reykjavíkurborgar hefur mælst hæst á öllum starfssviðum borgarinnar – það er gaman að vinna í reykvískum leikskóla.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óskuðu bókað:
Ráðningar starfsfólks í leikskóla Reykjavíkurborgar hafa gengið vel sl. mánuði og staða starfsmannamála nú í septembermánuði er betri en verið hefur mörg undanfarin ár. Það er ánægjulegt að vel menntað og reynslumikið fólk hefur í auknum mæli sóst eftir starfi við leikskólana. Vitað er að með stöðugleika í starfsmannahaldi er hægt að byggja upp enn betra starf í skólum borgarinnar.
8. Lagt fram yfirlit tölfræði- og rannsóknaþjónustu yfir þróun dvalarstunda í leikskólum frá janúar 2008 til september 2009. Einnig voru lagðar fram upplýsingar um fjölda barna sem dvelja í leikskóla í 8,5, 9 og 9,5 stundir á dag, skipt eftir afsláttarflokkum. Umfjöllun verður haldið áfram og frekari upplýsingar lagðar fram á næsta fundi ráðsins.
9. Lagt fram svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar um systkinaforgang í leikskóla frá síðasta fundi ráðsins.
10. Lagt fram yfirlit yfir fulltrúa í leikskólaráði í september 2009.
11. Næsti fundur leikskólaráðs verður haldinn 23. september n.k. en ákveðið var að frá 1. október verði fundir leikskólaráðs haldnir 1. og 3. miðvikudag hvers mánaðar.
12. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram svohljóðandi fyrirspurn:
Svo virðist sem vinna við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sé á byrjunarreit. Vinna aðgerðarhóps er í skötulíki og því allsendis óvíst um leiðarljós borgarstjórnar fyrir næsta fjárhagsár og stærstu fagráð borgarinnar hafa enn ekki fengið neina fjárhagsramma til að vinna eftir. Ekki liggur fyrir út frá hvaða forsendum borgin ætlar að vinna að fjárhagsáætlun næsta árs. Nú er einnig að koma á daginn að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2009 mun ekki standast. Því er spurt: 1) Hvenær mega fagsvið borgarinnar eiga von á úthlutun fjárhagsramma? 2) Hvenær munu forsendur fyrir fjárhagsáætlun næsta árs liggja fyrir? 3) Mun ramminn sem borgin hefur úthlutað Leikskólasviði vegna ársins 2009 standast, eða er hugsanlegt að hann verði skorinn niður?
Fundi slitið kl. 16:30
Ragnar Sær Ragnarsson
Hermann Valsson Fanný Gunnarsdóttir
Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir Þórey Vilhjálmsdóttir
Oddný Sturludóttir Ingvar Mar Jónsson