No translated content text
Skóla- og frístundaráð
SKÓLA- OG FRÍSTUNDARÁÐ
Ár 2012, 17. október, var haldinn 27. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi Höfðatorgi í Reykjavík og hófst kl. 10.05. Fundinn sátu Oddný Sturludóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Óttarr Ólafur Proppé, Marta Guðjónsdóttir og Sóley Tómasdóttir. Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Helga Sigfúsdóttir, starfsfólk í leikskólum; Bryndís Jónsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum; Guðlaug Erla Gunnarsdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Helgi Eiríksson, stjórnendur frístundamiðstöðva; Rósa Ingvarsdóttir, kennarar í grunnskólum; Rósa Steingrímsdóttir, foreldrar barna í leikskólum og Þórunn Gyða Björnsdóttir, skólastjórar í leikskólum.
Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Auður Árný Stefánsdóttir, Hildur Skarphéðinsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Valgerður Janusdóttir.
Fundarritari var Guðrún Sigtryggsdóttir.
Þetta gerðist:
Formaður bauð Guðlaugu Erlu Gunnarsdóttur velkomna á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.
1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 14. september 2011, er barst 17. september 2012, varðandi aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 auk draga að tillögu til kynningar og umræðu varðandi þróun byggðar og landnotkun, heildarskipulag útivistarsvæða og verndarsvæða, dags. í september 2012. Einnig lögð fram bréf skipulags- og byggingarsviðs, dags. 14. september 2012, þar sem fram kemur að skipulagsráð hafi samþykkt að vísa skjalinu „Þróun byggðar“ til umræðu og kynningar hjá skóla- og frístundaráði og einnig skjalinu „Græna borgin“. Lagt fram skjalið „ Græna borgin“. Einnig lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs, dags. 3. október 2012, þar sem fram kemur að skipulagsráð hafi samþykkt að vísa skjölunum „Miðborgarstefna og borgarbúskapur“ til umræðu og kynningar hjá skóla- og frístundaráði. Lögð fram drög að stefnu í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030 – borgarbúskapur, dags. í júní 2012 og drög að Miðborgarstefnu, dags. 2012. Lögð fram kynning Haraldar Sigurðssonar, verkefnisstjóra aðal- og svæðisskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, á drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030, framtíðarsýn og meginmarkmið og skipulag borgarhluta. Auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. október 2012, um vinnuhóp um umgjörð skólastarfs í Úlfarsárdal. Haraldur Sigurðsson, verkefnisstjóri aðal- og svæðisskipulags hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012090143
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri græn þakka fyrir kynninguna og fagna þeim áherslum sem koma fram í nýju Aðalskipulagi. Það er ánægjulegt að margt í stefnunni byggir undir enn barnvænni borg t.d. með áherslu á minni mengun, fleiri möguleika á fjölbreyttum samgöngum, borgarbúskap ofl. sem gerir borgina öruggari. Áherslur á fjölbreytileika er sérstakt fagnaðarefni, en til að svo megi verða þarf að tryggja að þjónusta við ólíka hópa samfélagsins sé til staðar í öllum hverfum. Ráðið leggur sérstaka áherslu á að fundnar verði leiðir í skipulagi til að þjóna barnafjölskyldum á þéttingarsvæðinu við gömlu höfnina, að þar verði gert ráð fyrir leik- og grunnskólum og frístundastarfi. Ljóst er að núverandi húsnæði á svæðinu mun ekki duga til.Það er mikilvægt að þar sem byggðir verða nýir skólar verði gert ráð fyrir því að þær byggingar verði „miðstöðvar“ í hverju hverfi með samstarfi mismunandi borgarstofnana eins og t.d. borgarbókasafns og frístundamiðstöðva.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynninguna og óska eftir að í skipulags-vinnunni verði áhersla lögð á að þjóna barnafjölskyldum á þéttingarsvæðum. Þetta á ekki síst við um svæðið við Gömlu höfnina en þar er mikilvægt að íbúum standi til boða þjónusta leikskóla og grunnskóla ásamt öflugu frístunda- og íþróttastarfi.
2. Lögð fram drög að skýrslu um lestrarstefnu grunnskóla Reykjavíkurborgar, dags. í október 2012, auk umsagna SAMFOK og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, bæði ódags. Guðrún Edda Bentsdóttir, verkefnastjóri á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012080212
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla og frístundaráð fagnar nýrri Lestrarstefnu fyrir grunnskóla Reykjavíkur-borgar. Góð lestrarkunnátta og lestrargeta skipta sífellt meira máli í flóknu og margbreytilegu samfélagi. Því er mikilvægt að stefnan leggur áherslu á að auka skuli vægi lestrar og ritunar í öllu námi í grunnskólum og að áhersla sé lögð á að námið verði miðað að ólíkri getu nemenda. Þá tekur lestrarstefnan á nauðsyn þess að kennarar hafi aðgang að samræmdu og stöðluðu námsmati í lestri. Það er ánægjulegt að lestrarstefnan skuli vera samþykkt nú á miðri lestrarhátíð í Reykjavík og fer vel á því. Starfshópnum er þakkað fyrir þá góðu og metnaðarfullu vinnu sem liggur að baki.
Lestrarstefna grunnskóla Reykjavíkurborgar samþykkt og vísað til borgarráðs.
- Hlé gert á fundinum kl. 12.05 til 12.35.
- Kl. 12.35 vék Kjartan Magnússon af fundi og Rúna Malmquist tók þar sæti.
3. Lögð fram drög að stefnu um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar, dags. í október 2012. Í skýrslunni eru svör umsagnaraðila. Auk þess lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. október 2012, um umsagnir vegna stefnu um skóla án aðgreiningar og sérstakan stuðning við nemendur í grunnskólum. Hrund Logadóttir, verkefnisstjóri sérkennslu grunnskóla á fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2011110132
Frestað.
4. Áheyrnarfulltrúi kennara í skóla- og frístundaráði lagði fram svohljóðandi tillögu:
Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur beinir því til skóla- og frístundaráðs að beita sér fyrir því að Reykjavík, sem stærsta sveitarfélagið og forystuafl í menntamálum landsins, komi að lausn á stöðu vettvangsnáms kennaranema í grunnskólum. Staða vettvangs-náms nema frá Háskóla Íslands er í algerri upplausn. Undanfarið eitt og hálft ár hefur Félag grunnskólakennara (FG) átt fundi með Háskóla Íslands og með mennta- og menningarmálaráðherra til að knýja á um að samið verði við kennara um greiðslur vegna kennaranema í vettvangsnámi. Þrátt fyrir langan tíma hefur ekkert þokast í málinu. Nú á haustdögum hefur FG hvatt kennara til að taka ekki kennaranema á meðan ósamið er um greiðslurnar. Það er hagur fyrir reykvíska grunnskóla að fá til sín kennaranema og tengjast þannig háskólasamfélaginu og þeirri þróun og þeim nýjungum sem þar eru að eiga sér stað.
Frestað.
- Kl. 12.50 vék Rósa Ingvarsdóttir af fundi.
5. Lögð fram tillaga af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 31. ágúst 2012, um kennslu í almennum fjármálum í 10. bekk. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 12. október 2012. SFS2012090026
Skóla- og frístundaráð samþykkir ekki tillöguna.
Bókun skóla- og frístundaráðs:
Skóla- og frístundaráð samþykkir ekki tillöguna eins og hún er en tekur undir með tillöguflytjanda að kennsla í almennum fjármálum er mikilvæg, bæði í lífsleikni, stærðfræði sem og áherslum annarra námsgreina um læsi í víðum skilningi, þ.m.t. fjármálalæsi. Eins og fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra er grunnskólinn að koma til móts við anda tillögunnar en skóla- og frístundaráð hvetur þó grunnskóla til að leggja áherslu á þennan þátt, sérstaklega í tengslum við sína skólanámskrárgerð nú þegar ný aðalnámskrá hefur litið dagsins ljós. Eins eru frístundamiðstöðvar hvattar til að bjóða upp á námskeið um fjármál í félagsmiðstöðvum unglinga eins og fordæmi eru fyrir og hafa þau verið mjög vel sótt. Það sýnir að áhugi unglinga er til staðar og hann hefur einnig komið fram ítrekað á fundum Reykjavíkurráðs ungmenna með borgarstjórn.
6. Lögð fram tillaga af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 29. júní 2012, sem framsend var frá velferðarsviði, 14. september sl., um ráðgjafa í eineltismálum. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra, dags. 12. október 2012. SFS2012090141
Frestað.
7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2012, um innritun í leikskóla Reykjavíkurborgar 2012. Hildur Skarphéðinsdóttir, skrifstofustjóri á fagskrifstofu og Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs, kynntu og svöruðu fyrirspurnum. SFS2012030144
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum óskaði bókað:
Það er margt athugunarvert við það fyrirkomulag að dagmæður starfi einar og beri ábyrgð á hópi barna. Fulltrúi foreldra leikskólabarna telur að leita ætti leiða til þess að taka börn fyrr inn í leikskóla en nú er gert og þannig efla þjónustu við börn og foreldra. Jafnframt að fullnýta ætti þau leikskólarými sem eru tiltæk. Börn sem komast ekki inn á leikskóla fyrr en þau eru komin vel yfir tveggja ára eru að missa af faglegu leikskólastarfi á mikilvægu mótunarskeiði í lífi sínu.
8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. október 2012, um innritun í frístundaheimili Reykjavíkurborgar – staðan í október 2012. SFS2012100098
- Kl. 14.00 vék Hilmar Sigurðsson af fundi.
9. Lagt fram svar, dags. 12. október 2012, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Vinstri grænna frá 19. september 2012, varðandi fjölda stöðugilda og samsetningu starfsfólks í leikskólum með tilliti til menntunar. Hildur Björk Svavarsdóttir, deildarstjóri tölfræði- og rannsóknaþjónustu skóla- og frístundasviðs, kynnti og svaraði fyrirspurnum. SFS2012060143
Áheyrnafulltrúar skólastjóra og starfsfólks í leikskólum óskuðu bókað:
Upplýsingar úr launakerfi borgarinnar um fjölda stöðugilda og samsetningu starfsfólks í leikskólum með tilliti til menntunar sýna, að á sama tíma sem leikskólabörnum í Reykjavík fjölgar, hefur fagmenntuðu starfsfólki í leikskólunum fækkað. Í lögum um leikskóla er kveðið á um að 2/3 hlutar starfsmanna skuli vera með leikskólakennaramenntun, það er því mikið áhyggjuefni að einungis tæplega þriðjungur leikskólastarfsfólks í Reykjavík sé með leyfisbréf á leikskólastigi. Áheyrnafulltrúar leikskólastjórnenda og leikskólastarfsmanna myndu vilja sjá tillögur frá Reykjavíkur-borg sem lúta að því að gera störf í leikskólum eftirsóknarverð fyrir leikskólakennara. Skortur á leikskólakennurum bitnar á námi barnanna og getur jafnframt staðið leikskólum fyrir þrifum að starfa eftir aðalnámskrá leikskóla sem þeim ber samkvæmt lögum.
- Kl. 14.10 vék Helgi Eiríksson af fundi.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í leikskólum óskaði bókað:
Fulltrúi foreldra leikskólabarna telur að leita þurfi leiða til að uppfylla lög nr. 87/2008 sem gerir ráð fyrir að 2/3 hlutar starfsfólks sé með leikskólakennararéttindi. Jafnframt er hvatt til þess að ófaglært starfsfólk fái þann undirbúningstíma sem annars væri úthlutað til faglærðra starfsmanna þegar ekki næst að uppfylla lagaákvæðið. Þannig mætti lágmarka mismun í faglegu leikskólastarfi milli leikskóla vegna þess að menntunarstig starfsfólks er ekki fullnægjandi.
- Kl. 14.15 vék Rúna Malmquist af fundi.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Í minnisblaði sviðsstjóra kemur fram að hlutfall leikskólakennara af starfsfólki leikskóla hefur lækkað úr 24#PR í 21,9#PR á einu ári. Það er mikið áhyggjuefni að þessi mikilvæga stétt, sem hefur með óeigingjörnum hætti lagt grunninn að uppbyggingu leikskólanna í núverandi mynd, sé ekki að hækka hlutfallslega meðal starfsfólks, heldur lækka. Ástæðuna má án efa rekja, að minnsta kosti hluta hennar, til forgangsröðunar og stefnumótunar meirihluta Besta flokks og Samfylkingar sem hefur bitnað verr á leikskólakennurum en öðrum stéttum borgarinnar. Það er miður og hvetur fulltrúi Vinstri grænna í skóla- og frístundaráði til þess að hlúð verði sérstaklega að leikskólakennurum til að koma í veg fyrir frekari flótta úr borginni.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar óskuðu bókað:
Tekið er undir áhyggjur um fækkun leikskólakennara sem og minnkandi aðsókn í leikskólakennaranám. Eins og fram kemur í aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins um aðgerðir til eflingar leikskólastigsins frá árinu 2012 og unnin var í samvinnu stéttarfélaga, háskóla, foreldrasamtaka og sambands íslenskra sveitarfélaga, hafa allir áhyggjur af stöðu mála og ljóst er að vandinn verður ekki leystur nema með samstilltu átaki allra aðila sem standa að leikskólanum í samfélaginu. Fjármagn til leikskólanna hefur verið aukið síðastliðin ár vegna mikillar fjölgunar barna, á sama tíma og tekjur borgarinnar hafa dregist mikið saman vegna efnahagshrunsins.
10. Lagt fram bréf, dags. 8. október 2012, þar sem tilkynnt er um nýja stjórn Félags skólastjórnenda í Reykjavík.
11. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. október 2012, þar sem vísað er frá fundi borgarráðs 4. október sl., tillögu borgarstjóra, um endurskipulagningu mötuneyta á vegum Reykjavíkurborgar til umsagnar skóla- og frístundaráðs. Bréfinu fylgir tillaga borgarstjóra með greinargerð og skýrsla starfshóps um endurskipulagningu á mötuneytum á vegum Reykjavíkurborgar, dags. í október 2011.
Fundi slitið kl. 14.20
Oddný Sturludóttir
Eva Einarsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir