Skóla- og frístundaráð - og frístundaráð

Skóla- og frístundaráð

MENNTARÁÐ

Ár 2009, 12. ágúst var haldinn 102. fundur menntaráðs. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 1 í Reykjavík og hófst kl. 10.08. Fundinn sátu Kjartan Magnússon formaður, Anna Margrét Ólafsdóttir, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Eggertsson, áheyrnarfulltrúi F-lista, Hildur Björg Hafstein, áheyrnarfulltrúi SAMFOKs, Hreiðar Sigtryggsson, áheyrnarfulltrúi Skólastjórafélags Reykjavíkur og Þorgerður L. Diðriksdóttir, áheyrnarfulltrúi Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt sátu fundinn Ragnar Þorsteinsson fræðslustjóri, Auður Árný Stefánsdóttir, Jón Ingi Einarsson og Valgerður Janusdóttir.

Fundarritari var Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir.

Þetta gerðist:

Formaður bauð Steinunni Þóru Árnadóttur velkomna á sinn fyrsta fund í menntaráði.

1. Lagt fram yfirlit yfir fundi menntaráðs veturinn 2009 - 2010 með fyrirvara um breytingar.

2. Lögð fram samþykkt fyrir menntaráð Reykjavíkur sem samþykkt var í borgarráði, í umboði borgarstjórnar, 2. júlí 2009.

3. Lögð fram drög að skýrslu starfshóps, dags. júní 2009, um samhæfingu verklags við aðstoð og þjónustu við grunnskólanema sem glíma við fjölþættan vanda. Guðbjörg Jónsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu og Þorsteinn Sæberg skólastjóri Árbæjarskóla kynntu niðurstöður hópsins og svöruðu fyrirspurnum.

4. Lögð fram skýrsla nefndar, dags. júní 2009, um greiningu á kostum og göllum þess að stofna safnskóla á unglingastigi í norðanverðum Grafarvogi. Steinunn Ármannsdóttir, verkefnastjóri á grunnskólaskrifstofu kynnti niðurstöður og svaraði fyrirspurnum.

Svohljóðandi tillaga samþykkt:

Menntaráð þakkar kynningu á skýrslu nefndar um greiningu á kostum og göllum þess að stofna safnskóla á unglingastigi í norðanverðum Grafarvogi. Menntaráð felur fræðslustjóra að kynna skýrsluna skólastjórum, skólaráðum og foreldrafélögum þeirra fjögurra skóla sem um er rætt, fulltrúum frá ÍTR, Miðgarði, Íbúasamtökum Grafarvogs, Hverfisráði Grafarvogs og Íþróttafélaginu Fjölni. Í framhaldi af kynningarfundi um málið óskar menntaráð eftir skriflegu áliti áðurnefndra aðila á efni skýrslunnar fyrir 1. nóvember nk. Jafnframt verði haldinn opinn kynningarfundur um málið.

Greinargerð fylgir.

5. Brynja Björg Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Ad Astra og Gunnar Dofri Ólafsson stjórnarformaður kynntu verkefni Ad Astra fyrir bráðger og námfús börn.

- Kl. 11.25 vék Lilja Dögg Alfreðsdóttir af fundi.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Menntaráð fagnar því að námfúsum og bráðgerum börnum standi metnaðarfullt og krefjandi nám til boða til viðbótar við hefðbundið grunnskólanám. Menntaráð felur fræðslustjóra að vinna að málinu í samráði við skólastjóra.

Samþykkt með þremur samhljóða atkvæðum.

6. Svohljóðandi tillaga samþykkt:

Lagt er til að Námsflokkar Reykjavíkur bjóði aðilum menntamálaráðuneytis og Fjölbrautaskólans í Breiðholti til viðræðna um hönnun og framkvæmd námstilboðs til handa ungu fólki sem ekki hefur fengið inni í framhaldsskólum á haustönn 2009.

Greinargerð fylgir.

Bókun menntaráðs:

Menntaráð Reykjavíkur hefur þungar áhyggjur af þeim fjölda ungmenna sem er án skólavistar í framhaldsskólum og þeim niðurskurði sem boðaður hefur verið í fjarnámi á þessu skólaári. Menntaráð hvetur menntamálaráðherra til að forgangsraða í þágu þess að veita öllum ungmennum skólavist í framhaldsskólum nú í haust. Menntaráð ítrekar að framhaldsskólinn á að vera fyrir alla nemendur og veita nám við hæfi hvers og eins. Nýsamþykkt lög um framhaldsskóla kveða á um fræðsluskyldu til 18 ára aldurs og því ber framhaldsskólanum að veita nám við hæfi hvers og eins nemenda. Námsflokkar Reykjavíkur hafa hug á því að fara af stað með einingarbært nám í samstarfi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og menntamálaráðuneytið. Menntaráð Reykjavíkur hvetur ráðherra til að veita þessu verkefni brautargengi enda mun það leysa vanda margra ungmenna í Reykjavík sem hafa hvorki vinnu né skóla til að hverfa að.

7. Lagt fram minnisblað fræðslustjóra, dags. 10. ágúst sl. vegna inflúensu A (H1N1).

Bókun menntaráðs:

Menntaráð hvetur foreldra til að kynna sér vel allar upplýsingar varðandi inflúensu A (H1N1) á vef Landlæknisembættisins. Með velferð barnanna í huga eru foreldrar hvattir til að halda veikum börnum heima. Þá hvetur menntaráð skólastjórnendur til að hafa aðgengilegar nauðsynlegar upplýsingar um inflúensuna á vefsíðum skólanna.

8. Skrifstofustjóri grunnskólaskrifstofu kynnti stöðu nýframkvæmda og viðhalds-framkvæmda við grunnskóla í Reykjavík.

9. Samþykkt að skipa tvo fulltrúa úr menntaráði og einn fulltrúa úr menningar- og ferðamálanefnd í sameiginlegan starfshóp vegna listsköpunarverðlauna ungmenna og ritsmíðasamkeppni barna og unglinga í Reykjavík. Eftirfarandi fulltrúar skipaðir: Marta Guðjónsdóttir, Oddný Sturludóttir og Sif Sigfúsdóttir. Marta verði formaður.

10. Svohljóðandi tillaga samþykkt:

Menntaráð samþykkir að fela fræðslustjóra að móta verklagsreglur um samstarf tónlistarskóla og grunnskóla. Verklagsreglurnar verði unnar í samráði við skólastjóra tónlistarskóla og grunnskóla og taki til þátta eins og afnota af húsnæði, leiguverðs og fleiri samstarfsþátta skólanna.

Greinargerð fylgir.

11. Mannauðsstjóri Menntasviðs kynnti stöðu mönnunar í grunnskólum Reykjavíkur.

12. Lögð fram umsókn frá Menntaskólanum ehf., dags. 6. ágúst 2009, um starfsleyfi fyrir Menntaskólann, sjálfstætt starfandi grunnskóla í Reykjavík.

Fundi slitið kl. 12.55

Kjartan Magnússon

Anna Margrét Ólafsdóttir Marta Guðjónsdóttir Oddný Sturludóttir Sigrún Elsa Smáradóttir Steinunn Þóra Árnadóttir